Nýjar kvöldvökur - 01.10.1941, Side 8
150
KENNIMAÐUR
N. Kv_
vinnu, sem hún ekki þurfti nauðsynlega
að inna af hendi. Hann hafði það til að
verða önugur, ef hún skrapp út á túnið til
mótbýlisfólksins, til þess að hjálpa þvi
við heyskapinn, og hann brást reiður við,
þegar hún sagði honum, að hún væri far-
in að læra að mjólka. Hann kærði sig
ekki um, að hún sliti sér út á því að
ganga í skítverkum að þarflausu. Henni
féll þetta illa, því að henni féll alltaf svo
illa að horfa á aðra vinna, en sitja sjálf
auðum höndum.
Þetta var sannarlega að vakna upp við
vondan draum. Æfintýrið var ekki lengur
til. Nú lá hún þarna með tómleika í hjart-
anu og gat ekki lengur horft vonglöð
fram á við; hún gat aðeins starað saknað-
araugum eftir því, sem liðið var, og því,
sem átti að verða, en aldrei mundi koma.
Hún reis upp og byrjaði að afklæða sig
hægt og rólega. Fötin þrengdu svo að lík-
amanum, að henni varð þungt um and-
ardrátt. Hún hætti ekki fyrri en hún stóð
allsnakin og lét sólina skína á líkama
sinn, sem var heitur eins og glóð. Svo
gekk hún að fossinum, sem hríslaðist
fram af þverhníptu bjarginu, stóð þar
litla stund hikandi, en gekk svo inn undir
úðaregnið og lét það steypast yfir sig.
Það var ekki kaldara en svo, að henni
fannst það aðeins veita þægilega svölun.
Þetta kældi hitann í blóði hennar, og ró
og vellíðan færðist um hana alla. Eftir að
hafa staðið þar dálitla stund, hljóp hún
aftur út á grasið, lagðist þar endilöng og
teygði handleggina upp fyrir höfuð. Það
var svo notalegt að láta sólina þurrka
húðina. Þetta var ekki í fyrsta sinn, sem
hún fékk sér svona bað, og henni hafði
alltaf fundizt það endurnæra sig og
styrkja.
Hún velti sér til, svo að sólin gæti náð
til þess að þurrka allan líkama hennar.
Þegar hún var orðin vel þurr, stóð hún á
iætur, hljóp nokkra spretti aftur og fram,
til þess að mýkja öll liðamót. Svo fór hún
að klæða sig hægt og gætilega, eins og
henni væri það raunar þvert um geð að
fara aftur í fötin, á meðan veðrið var
svona gott.
Þegar hún hafði klætt sig til fulls, gekk
hún fram á brún skálarinnar. Þaðan var
hið bezta útsýni yfir dalinn og hlíðina
fyrir neðan. Þar lagðist hún niður og
renndi augunum yfir hið fagra útsýni,
sem birtist henni.
Sólin var farin að halla til vesturs. Á
mörgum bæjum sá hún fólk við heyþurrk.
í sveitinni má ekki láta nokkurn dag
ónotaðan, þegar annirnar eru sem mestar.
Á sumum bæjunum var heyið sett upp í
sæti, á öðrum var það bundið inn í
hlöðu. Hún óskaði sér heim á einhvern
bæinn, þar sem hún gæti tekið sér hrífu
í hönd og hjálpað til við að taka saman
eða binda. Hún öfundaði fólkið af vinn-
unni. Ef til vill var það ekki allt í góðu
skapi yfir því að mega ekki hvílast á
sunnudegi. Ef til vill óskaði það öllu
striti norður og niður. Ef svo var, vissi
það áreiðanlega ekki, hvað það var að
veslast upp af iðjuleysi. Ef það vissi, hvað
starfið er öllu öðru betra, til þess að vinna
bug á óþægilegum hugsunum, mundi það
blátt áfram falla fram og tilbiðja það.
Mesta vandamál mannkynsins er það, að
sumir hafa of mikið að gera, en aðrir allt
of lítið.
Hún sá ríðandi mann koma utan bakk-
anna. Þegar hann nálgaðist, sá hún, að
þetta var maðurinn hennar. Hún and-
varpaði, ekki samt beinlínis af feginleik,
því að það þýddi að hún varð að flýta sér
heim. Hann var óvenju fljótur í ferðum,
jafnvel þó að um messufall væri að ræða.
Hún reis seinlega á fætur og hélt heim-
leiðis, en hún flýtti sér ekki. Maður henn-
ar var því fyrir góðri stundu kominn
heim á undan henni. Þegar hún kom heim
á hlaðið, mætti hún honum.