Heima er bezt - 01.01.1964, Síða 27
stofunni, gluggar kafloðnir af hélu og þiljur héluslegn-
ar, svo að í stirnir, þegar ég kveiki ljósið. Eg hef svo
snör handtök sem ég má við að afklæðast og komast
undir yfirsængina, en nú hverfur ekki kaldan, hversu
vandlega sem ég hreiðra mig niður í rúmið og breiði
yfir höfuð.
Eftir nokkra stund kemur Sigga fram til mín, hefur
víst misst áhugann fyrir spilunum, eftir að ég gekk las-
inn frá leik. Henni bregður við, er hún sér skjálftaflog
mín, fyllir í skyndi flöskur af heitu vatni, og raðar við
bakið á mér. Rénar þá kaldan, en verkirnir harðna, svo
ég ber naumast af mér.
Um venjulegan háttatíma gengur Sigga til hvílu hjá
mér, en svefnfátt verður henni. Rís hún brátt úr rekkj-
unni, klæðist og fer að gera mér bakstra við bakið.
Vindur hún þykkan vaðmálsdúk upp úr sjóðheitu vatni
og leggur við bak mitt. Lítið eitt dregur það úr sár-
ustu kvölunum, en skammvinn fró verður það. Kval-
imar, sem ég líð nú, eru slíkar, að ég finn engin orð
til að lýsa þeim. Löngum finnst mér sem gaddur væri
rekinn upp eftir hryggnum á mér og sé honum þar
snúið og bakið allt tætt og rifið upp að herðablöðum.
Brátt hætta votu bakstrarnir að veita nokkra fró. Bið
ég þá Siggu að hætta við þá og fara í rúmið og reyna
að sofa. En hvoragu okkar kom dúr á auga þessa nótt.
Þannig heilsar árið 1915 okltur.
Nýársdagurinn rennur, og gráföl dagsskíman seytlar
inn um héluloðinn gluggann. Hélan á þiljunum hefur
aukizt um nóttina við gufuna frá votu bökstrunum.
Kuldinn í stofunni er enn þá bitrari en kvöldið áður.
Það verður því að ráði fyrir tilmæli Siggu, að þeir
Tómas og Jón mágsi, sem er gestkomandi á Brettings-
stöðum, bera mig til baðstofu, þar sem hlýrra er, og er
mér þar búinn sjúkrabeður. Þjáningar mínar eru jafn
óbærilegar og um kvöldið og nóttina, en nú hefur kald-
an alveg vikið fyrir brennandi sótthita. Mér finnst sem
iíkami minn brenni.
Sigga víkur ekki frá hvílu minni. Hún þerrar svit-
ann af andliti mínu og er stöðugt reiðubúin að rétta
mér hjálpandi hönd, ef ég óska einhvers. Mér finnst
dagurinn aldrei ætla að líða, sótthitinn brennir, og kval-
irnar slíta og rífa líkama minn. Stundum sortnar mér
fyrir augum, og mér finnst framandi verur á ferli í
baðstofunni. Slíkar sýnir hverfa þó alltaf, ef ég beini
augum mínum til Siggu, sem stöðugt situr við rekkju-
stokk minn.
Nokkru eftir nón fækkar í bænum. Bræðurnir, Tóm-
as og Jón ásamt Guðnýju, Guðrúnu og Siggu litlu Stef-
áns, fara á skemmtisamkomu, sem haldin er á Hólum
í Laxárdal.
Þegar klukkan er um það bil hálf sex dregur úr sár-
ustu þrautunum, svo ég festi blund. Sigga telur, að sá
svefn hafi staðið fimmtán til tuttugu mínútur.
Þegar ég vakna aftur til fullrar meðvitundar, er svo
högum skipt, að mér er þorrinn allur máttur, ég get
aðeins velt höfðinu lítið eitt til á koddanum.
