Fréttablaðið - 29.01.2011, Blaðsíða 20
20 29. janúar 2011 LAUGARDAGUR
S
amtök atvinnulífsins
hafa lagt áherslu á
að stjórnvöld komið á
hreint hvaða breyting-
ar verði gerðar á fisk-
veiðistjórnunarkerfinu
áður en gengið verði frá almennum
kjarasamningum. Þetta vakti hörð
viðbrögð hjá viðsemjendunum, og
hefur ASÍ af því tilefni sagt að
atvinnurekendur séu að taka samn-
ingaviðræðurnar í gíslingu.
Vilmundur Jósefsson, formaður
Samtaka atvinnulífsins (SA), segir
hörð viðbrögð ASÍ hafa komið sér
algerlega í opna skjöldu.
Hvers vegna setur SA fram þessa
kröfu, hvert er markmiðið með
því að tengja saman með þessum
hætti kjarasamninga og breytingar
á fiskveiðistjórnunarkerfinu?
Í reynd er það þannig að sjávar-
útvegurinn hefur ekkert fjárfest í
tíð þessarar ríkisstjórnar. Það telj-
um við algerlega óásættanlegt ef
við ætlum að komast út úr þessari
kreppugröf sem við erum í. Sjáv-
arútvegsmálin eru búin að þvæl-
ast fyrir ríkisstjórninni, hún er
búin að halda þessu í gíslingu frá
því hún komst til valda. Það er ekki
eins og við séum stödd á byrjunar-
reit, við erum að mínu mati komin
svo langt að það er aðeins handa-
vinnan eftir.
Það var skipuð sáttanefnd undir
forystu Guðbjarts Hannessonar
sem komst að niðurstöðu um fram-
tíð fiskveiðistjórnunarkerfisins í
september síðastliðnum. Þar náð-
ist sátt um svokallaða samnings-
leið, sem er í grundvallaratrið-
um sú sama og gildir fyrir aðrar
auðlindir á Íslandi.
Við teljum það í raun krafta-
verk að þessi hópur hafi náð svo
langt að það sé sátt í sjávarútvegi
í sjónmáli. Menn hafa flogist á um
sjávarútveginn áratugum saman.
Það hefur varla nokkurt mál verið
jafn mikið í umræðunni og skipt
þjóðinni jafn mikið í fylkingar og
sjávarútvegurinn.
Nú eru komnir fjórir mánuðir
frá því sátt náðist um samninga-
leiðina, en enn hefur ekkert komið
frá ríkisstjórninni. Sjávarútvegur-
inn getur ekki staðið undir þessu.
Þetta eru ekki starfsskilyrði sem
hægt er að sætta sig við. Nú þegar
við erum að reyna að komast upp
úr kreppunni þurfum við virkilega
á því að halda að sjávarútvegurinn,
sem er okkar sterkasta atvinnu-
grein, geti farið að vinna af krafti
og byrjað að fjárfesta.
Það er mikil óvissa í sjávarútveg-
inum, það er verið að véla um fram-
tíðina og það stendur öllu fyrir þrif-
um að því máli sé ekki lokið. Það er
útilokað að fara út í fjárfestingar ef
hættan er sú að komið verði í bakið
á útgerðarfyrirtækjunum eftir ein-
hvern tíma með breyttum forsend-
um. Við teljum að þetta geti ekki
gengið svona, það er hagur alls
atvinnulífs í landinu að þessi mál
séu kláruð.
Ég veit til dæmis ekki til þess að
það hafi verið pantað eitt einasta
skip til landsins í nærri tvö ár. Við
vitum hvað verður um greinar
sem ekki fjárfesta, þær drabbast
niður, flotinn drabbast niður. Þetta
er bara augljósa dæmið, það eru
engar aðrar smærri fjárfestingar
í gangi hjá sjávarútveginum.
