Nýtt kvennablað - 01.01.1946, Blaðsíða 12

Nýtt kvennablað - 01.01.1946, Blaðsíða 12
10 NÝTT KVENNABLAÐ Það var orðið áliðið kvölds, þegar fólk á Ytra-Hóli snæddi kvöldverðinn. Enginn sagði orð. Stormurinn gnauðaði á þekjunni, og hver vindhviða hafði sín ólýsanlegu áhrif á þá, sem inni voru. Þórður þoldi ekki lengur við aðgerðarlaus. Hann bað móður sína um vel heita mjólk á flösku og svolítinn brauðbita. Hann fékk hvort tveggja fljótt og vel úti látið. Síðan kallaði hann á hundinn sinn og smeygði sér út um bæjar- dyrnar. Fólkinu, sem inni var, fannst þögnin enn átak- anlegri, þegar Þórður var farinn. Grímur sagði vinnumanninum að leggja sig fyrir, því það þýddi ekki vitundar ögn að aðhafast neitt, með- an veðrið hamaðist svona,, hann skyldi kalla til hans strax og eitthvað slotaði. Sjálfur gekk Grímur inn í herbergi sitt, og lagðist fyrir í öll- um fötum. Auðvitað datt honum ekki í hug að sofna, hann var rétt að gera tilraun til að láta mestu þreytuna líða úr sér. Sannast að segja var Grímur furðu lítið kvið- andi. Hann var ekki tiltakanlega hræddur um Hildi, hún var ung og dugmikil. Hitt var miklu verra, að hún hlaut að fara af heímilinu innan fárra daga, það var alvarlegra áhyggjuefni en snjórinn og stormurinn. „Hvað er þetta, Grímur, þú háttar ekki,“ sagði húsfreyja um leið og hún kom inn. ,,Nei góða, ég hátta ekki. Ég ligg svona fyrir um stund, en fer strax út, þegar slotar. Annars er allt hálf ömurlegt, mér finnst ég vera að fylgja búsæld okkar og heimilisfriði til graf- ar, en þér hefur eflaust ekki komið það þannig fyrir sjónir, þegar þú sagðir Hildi, að þú vildir ekki hafa hana nema til vors. Hvað heldur þú að verði af Þórði, eða virðist þér hann ekki nægilega líkur okkur báðum, til þess að vita hvað hann vill?“ Húsfreyja leit á mann sinn, um leið og hún tók sundur prjónana. Var hann að ásaka hana eða hvað? Aldrei hafði hann talað svona til hennar svo hún myndi til. ,,Svo bætist ein skömmin og hörmungin enn við, ef Hildur verður nú úti.“ „Grímur, hvað kemur að þér að láta svona? Aldrei öll okkar búskaparár hefur þú talað svo til mín.“ Húsfreyjan hafði ekki fullt vald yfir rödd sinni. Henni fannst allt í einu hún verða einmana og yfirgefin, eins og hún ætti engan að, sem tæki málstað hennar, og hvergi höfði sínu að að halla. Var hún að verða einstæðingur, eða hvað var að ske? Hún leitaði hjá sjálfri sér, en fann aðeins máttvana vilja. Hún skildi þetta ekki, slíkt hafði aldrei hvarflað að henni áður. Það brá nýrri mynd fyrir skynjan hennar. Hún var allt í einu orðin gömul. Hún hrökk við. — Gamalmenni. — Hendur hennar skulfu, hún hafði ekki lengur stjórn á því að taka lykkjurn- ar fram af prjónunum. Gamalmenni, einstæðingur. „Grímur, hvað á ég að gera?“ Grímur leit til konu sinnar. Var hann þá far- ið að dreyma, þótt hann ætlaði sér að vaka. „Grímur, svarar þú mér ekki?“ Grímur strauk hendinni yfir ennið og sagði með vantrúarhreim. „Varstu að tala við mig?“ „Já, hvað get ég gert?“ „Því spyrð þú mig, þú hefur alltaf ráðið, síðan þú komst inn á þetta heimili.“ „Þú þarft ekki að minna mig á það, ég veit það, og ég þakka þér fyrir allt umburðarlyndi þitt. En Grímur, ég er orðin — ég er orðin gamalmenni.“ Orðin bárust til hans, en málrómurinn var honum ókunnur. Hann heyrði niðurbældan grát frá konunni, sem sat fyrir framan hann á rúm- inu. Það greip hann meiri viðkvæmni, en hann hafði fundið til í fleiri ár. Hann settist upp, tók um herðar konu sinnar og hvíslaði: „Aldrei fyrr hef ég séð þig gráta, svo meira en lítill þungi hlýtur að hvíla á þér, en getum við ekki borið hann í sameiningu, svo hann verði okkur ekki ofurefli?“ Öryggi hennar óx aftur. Það var sem nýtt líf streymdi um æðar hennar, og henni fannst sem hún myndi sigra ellina á þann hátt, að hún yrði hennar aldrei beinlínis vör, ef hún breytti aldrei á móti betri vitund. „Grímur, erum við ekki sammála um það, að Hildur verður hér áfram, ef þau koma bæði lif- andi heim?“ Hún fékk ekkert heyranlegt svar, fann aðeins hversu Grímur þrýsti henni ástúðlega að sér. Það var liðið fram undir morgun, þegar veðr- inu slotaði. Vindurinn hætti að gnauða, og það snjóaði ekki lengur. Ennþá var Þórður ókom- inn heim, og hamingjan mátti vita, hvernig komið var. Ófærðin var ekki tilfinnanleg, nema í sköflun- um, sém stormurinn hafði rekið saman. Græn stráin gægðust meira að segja upp úr snjódrefj- unum, þar sem bezt hafði skafið. Grímur bóndi var greiðstígur til beitarhúsa

x

Nýtt kvennablað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.