Heima er bezt - 01.04.1967, Side 28
— Ekki láta allir strákar í Reykjavík asnalega?
— Nei, nei, en við vildum bara vera verstir, svo
allir töluðu um okkur og væru hræddir við okkur,
en samt leiddist mér oft, einmitt þegar við vorum
búnir að gera reglulega sniðug prakkarastrik, fannst
mér eins og ég væri einhvern veginn galtómur hérna
inni, þú veizt þarna sem Hanna María segir að sál-
in búi.
— Því trúi ég vel, veiztu hver hefur eitt herberg-
ið í sálinni?
— Nei, ég vissi ekki að sálin væri eins og hús.
— Jæja, ég segi nú svona, sagði afi, en samvizkan
er þar nefnilega, og hún getur verið anzi hvimleið,
geri maður eitthvað rangt. Þá nagar hún og nagar
mann í brjóstið, eins og mús sem nagar ost, og þá
er langhelzt að bæta fyrir það, sem maður hefur
rangt gert, þá róast samvizkan, og maður verður
svo léttur á sér, að mann langar mest til að dansa og
syngja og hoppa og hlæja.
— Þess vegna hefur þú svona gaman af að syngja
og dansa, afi.
Afi hló bara, svo spratt hann á fætur og greip orf-
ið sitt, ekki dugði að liggja í leti lengur.
Þeir slógu af kappi um stund, þá gat Viktor ekki
orða bundizt:
— Afi, ætlaðir þú ekkert að leita að mér, var þér
alveg sama þó ég kæmi aldrei aftur?
Afi steinhætti að slá. — Hvað er að heyra þetta,
átti ég að leita að þér hérna í slægjunni hjá mér?
— Nei, í morgun, ég var nú týndur í marga
klukkutíma.
— Nei, ég vissi ekki að þú værir týndur, ég hélt þú
hefðir bara þurft að bregða þér frá til að geta hugs-
að í næði, þetta gerir Hanna María oft, og mér dett-
ur ekki í hug að fara að leita að henni, þegar ég veit
að hún þarf að hugsa, það er hverjum einasta manni
nauðsynlegt að fá að vera með sjálfum sér við og
við.
Viktor þagði lengi vel, svo sagði hann lágt:
— Það var að minnsta kosti ekkert fallegt, sem ég
var að hugsa í morgun.
— Þá er gott að þú ert laus við þær hugsanir, hafi
þær verið ljótar, láttu þær bara ekki ná tökum á þér
aftur, vinur minn, sagði afi hlýlega.
— Afi, ég ætla að reyna að líkjast þér.
— Þá verður nú heldur lítið úr þér, drengur minn,
aldrei hef ég hlotið nokkra stöðu á lífsleiðinni, og
ríkur verð ég víst ekki úr þessu, en mér hefur skil-
izt, að þú ætlir að vinna þér fé og frama.
— Ég get orðið eins og þú, þó ég verði bæði rík-
ur og frægur, er það ekki?
— Ég veit það ekki, drengur minn. Það þarf ákaf-
lega sterka skapgerð til að þola meðlæti og velgengni
í lífinu.
— Er það? aldrei hef ég hugsað um það, sagði
Viktor, — ég hef alltaf haldið, að enginn væri ánægð-
ur, nema hann ætti fullt af peningum og gæti feng-
ið sér allt mögulegt og farið allt sem hann vildi, en
ég held að amma sé miklu ánægðari en mamma, og
ég er viss um að hún hugsar miklu betur um köttinn
og hænsnin og kýrnar, heldur en mamma um okkur
Viktoríu.
— Nei, nú ertu að bulla, Viktor.
— Þetta er alveg satt, og þú veizt það líka, afi.
— Jæja, en tökum nú upp léttara hjal, drengur
minn, nú verð ég Grettir sterki, en þú Gunnar á
Hlíðarenda eða Egill Skallagrímsson, eða hver sem
þú vilt helzt, og svo skulum við sjá hvor er leiknari
í engjaslætti.
— Enginn er sem afi, hugsaði Viktor, og allt í einu
langaði hann svo óskaplega til að fara til hans og
faðma hann að sér, en hann gerði það samt ekki,
heldur sló og sló eins og orkan leyfði allt til kvölds,
er kominn var tími til að hætta.
XX.
Villingarnir fara.
Mæðgurnar komu ekki fyrr en seint um kvöldið
úr ferð sinni og létu vel yfir sér. Þá var Viktor kom-
inn í rúmið og búinn að trúa Óla fyrir framtíðar-
draumum sínum. Honum hafði dottið dálítið snið-
ugt í hug:
Hann ætlaði að kaupa Kot, þegar hann yrði full-
orðinn og hafa þar sumarbústað, og afi og amma
ættu að fá að vera þar meðan þau lifðu. En Kot
ætlaði hann sér að eignast.
Óli sagði honum að Hanna María ætlaði að búa í
Koti, og eina ráðið væri þá að giftast henni.
— Giftast! Viktor lagði alla sína fyrirlitningu í
þetta eina orð. Nei, það myndi aldrei koma fyrir
hann!
140 Heima er bezt