Heima er bezt - 01.06.1964, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.06.1964, Blaðsíða 26
in, sem er víst 4—5 sjómílur, er vandrötuð. Var þessi leið talin rösklega klukkutíma róður í logni á góðum bát með hraustum mannskap. Við fórum okkur rólega, því að ekkert lá á, en þó gutluðum við eitthvað undir seglunum, en létum annars goluna og strauminn bera okkur í áttina. Eftir rösklega tvo tíma vorum við komn- ir út í Elliðaey. Frú Teodóra tók vel á móti þessum óvæntu kaupamönnum. LTm kvöldið sátum við þarna í dýrlegum fagnaði og sofnuðum seint og fórum líka seint á fætur. Um kaupavinnuna er fátt að segja. Fyrstu dagana fórum við okkur hægt, en þegar fór að líða á fyrstu vik- una, vorum við að smá lengja vinnutímann og með hverjum deginum, sem leið, urðum við hressari. Aðra og þriðju vikuna fór ég að keppast við sláttinn og hreysti fór dagvaxandi. Sigurður Birkis gat ekki verið nema rúma viku, en ég var þrjár vikur. Líklega er vinna við slátt á sæmilegri jörð einhver skemmtilegasta og jafnframt heilsusamlegasta vinna, sem nokkur maður á völ á. Mér var þessi vinna bezta heilsu- lind. En við Breiðafjörð og í Breiðafjarðareyjum fannst mér jafnan lífið samfellt ævintýr. Fuglalífið, fegurðin og fjölbreytnin í daglegu lífi er einstætt við Breiða- fjörð. Allir kannast við kríuna. Hún er hlaðin lífsfjöri, síkvik, harðskeytt og lætur ekki hlut sinn fyrir neinum. Eg var einn daginn að slá í velsprottinni mýri í tún- jaðrinum. Mýrin var dálítið þýfð, en þó sæmilega greið- fær og ljáþýð. Allmikið af kríu er í Elliðaey, og um þetta leyti voru ungar hennar lítt fleygir, en kúrðu í grasinu, feitir og þungir á sér. Mátti ég gæta mín vel að þeir yrðu ekki fyrir ljánum, því að kafgras var í mýrinni. Það var eins og krían vissi vel um þessa hættu, og því sótti hún mjög að mér við sláttinn, og hjó í höf- uðið á mér, svo að varla var vinnufriður, og hún kunni vel að beita sínu eina vopni, sem er flugbeittur goggur- inn. Um veturinn hafði fokið járnplata af gömlu fjárhúsi í ofsaroki. Hún hafði sundrast og tvístrast um mýrina og lágu smápjötlur af járnplötunni þarna í slægjunni. Ég braut smá hom af einni járnplötunni, sem var á stærð við kollinn á húfunni minni, og setti plötubrotið innan í húfukollinn. Á þessu plötubroti vom nokkur naglagöt. Ég hélt svo áfram slættinum og nú fann ég ekkert til, þótt kríurnar gengju í skrokk á mér, og beittu goggnum af mikilli heift og hörku. Járnplötu- brotið hlífði mér. Svona gekk þetta nokkra stund. Ég hélt áfram við sláttinn, en kríurnar hömuðust yfir höfði mér. En allt í einu brá mér í brún. Blóðdropar féllu á hendur mínar og varð mér þá litið upp í kríuhópinn. Þá sá ég hvers kyns var. Sumar kríurnar höfðu beitt sér svo hart í sókninni og höggvið svo títt í kollinn á mér, að goggurinn hafði lent í naglagötunum á plöt- unni og við það hafði goggurinn særzt. Sá ég þá að nokkrar kríurnar voru særðar og draup blóð niður í dropatali. Ég dreif af mér húfuna, tók plötubrotið og fleygði því, og síðan færði ég mig á annan stað við sláttinn á meðan mesti bardagahugurinn