Heima er bezt - 01.10.1962, Side 30

Heima er bezt - 01.10.1962, Side 30
Þegar hann var staðinn upp rétti prófastur úr sér og sagði: „Af hverju sofið þér úti — eins og hundarnir?“ Gvendi varð svara fátt. Hann þagði um stund, en sagði svo: „Eg ætlaði nú ekki að sofna. Ég ráfaði hingað svona rétt áður en ég háttaði. Svo hélt ég kannske, að prófast- urinn gengi út í kirkju og ætlaði þá kannske að ná tali af honum.“ „Og hvað vilduð þér við mig tala?“ „Mig langaði til þess að vita, hvort prófastur gæti ekki fallizt á, að ég færi héðan.“ „Að þér færuð héðan!“ át séra Ingimundur eftir, steinhissa. „Hvað kemur til?“ Nú settust þeir báðir niður á leiði. Gvendur horfði í gaupnir sér og prófastur sá, að honum var brugðið nokkuð. Gerðist séra Ingimundur órór og fór að spyrja Gvend spjörunum úr. Og þó Gvendur segði ekki mik- ið, sannfærðist prófastur brátt um, hvers kyns var, enda grunaði það víst flesta á heimilinu. Þeir sátu um stund þegjandi. Prófastur var hugsi. Svo sagði hann: „Vitið þér, hver hvílir undir leiðinu, sem þér sitjið a nuna? Nei, Gvendur hafði ekki hugmynd um það. Prófast- ur hélt áfram: „Það er stúlka, sem dó átján ára gömul. Hún var móðursystir konunnar minnar. Hún var talin lagleg- asta og elskulegasta stúlkan í allri sýslunni. Það eru eitthvað fjörutíu ár, síðan hún dó. Hvernig haldið þér, að hún líti út núna?“ Gvendur leit framan í prófastinn með opinn munn- inn, en sagði ekki neitt. Prófastur hélt áfram: „Minnist þess alltaf, Guðmundur, að líkaminn er for- gengilegur og líkamleg ást á sama hátt. Þá stuttu stund, sem líkaminn lifir, tekur hann stöðugt breytingum, frá móðurlífi til grafarinnar. Innan skamms er hann ekki lengur til, ekki tangur né tetur. Hann er rotnaður, leystur upp, runninn út í sandinn. Andinn einn lifir, sálin sem Guð gaf. Um hana ber að hugsa, um hana eina. Og það fer ekki alltaf saman, fögur sál og fagur líkami.“ Að því búnu stóð prófastur upp og gekk heim, og Gvendur lötraði í humátt á eftir. Skreið hann upp í flet sitt og svaf nú draumlaust það, sem eftir var næt- ur, hverju, sem það var að þakka. Daginn eftir var margt fólk við Laugakirkju. Bar ekkert sérstakt til tíðinda, nema hvað Einar hrepp- stjóri tók sér stöðu fyrir kirkjudyrum eftir messu og las upp kafla úr hreppstjóra-instruxinu. Meðan því fór fram, átti prófastur tal við Nikulás á Efri-Völlum. Enginn vissi, um hvað þeir ræddu, en brátt átti það eftir að koma í ljós. Um kvöldið kallaði prófastur Gvend í stofu til sín. Gvendur vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið. Það var ekki daglegur viðburður, að prófastur biði honum í stofu. Var þetta nánar tiltekið í fyrsta sinn. Þegar Gvendur var kominn inn fyrir dyrnar, leit prófastur á hann og sagði: „Er yður alvara með það að vilja fara héðan af heim- ilinu?“ Gvendur játti því. „Ég talaði við hann Nikulás á Efri-Völlum í dag og spurði hann, hvort hann vildi gera það fyrir mín orð, að skipta á yður og sauðamanninum sínum. Nikulás svaraði því til, að fyrir sitt leyti væri hann því sam- þykkur, ef sauðamaður vildi fallast á að fara.“ Nú glaðnaði yfir Gvendi. Ekki kunni hann þó að tjá prófasti þakkir sínar. Honum var nefnilega flest annað betur gefið en ræðumennska. Og með því að honum hafði ekki tekizt að láta þakklæti sitt í Ijós, varð- veitti hann það enn þá í skotum huga síns. En áður en botninn er sleginn í þetta miður vel heppnaða ástarævintýri Gvendar, þykir hlýða að geta þess, að vinnumannaskiptin tókust farsællega. Hafði Gvendur síðan verið að mestu leyti á Efri-Völlum, stundum að öllu, stundum að hálfu. Tóku nú sumir upp á því að kalla hann Möngu-Gvend. Sjálfum fannst honum sú nafnbót ekki betri en góð. Enda steig hann nú á stokk og strengdi þess heit, að hann skyldi aldrei héðan í frá líta við neinu stelpufífli. Gerði hann sitt bezta til að halda þá heitstrengingu. Manga aftur á móti lifði í fullsælu með Palla sínum. Kunngerði Palli prófasti síðla sumars, að hann ætlaði sér ekki að ílendast þar í sveit, heldur halda vestur á bóginn með vorinu. Kunningjum sínum trúði hann fyrir því, að hann ætlaði sér að reisa bú í Reykjavík, hvorki meira né minna. Ætlaði hann að gerast þar tómthúsmaður. Vissi Manga ekki vel, hvað það var, en þóttist viss með sjálfri sér, að því fylgdi mikil glæsi- mennska. Gaf Palli óspart í skyn, að mikill munur væri á því að vera tómthúsmaður í Reykjavík eða kot- bóndi austur á landi. Um vorið voru þau pússuð saman og sigldu sinn sjó. Leið svo og beið, að ekkert fréttist af Möngu, enda fréttaburður þeirra tíma bágborinn. Eftir eitt eða tvö ár gátu þó fréttamenn farið að segja frá ýmsu varð- andi Möngu. Kvisaðist það alla leið austur í Mikla- hrepp, að hún stundaði eyrina. Hvað var nú það? Sögumaður þurfti að skýra það allýtarlega fyrir mönn- um og þó einkum konum, því að konur voru ekki síð- ur fróðleiksfúsar en karlmenn. „Já, ég held nú það. Hún skipar upp kolum og salti. Hún rogast með kolapokana á herðunum upp alla möl- ina frá morgni til kvölds. Hann Palli? Haldið þér að hann stundi eyrina? Nei og ónei, maddama góð. Ha? Hvað stundar hann? Hann stundar flöskuna.“ Svo var það einn góðan veðurdag, að hreppstiórinn fékk dálitla sendingu frá Möngu. Það var ofurlítill krakkaangi, fremur óburðugur. Hann hét Páll. Hrepp- stjóri gladdist ekki meir en vænta má við að móttaka sendinguna. Má með sanni segja, að hún hafi yfirleitt vakið litla gleði í hreppnum, sízt meðal betri manna. 358 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.