Heima er bezt - 01.03.1965, Blaðsíða 26
sækja slíka staði og láta hugann reika um liðna viðburði
sögunnar. — Örnefnin mega ekki gleymast. Landið
verður svipminna og málið snauðara, ef örnefnin glat-
ast. Þetta þarf æskulýður landsins að skilja og meta og
læra örnefnin af eldra fólkinu og geyma þau næstu
kynslóð.
Ég dvel þá ekki lengur við Helgafell, en held sem
leið liggur um í Kársstaðabotn. Á þeirri leið má segja
að hver bær, dalur, lækur og skógarás sé sögulega
merkur, en það yrði of rúmfrekt í þessum þætti, að
minnast allra þeirra merku staða, og munum við því
lítt nema staðar fyrr en komið er í Kársstaðabotn, en
þar eru margir sögulega merkir staðir, þótt Bólstaður,
bær Arnkels goða, sé þeirra merkastur.
------Þegar ég settist að í Stykkishólmi fyrir meira
en fjórum áratugum, þekkti ég ekkert nágrennið, hinar
sögulegu sveitir norðan fjalls á Snæfellsnesi. — En þetta
er þó ekki alveg rétt frá sagt. Ég hafði vitanlega lesið
Landnámu, Eyrbyggju, Laxdælu, Víga-Styrssögu og
fleiri Islendingasögur, er gerzt höfðu á þessum slóðum,
svo að ég vissi heilmikið um héraðið, og hlakkaði mjög
til að líta þessa merku staði með eigin augum.
Strax fyrsta sumarið, sem ég var í Stykkishólmi, tók
ég mér ferð á hendur inn á Skógarströnd. Leiðin þang-
að liggur sem kunnugt er um Þórsnesið, og innanverða
Helgafellssveit, hjá Saurum, Svelgsá og Hrísum inn í
Kársstaðabotn, og áfram kringum Álftafjörð. Aðaler-
indið var að sjá og kynnast sögulegri, fagurri byggð og
þræða þær leiðir, sem mér voru áður kunnar úr Eyr-
byggju. Ferðafélagi minn var vinur minn og skóla-
bróðir, Guðmundur Guðjónsson kennari á Saurum.
Leið okkar lá meðfram túninu á Svelgsá, en þar bjó þá
Guðbrandur hreppstjóri Sigurðsson, sem var fjölfróð-
ur og gagnkunnugur héraðinu og sögu þess.
Þótt þjóðleiðin lægi þar fyrir ofan túnið, var það
fágætt að ferðamenn riðu þar hjá garði. Við félagar
fórum þar að dæmi annarra og riðum þar ei hjá garði.
Húsbóndinn var heima og tók okkur tveim höndum.
Hófust strax umræður um sögur og sögustaði. Ég var
nýkominn í héraðið og þyrstur í að fræðast um ör-
nefni og sögustaði.
Ekki man ég, hve lengi við ræddum saman, en þegar
við héldum af stað, tók Guðbrandur hnakk sinn og
hest og ákvað að fylgja okkur inn í Álftafjörð.
Þetta var síðla í júnímánuði. Veður var fagurt, —
logn og heiðríkja. Útsýnin var fögur og heillandi.
Mörg voru þau sögulegu örnefni, er á Ieið okkar urðu,
en fyrst vil ég nefna hér eitt, sem mesta athygli mína
vakti, en það var hið forna bæjarnafn Bólstaður, sem
var bær Arnkels goða.
í Eyrbyggju er þannig sagt frá landnámi og byggð
að Bólstað:
„í þann tíma bjó Arnkell, sonur Þórólfs bægifótar,
á Bólstað við Vaðilshöfða. Hann var manna mestur og
sterkastur, lagamaður mikill og forvitri. Hann var góð-
ur drengur og umfram alla menn aðra þar í sveit að vin-
sældum og harðfengi. Hann var hofgoði og átti marga
þingmenn.“
Úm endalok byggðar að Bólstað farast sögunni
þannig orð:
„.... en Bólstaður var þá auður, því að Þórólfur
tók þegar aftur að ganga, er Arnkell var látinn, og
deyddi bæði menn og fé þar á Bólstað, hefur og engi
maður traust til borið að byggja þar fyrir þær sakar.“
Mér voru þessi orð Eyrbyggju minnisstæð, og þegar
við komum á eyrarnar neðan við Úlfarsfell, varð mér
þetta að orði:
„Nú veit víst enginn, hvar bærinn Bólstaður stóð,
þar sem liðnar eru um níu aldir síðan hann lagðist í
eyði.“
Guðbrandur leit til mín brosandi og sagði: „Jú, —
það teljunv við okkur vita. Munnmælin hafa geymt
söguleg örnefni vel í þessu héraði.“ Síðan vék hann
hestinum út af götunni, og við riðum spölkorn niður
með ánni. Þar námum við staðar á eyrunum og Guð-
brandur benti mér á mosagrónar ójöfnur og mólendi,
þar sem hvergi vottaði fyrir grænku, og sagði: „Hér
segja menn, að bær Arnkels hafi verið.“
Við áðum þarna ekki lengi, en héldum sem leið lá að
Kársstöðum. Á leiðinni þangað benti Guðbrandur mér
á ýmis örnefni úr Eyrbyggju, svo sem Glœsikeldu og
skriðuna Geirvör, þar sem Freysteinn bófi sá manns-
höfuð óhulið, en höfuðið mælti fram stöku þessa:
„Roðin es Geirvör
gumna blóði;
hún mun hylja
hausa manna.“
En ég átti erfitt með að sætta mig við bæjarstæðið
að Bólstað. — Gátu þetta verið rústimar af bæ Am-
kels goða? Voru þetta Ieifarnar af bæ höfðingjans
glæsilega, sem oft hafði marga tugi manna í heimili?
Gátu þessir gráu móar, á skjóllausri eyrinni, verið rúst-
ir af höfðingjasetri frá tíundu aldar lokum? Spurning-
arnar komu í huga mér, hver af annarri. Ég treysti
ekki að fullu öryggi örnefnanna.
Árin liðú. — Ég kom oft í Kársstaðabotn, en hætti
að brjóta heilann um bæ Arnkels goða. — Ég fékk þó
þær upplýsingar hjá fræðimönnum, að elztu rústir væru
aldrei grænar. Oll áburðarefni, sem gera rústir grænar
væru löngu horfin úr jarðveginum. — Full tíu ár líða. —
Þá er það sumarið 1931, að fornvinur minn og kennari,
Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, kemur með föru-
neyti til Stykkishólms, og erindið var, að grafa í rúst-
irnar að Bólstað og fá úr því skorið, hvort þar hefði
bær staðið í fornöld.
Árangurinn af þessum uppgrefti varð mjög merki-
legur og sannaði ótvírætt öryggi örnefnanna, og hvern-
ig sögulegar staðreyndir geta geymzt í manna minni
um aldaraðir. Þarna var þunnu jarðlagi smátt og smátt
106 Heima er bezt