Heima er bezt - 01.04.1978, Page 5
þjóðfélagshættir og hagfræðin hafi velt bóndanum
úr fornum veldisstóli og gert hann að tölum í hag-
skrám.
En hvað sem öllum talnaþrautum hagfræðinnar
líður, kemur þessi samjöfnuður bóndans við kóngs-
rikið oft upp í hugann þegar ég sé velsetna bújörð,
eins og t.d. Torfalæk á Ásum í Austur-Húnavatns-
sýslu.
Það var á sólbjörtum júlídegi í fyrra að ég stóð við
malborna heimreiðina á Torfalæk og hugðist taka
hús á Torfa bónda Jónssyni til þess að fræðast örlítið
um lífshlaup hans og skoðanir, einkum á stöðu
bændastéttarinnar í þjóðfélaginu, sem þá var mjög
til umræðu og oft með undarlegri framsetningu.
Á Torfalæk þótti mér staðarlegt um að litast í þess
orðs fornri merkingu. Og svei mér ef það gladdi mig
ekki svolítið að grasið hérna virtist kæra sig kollótt
um alla hagfræði og hélt áfram að vaxa. Öll um-
gengni var með miklum ágætum. íbúðarhús, gripa-
hús, geymslur, véla- og verkfærahús voru máluð og
hvergi neitt rusl að sjá, ekki einu sinni þessi fljúgandi
áburðarpoki sem víða má sjá á lendum bænda til
lítillar prýði. Einu sinni var mér innrætt sú kenning
að snyrtimennska í starfi bæri vott um þá virðingu
sem fyrir því væri borin, og fannst mér það sannast
hér.
Á Torfalæk er nú tvíbýli, jafnvel þríbýli, þó land-
inu sé ekki skipt. Frá því verður síðar skýrt hvemig
þessu er háttað.
Torfalækur á Ásum er gamalt og gróið býli og er
búið að vera í eign sömu ættarinnar frá árinu 1861,
er Sigríður Jónsdóttir, ekkja Jóns hreppstjóra
Sveinssonar á Sauðanesi, keypti hluta jarðarinnar og
fluttist þangað með Sigurlaugu dóttur sinni sem
þótti gáfuð og mikilsmetin kona (d. 1922). Síðar
komust þær mæðgur yfir alla jörðina. Sigurlaug
Jónsdóttir bjó svo um 40 ár á Torfalæk með sam-
býlismanni sínum Guðmundi Guðmundssyni. Jón
sonur þeirra bjó þar önnur 40 ár, fyrst í sambýli við
foreldra sína, en síðar með konu sinni, Ingibjörgu
Björnsdóttur frá Marðarnúpi sem var dótturdóttir
Helga Vigfússonar í Gröf og var nafnkenndur mað-
ur á sínum tíma og átti fjölda barna sem mikil ætt er
komin frá.
Jón og Ingibjörg á Torfalæk eignuðust sjö syni.
Elstur var Guðmundur, lengi skólastjóri búnaðar-
skólans á Hvanneyri. Svo voru tvíburabræðurnir
Björn, fyrrum veðurfræðingur, nú yfirlæknir í
Hveragerði, og Jóhann, bóndi á Torfalæk, nú ráðs-
maður á Jaðri við Reykjavík. Þá var Jónas B„ fyrrum
fræðslustjóri Reykjavíkurborgar. Síðan Ingimundur
(vangefinn), og lengi var til heimilis á Torfalæk en
Ingibjörg Björnsdóttir, Torfalœk.
Jón Guðmundsson, Torfalœk.
Heima er bezt 113