væri í kríun- um. Aldrei, hvorki fyrr né síðar, hef ég vitað slíkan að- gang í kríuhópi. Ég var nýlega kominn að Breiðafirði, þegar þetta gerðist, og þekkti lítið eyjalífið með þess fjölbreyttu vinnubrögðum. Ég hafði þó einhverja hugmynd um, að til væri veiðiaðferð við lundaveiðar, sem nefnd væri að veiða lunda í háf. Nú langaði mig til að reyna þessa veiðiaðferð, en nóg var af lunda í eynni. Ég ræddi um þetta við Olaf bónda og dró hann alls ekki úr mér veiðiáhugann, en sagði, að ég þyrfti helzt að velja mér heppilegt veiðiveður. Helzt þyrfti að vera nokkur gola, en þó ekki mjög hvasst. En í logni flýgur lundinn lít- ið. Einn daginn var svo hæfileg gola og lundinn sást á flugi. Að jafnaði situr lundinn dökkklæddur og hátíð- legur á bjargbrúninni. I logni lyftir hann oft vængjun- um og teygir sig en flýgur ekki. Ólafur benti mér á góðan veiðistað suðvestur á eynni. Háfurinn er þétt- riðið net fest innan í svigagjörð og þetta síðan fest á alllanga sterka stöng. Ég hélt nú allvígalegur af stað í veiðiförina, og bar veiðistöngina eða háfinn á öxlinni. Þegar ég kom á staðinn, valdi ég mér stöðu í kletta- rauf eða gjá og beið þess að lundinn flýgi fyrir. All- stór hópur hafði flogið upp, þegar ég kom út á bjarg- brúnina og þeir fuglar flögruðu þarna fram og aftur. Ég beið færis, og allt í einu kom einn í færi og ég sveiflaði háfnum yfir hann. Fuglinn flæktist í netinu og ég dró að mér stöngina, og fór að reyna að greiða fugl- inn úr netinu. Ég var þessu verki óvanur og fuglinn harðskeyttur og beitti bæði klóm og kjafti. Áð lokum tókst mér þó að losa fuglinn og hélt honum í greip minni þannig, að hann kom engri vörn við. En þá var eftir að aflífa fuglinn. Ég hafði alveg gleymt að spyrja Ólaf um þá aðferð, sem æfðir fuglafangarar beittu. Ég sá því ekki annað ráð en rota fuglinn, en slíkt var alls ekki svo auðvelt. Þetta tókst þó sæmilega og eitthvað veiddi ég fleiri fugla og beitti sömu aðferð. Þá kom Ól- afur til mín að sjá, hvemig mér gengi veiðin. Hann sá nokkra lunda liggja þarna dauða hér og þar í kringum mig. Hann tekur upp einn fuglinn og segir nokkuð hvatskeytlega: „Hvað er þetta? Hefur þessi lundi orð- ið sjálfdauður? Er komin einhver pest í lundann?“ Mér varð svara fátt, en Ólafur sá strax, hvernig í málinu lá. Rétta aðferðin við aflífun lundans var sú, að kippa hon- um með snöggu handbragði úr hálsliðnum, og deyr hann þá á augabragði, eins og af byssuskoti. Ég veiddi ekki fleiri lunda í þetta sinn og hef aldrei tekið þátt í lundadrápi síðan. Þá kemur hér að lokum ein lítil sjóferðasaga eða sjó- veiðisaga: Ólafur í Elliðaey hafði á þessum árum eins konar refarækt í Elliðaey. Hann keypti víða um land yrðl- inga, sem náðust lifandi á grenjum. Hann flutti þá út í Elliðaey og hafði þá þar í refagirðingum, þar til allir ungar sjófugla voru orðnir fleygir og mikið af fugli horfið frá eyjunum, en þá hleypti hann þeim út og þeir fengu að ganga lausir fram á veturinn, til þess tíma, er feldur þeirra væri orðinn fallegur og góð verzlunar- 230 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.