Fréttablaðið - 03.05.2010, Blaðsíða 8

Fréttablaðið - 03.05.2010, Blaðsíða 8
8 3. maí 2010 MÁNUDAGUR Guðlaugur Þór Þórðarson þáði 24,8 milljónir í styrki fyrir þingkosn- ingarnar 2007, meira en nokkur annar frambjóðandi samkvæmt upplýsingum Ríkisendurskoðunar. Vegna þessa hafa heyrst kröfur um að hann segi af sér þingmennsku og fólk hefur látið óánægju sína í ljós við heimili hans. Guðlaugur svaraði spurningum Fréttablaðsins um málið. Þú þáðir langhæstu styrkina af öllum þeim sem tóku þátt í prófkjörum fyrir þing- kosningarnar 2007, bæði í þínum flokki og öðrum, og líklega hæstu styrki sem stjórn- málamaður hefur nokkru sinni þegið á Íslandi. Hvernig stendur á því? Af hverju stóðu svona stórkostlegir styrkir þér til boða og af hverju þáðirðu þá? „Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að menn séu með ákveðnar staðreyndir á hreinu. Það hefur verið mjög misjafnt hvernig hefur verið staðið að þessum prófkjörum. Það er fullkomlega ómögulegt að bera saman til dæmis þessi litlu prófkjör sem rétt yfir þúsund manns taka þátt í eða prófkjörin sem voru hér í Reykjavík sem voru stærstu prófkjörin. Síðan voru menn ekki bókhalds- eða framtalsskyldir og Ríkisendurskoðun skoð- aði ekkert þessa styrki. Það er ekki henn- ar hlutverk að sannreyna eða fara ofan í þær upplýsingar sem henni eru sendar. Ég ákvað hins vegar þegar ég fór í prófkjör, bæði 2002 og 2006, að fara eftir ströngustu reglum sem hægt var að finna, en það voru leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar. Þannig að ég gaf upp og upplýsti um allt sem sneri að prófkjörinu. Í bókhaldi framboðsins er gerð grein fyrir öllum útgjöldum og kvitt- anir fyrir þeim öllum. Það er eitthvað sem ég get náttúrlega ekki séð eftir. Á þessum tíma var ég að fara í afskaplega stórt próf- kjör, gegn sitjandi ráðherra sem átti vísan stuðning öflugra bakhjarla. Ég er ekki stór- eignamaður og ekki af auðugu fólki kominn, og hef þurft við þessar aðstæður að þiggja styrki í mín prófkjör. Þetta voru þær leik- reglur sem voru í gildi á þeim tíma og það er ekkert hægt að fullyrða um hver hafi verið með mestu styrkina eða stærsta prófkjörið. Það bara vitum við ekki.“ Ertu að segja að það séu einhverjir fram- bjóðendur sem hafi ekki skilað fullum upp- lýsingum um sín prófkjör til Ríkisendur- skoðunar? „Ég er ekki að segja það. Það að ætla að draga saman upplýsingar um hverjir styrktu frambjóðendur svo löngu á eftir mun aldrei verða annað en ófullkomin til- raun svo ég vitni í orð formanns Sjálfstæð- isflokksins. Þannig að ég er bara að benda á hið augljósa, sem allir ættu að vita, að það er mjög erfitt að bera þessi prófkjör saman. En menn geta skoðað málin og dregið þá ályktun að það hafi einhverjir aðilar farið svipaða leið og ég, í það minnsta.“ Hvað áttu við með því? Af hverju getur maður dregið þær ályktanir? „Þú sérð bara til dæmis í því prófkjöri sem ég fer að í fimmta sæti er aðili sem fær styrki upp á einhverjar fimmtán eða sautján milljónir miðað við þessar upplýsingar.“ Nú hefur þú sjálfur sagt að styrkirnir til þín hafi verið of háir. „Það hefur alla tíð verið vitað að menn væru að auglýsa og nota ýmislegt sem kost- aði peninga í prófkjörum. En við erum að sjá það núna með rannsóknarskýrslunni að það er svo margt sem við ákváðum að ræða ekki um og halda leyndarhjúp yfir. Það var mjög óskynsamlegt. Þess vegna kemur það mörgum á óvart – og kannski flestum – að það hafi verið töluverður kostnaður í tengsl- um við prófkjör. Mig minnir að framlag ríkisins til stjórn- málaflokkanna á ári sé núna 370 milljónir og síðan eru framlög einstaklinga og lög- aðila ofan á það. Þetta er nú kostnaðurinn við lýðræðið. Það er ekki eins og menn noti þetta í kaffikostnað. En auðvitað hefðum við átt að setja þær reglur sem við erum með núna miklu fyrr. Það er allra hagur, ég tala nú ekki um frambjóðenda, að það séu skýr- ar reglur um þessa hluti og gegnsæjar. En við vorum búin að breyta reglunum fyrir hrun og ég held að það hafi verið gott og skynsamlegt.