Ægir - 01.04.2000, Blaðsíða 28
Dagbjartur Geir var á
sinum tíma meóal þeirra
sem stóðu að útgerð
Keflvíkings, sem var um
árabil stærsta skip á
Suðurnesjum. Hér má sjá
myndir af skipinu og
prúðbúinni áhöfn á
síldarárunum
á Siglufirði.
í Grindavík. Allir hafi þessir bátar sótt á svipuð mið
en þrátt fyrir það hafi aldrei komið upp umræða um
ofsókn í fiskistofnana á viðkomandi svæðum.
„Það er ekki hægt að bera aðstæðurnar núna saman
við það sem þá var. Núna göngum við hart fram í
veiðum á loðnu en á þessum árum voru loðnuveiðarn-
ar ekki þekktar og fiskurinn sem veiddist var úttroð-
inn af loðnu. Þorskurinn óð í loðnutorfunum og þetta
mikla framboð af æti varð þess auðvitað valdandi að
vaxtarhraði þorsksins var miklu meiri en við getum
búist við í dag.“
Flotinn ósigrandi. „Þessi fiskiskipafloti átti mikinn þátt i aó byggja upp atvinnu í
þjóðfélaginu án skömmtunar og þvingana á einn eða annan hátt, og án þess að ganga
að fiskistofnunum. Samt varð hann að vikja fyrir ofurveiðiskipunum," segir Dagbjartur.
Dagbjartur segir að kvótakerfið og frjálsa framsalið
hafi búið til spennu og kapphlaup sem ekki sé hollt.
„Hugarfarið hjá okkur sjómönnunum fyrr á öldinni
var að gæta hófs í veiðum og umgengni við auðlind-
ina en síðan voru það veðurguðirnir, fiskigengd og
aðrir þættir sem höfðu áhrif á veiðarnar. Mér finnst
fyrst og fremst að takmarkanirnar í dag komi órétt-
látt niður og þeir sem minnsta sneið fá af kökunni
geta ekki rekið sín heimili og haldið bátunum við.
Það er staða sem ég hef miklar áhyggjur af fyrir hönd
smábátasjómanna," segir Dagbjartur.
„Eg held að við séum komin á þann tímapunkt að
við þurfum að losa okkur frá þessu framsalsæði í kerf-
inu og útdeila á réttlátari forsendum gagnvart byggð-
inni í landinu. Ef menn tala um að það sé hagræði
fólgið í framsalinu þá held ég að það sé blekking þeg-
ar upp er staðið."
Sjómennskan heldur mönnum gangandi
Dagbjartur segir að vísast komi yfir hann mikil löng-
un að fara að róa þegar sól hækkar á lofti og kemur
fram á sumar. Hann dregur ekki dul á að sjómennsk-
an, og ekki hvað síst smábátasjómennskan, sé mann-
bætandi starf.
„I minningunni eru margar myndir í huganum frá
síldarárunum á Siglufirði og því að vera í mokfiskiríi
í sólarlagi á Grímseyjarsundi. Sjómennskan er til-
breytingamikið starf og enginn dagur eins.“
- En fylgifiskur sjómennskunnar eru líka óblíð veð-
uröflin. Þú kynntist því sennilega best í Pourquoi Pas
- óveðrinu árið 1936?
„Já, þetta var 16. september árið 1936. Þá reri ég á
bátnum sem ég sagði frá í upphafi og við vorum tveir
á. Upp úr klukkan fjögur skall veðrið á og ég var þá
nýbúinn að kasta. Pourqoi Pas var þarna í nágrenni
við mig við Garðsskagann og ég sé að skipstjórinn
virtist snúa undan á leið sinni suður fyrir land og til
Frakkalands og sneri aftur til Reykjavíkur. Norðan-
áttin var hins vegar svo stíf að þangað komst skipið
aldrei heldur hraktist norður undir Mýrar og fórst
þar.
Strax og við gerðum okkur ljóst hversu slæmt þetta
veður ætlaði að verða bundum við allt niður eins og
hægt var og héldum til lands. Eg ákvað að stefna á
Leiruna, sem er stutt innan við Garð, og brotlenda
þar ef ekki vildi betur. Eg sá aldrei land til þess þan-
nig að ég fór inn undir Vogastapann, barðist á móti
veðrinu og þetta tók mig um níu klukkustundir
þangað til ég komst inn til Keflavíkur. Þá höfðu
margir talið okkur af en pabbi sagði alltaf við bræð-
ur mína að það yrði erfitt hjá mér en vonandi tækist
mér að ná til lands í þessu illviðri."
- Varstu smeykur?
„Eg veit ekki hvort hægt er að tala um hræðslu við
svona aðstæður. Það er eins og maður fái einhvern
aukamátt og mín heppni var að sænska díselvélin
gekk allan tímann og báturinn stóðst álagið. Sannast
sagna var ég allur aumur í skrokknum dagana á eftir
en þegar við fórum að skoða vélina í bátnum þá kom
í ljós að hún hafði dregið inn á sig sjó og sennilega
hefði hún ekki gengið nema fáeinar mínútur í viðbót-
ar. Það má sannarlega segja að einhver hafi rétt mér
hjálparhönd á meðan á þessu stóð,“ segir Dagbjartur
Geir Guðmundsson.