Morgunblaðið - 29.06.2009, Qupperneq 19

Morgunblaðið - 29.06.2009, Qupperneq 19
Minningar 19 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. JÚNÍ 2009 sem ég hef nokkurn tímann kynnst. Ég mun aldrei gleyma því sem við gerðum saman. Þú varst mér mikil fyrirmynd og hvattir mig allt- af til að gera hluti sem ég hélt ég gæti ekki gert, og t.d. fór ég í fyrsta skipti í sánubað á Laugarvatni þar sem ég hugsaði að ef Muggi frændi gæti farið í þennan hita þá ætti ég að geta það líka. Þótt þú hafir verið móðurbróðir minn þá leið mér oft eins og þú vær- ir stóri bróðir minn enda var ekkert sem þú gerðir ekki fyrir mig eða alla aðra í kringum þig og baðst aldrei um neitt í staðinn. Ég vona og trúi að þér líði vel þar sem þú ert núna, enda ef einhver á skilið frið þá ert það þú, Muggur minn. En jafn- vel þótt þú sért fallinn frá þá muntu alltaf eiga stóran þátt í því hvernig ég er í dag og ég mun alltaf eiga frábærar minningar um alla þá frá- bæru hluti sem við gerðum saman. Guðmundur Halldór Atlason (Muggur yngri). Elsku Muggur. Ég trúi ekki að uppáhaldsfrændi minn sé farinn. Ég man svo vel eftir því þegar þú tókst mig með þér í bíltúr í flotta sportbílnum þínum til ömmu Sifjar þegar hún var í endurhæfingu í Hveragerði. Við stoppuðum í sjoppu og fengum okkur kók í dós og litla piknik-dós, eins og þú varst svo oft með þegar þú komst í heimsókn heim. Ég man líka vel eftir þegar ég var í Vestmanneyjum ’97 og þú flaugst til Eyja til að heimsækja mig og varst með mér í heilan dag að skoða allt á eyjunni, svo flaugstu til Reykjavíkur aftur um kvöldið. Það var svo skemmtilegur dagur, ég mun aldrei gleyma honum. Manstu fyrir ekki svo löngu þeg- ar við vorum að borða saman og Atli frændi kíkti í heimsókn til þín í nýj- um frakka sem líktist frekar kven- mannskápu? Við gerðum nú frekar mikið grín að honum og „kápunni“ hehe, honum fannst það sko ekki jafn fyndið og okkur, enda sáum við hann ekki aftur í henni. Það eru svo margar minningar sem við eigum saman, allar útileg- urnar, sumarbústaðaferðirnar, kvöldin sem þú komst heim þegar þú varst búinn að vinna og við sát- um knúsandi hvort annað í sófanum og sofnuðum yfir sjónvarpinu. Ég gæti talið endalaust upp, enda varstu og munt alltaf vera númer 1 hjá mér. Ég sakna þín strax en ég veit að þú ert hér hjá mér. Ég elska þig, Muggur besti frændi. Þín frænka, Silvía Sif Birgisdóttir Johnsen. Þrátt fyrir veikindi þín er skrýtið að kveðja þig nú, kæri vinur. Þú sem varst alltaf svo hress og heil- brigður. Við urðum strax miklir vin- ir þegar við kynntumst í Versló. Þú hefur verið einn af mínum traust- ustu vinum allar götur síðan. Það vakti fljótlega athygli mína hve vel þú hugsaðir um yngri systkini þín, Atla og Dóru. Þú hafðir ekki alltaf tíma til að vera með okkur félögun- um því þú varst að fara með þau í sund eða eitthvað álíka. Það vantaði svo sem ekkert upp á að við ættum tíma saman á þessum árum. Þetta voru skemmtilegustu árin og alltaf eitthvað um að vera. Hámarkinu var þó náð í útskriftarferðinni til Spán- ar 1978. Þar kom ég ekki að tómum kofunum hjá þér hvað reynslu af ut- anlandsferðum snerti. Þú varst bú- inn að sigla víða um heim með skip- um Eimskipa. Ég var að fara í mína fyrstu