Heima er bezt - 01.09.1963, Side 29

Heima er bezt - 01.09.1963, Side 29
Ég faðmaði hana að mér. Aldrei fyrr hafði ég fund- ið, hve innilega mér þótti vænt um þessa gömlu, góðu konu, sem hafði borið mig á höndum sér, frá því ég fyrst kom í þetta hús. Ég hafði landakort til leiðbeiningar, svo að ég væri örugg um rétta leið, og ég ók hægt. Ekkert lá á, og innst inni var ofurlítill vonarneisti um, að Björn kæmi strax á eftir mér, þegar hann kæmi heim. Leiðin var löng og langt liðið á nóttina, þegar ég loks ók heim að gamla húsinu mínu. „BJÖRK“ stóð með fallegum stöfum á framhhð hússins, sem var málað í fallegum litum. Garðurinn var í ágætri rækt, og allt gamalkunna umhverfið lá baðað í morgunsólinni. Einu sinni enn hafði ég steypt mér út í vandræði og vitleysu með fljótfærni minni. Mér leið hræðilega illa. Alls konar efasemdir fóru að gera vart við sig. Var þetta nú það bezta, sem ég gat gert? Hvernig stóð á því, að ég var alltaf tilbúin að trúa öllu því versta um Björn? Var það af því að ég þekkti fortíð hans svo lít- ið og gat ekki hugsað til, að í lífi hans hafi verið nokk- ur önnur kona en ég? Lá ekki hundurinn grafinn þar? Ég vildi eiga hann svo algerlega ein, að þar komst eng- in skynsemi að. Ég barði lauslega á gluggann á gamla herberginu hennar Söru. Eftir litla stund var gluggatjaldinu lyft frá, og grátt höfuð gömlu konunnar kom í ljós. Hún varð svo steinhissa, að hún opnaði bara munninn, en kom ekki upp nokkru orði. „Hleyptu mér inn,“ kallaði ég lágt. Þá loks var eins og hún tryði því, að þetta væri ég sjálf, en ekki einhver andi svona líkur mér. Við settumst á rúmið hennar, og hún leit spyrjandi á mig. „Viltu segja mér allt, sem þú veizt um Björn,“ sagði ég. ^ „Ég þekki hann nú svo lítið, aðeins af afspurn, en ég skil ekki, hvað þú vilt með því að spyrja mig um eigin- manninn þinn. Hann ættir þú að þekltja bezt sjálf.“ „Segðu mér allt, sem þú hefur heyrt aðra tala um hann, allt, bæði gott og illt,“ bað ég og tók um hönd hennar. „Jæja, ég skal þá reyna að rifja allt upp,“ sagði Sara og horfði fast á mynd foreldra minna á borðinu. „Ég heyrði fyrst talað um hann í sambandi við dauða móður hans. Hann var þá eitthvað um 8 ára, eða að- eins yngri. Ég man bara að pabbi þinn sagði, þegar hann kom heim frá jarðarförinni, að aldrei hefði hann vor- kennt nokkru barni eins sárlega, hann hefði minnt sig á dauðsært dýr. Hann hefði aldrei sagt orð, en í aug- unum hefði þjáningin speglast. Hann hefði heldur ekki haft neinn til að flýja til. Það var þá sem hann strengdi þess heit að verða læknir og lina þjáningar allra, sem bágt áttu. Björn var víst ákaflega dulur drengur, og allrar ástar hans varð systir hans aðnjótandi. Ég heyrði að faðir hans hefði aldrei sldpt sér neitt af honum.“ „Hvaða systir?“ greip ég fram í fyrir henni. „Nú, ég hélt að þú hefðir séð hana. Mig minnir að ekki séu nema tvö eða þrjú ár síðan hún dó. Það var voðalegt, hvernig fór með þá indælu stúlku.“ „Hét hún Dóra?“ hvíslaði ég. Mér fannst ég varla geta nefnt nafnið hennar. Það þrengdi eitthvað svo að hálsinum á mér. „Já, hún hét víst Halldóra, blessað barnið. Ég sá hana einu sinni, þegar hún kom hingað. Hún var svo fínleg og falleg, en var víst ákaflega viðkvæm og veiklynd, eins og móðir þeirra var.“ „Hvernig varð hún svona?“ spurði ég. Sara andvarpaði þungt og hristi höfuðið. „Það var Hans! “ Svo leit hún undrandi á mig. „Hefur Björn ekk- ert sagt þér um það?“ „Nei,“ svaraði ég. „Já, það er ekki ofsögum sagt af því, að hann er fá- máll um það, sem illt er, sá maður. Hans og Dóra voru leynilega trúlofuð, eða svo taldi hún, og víst flestir kunnugir. Þau fóru ekkert dult með kunningsskap sinn. Björn var þá að læra. Hann lét þau afskiptalaus, annað hefði aðeins gert illt verra; en hann hefur kannske tal- að við þau sitt í hvoru lagi. Mér þykir það trúlegt. En það hefur víst aðeins gert illt verra. Svo sá Hans aðra, sem honum leizt betur á, enda hafði hann víst margar í takinu.“ Aftur andvarpaði hún. „Ekki veit ég, hvaðan hann hefur erft þennan ósóma, drengurinn, ekki er það úr móðurættinni, svo mikið er víst, en hann er gallagrip- ur, að ekki sé meira sagt, því er nú verr, og verst var þó, hvernig þetta fór með Dóru.“ „Hvernig var það?“ spurði ég. „Já, hún var heima og söng um ástina sæl og ánægð, en hann var fyrir sunnan og skemmti sér. Það var á stríðsárunum, og allt fullt af hermönnum. Hans var túlkur hjá þeim um tíma. „Svo frétti hún víst eitthvað um gleðskap hans og fór suður og ætlaði sér að komast að því sanna. Hansi minn var víst í hálfgerðri ldípu og tók ekki sem bezt á móti henni, hvort hann hefur nú sagt henni upp eða ekki. En hún fór ekki heim, eins og hún lét í veðri vaka við hann, heldur var kyrr í bænum og njósnaði um hann. Þegar hann komst að því, varð hann ofsareiður. Hann bauð henni samt á skemmtun með sér um kvöldið, ók út í hermannahverfið, þar sem hann var öllu kunnur, en hún saklaus og trúgjörn. Þar lentu þau í „partýi“, og þar skildi hann hana eina eftir. Það var agalegt af honum, því þetta var blindfullur lýður, sem ekki vissi, hvað hann gerði. Lögreglan fann Dóru ráfandi uppi f holtum, og þá var hún orðin veik, missti barnið, en um það vissi Hans ekki, hún hafði ekki sagt honum frá því. Hann varð niðurbrotinn þá, greyið, honum er ekki alls varnað, þótt slæmur sé. Þetta hefur eflaust komið illa við hann. Ég er hissa, hvað Páll gat verið umburðar- lyndur við hann, en aldrei getur Björn fyrirgefið Hans. Það er varla von. Þetta var svo mikið áfall fyrir hann. Dóra var eina manneskjan, sem honum hafði þótt vænt um.“ (Framhald.) Heima er bezt 325

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.