“ Fyrst þú minnist á reglurnar: Á sama tíma og þú þáðir þessa styrki, og hafðir einnig milligöngu um að afla Sjálfstæðisflokknum tugmilljóna frá fjármálafyrirtækjum, sast þú í nefnd sem mótaði og lagði fram frum- varp að lögum gegn nákvæmlega þeirri hátt- semi. Af hverju vannstu að slíkri lagasetn- ingu þegar þú virðist ekki hafa verið ýkja mótfallinn því sem lögin áttu að hindra? „Það er nú ákveðinn misskilningur í þessu. Í fyrsta lagi gera nýju lögin ráð fyrir framlögum frá fyrirtækjum og síðan lá fyrir, og það vissu allir, að flokkarnir höfðu þetta ár til að safna fjármunum. Ég hafði ekki milligöngu um þetta eins og margoft hefur komið fram. Það sem ég gerði hins vegar, var að ég hvatti nokkra aðila sem síðan fóru í fjármálaráð Sjálfstæðisflokks- ins, að safna peningum. Aðrir veittu styrkj- unum viðtöku og samþykktu þá. Þegar frumvarpið er síðan lagt fram hefur það að geyma í raun sama prinsipp og ég setti mér sjálfur varðandi styrki, þótt í frumvarpinu hafi verið lægri upphæðir, að þeir væru frá mörgum aðilum en prófkjörið ekki bara borið uppi af einum eða tveimur. Það eru hins vegar margir aðilar sem voru jafnvel með alla baráttuna borgaða af einum aðila. Það hefur verið lítil umræða um það. Frumvarpið kom inn í þingið í desember og prófkjörinu lauk í október.“ Þú talar um dreifingu þinna styrkja. Eftir sem áður varstu með milljón eða meira frá níu fyrirtækjum og fimm einstaklingum. Finnst þér það eðlilegt? „Ég var að lesa kafla Huldu Þórisdóttur í rannsóknarskýrslunni, sem hefur bent á hið augljósa: að það er mjög erfitt að nota reglustiku nútímans aftur í tímann. Auðvit- að hefði maður gert hlutina allt öðruvísi ef maður hefði séð þetta fyrir. Það segir sig sjálft.“ Hvað er það sem þú veist í dag en vissir ekki þá sem gerir það að verkum að þú sérð að þetta var ekki eðlilegt? „Þá er ég nú að vísa til þess að efnahags- kerfi okkar stóð ekki þeim traustu fótum sem við héldum. Þótt ég haldi að mistök okkar í Sjálfstæðisflokknum hafi fyrst og fremst verið að fylgja ekki betur eftir þeim hugmyndum og hugsjónum sem við stöndum fyrir – og ég tel að við höfum vikið af leið í þeim efnum.“ Hefði verið eðlilegra að þiggja háa styrki ef fjármálakerfið hefði staðið traustum fótum? „Þetta er umhverfið sem maður bjó við. Þetta umfang var fyrir allra augum og menn ræddu það í fjölmiðlum og annars staðar. Það hefði verið mjög erfitt fyrir mig að ákveða að gjörbylta kerfinu og setja mér styrkjahámark í þeirri baráttu sem ég stóð í. Ég var hins vegar afskaplega ánægð- ur með að ég skyldi fylgja minni sannfær- ingu og taka þennan slag þótt það hafi verið útskýrt fyrir mér af valdamiklum aðilum að ég mundi hafa verra af og það mundi vinna gegn mér alla ævi ef ég vogaði mér að gera þetta.“ Hvaða valdamiklu aðilum? „Það var fyrrverandi ritstjóri sem gerði það. Hann útskýrði fyrir mér að Sjálf- stæðisflokkurinn samanstæði af nokkrum fjölskyldum og ég væri ekki inni í neinni þeirra.“ Ertu að tala um Styrmi Gunnarsson? „Það verður bara hver og einn að geta í það en ég held að þegar menn skoða skrif ýmissa aðila þá sjái menn þá hluti í sam- hengi. Ég hins vegar fylgdi minni sann- færingu og ég held að það hafi verið ein af ástæðum þess að framboð mitt fékk þennan breiða stuðning. Ég hef alltaf haft afskap- lega mikinn stuðning, og þótt fjárhagslegi stuðningurinn skipti miklu þá helst hann í hendur við þá stemningu sem er hverju sinni. Það er almennt auðveldara fyrir þá frambjóðendur sem gengur vel að afla styrkja. Þar sem er lengri hefð fyrir þessu og meira gegnsæi, eins og í Bandaríkjun- um, þá er sá frambjóðandi sem hefur safn- að mestum fjármunum Barack Obama. Ég er ekki að bera mig saman við hann á neinn hátt en hins vegar helst þetta oftar en ekki í hendur.