Hlín - 01.01.1936, Síða 34
32
Hlín
mensku, þá reyndi á þor og þrautseigju, þá reyndi á
framsýni og fyrirhyggju, þá reyndi á nýtni og nægju-
semi. Þá reyndi á þann eiginlegleika að vera ávalt við
öllu búinn, stríðu sem blíðu, að kunna að haga seglum
eftir hverskonar vindi, svo ekki bæri í strand, heldur
til lands, þar sem bjargast mætti á einhvern hátt.
Já, íslensk náttúra er fögur, bæði til láðs og lagar
í ljómandi langdegis birtunni. Sú fegurð og sú tign
hlaut að setja stimpil sinn á eðlisfar þjóðarinnar, og
hefur gefið henni fagrar, bjartar hugsjónir, gert hana
glöggskygna og gáfaða, ráðvanda og ærukæra. Vetr-
armyrkrin, löng og dimm, hafa runnið henni í merg
og bein og gert hana hugsandi, þögula, dula. Dýrð og
leiftur norðurljósanna finst mjer muni hafa örvað hug-
myndaflugið og getið af sjer skáldskapargáfuna, — og
alt þetta hjá konum jafnt sem körlum.
Tímabilið áður en vesturferðir hófust var ekkert
gullaldartímabil í sögu íslands. Ljelegt stjórnarfar og
útlend verslunareinokun gerðu þjóðina efnalega ó-
sjálfstæða. Almenningur var fátækur og átti lítils úr-
kosta. Það var því ekki að furða, þó rót kæmist á hugi
manna, þegar fregnir um auðæfi og fjölbreytt tæki-
færi Vesturlandsins bárust heim. Þá var það að vest-
urferðir hófust. Þá var það að hópar íslenskra kvenna
og karla lögðu út á leiðina til vesturs. Flest var þetta
fólk efnalítið eða efnalaust. Alt var það fáfrótt um
landið, sem það stefndi til, og gerókunnugt lifnaðar-
háttum, atvinnuvegum og öllum lífsskilyrðum þar.
Fátt af því skyldi orð í tungumáli landsins eða gat gert
sig skiljanlegt. En alt vonaði það fastlega, að þar
mundi mögulegt að komast til fjár og frama. Og alt
hafði það þann fasta ásetning að beita öllum lífs og
sálar kröftum til að ná því takmarki.
Margt sporið á vesturvegi reyndist þungt. Fyrsta
sporið, það að kveðja og yfirgefa alt það kæra, án von-