Morgunblaðið - 12.01.2009, Qupperneq 25

Morgunblaðið - 12.01.2009, Qupperneq 25
Minningar 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 12. JANÚAR 2009 ✝ Úlfar Guðmunds-son fæddist í Reykjavík 2. maí 1940. Hann lést á heimili sínu föstu- daginn 2. janúar síð- astliðinn. Foreldrar hans voru Guð- mundur Þorsteinsson listmálari, f. 1909, d. 1965, og Guðrún Alda Pétursdóttir húsmóðir, f. 1919, d. 2003. Systkini Úlfars eru: 1) Ragnar Þór, f. 1937, kvæntur Dag- nýju Björnsdóttur, f. 1939, 2) Helga, f. 1943., d. 2002, gift Sig- urði Ægi Jónssyni, f. 1943, d. 1987, og 3) Pétur Ingi, f. 1948. Úlfar kvæntist árið 1965 Gyðu Hansen, f. 1941. Foreldrar hennar voru Martin Hansen, f. 1905, d. 1987, og Anna Kr. Hansen, f. 1903, d. 1998. Börn þeirra eru: Anna Kristín, f. 1966, Guð- mundur Örn, f. 1970, og Alda Gyða, f. 1981. Guðmundur Örn er kvæntur Jónu Dagbjörtu Dags- dóttur, f. 1968. Börn þeirra eru Úlfar Dagur, f. 2001, og Eydís Gyða, f. 2004. Úlfar og Gyða hafa lengst af átt heimili á Skriðustekk 20, Reykjavík. Úlfar lærði húsasmíði hjá afa sínum, Þorsteini Einarssyni, og hóf strax að námi loknu smíði innréttinga. Allt til dauðadags hefur hann starfrækt innréttingaverkstæði, mestallan tímann í Auðbrekku 19 í Kópa- vogi. Útför Úlfars fer fram frá Foss- vogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Sá sem vildi losna við alla sorg og söknuð yrði að kaupa það því dýra verði að elska ekkert í heiminum. Elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Okkur langar til að kveðja þig með fáum orðum. Nokkur fátækleg orð koma þó ekki í staðinn fyrir allar minningarnar sem við eigum um þig og geymum. Alltaf varstu til staðar ef við þurftum á þér að halda og fyrstur til að koma og hjálpa. Þú varst mik- ill fjölskyldumaður og þið mamma vilduð helst hafa okkur alltaf með í öllu. Þú tókst af heilum hug þátt í öllu sem við gerðum og alltaf var hægt að leita til þín með hvers kyns vandamál. Fyrir utan allt annað varstu mikill vinur og líka svo skemmtilegur. Afabörnin eiga eftir að sakna þín mikið og ekki síst allra góðu stund- anna í Skorradalnum. Það voru margar ferðirnar farnar á bátnum út á vatn og oftar en ekki voru veiðistangirnar teknar með. Þú náð- ir með þinni þolinmæði að kenna afastrák að kasta listilega vel með veiðistönginni sem þú gafst honum. Þolinmæði þín og áhugi á að vera með barnabörnunum er nokkuð sem þau munu ekki gleyma. Tím- unum saman gast þú dundað með þeim og ekki þurfti miklar fortölur til að fá lánað verfærasettið eða að fá að sitja við skrifborðið þitt. Verk- lagni þína, skynsemi og góða lund er óskandi að þau hafi tileiknað sér og geymi ásamt minningunum um hann afa. Elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Núna ertu kominn á loka-áfanga- staðinn. Það var ekki þitt að vera veikur og ófær um að gera allt eins og áður. Þú hafðir ætlað þér að vera með okkur yfir hátíðarnar sem þér tókst og er það ómetanlegt. Það er svo skrítið og erfitt að hafa þig ekki hjá okkur lengur en við eigum minningarnar og þær eru okkur dýrmætar. Takk fyrir allt. Anna Kristín, Guðmundur Örn, Alda Gyða, Dagbjört, Úlfar Dagur og Eydís Gyða. Minn kæri bróðir Úlfar hefur nú kvatt þennan heim eftir langa bar- áttu við erfiðan sjúkdóm. Hann stóð sig sem hetja í þessu stríði, sýndi þolinmæði, reisn og æðruleysi og nú er hann kvaddur til annarrar til- veru. Hans er saknað. Á slíkri stundu hrannast upp minningar allt frá barnæsku okkar bræðra og fram á