“ Almenningur kallar eftir því að þeir stjórnmálamenn sem höfðu of náin tengsl við viðskiptalífið axli ábyrgð og segi af sér. Tveir félagar þínir úr þingliði Sjálfstæðis- flokksins hafa vikið, tímabundið að minnsta kosti, beinlínis vegna slíkra tengsla. Hefur þú velt því fyrir þér að fara sömu leið? „Nei, ég hef ekki gert það. Enda held ég að þegar menn skoða mín verk af ein- hverri sanngirni þá geti þeir ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að ég hafi verið að vinna með hag almennings að leið- arljósi og svo sannarlega ekki látið neina aðra hagsmuni þvælast fyrir því. Ef menn skoða hvernig ég fór að því að lækka lyfja- verð held ég að menn komist að þeirri nið- urstöðu að ég hafi ekki verið að gera neitt annað en að ganga þvert á hagsmuni pen- ingaaflanna í þjóðfélaginu, ef við getum kallað þau það.“ Í upplýsingunum til Ríkisendurskoðun- ar gefurðu ekki upp nafn neins þeirra sem styrkti þig. Af hverju ekki? „Styrkirnir voru veittir á grundvelli nafn- leyndar og ég mun ekki birta nöfn nema það sé búið að fá samþykki fyrir því. Það gild- ir það sama um mig og Sjálfstæðisflokkinn og að því er ég best veit alla frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Hins vegar hefur nú mikið af þessu komið fram þótt menn hafi tilhneigingu til að gleyma því.“ Hefurðu leitað eftir því að þessir aðilar gefi sig upp? „Það hefur ekki verið farið í það með skipulegum hætti að fá aðila til að gefa sig upp en það gæti vel orðið. Ég hefði samt haldið að þegar menn sáu að þetta voru um 40 aðilar sem styrktu þetta prófkjör þá myndu menn meta að það væri verið að gera þetta eftir þeim prinsippum sem við viljum hafa í svona prófkjörum.“ Að óánægjunni. Mótmælendur söfnuðust saman heima hjá þér í gær (í fyrrakvöld). Hvað finnst þér um það? „Ef einhver heldur að svona mótmæli beinist gegn öðrum en börnum þá er það bara misskilningur. Fólk má mótmæla mér hvar og hvenær sem er og ég get hitt þetta fólk, en fyrir utan heimili manns – það er ekki gott. Heima hjá mér er mjög stutt frá götu í glugga og þarna voru einhverjir ein- staklingar sem stóðu fyrir utan og veifuðu til barnanna inn um glugga. Við fengum enga viðvörun áður en þetta gerðist þannig að við gátum því miður ekki undirbúið börn- in en við erum búin að búa þau undir það núna að svona verði ástandið næstu vikurn- ar og mánuði. Það er bara eitthvað sem við þurfum að lifa með. En ég vona að ég verði sá síðasti sem lendir í þessu.“ Hefurðu skilning á reiðinni? „Ég hef skilning á því að fólk sé reitt. Ég held að allir Íslendingar hafi fundið fyrir því. Það er auðvitað okkar verkefni að skoða það sem miður fór, sjá til þess að þeir sem bera ábyrgð axli hana en síðan verðum við að vinna okkur út úr þessu. Og við erum ekki að því. Ég hef lagt til að við skoðum sérstaklega hvernig farið hefur verið með skuldara og skuldug fyrirtæki frá hruni. Við verðum að upplýsa um afskriftir því það verður aldrei sátt um þessar miklu afskriftir sem verður að fara í fyrr en allir verða meðvitaðir um hverjir hljóti þær og á hvaða forsendum það er. Auðvitað þurfum við sömuleiðis að skoða Icesave-málið og það á setja þetta tvennt í farveg eins og rannsóknina á bankahruninu þannig að við fáum upplýsingarnar á borðið og getum tekið afstöðu til þeirra. Á sama hátt er lífsnauðsynlegt fyrir þessa þjóð að horfa fram á veginn og fara að taka á þeim verkefnum sem fram undan eru. Við þurfum að endurskipuleggja þá þjónustu sem við erum með og viljum halda – ég segi ekki alveg frá grunni – en hins vegar þurf- um við að forgangsraða þar og skipuleggja upp á nýtt.“ En heldurðu að endurreisnin muni tak- ast ef hluti þjóðarinnar vantreystir svona ofboðslega hluta kjörinna fulltrúa eins og hefur sýnt sig? „Mér sýnist nú að það sé almennt van- traust í þjóðfélaginu sem eitt og sér er afar alvarlegt mál. Það er verkefni okkar í stjórnmálum að vinna að okkar hugsjón- um og standa á okkar sannfæringu. Síðan þurfum við að fara fyrir dóm kjósenda og ég mun gera það glaður og fagna því.“ Þetta er kostnaðurinn við lýðræðið EKKI Á ÚTLEIÐ Guðlaugur Þór fékk 24,8 milljónir í styrki fyrir kosningarnar 2007. Vitað er að tvær milljónir komu frá Baugi, tvær frá FL Group, ein og hálf frá Landsbankanum og ein frá Kaupþingi. Ekkert hefur verið gefið upp um hinar 18,3 milljónirnar. FRÉTTABLAÐIÐ / VALLI FRÉTTAVIÐTAL: Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins STÍGUR HELGASON stigur@frettabladid.is

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.