Heima er bezt - 01.04.1978, Page 36
Guðmundur Daníelsson: Vestangúlpur Garró,
Rvík 1977. Almenna bókafélagið.
Það er alltaf tilhlökkunar efni að fá í hendur nýja skáldsögu eftir
Guðmund Danielsson. Frásagnarstíll hans og frásagnargleði
efar enginn. Hann getur gefið hinum ólíklegustu hlutum líf og
lit. En í þessari sögu kemur fleira til. Hún er svo hlaðin af efni. að
nærri lætur að hún sé ofhlaðin, og bakgrunnur hennar eru þau
afbrotamál, sem fyrir skemmstu vöktu ugg og óhug meðal
þjóðarinnar. Söguhetjan er Viktor. skáldið og sveimhuginn
undan Fjöllunum, sem þrátt fyrir allt bjargast úr öllum háska
með einbeitni sinni og siðferðisþreki. Lesandinn saknar hans að
sögulokum, og er forvitinn um, hvað muni gerast í framtíð hans,
þegar hann hefir brotið allar brýr að baki sér og lætur í haf með
erlendu skipi. Kannske á höfundur eftir að segja frá honum
síðar, en líklega vill hann þó leyfa lesandanum að semja sjálfur
framtíðarsögu hans. En samtímis þroskasögu skáldsins unga eru
svo hinir miklu atburðir, sem gerast kringum hann, og hann
ýmist skynjar óljóst. eða er næstum því flæktur í. Þar eru
manndráp, áfengissmygl og stórfellt fjármálasvindl, allt at-
burðir, sem vér þekkjum úr viðburðum síðustu ára. en eru
dregnir hér miskunnarlaust fram í dagsljósið. en hnikað þó til
svo að þeir falli eðlilega saman við sögu Viktors. Sagan verður
þannig jöfnum höndum einstaklingssaga og þjóðlífsmynd. En
að baki er þó sú hugsun. að heiðarleiki og manndómur bjargi þó
að lokum, en jafnframt að enginn fái umflúið sín illu verk. þegar
reikningarnir eru gerðir upp að lokum. Hinn hrjúfi stíll og hraða
frásögn Guðmundar fellur vel að þessu efni, og sagan er
skemmtilega spennandi, eins og sögur Guðmundar ætíð eru.
Egill Egilsson: Karlmenn tveggja tíma.
Rvík 1977. Helgafell
Ný skáldsaga. nýr höfundur. Þetta má heita orðinn svo hvers-
daglegur atburður. að vér veitum því litlu meiri athygli en aug-
lýsingu um dansskemmtun í einhverju félagsheimili eða klúbb-
húsi. Að vísu má segja að margt hinna nýju sagna, sé ekki meira
virði sem menningaratburður en venjulegt skrall. sem skemmtir
þátttakendunum eina kvöldstund. En svo eru alltaf nokkrar,
sem bíða tjón af þessu afskiptaleysi. Skáldsögur sem eru allrar
athygli verðar og meðal þeirra er hin nýja saga Egils Egilssonar.
Ekki er þó því að neita, að um margt hefði ég kosið hana
öðruvísi. Hún hefði unnið við að vera styttri og víða er orð-
bragðið óþarflega klúrt án þess það þjóni nokkrum tilgangi
nema þeim einum að vera klúrt. En höfundur fvlgir þar tiskunni.