þennan dag. Við nutum frelsisins í Vesturbænum, ól- umst upp á Holtsgötunni þar sem endalaus athafnasemi kom mörgu og sumu misjöfnu í verk. Uppá- tækin, hasarinn, strákapörin, sullið í fjörunni við Ufsaklett og í Selsvör- inni og svo fótboltinn á Framnes- vegsvellinum sem þá var. Svo voru það mjúku stundirnar, þá vorum við stilltir strákar, fórum í heimsókn til Helgu ömmu á Vesturgötunni þar sem alltaf var til staðar alls kyns heimabakkelsi fyrir svanga stráka. Við vorum oft hjá þeirri góðu konu og átti hún ríkan þátt í uppeldi okk- ar á þessum árum. Úlfar, eða Bói, eins og hann var oftast kallaður, hóf ungur trésmíðanám hjá Þorsteini Einarssyni afa sínum. Strax eftir að náminu lauk hófst Bói handa. Við bræður byggðum saman parhús í Lyngbrekku í Kópavogi. Í öðru hús- inu bjó ég og mín fjölskylda um tíma en í hinum helmingnum stofn- aði Bói trésmíðaverkstæði. Síðar flutti hann verkstæðið í iðnaðarhús- næði í Auðbrekku í Kópavogi og rak það fram á hinsta dag. Ung að árum kom Gyða Hansen inn í líf Bóa, þau giftust, fjölskyldan stækkaði og börnin urðu þrjú. Þau hjón byggðu fallegt einbýlishús við Skriðustekk og bjuggu þar lengstan hluta hjúskapar síns. Síðan komu barnabörnin tvö sem voru yndi og augasteinar afa síns. Bói var Vesturbæingur og KR- ingur í húð og hár. Á yngri árum æfði hann fótbolta í KR, stundaði skíði í skíðadeild KR og síðar stund- aði hann lengi badminton vikulega í hádeginu í KR-heimilinu. Í KR eignaðist Bói sína góðu æskufélaga og sumir þeirra urðu hans bestu vinir í gegnum lífið. Ég minnist góðra stunda, heimsókna og veislu- halda, ferðalaga sem við Dagný kona mín fórum með Bóa og Gyðu um landið, ég minnist veiðitúra, ferða til sólarlanda. Þetta voru ánægjulegar stundir. Síðan kom sumarbústaðurinn í Skorradal sem Bói smíðaði að mestu með eigin höndum. Bói og fjölskyldan undu sér vel í Skorradalnum og dvöldu þau þar löngum. Gaman var að koma þangað í heimsókn og njóta gestrisni þeirra. Bói var gegnheill og góður dreng- ur, dugnaðarmaður til allra verka og hlífði sér hvergi meðan heilsan leyfði. Bói átti gott og ánægjulegt dagsverk sem var unnið af heið- arleika og tillitssemi fyir öllum í kring um hann. Fjölskyldulífið hjá Bóa og Gyðu einkenndist alla tíð af kærleik og umhyggju og uppskáru þau góða og samheldna fjölskyldu. Í veikindum sínum naut Bói góðrar umönnunar Gyðu og barnanna, sem gerði honum kleift að vera í faðmi fjölskyldunnar til hinstu stundar. Hann hafði góðan hug vina og vandamanna. Kæri bróðir, þessar fátæklegu línur eru kveðja til þín og um leið samhryggjumst við Dagný og fjöl- skylda okkar Gyðu og fjölskyldu og biðjum góðan guð að styrkja þau í sorginni. Ragnar Þ. Guðmundsson. Ég vil minnast hér lítillega bróð- ur míns Úlfars, sem ávallt var kall- aður Bói. Góðvild var eitt af einkennum hans. Móðir okkar minntist þess oft að þegar hann lauk trésmíðanámi og hóf að starfa á eigin vegum, keypti Bói, fyrir nokkurn hluta af sínum fyrstu tekjum sem sjálfstætt starfandi, og færði móður sinni gjöf af því tilefni. Þá minnist ég þess þegar ég fékk fyrst bílpróf á sínum tíma, og nokkrir mánuðir liðu þar til ég eign- aðist minn fyrsta bíl, að í millitíðinni var lítið mál að fá lánaðan glænýjan Bronkóinn hans til að skreppa ann- að slagið á rúntinn niður í miðbæ með mína vini. Ég vil þakka Bóa fyrir marg- víslega samveru í gegnum tíðina, skíðaferðir, veiðiferðir, óteljandi heimboð að heimili þeirra hjóna að Skriðustekk 20 og einnig upp í