Heima er bezt - 01.04.1978, Side 35

Heima er bezt - 01.04.1978, Side 35
Snjólaug Bragadóttir frá Skáldalæk: Lokast inni í lyftu. Rvík 1977. Örn og Örlygur. Eins og í fyrri sögum Snjólaugar er atburðarásin hröð og frá- sögnin fjörleg. Hér eru að vísu ástaræfintýri með í leiknum en margt gerist fleira, landskjálftar, slysfarir, o.fl. inni við stór- virkjun einhvers staðar inni í hálendinu, svo að lesandinn staldrar eðlilega við Sigöldu, þótt hvergi sé hún nefnd. En þó að meira sé um atburði en í fyrri sögum Snjólaugar, finnst mér hún gera minna að því að skapa persónur. Lengst kemst hún í því efni með Otto forstjóra, sem allt í gegn er sjálfum sér sam- kvæmur, sem einn hinna sí önnum köfnu manna, en gefur sér þó tíma til að sinna hugðarefnum sínum, og er alltaf mannlegur. En hvað um það, sagan er eins og hinar fyrri sögur Snjólaugar ágætur skemmtilestur, þótt ekki sé kafað á djúpmið, enda eru vinsældir hennar þegar svo miklar, að þeim verður ekki haggað. Jóhann Hjálmarsson: Frá Umsvölum. Akranesi 1977. Hörpuútgáfan. Þetta er sérkennileg ljóðabók. Hún er í rauninni Ijóðsaga, sem gerist norður á Kópaskeri, en bregður upp ótal myndum og mannlýsingum, bæði þaðan úr nágrenninu og öðrum stöðum. jafnvel fjarlægum heimsálfum, þar sem hjónin, sem eru aðal- sögupersónurnar, hafa lagt leiðir sínar. Allt er þetta órímað, en þó með sérkennilegri hrynjandi, sem kitlar eyrun meira en títt er um rímleysuna. Og bókin sækir á hugann, svo að maður tekur hana aftur. les eina eða tvær myndir og nýtur skáldskaparins. En ósjálfrátt flýgur mér í hug, hvort hinn ágæti höfundur hefði ekki gert efninu enn betri skil og skemmtilegri bók, ef hann hefði ort hana sem Umsvalarímur. Haldið þar hugblænum og mynd- auðginni en sett allt í rím. sem lesandinn hefði lært og raulað. Ernir Snorrason: Öttar. Rvík. 1977. Helgafell. Höfundurinn hefir dvalist langdvölum erlendis, og segir hér sögu ungs íslendings, sem er að hverfa heim frá Frakklandi, en þar hefir höfundur dvalist mest. Sagan er, eins og segir á kápu, „einhverskonar safn augnablika, sem hlaðast upp án innbyrðis tengsla“. Hún er skráð í nútímastíl og gefur innlit í rótleysi æskunnar, sem leitar og leitar án þess að finna. Að því leyti kann hún að auka skilning á vandamálum æskunnar nú á dögum, því að naumast þarf að efa, að höf. skrifi eftir eigin reynslu og kunnugleika á málunum. En æðimargt er það sem sem kemur oss heimaalningum nýstárlega fyrir sjónir, og ekki fæ ég að því gert, að fátt var það í sögunni, sem snerti mig, þótt hún sé gerð af verulegum hagleik. Már Kristjánsson: Glöpin grimm. Rvík 1977. Örn og Örlygur. Skáldsaga, sem gerist í sjávarþorpi, þar sem alvaidur kaupfé- lagsstjóri ræður ríkjum. Hann er ekki aðeins mesti atvinnurek- andinn, heldur hefir hann einnig gerst hin menningarlega forsjá staðarins. Söguhetjan er ungur maður, sem víða hefir flækst, en lent þarna í þorpinu til að hvílast um stund úr veraldarvolkinu. Vera má að lýsingarnar af lífinu í þorpinu séu ýktar. einkum þar sem sagt er frá ástalífinu, en margar manngerðirnar koma kunnuglega fyrir sjónir, og ljóst er að höfundur hefir næmt auga fyrir hinu sérkennilega í mannlífinu, og er gæddur nægu skop- skyni til að draga dár að því, sem miður fer. Undir niðri er þó býsna hvöss ádeila, t.d. á hina hóflausu dýrkun á einstökum listamönnum, þótt þeir máli ekki annað en kálgarða og kartöflugras, og séu í rauninni geðsjúkir, finnur lesandinn þar margt af listdómum og staðhæfingum menningarvitanna úr daglega lífinu. Annað mál er svo það, að höfundur hefði getað unnið efnið betur og vandað meira til máls og orðalags, en slík hroðvirkni virðist vera tískufyrirbæri. En fróðlegt verður að sjá næstu sögu höfundar. Hilmar Jónsson: Undirheimarnir rísa. Bókmenntaklúbbur Suðurnesja 1977. Hér hefir höfundur safnað saman nokkrum blaðagreinum, og hnýtt aftan við þær órímuðum ljóðum. Eins og að venju kemur Hilmar víða við, reiðir höggin hátt og fylgir þeim eftir með festu. Hann er í senn skyggn á misfellur þjóðlífsins, það eru kannski fleiri. en hann er flestum djarfari að segja skoðun sína á því, sem honum þykir miður fara, og þar er ekkert tæpitungumál. Víða er komið við. Rithöfunda- og menningarvitaklíkan fær sinn skammt ómældan, og mun Hilmar eiga þar furðustóran flokk skoðanabræðra, en hann reiðir einnig vöndinn að dómsmála- kerfinu, Keflavíkurvelli og ótalmörgu öðru. Menn eins og Hilmar eru nauðsynlegir, því að fyrr eða síðar opnast augu manna fyrir því, sem um er rætt, og þeir fagna því, að rótað skuli upp í fúafeni spillingarinnar. Annars hefir mig stundum furðað á því, hve hljótt er um skrif Hilmars, það er eins og allir þeir, sem svipuhögg hans hitta, kjósi heldur að þegja og sleikja sár sín í kyrrþey en að grípa til varnar, ef vörn er þá til. En fyrr eða síðar hlýtur þeim að svíða svo, að þeir að minnsta kosti reyni að æpa. Haltu því áfram Hilmar. Hallberg Hallmundsson: Neikvæða. Rvík 1977. Almenna Bókafélagið. Varla hefði höfundur getað valið bók sinni betra og sannara nafn en Neikvæða. Hún eröll gegnsýrð af vonleysi. Hvenærsem eitthvað rofar til endar allt á sama hátt með Neii. En allt um hinn neikvæða tón. er bókin samt aðlaðandi. Höfundur fær hugsunum sínum svo viðfelldinn búning. að lesandinn laðast að þeim, finnur til með höfundinunt og verður ef til vill jafn star- sýnt á tómið og tilgangsleysið. Ljóðin eru haglega gerð, stutt, setningar meitlaðar og gömul form og ný oft fléttuð saman af miklum hagleik, svo að lesandinn er jafnvel í óvissu um, hvort hann á að kalla Ijóðið rímað eða órímað. Og þótt hið neikvæða viðhorf sé mér andstætt, og ég vildi raunar kveða brott úr því, sem skrifað er. þá verður því ekki neitað, að hér er skáldskapur á ferð, einlægur og ortur út úr hjartanu. Það gefur bókinni gildi. St. Std. Heima er bezt 143

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.