Það eru fyrirtæki í öllum geir-
um sem eru háð sjávarútvegin-
um að einhverju leyti, þjónusta og
annað slíkt. Þetta teygir sig út um
allt atvinnulífið. Það er gott fyrir
ferðaþjónustuna, iðnaðinn, versl-
un og þjónustu að það gangi vel í
sjávarútveginum.
Hugsa um atvinnulífið í heild
Útgerðir og fiskvinnslur eru um
fimmtungur af aðildarfyrirtækj-
um aðildarfélaga SA, og þar er
unninn tæpur fimmtungur af árs-
verkum fyrirtækja innan aðild-
arfélaga SA. Er rétt af SA að láta
almenna kjarasamninga stranda
á hagsmunamáli þessara aðildar-
fyrirtækja?
Ég tel ekki að við séum að gera
það, við erum að hugsa um atvinnu-
lífið í heild sinni. Hverjir eru að fá
hörðustu kröfurnar í upphafi þess-
arar samningalotu? Það er sjávar-
útvegurinn. Menn eru að tala um
20 til 30 prósenta launahækkanir
fyrir ákveðinn hóp fólks. Við vitum
alveg hvað gerist ef það verður
gengið að þessu. Það leiðir út í allt
samfélagið í formi verðbólgu, og
þar af leiðandi atvinnuleysi.
Átt þú von á að þessi áhersla SA
á fiskveiðistjórnunarkerfið í kjara-
viðræðunum falli í góðan jarðveg
hjá fyrirtækjum í öðrum geirum?
Það er rétt að taka fram að okkar
stefna nýtur fullkomins stuðnings
bæði stjórnar og fulltrúaráðs SA.
Ég er ekki í nokkrum einasta vafa
um að það eru einhverjir sem líta
þannig á að við séum að fara of
mikið fram fyrir svokallaða kvóta-
kónga. En það er ekki þannig, við
erum að hugsa um atvinnulífið í
heild sinni.
Það vill svo til að sjávarútveg-
urinn er uppi á borðinu í dag og
við þurfum að berjast fyrir hann.
Iðulega höfum við verið ásakaðir
um að vinna bara fyrir stóriðjuna.
Stundum erum við eingöngu sagðir
hugsa um iðnaðinn. Þetta er bara
spurning um hvað er uppi á borðinu
í það skiptið.
Þið gagnrýnið að niðurstöður
sáttanefndar í sjávarútvegi hafi
ekki orðið að lagafrumvarpi og svo
lögum. Niðurstöður nefndarinnar
voru meðal annars þær að kveðið
verði á um þjóðareign á auðlindinni
og samið um nýtingu auðlindarinnar
við útgerðarmenn, væntanlega gegn
mun hærra gjaldi en því sem nú er
innheimt. Er þetta sú niðurstaða
sem SA er að tala fyrir?
Langstærsti hluti starfshópsins
komst að þeirri niðurstöðu að þessi
svokallaða samningaleið væri sú
leið sem bæri að fara til að skapa
sátt. Þar voru inni bæði fulltrúar
LÍÚ og fiskvinnslunnar, sem stóðu
að þessari sátt. Þeir eru búnir að
lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir til
að fara þessa samningaleið.
Þá er það eina sem út af stendur
að ganga frá lögum í samræmi við
þessa sáttaleið. Við teljum að það
sé útlátalaust fyrir ríkisstjórnina
að girða sig í brók og fara að klára
einhver mál svo við getum farið að
koma okkur upp úr þessari djúpu
holu sem við erum í en ekki halda
áfram að moka á botninum.
Hluti af slíkri lagasetningu væri
þá að ákveða til hversu langs tíma
á að leigja auðlindina, og hversu
hátt endurgjald útgerðarmenn eiga
að greiða fyrir að veiða fiskinn í
sjónum. Er mögulegt að ná niður-
stöðu um það á þeim tíma sem til
stefnu er til að ljúka gerð kjara-
samninga?
