Heima er bezt - 01.09.1990, Side 19
Guðrún E. Jónsdóttir frá Reykjahlíð
Hrognin sótt
Mig langar til að minnast framtaks
afa míns, sem talinn er vera fyrstur
manna á íslandi sem stundaði sil-
ungsrækt.
Afi minn. Einar Frlðriksson, bjó í
Svartárkoti í Bárðardal á árunum
1871-1895. Hann ólst upp í Hrapps-
staðaseli í Bárðardal og stundaði veiði
í Kálfborgarárvatni og veiddi oft vel.
Eftir að hann giftist heimasætunni í
Baldursheinti. Guðrúnu Jónsdóttur.
1868 hóf hann búskap í Syðri-Nes-
löndum í Mývatnssveit sem var þá í
eigu föðursystur hennar. Það var góð
veiðijörð og Mývatnssilungurinn er
annálaður af gæðum. Árið 1871 flytur
hann í Svartárkot 1 Bárðardal. Þegar
hann fer að stunda veiði 1 Svartárvatni
er silungurinn þar bæði lítill og léleg-
ur. Honum hugkvæmdist þá að reyna
að fá frjóvguð hrogn úr Mývatnssil-
ungi og flytja í Svartárvatn.
í Garði við Mývatn var mikil rið-
silungsveiði á haustin. Talaðist svo til
að bóndinn þar, Árni Jónsson, útveg-
aði honum frjóvguð hrogn sem hann
mundi svo sækja og setja í Svartár-
vatn. Mörgum fannst þetta fjarstæða
en hann stóð fast á sínu og sendi son
sinn ungan út í sveit til að sækja
hrognin og læt ég hann segja frá þeirri
ferð:
„Það var 1 nóvember 1883 að faðir
minn sendi mig út í Mývatnssveit að
sækja hrogn sem Árni 1 Garði ætlaði
að útvega. Ég var þá á tólfta ári. Út í
sveit var mér samferða Anna Jóns-
dóttir. Hún var ljósmóðir og var ljósa
sex systkina minna. Hún var að fara í
kynnisför út 1 Gautlönd en þar hafði
hún áður verið vinnukona í ungdæmi
sínu. Ég gisti fyrstu nóttina í Baldurs-
heimi. Þaðan fór ég daginn eftir út í
Garð. Árni lagði net um kvöldið og
morguninn eftir fór ég með honum að
vitja um netin og taka á móti ef að
hrogn kvnnu að fást til frjóvgunar en
það fékkst ekkert. Þetta var á sunnu-
dag og Árni bjóst ekki við að draga og
sendi mig út í Geiteyjarströnd, hélt að
þeir mvndu draga á mánudag. í Garði
var þá staddur Halldór Stefánsson,
mágur Árna. Hann var á líkum aldri
og ég og urðunt við brátt góðir kunn-
ingjar. Hann átti þá heima á Geiteyj-
arströnd og var að fara heim til sín og
urðum við samferða. Þar gisti ég um
nóttina. Ekki ætluðu þeir að draga
daginn eftir, svo ég fór strax um
morguninn til baka fram í Garð. Þeg-
ar ég kom þangað var Árni búinn að
draga, veiða og frjóvga það af hrogn-
unum sem mundu nægja í ílátið sem
ég hafði, en það var tveggja potta
kútur sem annar botninn var sleginn
úr. Fórum við nú að búa um hrognin
og stoppa í hann með blautum mosa.
Síðan lagði ég af stað og stefndi á
Gautlönd. Þar ætlaði ég að gista um
nóttina, en þekkti þar engan nema
Jón Jónsson Gauta. Ég hafði veturinn
áður verið í skóla hjá honum tvær
vikur í Víðikeri. Ég kom við á Sveins-
strönd. hitti þar mann úti. Hann
sagðist heita Sigfús. Ég bað hann að
vísa mér til vegar 1 Gautlönd sem
hann gerði mjög greiðlega. Þar gisti ég
um nóttina og er mér minnisstætt
hvað Jón tók mér vel.
Morguninn eftir var hríðarveður.
Ég ætlaði að fara sem leið liggur í
Stórás og Engidal og var sú leið vel
vörðuð. Þegar ég ætlaði að fara af stað
man ég það vel að fram í bæjardyr-
unum fór Anna að tala um það við
Jón Sigurðsson hvort það væri óhætt
að sleppa mér á heiðina í svona hríð-
arveðri og hélt hann það. „Mér sýnist
á honum að hann muni ekki vera
neinn rati,“ sagði hann. Lagði ég nú
af stað með vörðunum, og hafði gam-
an af að fara með þeim, sá oftast tvær-
þrjár í einu. Ég komst í Víðiker um
kvöldið og daginn eftir heim með
kútholuna. Hrognin voru nú sem
skjótast sett í vatnið austur við Höfð-
ann í grjótbyrgi sem til þess var gert.
Það sást strax um veturinn að hrognin
höfðu frjóvgast. fyrst sáust augu og
síðan lifandi seiði með kviðpoka.“
Flest árin sem faðir minn dvaldi í
Svartárkoti eftir þetta. voru flutt
frjóvguð hrogn úr Mývatnssilungi í
Svartárvatn. Það kom fljótt í ljós að
erfitt var að verja þau fyrir fugli við
Höfðann. Það var því búið til nokk-
urskonar klakhús við botninn á
Myllulæknum og þar voru hrognin
látin klekjast út.
Þessi drengur sem fyrstur manna
bar hrogn á milli vatna á íslandi varð
síðar bóndi í Reykjahlíð við Mývatn
og var faðir minn, Jón Frímann Ein-
arsson, og á ég þessa frásögn ritaða af
honum sjálfum. Þetta framtak afa
míns gerði Svartárvatn að góðu veiði-
vatni og þegar hann flutti í Reykjahlíð
1895 var þar fremur lítil veiði og
saknaði hann þá mest góðu veiðinnar
úr Svartárvatni.
Afi minn var mjög natinn veiði-
maður enda átti hann alltaf heima við
veiðivötn og hafði öll möguleg ráð til
að veiða bæði sumar og vetur, hvort
sem var undir ís eða á auðu vatni, og
þegar ég hafði aldur til og hann var
kominn á efri ár, var ég oft með hon-
um við veiðiskapinn.
Við fórum vítt og breitt um allan
Ytriflóann og áttum þar mörg góð
mið, sem ég man vel enn. Frá þessum
veiðiferðum okkar afa á ég margar
ógleymanlegar minningar.
Skrifað í mars 1990.
Heimaerbezt 287