Heima er bezt - 01.09.1981, Page 17
Prestar Hólastiftis hinsforna ganga í prósessíu til kirkju.
athygli að konur sóttu skólann ásamt
körlum. Gaman er til þess að vita að
nú löngu seinna, eða næsta vor, verða
á ný útskrifaðir stúdentar í Skagafirði,
frá Fjölbrautarskólanum á Sauðár-
króki.
Talið er að á dögum Jóns Ög-
mundssonar hafi orðið til orðtækið
„heim að Hólum“ og gilti þá einu
hvaðan gest bar að garði, allir komu
heim að Hólum. Gísli Magnússon
heitinn í Eyhildarholti, baráttumaður
fyrir endurreisn Hóla, sagði eitt sinn í
ræðu sem hann hélt í dómkirkjunni á
Hólum: „Þetta örstutta orðtak, þessi
þrjú orð, heim að Hólum, lýsa betur en
löng ræða hvers konar sess staðurinn
skipaði í huga og hjarta fólksins.
Miðað við núverandi ástand felst
raunar í orðtakinu nöturlegt háð.“
Þó svo ýmsir telji veg Hólastaðar
lítinn í dag, þá var hann enn minni
fyrst eftir að biskupsstóll var þar af-
lagður, staðurinn var bókstaflega rú-
inn öllu nema sjálfri dómkirkjunni,
sem gerð var að útkirkju, annexíu.
Prentsmiðjan sem Jón Arason hafði
flutt með sér og haldið hafði nafni
staðarins á lofti lengi, fyrst og fremst
fyrir að þar var íslensk biblía gefin út í
fyrsta sinn af Guðbrandi Þorlákssyni
biskupi, flutt á brott. Þá var niður-
læging staðarins fullkomnuð.
Skagfirðingum og raunar Norð-
lendingum öllum sveið hvernig fyrir
þessu forna höfuðbóli var komið og
hófust handa um endurreisn staðarins
með því að sýslunefnd Skagafjarðar-
sýslu keypti jörðina og stofnaði þar
bændaskólann,
Hólafélagið berst fyrir því að bisk-
upssetur verði að Hólum á nýjan leik
og má segja að árangur af þeirri bar-
áttu sé nokkur. Tillaga kom fram á
Alþingi upp úr aldamótum um að
endurvekja gömlu biskupsdæmin, en
ekki naut sú tillaga meirihlutafylgis á
Alþingi. Þó voru upp úr þvi skipaðir
vígslubiskupar sem kenndir eru við
gömlu biskupsdæmin. Þetta var á
þeim tíma hugsað sem bráðabirgða-
lausn, en hefur haldist síðan. Vígslu-
biskuparnir sitja þó ekki á hinum
fornu biskupssetrum, heldur á Sel-
fossi og Akureyri. Þeim sem barist
hafa fyrir endurreisn biskupsstóls á
Hólum hefur ekki mikið þótt til þess-
arar málamiðlunar koma, enda ekki
von, Hólar verða ekki færðir úr stað
og Hólabiskup mun aldrei geta setið
annars staðar en á Hólum með réttu.
Um þetta sagði Gísli Magnússon: „Ég
óttast að þarna gæti orðið til varanlegs
tjóns sú tískubundna trú, sú ónáttúra
sumra manna, leikra og lærðra, að
svokallaðir æðri embættismenn verði
að eiga heima og hafa embættisbústað
sinn í sem mestu fjölmenni, það sé eigi
samboðið stöðu þeirra og virðingu að
sitja í sveit.“ Á hinn bóginn hlýtur það
að vera ljóst að Hólar sem voru koma
ekki aftur, við endurtökum ekki liðna
sögu, þó svo við getum haft hana að
leiðarljósi í nútímanum. Sá timi er
einfaldlega liðinn þegar Hólar voru
miðstöð andlegs og veraldlegs valds í
landinu. Þrátt fyrir það er ekkert sem
mælir á móti því að biskup gæti setið
að Hólum, það yrði örugglega til þess
að starfsemi kirkjunnar á staðnum
myndi aukast og þeir þræðir sem
þangað leiða myndu styrkjast.
Eins og áður sagði þá hefur Hóla-
hátíð verið haldin í nokkra áratugi og
Heimaerbezt 289