sum- arhúsið, sem þau byggðu á bakka Skorradalsvatns. Einnig vil ég þakka fyrir auðfengin afnot af inn- réttingaverkstæði hans í Kópavogi, sem gerði mér kleift að smíða allar innréttingar í mitt eigið íbúðarhús ásamt margvíslegri annarri smíða- vinnu í gegnum árin. Góð kímnigáfa einkenndi Bóa alla tíð sem gaf samverunni með honum oft sérstakt gildi. Tilvera þessa heims er eins og hún er, eftir skemmri eða lengri ævi hefur dauð- inn ávallt lokaorðið, en góður Guð varðveiti Úlfar og leiði inn í sitt dýrðarríki á efsta degi. Pétur Ingi. Fyrir rúmum 40 árum kynntist systir mín, Gyða, ungum manni. Felldu þau hugi saman og varð hann fljótlega eiginmaður hennar. Úlfar hét hann og reyndist hjóna- band þeirra Gyðu ákaflega farsælt frá fyrstu tíð. Úlfar, sem var lærður húsasmiður, hafði um þetta leyti keypt og komið sér upp trésmiðju í Kópavogi. Þar fór fram alls kyns trésmíðavinna en mest var þó fram- leitt af eldhúsinnréttingum, hurðum og skápum og mörg önnur verkefni voru þarna af hendi leyst svo sem vænta mátti. Þarna vann Úlfar alla tíð, síðustu áratugina ásamt vini sínum Guðjóni Inga Sigurðssyni en síðastliðið sumar leyfðu kraftar hans og heilsa ekki meira. Gyða, sem er lærð hárgreiðslu- kona, og Úlfar voru starfsöm hjón en fyrstu árin leigðu þau litlar íbúð- ir, fyrst í Hlíðunum og síðan í Foss- vogi. Á þessum árum fæddust tvö börn, þau Anna Kristín og Guð- mundur Örn. Jafnframt hófu þau byggingu einbýlishúss við Skrið- ustekk hér í borg þar sem yngsta dóttirin Alda Gyða kom í heiminn. Öruggara og hlýrra skjól geta börn varla fengið en heimili þeirra Gyðu og Úlfars. Úlfar var mjög vandaður til orðs og æðis og brást ekki þeim sem treystu honum. Hann var fæddur og uppalinn í Vesturbænum hjá foreldrum sínum, þeim Öldu Pétursdóttur og Guðmundi Þor- steinssyni, ásamt þremur systkin- um, þeim Ragnari, Helgu og Pétri. Ekki fór hjá því að fótboltaleikir leiddu hann í raðir KR-inga og æfði hann og lék með yngri flokkunum í liði með mörgum þeim snjöllu knattspyrnumönnum sem endur- reistu veldi KR-inga í lok sjötta og upphafi sjöunda áratugarins. Úlfar sagði: „Já, þeir voru góðir þessir strákar!“ Flestir hefðu eflaust notað tækifærið og sagt: „Við vorum góðir á þessum árum!“ Þeir félagarnir unnu öll mót og reyndar allt sem keppt var að og traust vinátta hefur síðan bundið félagana saman allt til æviloka Úlfars. Fjölskyldan undi sér vel í Skrið- ustekk og lagði mikla rækt við garðinn og viðhald og endurbætur hússins en það reyndist þeim hjón- unum ekki nóg og fyrir áratug keyptu þau land í Skorradal og reistu sér fallegan og vandaðan sumarbústað niðri við vatnið þar sem þau nutu dvalar jafnt að sumri sem vetri. Þau áttu lítinn vatnabát sem þau notuðu nokkuð og ekki var laust við að Úlfar væri hreykinn er hann dró 6-7 punda urriða úr vatn- inu eitt sinn en Úlfar hafði á yngri árum nokkuð stundað lax- og sil- ungsveiði með góðum félögum þó að hann yrði aldrei veiðidellunni að bráð. Martin, faðir minn og tengda- faðir hans, óskaði þess að vera með Úlfari í veiðiferðum sakir prúð- mennsku hans og glaðlyndis. Úlfar missti systur sína Helgu fyrir nokkrum árum en hún lést eftir erf- ið veikindi frá uppkomnum syni. Ekki átti fyrir Úlfari að liggja að geta fylgst með barnabörnum sín- um vaxa úr grasi. Hann greindist fyrir sex árum með krabbamein sem hann barðist gegn af miklu æðruleysi en genginn er nú góður drengur þar eð hann lést á heimili sínu hinn 2. janúar síðastliðinn. Við biðjum