utanlandsferð. Á þessum ár- um tókst með okkur vinátta sem aldrei féll skuggi á. Það var sama hvort þú varst að vinna á Íslandi, í Evrópu eða annarri heimsálfu. Við hittumst í London þegar þú bjóst í Ipswich. Þú varst búinn að kynnast borginni vel og kenndir mér á hana. Það var líka gott að heimsækja þig til Dalvíkur. Þú varst svo lífsglaður og mikill snillingur í að sjá spaugi- legu hliðar tilverunnar. Tækifærum fækkaði til að hittast á vissu árabili eins og gengur. Við töluðum þó allt- af reglulega saman. Það var mikið og óvænt áfall þeg- ar ég frétti af veikindum þínum. Muggi orðinn bundinn við hjólastól. Einhverra hluta vegna leið nokkur tími þar til ég kom að heimsækja þig reglulega á Skógarbæ. Þegar ég loks kom til þín var mjög gott að hitta þig, þrátt fyrir að þú segðir mér að lífslöngunin hefði nánast horfið þegar þú fékkst úrskurðinn á Reykjalundi að þú fengir ekki frek- ari bata. Þegar vonin var farin hvarf eldmóðurinn. Þegar ég bauð þér að keyra þig eitthvað eða bara skoða umhverfið á góðviðrisdögum þá vildir þú það ekki. Þrátt fyrir það var alltaf gott að koma við hjá þér í Skógarbæ. Ég kom oft við þegar ég átti leið framhjá. Ég var búinn að koma mjög reglulega til þín sl. tvö ár og það voru góðar stundir. Þú hafðir mjög gaman af að rifja upp árin í Versló. Það vakti oft furðu mína hvað þú mundir eftir ótrúleg- ustu hlutum. Húsafellsferðirnar með skólafélögunum voru þér hug- leiknar o.s.frv. Undanfarna mánuði var fjármálakreppan ofarlega á baugi. Ég furðaði mig á hve vel þú fylgdist með. Það var svo hinn 18. júní sl. að ég kom að heimsækja þig og kom að þér eins og þú værir sofandi. Við nánari athugun kom í ljós að þú varst dáinn. Þú varst farinn í annan og betri heim. Ég sá á svip þínum að þú hafðir fengið hægt og rólegt andlát. Það var friður yfir þér og þú laus við verkina sem hrjáðu þig svo lengi. Ég fann til léttis fyrir þína hönd en sakna góðs vinar sem ég mun alltaf minnast með hlýhug. Það var líka gott að hitta starfsfólk Skógarbæjar sem sagði mér að þín yrði sárt saknað. Þú værir yndisleg- ur maður. Opinn einstaklingur og mikill húmoristi. Systkinum þínum og öðrum aðstandendum sendi ég samúðarkveðjur. Garðar Gunnlaugsson. 1. júní 1976 kynntist ég fyrst hon- um Mugga, nýráðinn fimmtán ára sem vikapiltur og Muggur sem há- seti á fraktarann Skeiðsfoss sem lá við bryggju í slippnum á Akureyri og þekkti ekki muninn á lúðu og skötu. Muggi var þá nýútskrifaður úr Versló og ég á leiðinni í Versló. Hann reyndist mér frá fyrsta degi sem eldri bróðir næstu fimm sumrin og í síðasta túrnum okkar saman var Muggur orðinn bátsmaður og ég orðinn háseti. Enginn um borð dró þessa ráðstöfun í efa að Muggur tæki að sér svo ábyrgðarmikið starf sem bátsmaður, þó ungur væri. Síð- asti túrinn okkar saman var einnig sá skemmtilegasti og spannaði heila tvo mánuði. Ferðin sú lá alla leiðina til Grikklands og Túnis með tilheyr- andi stoppum við málningarvinnu í slippum um Miðjarðarhafið og öðr- um vafasömum stoppum t.d. í Ceuta í Gíbraltarsundi þar sem afdrifarík- ur kostur var tekinn um borð, sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Muggur var alltaf spes – með þeim fyrirvara, þá var hann alltaf flottur og orginal. Muggi