Heima er bezt - 01.05.1965, Side 2

Heima er bezt - 01.05.1965, Side 2
ÍSAVOR Vika til sumars. Éljaveður, napur næðingur, þótt frostið sé vægt, fannburður nær enginn, en þokukúfar tætast inn með fjöllum, og tala sínu máli um það, hvað úti fyrir er. ísaveður, hefðu gömlu mennirnir sagt, sem aldir voru upp við heimsóknir hafíssins næstum árlega. Og útvarpið hefir ekki látið oss dulda um, hvað er að gerast. Daglega kveða þar við ísfregnir, og lokað er skipaleiðum fyrir öllu Norðurlandi og mikinn hluta Austurlands. Eftir nær hálfrar aldar vopnahlé við hafísinn, vökn- um vér nú við vondan draum. Er nú að verða lokið þeim góðærum, sem vér höfum notið um áratugi? Og hvernig eigum við að snúast gegn því, ef svo reynist? Allt frá því, að Hrafna-Flóki sat í Vatnsfirði fyrir um 11 öldum hefir hafísinn, sem hann gaf landinu nafn eftir, verið stöðugur gestur við strendur þess. Að vísu eru heimildirnar strjálar fram eftir öldum, en staðreynt er, að árferði fór versnandi allt fram á 18. öld. En síðan heimildir verða samfelldar um 1780 hafa naumast nokk- urntíma verið meira en tvö ár í einu íslaus við strendur landsins, þangað til undanfarin 40 ár. Hafísinn hefir löngum verið vágestur. Hann hefir skráð nafn sitt í sögu þjóðarinnar með harðæri og hörm- ungum. Það er með fullum rétti, sem séra Matthías kallar hann „landsins forna fjanda“,er hann orti um hann eitt sitt kyngimagnaðasta kvæði. En þótt Matthías kynni að lýsa og skildi ógnir hins „hundrað þúsund kumbla kirkjugarðs“ sigraði samt trú hans og bjartsýni, og hann gekk með sigur af hólmi við óvininn. „Trú þú, upp úr djúpi dauða Drottins rennur fagrahvel.“ Þjóðin lifði af hörmungar ísa og elda öld eftir öld, í þeirri trú og von, að birta mundi til, og með þeirri seiglu, sem henni var fengin í vöggugjöf. Það var trúin á það fagrahvel, sem ísaþokan huldi, sem ásamt öðru hélt lífinu í þjóð- ínni fram á vora daga. Ef hún hefði glatað henni, þegar verst gekk, þá hefðu dagar hennar verið taldir. Sjálfs- bjargarviðleitnin hefði fjarað út smátt og smátt, og við- námsþrótturinn gegn erfiðleikunum þorrið. Að endingu hefði þjóðin verið seld sömu örlögum og frændur henn- ar á Grænlandi. Það er ekki einungis vegna þess, að meira hefir geymst af rituðu máli frá síðustu öldum, að vér vitum meira um hann þá en fyrr. Lítill vafi er á, að eftir því sem fram liðu tímar, varð mönnum tíðræddara um hann og komu hans, vegna þess að þeir óttuðust hann meira en áður. Meðan efnahagur þjóðarinnar var sæmilegur, eða góður eins og fram yfir siðaskifti, þoldi þjóðin að mæta áföllum, án þess hörmungar dyndu yfir. Hún átti fæði og klæði, til að mæta frosti og ísum, eldi og ösku. En þegar kemur fram á 17. og 18. öld, og einokun og fjár- kúgun hefir mergsogið þjóðina, er hún eins og kulda- strá, sem ekkert þolir. Og allt um nokkrar framfarir 19. aldarinnar, var fjarri því, að vesældómur liðinna alda væri úr sögunni. Viðbúnaður gegn áfellum var lítill, og menn báru gamla óttann í brjósti. Og enn á fyrstu tugum þessarar aldar var sá ótti mikill. Ég minnist þess, með hve mikl- um alvörusvip menn ræddu ísafréttirnar. Það var því líkast, sem hroll setti að hverjum manni, ef það fréttist að ís hefði sézt undan Horni eða Sléttu. En ekki tóku allir hafísnum með sama huya. Árið 1915, þegar Eyjafjörð fyllti af hafís í maílok, birti Frímann B. Amgrímsson kvæðiskorn í blaði. Frímann var þá nýlega kominn heim úr margra ára útlegð, og hefir vafalaust þótt velkomanda kveðjurnar, sem hann fékk, heldur kaldar. En hann fagnar hafísnum og kallar kvæðið „Kveðju til fornvinar míns.“ Fyrsta erindið hljóðaði svo: „Mjallhvíti hafís, heimskauta blómi, ver nú velkominn til vinafoldar. Skjöldur oss þú ver mót Surtarloga, kenna oss þú skalt á kraft vorn treysta.“ Þetta hneykslaði marga. Nú eru tímarnir breyttir. Ný tækni, bættur efnahag- ur og nýtt hugarfar hafa skapað ný viðhorf gegn hin- um „forna fjanda.“ Fjarri fer þó því, að vér fögnum hafísnum sem fornvini, en vér getum tekið undir með Frímanni í því, að hafísinn ætti og mætti kenna oss að trúa á krafta vora svo að vér treystum varnir allar, til að mæta herhlaupi hans, og heimsókn hans gæti verið oss áminning um að sökkva oss ekki niður í djúp and- varaleysis um þá hluti. Þannig gæti hann verið oss skjöld- ur gegn Surtarloga ómennsku og eyðingarafla. Ekld verður þess dulizt, að vér látum oss nú furðu fátt finnast um þær fréttir, sem oss berast af ísalögun- um. Höfum vér þó, þegar fengið að kenna á nokkurri siglingateppu og ísinn truflað verulega sjósókn og eðlilegt atvinnulíf á flestum stöðum við norður og norðausturströnd landsins. En vér sem ögn búum fjær, tökum þessu með svipuðu fálæti og fréttum af mann- drápum suður í Viet-Nam. En erum vér svo viðbúnir, að vér getum verið alls kostar rólegir? Ég held varla. Ég óttast, að góðæri undanfarinna áratuga, hafi gert oss andvaralausa um of. Það eru einungis rosknir menn, sem muna af eigin sjón og raun örðugleika ísaáranna, og þótt ólíku sé saman að jafna þjóðarhögum þá og nú, 162 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.