Sagan gerist að mestu í íslensku stúdentanýlendunni í Kaup-
mannahöfn, og minnist ég ekki, að þaðan hafi fyrr verið skrifuð
löng skáldsaga, jafnmargt og þar hefir þó gerst fyrr og síðar. En
þótt margt breytist er manneðlið þó alltaf sjálfu sér líkt. Vafa-
laust er margt ýkt í sögunni, en þó kannast maður við mann-
gerðirnar. Menn eins og don Pedro eru til á öllum tímum. hver
með einkennum sinnar samtíðar. og svo er um fleiri, sem þar
koma við sögu. Einna athyglisverðastar þykja mér lýsingarnar af
fundunum hjá menningarvitanum mikla, sem allir gapa við af
undrun og aðdáun. Má þar finna andblæinn frá trúboði
kommúnista blandað saman við ræfildóm hippanna. Lýsingin á
Silfurrefnum hittir í mark, og ekki getur hjá því farið. að bæði
Silfurrefurinn og gestgjafinn leiði huga manns ósjalfrátt að til-
teknum sannsögulegum persónum. Söguhetjan Ingi er einn
þessara ntörgu ungu manna, sem ætla sér í upphafi að bjarga
þjóðinni eða öllum heiminum. en verður að lokum aðeins eitt
hjól í kerfinu. En þrátt fyrir allt hefir hann þó þann manndóm til
að bera. að fá fyrirlitningu á öllu þvaðrinu og andhælisskapnum
í partíunum hjá gestgjafanum. Vafalaust má finna marga
smíðagalla á sögunni. en meira en þeir vegur dirfska höfundar
við að sína miskunnarlaust ranghverfuna, sem er á lífi margra
þeirra æskumanna, og raunar fullorðinna líka, sem tala hæst um
að endurbæta heiminn. En satt að segja vekursagan ekki traust á
þeim fjölda menntamanna. sem sækja útfyrir landsteinana.
Steinar J. Lúðvíksson: Þrautgóðir á raunastund.
Rvík 1977. Örn og Örlygur.
Þetta er níunda bindið í sjóslysa- og björgunarsögu íslands, sem
Steinar hefir tekið saman. Fjallar það um árin 1916-19 að báð-
um meðtöldum. Það er líkt um þetta bindi að segja sem hin fyrri
í flokknum, að það flytur greinagóða frásögn eftir því sem efni
standa til hverju sinni. og heimildir hafa fengist. Þarsem heim-
iidir eru litlar verður frásögnin annálskennd, en þegar þær eru
meiri. kann höfundur að spinna úr þeim haglega unna frásögn. I
ritsafninu eru rakin öll þau sjóslys, sem sagnir hafa fengist af. og
enn er af miklu að taka. Frásögur þessar eru jöfnum höndum
harmasögur og hetjudáðir. Gildi þeirra er umfram allt hinn
mannlegi þáttur um þær þrekraunir, sem menn hafa háð og sem
betur fer oft sigrast á. Ritsafnið er ómetanlegt fyrir islenska
menningar- og persónusögu.
Gylfi Þ. Gíslason: Jafnaðarstefnan.
Rvík 1977. Almenna bókafélagið
Hér gefur G.Þ.G. greinagott yfirlit um jafnaðarstefnuna, við-
fangsefni hennar. þróun og sögu. En vitanlega er ekki unnt að
rekja svo sögu einnar stjórnmálastefnu. ekki síst þegar hún hefir
haft jafndjúptæk áhrif á framvindu mála í heiminum og jafn-
aðarstefnan, að ekki verði um leið að gera grein í höfuðdráttum
fyrir öðrum meginstraumum í þjóðfélagsvísindum, og rekja í
höfuðdráttum hina pólitísku þróun nú um meira en aldar skeið.
En þetta gerir höf. á mjög skýran og hlutlausan hátt eins og
fræðimanni sæmir. Það tvennt, sem einkum einkennir bók
þessa, er skýrleiki framsetningar og hlutleysi í frásögn. Hún er
þannig fræðibók í besta skilningi orðsins. Það hefir löngum
viljað brenna við hér hjá oss. að menn hafa skipað sér I flokka.
deilt um stefnur þeirra og afrek af miklum tilfinningahita og
jafnvel stóryrðum án þess raunverulega vita, um hvað málið
snýst. þegar kom út fyrir hin auðskildustu dægurmál. Og hafa
ýmsir þeir, sem brotist hafa fram I fremstu víglínu, ekki verið
eftirbátar annarra í vanþekkingunni á þeirri hugmyndafræði,
sem að baki var flokkaskiptingunni. Bók Gylfa bætir hér úr
tilfinnaniegum skorti, og ættu kjósendur. hvar sem þeir eru í
flokki staddir að kynna sér hana áður en þeir ganga að kjör-
borðinu.
St. Std.