Engin orð fá lýst þeirri skelfingu og angist, sem gríp-
ur mig, þegar mér verður ljóst, að ég má mig hvergi
hreyfa. Mér finnst hjartað í brjósti mér stöðvast, og
ég hygg, að banastund mín sé runnin. En það ástand
varir aðeins augnablik, hjartað tekur að hamast, slær nú
þungum og tíðum slögum, og titringur fer um líkama
minn. Stund mín er ekki enn þá komin.
Nú sé ég, að Siggu er brugðið, þegar hún skynjar
ástand mitt. Skelfingin speglast í svip hennar, og tár
hrynja henni af augum, en aðeins augnabliksstund. Þá
harkar hún af sér, og ég sé henni aldrei bregða framar
í öllu veikindastríði mínu. A þessari stundu var sem hún
brynjaðist og hertist gegn öllum þeim erfiðleikum, sem
hún varð að þola á næstu vikum og mánuðum. Hún lét
aldrei bugast, og stilling hennar, ástúð og fórnfýsi tíma
þá, sem nú fóru í hönd, virtust engin takmörk sett. Ég
mun þó oft hafa verið erfiður sjúklingur næstu vikurn-
ar og þoldi aldrei, að neinn kæmi nærri mér annar en
hún, enda vék hún naumast frá rúmi mínu fyrstu vik-
urnar, sem ég lá sjúkur.
Kvalirnar í bakinu minnka þegar ég er orðinn lam-
aður, en því sárari era þær í fótunum og einkum í öll-
um liðamótum. Öðra hverju rennur á mig óvært mók,
en Sigga er alltaf að reyna að hreyfa mig eitthvað og
hagræða í rúminu. Máttleysið, sem nú bætist við þraut-
irnar, er svo þrúgandi.
Fólkið kom heim af skemmtuninni í Hólum klukkan
sjö um morguninn. Sló þá miklum óhug á alla, er þeir
fréttu af líðan minni. Eitthvað mun Sigga hafa minnzt
á að ná í lækni, en þó varð það ekki að ráði, enda ekki
venja á þessum árum að leita læknis fyrr en í fulla hnef-
ana. Sjálfur var ég svo sljór og lamaður, að ég lagði
ekkert til þeirra mála.
Fyrstu sólarhringana, sem ég lá, gat ég ekki losnað
við þvagið, og olli það mér hinum sárustu þrautum. Ég
undrast nú það tómlæti okkar allra að ná ekki í lækni
svo kvalinn sem ég var. Hann hefði þó alltaf getað los-
að mig við þrautirnar af þvagteppunni. Að kveldi þriðja
dagsins, sem ég lá, var ég svo þjáður af þvagteppunni,
að ég bjóst við að blaðran mundi springa. Það kvöld
fannst mér óhugsandi, að ég mundi lifa næsta morgun,
og það kvöld klifaði ég löngum á því, að ég vildi deyja.
Ég var þá vonlaus um bata, og saman við líkamlegar
þrautir ófst hugarkvölin um það að eiga máske að
verða ósjálfbjarga aumingi alla ævi. Þetta kvöld var
ákveðið að ná til læknis, ef þvagið fengi ekki framrás.
Um nóttina tók þvagið að streyma, án þess að ég gerði
mér það Ijóst. Fór það allt í rúmið og rann í tjöm fram
á baðstofugólfið.
Fjórir dagar liðu. Þá kom Sigurmundur læknir á
Breiðumýri til mín á leið til Mývatnssveitar. Hann
greindi strax sjúkdóm minn. Ég var haldinn af mænu-
sótt eða lömunarveiki. Þann sjúkdóm höfðum við
naumast heyrt nefndan og engum dottið hann í hug.
Læknirinn sagði, að eins og sakir stæðu væri ekkert
hægt fyrir mig að gera, en þegar veikindin færu að
rjúka af og ég hresstist, mundi hann reyna að veita mér
einhverja hjálp.
Heima er bezt 23