þess að forsjónin veiti Gyðu og börnum þeirra styrk til að takast á við hinn mikla missi og mildi harm þeirra. Jón Kr. Hansen. Kveðja frá KR Sumarið 1951 var æfingasvæði KR við Kaplaskjólsveg vígt og flutt- ust þá knattspyrnuæfingar félags- ins af Melunum þangað. Næsta vor fóru þjálfarar 4. flokks á opin svæði í Vesturbænum til að kanna hvort einhverjir efnilegir hefðu misst af fagnaðarerindinu. Á Framnesvegs- velli hittu þeir fyrir 12 ára dreng, sem vildi gerast félagi og hefja æf- ingar. Drengurinn, Úlfar Guð- mundsson, átti langt að sækja því að hann átti heima við Stórholt en var fyrir tilviljun í heimsókn hjá afa og ömmu við Holtsgötu en þangað fluttist fjölskyldan nokkru síðar. Úlfar fell vel inn í hópinn og lék með jafnöldrum sínum næstu árin og 1956 lék hann með árgangi sín- um 1940 sem skipaði A-lið 3. flokks og bar liðið sigur úr býtum í öllum 3 mótum sumarsins með fullu húsi stiga, 100%. Nokkrum árum síðar komu þessir piltar saman og ákváðu að hittast á hverju ári og hefur svo verið í nærri hálfa öld undir forystu Gunnars Felixsonar. Er frá leið bættust makar í hópinn og einu skipti hvort komið var saman á Sögu, Flúðum, Klaustri. Akureyri eða í London, ávallt voru Úlfar og Gyða með í för, sjálfum sér og öðr- um til skemmtunar og ánægju. Á táningsaldri stundaði Úlfar skíðaíþróttina af krafti með KR og var þá sendur í hópi ungra KR-inga í æfingabúðir í Erzgebirge, fjall- lendi í Austur-Þýzkalandi við landa- mæri Tékkó-Slóvakíu. Það var löngu fyrir upphaf Alpa-ferðanna. Úlfar hóf ungur nám í trésmíði og stofnaði eigið verkstæði, sem hann rak fram undir það síðasta. Hann var þekktur fyrir vandaða vinnu og því eftirsóttur og ávallt með næg verkefni. Faglegt handbragð hans má sjá í bikaraskápum í Þórólfs- stofu og í anddyri KR-heimilisins. Árgangur 1940 var samheldinn og miklir félagar og hafa margir liðsmenn verið virkir í stjórn deilda félagsins svo og aðalstjórn um langt skeið og þannig viljað greiða til baka það sem þeir nutu á unga aldri. Hálfri öld eftir fund okkar á Framnesvegsvellinum greindist Úlfar með krabbamein, sem hann hefir síðustu sex árin barizt gegn með dyggri umönnun Gyðu en varð að lúta í lægra haldi á öðrum degi hins nýja árs. Genginn er góður vin- ur og félagi og Knattspyrnufélag Reykjavíkur þakkar áratuga starf og samfylgd og sendir Gyðu og fjöl- skyldu samúðarkveðjur. Sigurgeir Guðmannsson. Látinn er vinur minn Úlfar Guð- mundsson, Bói, eftir langa baráttu við krabbamein. Þegar ég lít yfir farinn veg okkar félaganna koma í huga minn glefsur frá fyrri tímum. Kynni okkar hófust í KR upp úr miðri síðustu öld. Knattspyrnan leiddi okkur saman hjá þjálfurunum Sigurgeiri Guð- mannssyni og Atla Helgasyni. Sá hópur stráka sem var fæddur 1940-1941 varð strax mjög samheld- inn og hefur vinátta sem þar mynd- aðist haldið fram á þennan dag. Flestum frístundum okkar eydd- um við á Framnesvegsvellinum og í KR-heimilinu í fótbolta. Þannig liðu okkar æskuár í gegnum flokka fé- lagsins og upp í meistaraflokk. Bói náði þar nokkrum leikjum. Þetta var skemmtilegur og áhyggjulaus tími þar sem við vorum að gera það sem okkur þótti mest gaman. Síðan tóku tímar að breytast. Hann fór að læra trésmíði og stofnaði verkstæði fyrir innréttingar og rak það til æviloka. Mjög gott orð fór af hand- lagni Bóa, enda var hann frábær smiður og vandvirkur. Ég giftist konu minni Björk og hann Gyðu sinni nokkrum árum seinna. Urðum við báðir meðal frumbyggja í neðsta