Að sjálfsögðu, það er eitthvað
sem þarf að ná niðurstöðu um. Það
er verið að greiða ákveðið gjald í
dag, en það hefur ekki verið tekin
afstaða til þess hversu mikið end-
urgjald á að koma fyrir afnot af
auðlindinni. Það hefur ekki verið
gefið upp hvað menn vilja þar, eða
hversu langur samningstíminn
myndi verða. Það er eitthvað sem
þyrfti að ræða við hagsmunaaðila
og reyna að komast að niðurstöðu.
Ég tel að ríkisstjórnin hafi mikla
möguleika til að ná sátt um þetta
mesta áflogamál þjóðarinnar. Ef
menn myndu virkilega leggja sig
fram er hægt að ná niðurstöðu
um þetta hratt og vel. En á meðan
menn eru hver í sínu horni að fljúg-
ast á um þessa hluti gerist ekkert.
Áhyggjur af atvinnuleysinu
Viðbrögð miðstjórnar ASÍ við þess-
ari kröfu hafa verið afar hörð. Er
réttlætanlegt að setja almenna
kjarasamninga í uppnám á þessum
tímapunkti vegna fiskveiðistjórn-
unarkerfisins?
Ég verð að viðurkenna að ég
er hissa á því að ASÍ skuli í raun
hverfa frá samningsborðinu vegna
þessa máls. Ég hefði talið það hags-
munamál verkafólks á Íslandi að
það náist sátt um sjávarútveg-
inn og við förum að komast upp
úr þessari kreppu. Ég hefði fyrir-
fram talið að ASÍ myndi taka þessu
fagnandi og viljað fá þetta mál á
hreint. Ég átti alls ekki von á að
þeir myndu bregðast svona við.
Hjól atvinnulífsins verða að fara
að komast af stað. Við erum búin
að tala um þetta í tvö ár, en það er
í raun ekkert fyrirsjáanlegt í dag
sem bendir til þess að þetta sé að
fara að lagast. Við erum enn með
neikvæðan hagvöxt og horfurnar
fyrir árið 2011 eru langt frá því að
vera góðar.
Það kemur okkur hjá SA á óvart
hvað ASÍ virðist hafa litlar áhyggj-
ur af atvinnuleysinu, og það sama
gildir um ríkisstjórnina. Það er
eins og það sé bara sjálfsagt mál að
það séu hér fjórtán þúsund manns
atvinnulausir.
Er SA með þessu útspili um fisk-
veiðistjórnunarkerfið að nota sér
það að kjarasamningar eru laus-
ir til að þrýsta á stjórnvöld vegna
þessa umdeilda kerfis?
Alls ekki. Staðan er sú að við telj-
um ekki annað fært en að semja til
þriggja ára. Við viljum fara það
sem við köllum atvinnuleið, það
er að segja skapa atvinnu en ekki
verðbólgu. Við viljum fara leið fjár-
festinga en ekki fara á verðbólgu-
drifið neyslufyllerí. Við viljum hóf-
legar launahækkanir í takti við það
sem gerist á nágrannalöndunum.
Með því að semja til þriggja ára
teljum við að hægt sé að skapa
stöðugleika í þjóðfélaginu og
getum skapað hagvöxt, og þar með
betri lífskjör. Það gildir fyrir allar
atvinnugreinar. Ég hvet fólk til að
kynna sér þessa leið á vefnum, á
vinnumarkadurinn.is.
En ef við ætlum að semja til
þriggja ára er útilokað að þegar
búið er að semja verði komið með
einhverjar álögur á atvinnulífið,
þar með talið sjávarútveginn, sem
munu kollvarpa þeim samningum
sem búið er að gera.
Hverjar verða aðrar áherslur SA
í viðræðum um kjarasamningana?
Nú stöndum við frammi fyrir
kjarasamningum. Það eru gríðar-
lega mismunandi launakröfur, allt
upp í 30 til 40 prósent. Lægstu laun
hafa hækkað um 60 prósent frá
árinu 2006, og okkur tókst að verja
kaupmátt lægstu launa þrátt fyrir
hrunið. Hins vegar skal ég viður-
kenna að það er erfitt fyrir fólk að
lifa af lægstu laununum.
