Heima er bezt - 01.04.1967, Blaðsíða 6
hafði stór bátur lagzt að síðunni hjá okkur, mannaður
12 mönnum. Þetta voru þá sjóliðar frá ensku herskipi,
sem komnir voru til að sjá hvað við hér værum að að-
hafast.
Kokkurinn okkar, lítill og snaggaralegur karl, varð
alveg ær, hélt víst að hér væru komnir einhvers konar
himneskir hákarlar, þreif öxi og hugðist láta þá kenna
á henni, engu síður en þá, sem úr djúpinu komu á hak-
anum. Af mannvígum varð þó ekki. Auðvitað var
kokkurinn orðinn svo yfirkeyrður af svefnleysi og
þreytu, að hann vissi vart sitt rjúkandi ráð.
Þegar við komum að landi, barst okkur frétt um
mikla kolkrabbaveiði í fjörðunum fyrir vestan, var þá
ekki til setu boðið, en báturinn affermdur í flýti og
svo haldið vestur á Geirþjófsfjörð, innst inn í botn.
Þar fengum við góðan afla.
Svona gekk nú lífið í þá daga. Árið 1919 fór ég til
náms í Samvinnuskólann og lauk þaðan prófi tveimur
árum síðar, 1921, og gerðist að því loknu skrifstofumað-
ur hjá Kaupfélagi Súgfirðinga.
Árið eftir, þann 22. júlí 1922, gekk ég að eiga Sól-
veigu Jóhannsdóttur Hallgrímssonar frá Laxárdal í
Hrútafirði og Guðríðar Guðmundsdóttur frá Ljárskóg-
um. Við kynntumst á Súgandafirði, en Jóhann var þá
starfandi verzlunarmaður þar. Ekki var langt í veru
minni hjá kaupfélaginu, því að það hætti rekstri eftir
tvö ár. Þá lá leiðin aftur á sjóinn og nú á togara. Þá
voru engin vökulög komin, enda staðið hvíldarlítið sól-
arhringum saman væri þannig veðrátta og aflabrögð.
Þá reyndi maður einnig að freista gæfunnar við síld-
veiðar, en það fór nú ekki betur en svo, að eitt afla-
leysissumarið varð ég að gefa með mér, þá voru engar
hlutatryggingar lögleiddar eins og nú er.
Eftir þessi misheppnuðu ævintýri lá leiðin aftur heim
í Súgandafjörð og þar gerðist ég starfsmaður við verzl-
un Örnólfs Valdimarssonar kaupmanns, hann hafði þá
sett upp sjálfstæðan rekstur, sem á tímabili var um-
fangsmikill og athafnasamur og setti svip sinn á Súg-
firzkt atvinnulíf. Hér varð ég „alt mulig mand“, eins
og danskurinn segir — utanbúðar, innanbúðar, vann á
skrifstofu, afgreiddi tjöru, silkislæður, sykur og brauð,
allt svo að segja á sama tíma. Venjulega var vinnudag-
urinn frá kl. 8 að morgni til kl. 10 að kvöldi, og stund-
um varð svo að fara út að nóttunni og afgreiða beitu
til báta eða taka á móti fiski. Á meðan reksturinn var
í smáum stíl, unnum við Örnólfur tveir við fyrirtækið,
en með vaxandi umsvifum, fjölgaði starfsfólkinu.
Örnólfur var mjög góður vinnuveitandi og galt mér
vel á þeirra tíma vísu. Árslaun mín voru síðustu árin
kr. 3000, og þótti það dálagleg hýra, því þá voru hæstu
árstekjur sjómanna 1500—2000 krónur. Hjá Örnólfi
vann ég í 6 ár.