hluta Breiðholts í Stekkjahverfinu. Var þá orðið mjög stutt á milli okk- ar og oft skipst á heimsóknum. Oft var hlegið að svörum hans og glettni sem var einstök en aldrei á kostnað annarra. Ég heyrði hann aldrei leggja illt til nokkurs manns, heldur gerði hann oft góðlátlegt grín að sjálfum sér. Eftir að hafa byggt húsið í Breið- holtinu tók hann nokkrum árum seinna til við að reisa fjölskyldu sinni glæsilegan sumarbústað við Skorradalsvatn sem hefur verið honum og fjölskyldu hans drauma- staður til margra ára. Í síðustu heimsókn minni til Bóa rétt fyrir jólin sá ég hvert stefndi. Þrátt fyrir veikindi hans áttum við vinirnir góðan tíma saman og rifjuðum upp skemmtilegar stundir úr lífshlaup- inu. Þannig vil ég muna Bóa, með góðlátlegt grín á vörum. Gyðu, börnum, tengdadóttur og barnabörnum sendum við hjónin innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning vinar okkar Bóa. Kristinn og Björk. Eftir því sem árin líða skynjar maður æ betur mikilvægi æskuár- anna fyrir lífshlaup manns og hve dýrmætt það er að hnýta vináttu- bönd á þeim árum, vináttubönd, sem maður getur treyst og búið að alla ævi. Þannig var vinátta okkar Úlfars, eða Bóa eins og hann var alltaf kallaður, traust og varanleg. Á kveðjustund reikar hugur minn til baka tæp sextíu ár þegar líf okk- ar strákanna í Vesturbænum sner- ist um fótbolta og Framnesvegsvöll- urinn var aðalvöllurinn. Þar var aragrúi stráka sem léku sér í fót- bolta frá morgni til kvölds og einn þeirra var krullinhærður og sterk- byggður strákur sem var kallaður Bói. Af Framnesvegsvellinum lá leið okkar að sjálfsögðu í KR þar sem Bói lék með öllum yngri flokk- um félagsins og að lokum nokkra leiki í meistaraflokki þess. Sérstak- lega eftirminnilegt var árið 1956 þegar Bói lék með 3. flokki KR sem vann alla leiki sumarsins undir stjórn þjálfaranna Sigurgeirs Guð- mannssonar og Atla Helgasonar. Þetta lið hefur alla tíð síðan haldið hópinn undir nafninu KR-56 og hist árlega og verður Bóa þar nú sárt saknað. Að loknum unglingsárunum breyttist takturinn og lífsbaráttan og fjölskyldulífið tók við. Bói setti ungur á stofn trésmíðaverkstæði og rak það með sóma allt til æviloka enda vandfundinn jafn samvisku- samur og vandvirkur smiður á hans sviði. En mikilvægast var þó þegar Bói kynntist stelpu af Njarðargöt- unni og Gyða kom til sögunnar. Eft- ir það átti Gyða og fjölskyldan hug hans allan en það breytti samt ekki sambandi okkar félaga hans heldur hafði vinahópurinn bara stækkað. Bói var einstaklega heilsteyptur maður með sterka réttlætiskennd. Hann var í raun alvörugefinn og yf- irvegaður en fyrir mér var hann fyrst og fremst skemmtilegur félagi og vinur. Við Hilda eigum óteljandi minningar um spaugileg atvik frá samverustundum okkar með Bóa og Gyðu bæði úr daglega lífinu og í ferðalögum okkar hér heima og er- lendis. Ég sá Bóa síðast rétt fyrir jól þegar við Kristinn Jónsson heim- sóttum hann. Bói var hress og kátur við komu okkar þótt ljóst væri að leiðarlok væru að nálgast. Hann gerði að gamni sínu eins og hans var vandi og kvaddi okkur að heim- sókn lokinni, brosandi og bjartur yf- irlitum eins og hann ávallt var, og þannig munum við minnast hans. Elsku Gyða, við Hilda vottum þér og fjölskyldu þinni innilega samúð. Minningin um góðan dreng mun lifa með okkur. Gunnar Felixson. Úlfar Guðmundsson Elsku Bói, gamli trausti vinur. Góða ferð heim. Þín Sigríður Björnsdóttir. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.