Staðreyndin er sú að ASÍ hafa
lagt talsvert mikla áherslu á jafna
launahækkun fyrir millitekjufólk.
Við teljum að sjö til átta prósenta
launahækkun á þriggja ára tíma-
bili muni viðhalda stöðugleika í
þjóðfélaginu.
Það eru vissulega mun hærri
kröfur víða, sérstaklega í sjáv-
arútveginum, en við getum ekki
samið sér fyrir sjávarútveginn svo
þeir sem vinni í sjávarútvegi séu á
hærri launum en aðrir. Það hlýtur
að flæða yfir þjóðfélagið með til-
heyrandi verðbólgu, kaupmáttar-
rýrnun og atvinnuleysi.
Það er aldeilis útilokað að ætla
að taka út ákveðna hópa vegna þess
að staðan í ákveðnum fyrirtækj-
um sé betri í augnablikinu. Mesta
kaupmáttaraukningin sem fengist
væri að gengið myndi styrkjast,
og að atvinnan myndi aukast. Við
fáum ekki betri kjarabót en vinnu
fyrir alla.
Tilbúnir í sátt um
sjávarútvegsmálin
Samtök atvinnulífsins eru sögð hafa tekið viðræður um nýja kjarasamninga
í gíslingu með því að krefjast þess að komist verði að niðurstöðu um framtíð
fiskveiðistjórnunarkerfisins áður en samið verði. Vilmundur Jósefsson, for-
maður samtakanna, segir í samtali við Brján Jónasson hvers vegna gripið var
til þessa ráðs og hvernig ljúka megi harðvítugum deilum um sjávarútveginn.
SAMNINGSKRÖFUR Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir samtökin leggja upp með að gera kjarasamning
til þriggja ára með sjö til átta prósenta launahækkunum á samningstímanum. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt afskipti stjórnvalda af kaupum Magma Energy af
HS Orku harðlega, og fullyrt að fyrirtækið hafi
unnið algerlega samkvæmt íslenskum lögum.
„Ég undrast mjög þetta tal ríkisstjórnarinnar
um að þjóðnýta. Ég skil ekki hvað vakir fyrir
þeim,“ segir Vilmundur.
„Við erum vestrænt ríki á 21. öldinni, og það
er verið að tala um þjóðnýtingu á einkafyrirtæki
sem hefur farið fullkomlega að lögum og á ekki
auðlindina. Ég lýsi yfir mikilli vanþóknun á
svona málflutningi, og maður veltir því fyrir
sér hvort við séum farin að nálgast ástandið í
Venesúela eða Miðbaugs-Gíneu,“ segir hann.
„Svona getur ríkisstjórn ekki talað á sama
tíma og við erum að reyna að fá fjárfesta til
landsins. Mér er tjáð að í dag sé farið að tala um
að erlendar bankastofnanir krefjist aukaálags
vegna óstöðugs pólitísks ástands hér á landi.
Þetta hefur komið fram í viðtölum HS Orku við
bankastofnanir. Það er eðlilegt að bankar fari að
hugsa sinn gang ef það vofir yfir þjóðnýting á
fyrirtækjum.“
Spurður hvort hann þekki einhver tiltekin
dæmi um að erlendur aðili hafi hætt við að
fjárfesta hér á landi vegna þessa máls segist
Vilmundur ekki geta nefnt eitt ákveðið dæmi.
„Við vitum af hinum og þessum sögum um að
menn hafi sagt hingað og ekki lengra. En ég get
ekki nefnt einhver ákveðin dæmi um það.“
■ AUKAÁLAG VEGNA PÓLITÍSKS ÓSTÖÐUGLEIKA
Við teljum að það sé útlátalaust fyrir ríkisstjórnina að
girða sig í brók og fara að klára einhver mál svo við getum
farið að koma okkur upp úr þessari djúpu holu sem við
erum í en ekki halda áfram að moka á botninum.