Enda þótt ég kynni vel mínu vestfirzka umhverfi og
liði þar vel, þá fann ég þó hjá mér löngun til að hefjast
handa um sjálfstæðar athafnir, og skapa mér víðara
starfssvið, því var það, að árið 1930 fluttum við hjónin
með fjölskyldu okkar búferlum til Reykjavíkur. Þá
höfðum við eignazt saman 4 börn. Önnur 4 áttum við
eftir að við komum hér suður. Eitt barnanna höfum við ■
misst, hin eru öll á lífi.
Fyrst byrjaði ég verzlun á Laugavegi 62, en var þar
aðeins í tvö ár, sökum þess, að þá þurfti húseigandinn.
búðina, sem hann hafði leigt mér, til eigin afnota. Þá
fékk ég verzlunaraðstöðu hjá Gunnari í Von, og var
þar önnur tvö ár eða þar til ég reisti eigin húsnæði á.
Leifsgötu 32, hvar ég hef dvalið síðan.
Þessi verzlunarár mín á Laugaveginum urðu til að ■
byrja með talsvert erfið, ekki sérstaklega hvað rekstur-
inn snerti, heldur hitt að ég bjó langt vestur í bæ, vestur
þar sem þá hét Utgarðar, að vísu hafði ég keypt mér
nýtt reiðhjól til að vera fljótari í förum, og hafði það í
portinu utan við búðina, þar sem ég verzlaði. Eitt kvöld
að loknu dagsverki, þegar ég kom út hress, en þreyttur
eftir gjöfulan dag, er fararskjótinn horfinn, og hann sá
ég aldrei síðan. Nú mátti ég nota mína tvo fætur. í
þá daga var ég fremur kvikur til gangs og fór því hrað-
ara en almennt gerðist á götum bæjarins. Var ég af og
til að rekast á fólk, sem svo sneri sér við og virti fyrir
sér þennan mann sem hafði í frammi þvílíkt hátterni á
ferð sinni, og Ieizt áreiðanlega sumum sem ég mundi
meira en lítið bilaður í kollinum.
Þegar suður að Elliheimili kom var byggðin og um-
ferðin því nær búin, og var mér þá óhætt að hlaupa yfir
skurði og girðingar án verulegrar hneykslunar.
Nokkru eftir að ég hóf starfsemi hér í Revkjavík,
stofnuðum við Einar Jósefsson Harðfiskssöluna og
starfræktum hana saman í 25 ár. Var hún á tímabili
mjög umfangsmikið fyrirtæki, sem hafði viðskipti víða
um land, og einnig dálítið erlendis. Hráefni það sem við
vorum með var aðallega sótt til Vestfjarða, fyrst og
fremst til Súgandafjarðar, hvað steinbítinn snerti.
Verzlun hef ég rekið í 35 ár, en nú hefur einn sona
rninna tekið við og rekur hana áfram, a. m. k. enn þá
undir sama nafni. Við gamla fólkið höfum dregið sam-
an seglin, og lifum nú fábrotnu, umbrotalausu lífi. Aust-
ur við Álftavatn höfum við reist sumarhús og þar eyð-
um við mörgum sólríkum sumardögum við ýmiss konar
lagfæringar á umhverfinu. Og þegar verr viðrar, unum
við okkur við hlýjan arinn, tökum okkur bók í hönd eða
röbbum saman og rifjum upp gamlar minningar.
Snertingin við gróður og mold hefur alltaf verið mér
hugstæð, og þótt ég bærist á sjótrjánum frá því ég fyrst
var talinn hlutgengur á þeim vettvangi, og langt fram
eftir aldri, þá finnst mér að bezt mundi ég hafa unað
hag mínum, sem frjáls íslenzkur bóndi bundinn hinni
gróandi náttúru.
Hvernig er svo viðhorf þitt til lífsins, þegar þú í dag
lítur um farinn veg?
Mér finnst lífið miklu bjartara og betra en á mínum
uppvaxtarárum. Fátækt og umkomuleysi var þá hlut-
skipti alltof margra. Flest störf voru unnin með hand-
afli og svo hart að gengið, að ýmsum varð ofraun. Fjár-
118 Heima er bezt