Heima er bezt - 01.03.1965, Blaðsíða 8

Heima er bezt - 01.03.1965, Blaðsíða 8
S. B. OLSON: LANDNAMSÞÆTTIR 1 FRIÐRIK A. FRIÐRIKSSON ÞÝDDI (Framhald) í hinum löngu og þöglu hléum reikaði hugur minn gjarna heim á gömlu búréttarjörðina, sem ég nú hafði látið að baki. Þar hafði ég lifað sjö æskuár mín, oft átt glaða daga með drengjum og telpum á mínu reki, í skólanum og að leikjum, en einnig langa daga og leiða, við þrældómsstrit, sem úttaugaði mig svo, að mér stóð á sama um allt milli himins og jarðar. Gripu mig þá stundum slík þunglyndisköst, að mig langaði til að leggjast niður og standa aldrei upp aftur. En morgun hvern hressti það hugann, að vakna til hinnar dýrðlegu sólaruppkomu og vera heilsað af þúsundrödduðum kór hinna fleygu vina minna úti í pílviðarlundinum skammt frá, og fyllti það mig kjarki til að horfa fram á nýjan dag. Sagt hefur verið: „í mannshjartanu þrýtur upp- spretta vonarinnar aldrei“. Móðir mín saumaði á okkur allan fatnað og gerði á okkur hráleðurskóna, sem við gengum á hversdagslega. í sumarhitunum herptust þeir saman og hörðnuðu, svo að það varð að bleyta þá upp á hverju kvöldi. Þegar ég var 11 ára, vann faðir minn við járnabraut- ina, sem þá var verið að framlengja til Yorkton, en lengra náðu teinarnir ekki um langt árabil. Um sumarið vann ég þarna tímakorn sem vatnsberi. Þurfti ég að bera 150 mönnum drykkjarvatn og sækja það í tveim skjólum næstum heila mílu í steikjandi sólarhitanum. Daglaunin voru 75 sent. Verkið reyndist mér of erfitt og varð ég að sleppa þessari atvinnu eftir nokkrar vik- ur. Nettótekjur mínar urðu þó regluleg rosaupphæð, 7 dollarar, og fyrir þá fékk ég að kaupa gimbrarlamb til eigin eignar. Þannig varði ég fyrstu peningunum, sem ég innvann mér, og var heldur en ekki upp með mér af því, að vera orðinn fjáreigandi, — þótt ekki væri kindin nema ein. Ég sótti Þingvallaskólann á sumrin, stuttan tíma í einu, þ. e. á vorin fram að slætti og á haustin, eftir að sumarönnum lauk. Menntunin, sem mér veittist á þess- ari slitróttu skólagöngu, var mjög af skornum skammti. Ég var byrjaður á námsefni 5. bekkjar, þegar ég kvaddi skólann. Sælutími — það voru þeir, þessir skóladagar! Við höfðum dásamlega kennara, ungfrú Guðnýju Jones (frú Paulson, er síðar varð). Hún lét sér ekki nægja, að kenna okkur R-in þrjú*). Þegar veður var slæmt, svo að ekki gat verið um útiathafnir að ræða, kallaði hún jafnan okkur eldri nemendurna til sín í hádegis- hléinu og ræddi við okkur um ýmislegt, sem viðkemur daglega lífinu, og veitti okkur þannig nytsama fræðslu um mannleg samskipti, ráðvendni, sannleiksást og ann- að, sem byggir upp skapgerð manna. Kennslutímbilið var 6 mánuðir á ári, maí—október. Ungfrú Jones kenndi við skóla okkar 3 ár í röð. Það var dapur dagur, þegar hún að síðustu flutti stutta kveðjuræðu og sagði okkur, að nú mundi hún ekki koma aftur. Öll táruðumst við, eldri sem yngri, — stóru strákarnir líka, þ. á. m. sjálfur ég. Öll létum við í ljós tilfinningar okkar og reyndum ekki að dylja þær. Skóladagar! Ljúfar minningar! Fölskvast þær nokkurn- tíma? Nú, í þessum leiðangri, sem aldrei virtist mundi taka enda, hristi ég af mér klukkustundirnar hverja af annarri með því, að dveljast í huganum við ýmisleg at- vik í lífi mínu á þessum sjö liðnu landnámsárum okkar. Sum voru spaugileg, sum sorgleg, en öll voru þau mér innilega hugstæð, eins og löngum verður um æsku- minningar. Eins og áður getur, var nýlendan gersamlega íslenzk, málið, lifnaðarhættirnir, nábúagóðvildin, formleysið um heilsun og kveðju, og ávarpaði hver annan með skírnarnafni. Lesefni allt var frá gamla landinu og var um ýmislegt að velja, Kvöldvökur, Pilt og stúlku, Ritn- inguna, auk þess, sem fyrr er frá greint. Af þessu leiddi eðlilega það, að unglingarnir voru almennt vel að sér í feðratungunni, lásu hana og skrifuðu. Fátt var úm skemmtanir og félagsleg mót, því að aðstöðu skorti til að þroska þá skemmtikrafta, sem kynnu að hafa leynzt á meðal okkar. Einu sinni var ráðizt í að setja upp sjónleik — „Hermannaglettur“. Var hann fjölsóttur og þótti takast ærið vel. Haldinn var álfadans 2 ár í röð, til að kveðja gamla árið og heilsa hinu nýja. Fór hann fram á allstóru svelli *) R er byrjunar- eða áherzlustafur í þrem enskum orðum, sem merkja lestur, skrift og reikning. (Þýð.) 88 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.