burstaði ekki tennurnar með tannkremi. Hann notaði kassettutæki og hlust- aði á Elton John í heddfónum, sem engum datt í hug þá, í þessum pínu- litlu káetum og gargandi vélardyn. Hann bjó alltaf um rúmið sitt, braut saman fötin sín og las Dale Carne- gie. Muggur fór aldrei yfir strikið og var alltaf niðri á jörðinni. Þó var hann alltaf tilbúinn, í síð- ustu höfn hvers túrs, að fara á dýr- asta veitingastað bæjarins með okk- ur guttunum til þess eins að panta nautasteik með frönskum og kok- teilsósu (sem skipti miklu máli) ásamt tvöföldum vodka í kók og bananasplitt í eftirrétt. Ef erfitt reyndist að fá einhvern þessara rétta var kokkurinn kallaður til og því bara reddað … frábærir tímar sakleysis og gleði. Leiðir okkar lágu sín í hvora átt- ina eftir sjósóknina og við hittumst alltof sjaldan í kjölfarið, en þegar við hittumst þá skynjaði ég að Muggur fylgdist með því, sem mað- ur stóð í hverju sinni, hvort sem um nýja fjölskyldumeðlimi var að ræða eða aðrar breytingar á högum manns. Ég bar alltaf virðingu fyrir Mugga, hann var alltaf réttsýnn og heiðarlegur og setti sig aldrei ofar okkur strákunum þó oft hafi hann haft ástæðu til, og ég kveð Mugga með miklum söknuði. Hefði viljað hafa heimsótt Mugga oftar í veik- indum hans og finnst líf hans hafa verið alltof stutt. Þó veit enginn ævi sína fyrr en öll er. Muggi, ég veit að þú stendur þig, því ég veit að þú verður alltaf orginal og stendur alls staðar upp úr – flottur. Helgi. Muggur, frændi minn og vinur, er nú fallinn frá langt um aldur fram. Hann er í dag til moldar borinn og kvaddur af vinum og vandamönn- um. Fréttin var sár og kom á óvart, en þó ekki að öllu leyti þar sem hann hafði átt við heilsubrest að stríða um tíma. Fyrir rúmum fjór- um árum síðan fékk Muggur heila- blóðfall og var hætt kominn en náði sér þó furðuvel á strik þrátt fyrir að vera að miklu leyti hreyfihamlaður eftir það. Búseta hans undanfarin þrjú ár var á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Breiðholti þar sem að- búnaður var góður og vel hugsað um hann. Honum leið þó sjálfum ekki vel, held ég. Fyrir mann á hans aldri og í blóma lífsins var áfallið mikið og hann var bitur, eðlilega. Þrátt fyrir að andlát hans fylli að- standendur og samferðarmenn söknuði þá held ég þó að það megi segja með nokkurri vissu að það hafi verið honum líkn. Eftir að Muggur missti heilsuna, eins og hann orðaði það sjálfur, þá leit ég stundum til hans eitthvert kvöld vikunnar til að spjalla. Ég hafði ekki neina sérstaka reglu á því og oft leið töluverður tími á milli. Yfirleitt var það þó þannig að mér varð hugsað til hans á þann veg að nú væri kominn tími og þá fór ég. Það brást ekki að í hvert sinn sem ég kom þá sagðist hann hafa vitað með fullri vissu að ég kæmi þann daginn eða um kvöldið. Hann hefði fengið hugboð um það. Þó að áfallið hafði leikið líkama frænda míns grátt þá var hugur hans skýr og gaman var að sitja hjá honum og ræða um gamla tíma. Hann hafði skemmtilegan frásagnarmáta og engum gat leiðst í návist hans. Við ræddum mikið um hversu gott fólk við ættum að og oftar en ekki var staldrað við ömmu Dúný og afa Guðmund í Miðtúni 4. Hversu freistandi það væri að fá að hverfa aftur um tíma, upplifa