Heima er bezt - 01.03.1965, Blaðsíða 31

Heima er bezt - 01.03.1965, Blaðsíða 31
Hún tók um hausinn á honum með báðum höndum sín- um og horfði fast í gáfuleg hundsaugun. — Hvernig líkar þér þetta, Neró minn? sagði hún þegar hún var búin að segja honum fyrirætlun sína, en Neró sýndi engan lit á að svara, hann hristi bara haus- inn og geispaði ólundarlega, auðsjáanlega alveg áhuga- laus. Harpa kom hlaupandi og vildi fá að vera með í vænt- anlegu laumuspili, en Hanna ýtti henni frá sér með hægð og stóð upp. Ætti hún að hætta við allt sam- an? — Nei! Hún gekk rösklega inn, bauð ömmu sinni að leggja á borðið, sótti síðan vatn í bæjarlækinn alveg óbeðin. Amma spurði hvort hún væri lasin og skotraði augun- um útundan sér til hennar. Þetta var alls ekki líkt henni Hönnu litlu Maríu að gera inniverkin óbeðin. Það var allt annað, væri um útivinnu að ræða. Nei, Hanna sagðist ekki vera neitt lasin. — Hvað hefirðu þá gert af þér? spurði amma. — Ekkert, svaraði Hanna undrandi og leit á ömmu sína, en leit strax undan aftur. Afi sagði að augun væru spegill sálarinnar, og væri það satt, sem Hanna efaðist varla um, fyrst afi segði það, kærði hún sig ekki um að amma færi að lesa fyrirætlanir hennar, áður en hún framkvæmdi þær. Þessi leiðu óþægindi fyrir brjóstinu vildu alls ekki hverfa, og þegar afi kallaði hana gullkolluna sína með- an þau voru að borða og klappaði henni á kinnina, Iá henni við gráti. Matarlyst hafði hún svo litla, að bæði afi og amma höfðu orð á því, og henni var dembt í rúmið löngu fyrir venjulegan háttatíma. Þegjandi af- klæddi hún sig og skreið undir sængina. Allt gekk vel fyrsta sprettinn, hún lá glaðvakandi og hugsaði um komandi nótt, en svo tók hana að syfja, og þá kárnaði nú gamanið. Sofna mátti hún ekki, en það var erfitt að halda augunum opnum þegar augnalokin eru blýþung. Þó tókst það. Afi og amma dunduðu við hitt og þetta fram eftir öllu kvöldi, alveg eins og þau fyndu á sér, að Hanna vildi að þau færu að hátta sem allra fyrst. IX. Ránsförin. Klukkan rúmlega eitt um nóttina opnuðust dyrnar í Koti ofurhægt, og dökkur hrokkinkollur kom í ljós og síðan léttklædd ungfrú, sem trítlaði smáum skrefum fram hlaðið og tók svo á sprett ofan að sjó. Eftir að hafa skimað vandlega í kringum sig og fullvissað sjálfa sig um, að enginn væri á ferli úti, lauk hún við að klæða sig, ýtti síðan frá landi á litla ljósmálaða bátnum, og var fyrr en varði horfin inn á milíi hólmanna. Hvað hún hafðist þar að var satt bezt að segja ekki neitt fallegt. Hún gekk á land að víkingasið og gerði strand- högg: rændi og ruplaði. I annarri hendi hafði hún mjólkurfötuna hennar ömmu, og í hvert sinn sem hún fann hreiður, rak hún kolluna af, færi hún ekki af að sjálfsdáðum, eða væri úti á sjó að skemmta sér, tók öll eggin nema eitt, og einnig eins stóra visk af dúninum og hún þorði. Þannig læddist hún áfram, oft hálf skríðandi, svo ekki sæist til hennar úr landi, frá hreiðri til hreiðurs og tók þar sinn toll. Það hefði mátt ætla að þau í Koti hefði nóg egg til matar næstu daga, en fyrirætlanir telpunnar voru ekki þær að fara með eggin og dúninn í land. Hún reri yfir að afa hólma með fötuna fulla af eggjum og dún og tók nú að úthluta hvorutveggja sem jafnast í hreiðrin er þar voru fyrir. — Svona greyið nú skaltu bara halda áfram að verpa öllum þínum eggjum og reyta af þér allan þann dún sem þú mátt missa, sagði hún í gælutón við kollumar sem flestar þekktu hana frá fornu fari og lofuðu henni að stinga eggjunum í hreiðrin sín án þess að hreyfa sig, bara lyftu sér pínulítið upp á meðan. Sumar urðu þó stórmóðgaðar við heimsóknina og mku af stað út á sjó í mesta fússi. Ánægð rétti telpan úr sér og leit hróðug yfir ríki þeirra í Koti. í vor skyldu þau í heimabænum sjá, að það þyrfti ekki alltaf stórar eyjar og margt fólk til að hugsa um varpið. Ur litlu hólmunum þeirra ætlaðist hún til að fengist meiri dúnn og miklu fleiri ungar en úr öllum eyjum Fellsenda til samans. Þó var eitthvað ekki eins og það átti að vera. Og eftir að Hanna var komin í land og hemi í rúm sitt, án þess að nokkur vissi um ferð hennar, gat hún alls ekki sofnað, hvernig sem hún bylti sér fram og aftur í rúminu. Amma vaknaði við bröltið í henni og kom yfir að rúminu til hennar. — Ertu veik, vina mín, hvar finnurðu til? spurði hún og taldi æðaslög telpunnar á handlegg hennar. Hanna muldraði að hún fyndi hvergi til, en amma hélt áfram að spyrja þar til Hanna játaði að hún hefði verk í maganum og líka fyrir brjóstinu, svo væri hún svo sár í hálsinum. Allt var þetta satt, en amma vissi bara ekki af hverju þetta stafaði. Hún fór fram og sauð saman kandís og blóðberg á olíuvélinni, kom svo með heitan drykkinn til telpunnar sem nauðug viljug varð að sötra í sig allt úr glasinu, þótt henni þætti það hræðilega sterkt og rammt á bragðið. Síðan breiddi amma vandlega ofan á hana eftir að hafa vafið ullartrefil um hálsinn á henni og sett hita- flösku við fæturna, sem voru sjóðandi heitir fyrir. En amma hélt að það gerði þó aldrei illt að hafa hitaflösku í rúminu. Hanna lá grafkyrr og beið eftir að amma sofnaði. — Hanna mín? hvíslaði amma loks, þegar Hanna hélt að hún hlyti að vera sofnuð. Hanna var alveg að því komin að svara, en áttaði sig og þóttist sofa, dró and- Heima er bezt 111

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.