nærveru þeirra á ný og allt yrði aftur eins og það var. Við vorum þó sammála um að það væri ósanngjarnt gagnvart nýju kynslóðunum í stórfjölskyld- unni og betra væri bara að ylja sér áfram við góðar minningar. Lífið þyrfti að halda áfram og lúta sínum lögmálum. Mugg var tíðrætt um systkini sín og fjölskyldur þeirra sem sinntu honum vel, einnig um aðra fjölskyldumeðlimi, vini og sam- starfsmenn sem á einn eða annan hátt tengdust honum. Það er góður dagur í dag, ákveðnum lífskafla er lokið og veik- indi eru að baki. Örlög frænda míns voru grimm en hann tók þeim með miklu jafnaðargeði og af raunsæi. Hann hefur nú fengið hvíld. Með þessum fátæklegu kveðjuorðum vil ég segja í lokin að það voru forrétt- indi að hafa Mugg að samferðar- manni og minning hans mun lifa. Stefán Örn Guðjónsson. Okkur langar til að minnast Muggs, bekkjarfélaga okkar úr Versló. Það er skarð komið í hópinn. En minningar okkar um allt sem bekk- urinn brallaði saman geymum við. Það voru miklir erfiðleikar sem Muggur þurfti að ganga í gegnum síðustu árin og ekki auðvelt fyrir hann að taka þátt þegar hópurinn hittist. En hann var með okkur í anda og við með hugann hjá honum. Eftir útskriftina úr Versló hittumst við ekki eins oft og áður. Nám, vinna, fjölskylda og annað kallaði á athyglina. En við vitum að tengsl eins og þessi rofna aldrei og hefur bekkurinn alltaf hist reglulega. Síð- an þegar við ákváðum haustið 2007 að nú skyldum við fagna 30 ára stúdentsafmælinu vorið 2008 saman og undirbúningur hófst þá urðu heimsóknirnar til Muggs fleiri og við áttum mjög ánægjulegar stundir saman þegar við rifjuðum upp gaml- ar minningar frá námsárunum, Það var ótrúlegt hvað Muggur mundi allt í smáatriðum. Rifjaðar voru upp ferðir bekkjar- ins upp í Húsafell, útskriftarferðin til Costa del Sol, svo eitthvað sé nefnt. Við höfðum gaman af því að rifja þetta upp og hlógum oft mikið. Við skemmtum okkur við að skoða gamlar myndir og við höfðum jafn- vel hugsað okkur að nú þyrftum við bara að fara að skrifa þetta niður. En lífið er ekki alltaf eins og við bú- umst við og nú verða heimsóknirnar til Muggs ekki fleiri en við vitum að hugur okkar allra hefur verið hjá honum og hann hefur fengið góðar hugsanir frá svo ótalmörgum. Við viljum þakka fyrir samfylgd- ina og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til allra aðstand- enda Muggs. Blessuð sé minning hans. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífs þíns nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði nú sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Fh. bekkjarfélaga í 6-Z í Versló 1978, Bjarndís og Guðrún. Mig langar að minnast látins fé- laga með fáeinum orðum, þó mörg orð þurfi til að lýsa þessum sérstaka persónuleika og góða vini. Guðmundur Halldór Atlason, eða Muggur eins og hann alltaf var nefndur, hefur verið vinur minn í 35 ár. Við Muggur kynntust í Versl- unarskóla Íslands haustið 1974 þeg- ar við hófum þar báðir nám. Árin í Versló gleymast seint og átti Mugg- ur sinn þátt í að gera þau enn eftir- minnilegri fyrir mig. Muggur var einn af fáum félögum úr Versló sem ég hélt ætíð sambandi við þó leiðir okkar hafi legið í mjög ólíkar áttir. Muggur fór snemma að starfa í flutningum, fyrst skipaútgerð og síðan flugfélögum. Af þessum sök- um var hann oft fjarverandi á með- an ég hélt mig mest á Reykjavík- ursvæðinu. Við hittumst því oft ekki í langan tíma og erfiðara var um fjar- og tölvusamskipti á þessum ár- um, en alltaf endurnýjuðust kynnin, þegar Muggur birtist aftur í höf- uðstaðnum. Ég mun minnast Muggs sem sérlundaða félagans sem ég ferðaðist með um ár og skurði á Englandi fyrir áfall hans. Þannig at- vikaðist að við leigðum okkur sam- an, þrír vinir úr Versló, stóran fljótabát, ásamt tveimur öðrum fé- lögum og ferðuðumst saman í þó nokkurn tíma milli smábæja, kráa, skemmti- og veitingastaða. Bátur- inn var reyndar svo veglegur að við þurftum mann með skipstjórnar- réttindi til að fá hann leigðan. Sig- urður Ingi, annar skólafélagi og góður vinur úr Versló, sá um þá hlið. Ég átti í verulegum erfiðleik- um með að komast með í ferðina vegna anna, en sá svo sannarlega ekki eftir að hafa farið. Þetta var síðasta og jafnframt skemmtileg- asta samfellda samvera okkar félag- anna fyrir andlát Muggs og end- urnýjaðist vináttan eftirminnilega í þessari ferð. Við lentum í alls kyns ævintýrum og alltaf var húmorinn skammt undan og ferðin því í alla staði vel heppnuð. Enn á ný átti Muggur stóran þátt í að gera ferð- ina eftirminnilega, með köldum húmornum og nákvæmninni. Ég minnist einnig með þakklæti samverustundanna eftir að Muggur varð að mestu rúmfastur. Jafnvel þó samtölin væru oft erfið fyrir báða, áttaði ég mig á hvað það var sem ætíð laðaði mig að þessum góða vini. Að baki lá þessi hlýja vinátta sem alltaf einkenndi Mugg í mínum huga. Ég þakka þér, Muggur, kær- lega fyrir að hafa verið vinur minn í öll þessi ár. Þú hefur fyrir bragðið gert mig að betri manni. Orðin sem þú endaðir á þegar þú skrifaðir í Verslunarskólabókina mína forðum hafa því ræst að einhverju leyti í mínu tilfelli fyrir þína tilstilli, en þú skrifaðir m.a.; „Batnandi er best að lifa (fyrir báða)“. Ég vil enda á þess- um orðum þínum, ásamt meðfylgj- andi kvæði: Ég þakka okkar löng og liðin kynni, sem lifa, þó maðurinn sé dáinn. Og ég mun alltaf bera mér í minni, þá mynd sem nú er liðin út í bláinn. Und lífsins oki lengur enginn stynur, sem leystur er frá sinnar æviþraut- um. Svo bið ég Guð að vera hjá þér, vinur, og vernda þig á nýjum ævibrautum. (Þórarinn Hjálmarsson.) Ég færi fjölskyldu og vinum Muggs mínar innilegustu samúðar- kveðjur. Blessuð sé minning þín. Þinn vinur, Hilmar Bergmann. ✝ Elskuleg eiginkona, móðir, tengdamóðir, dóttir, tengdadóttir, amma og systir. HELGA BJARNADÓTTIR, Hárgreiðslumeistari Óttuhæð 9, Garðabæ, Lést á heimili sínu, miðvikudaginn 24.júní sl. Jarðaförin fer fram frá Vídalínskirkju fimmtudag- inn 2. júlí kl. 15:00. Eggert V. Þorkelsson Bjarni Gíslason Erla Þorvaldsdóttir Sigríður M. Einarsdóttir Einar Rögnvaldsson Einar Geir Einarsson Bjarni Þ. Einarsson Guðlaug Jóhannsdóttir Erla Rut Eggertsdóttir Gísli V. Eggertsson Kristín Backman Gunnar Örn Eggertsson Hulda M. Eggertsdóttir Rajan Sedhai Sunneva Eggertsdóttir Hjalti Unnsteinsson Barnabörn og systkini ÍSLENSKAR LÍKKISTUR Góð þjónusta - Gott verð Starmýri 2, 108 Reykjavík 553 3032 Opið 11-16 virka daga

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.