Nýtt kvennablað - 01.02.1967, Blaðsíða 12

Nýtt kvennablað - 01.02.1967, Blaðsíða 12
ÞÓRUNN ELFA MAGNÚSDÓTTIR FRAMHAlDSSAGAN Djúpar rætur Sören hafði skellt skolleyrunum við þessum orðum og sjálfsagt hafði eitthvað fleira verið sagt við hann í svip- uðum dúr, en hann hafði látið fenna yfir það allt og veitzt það hægara vegna þess, að hann var svo gerður, að geta með fáleika komið í veg fyrir tninaðarskraf fólks og vina- læti, ef honum bauð svo við að horfa. Nú steig þetta, já og svo margt fleira frá samvist og samvistarlokum við Lísu fram í hugann. Hann reyndi að hrinda þessu frá sér og beina athyglinni að því, hvernig hann skyldi haga ferð sinni. Hann átti það alltaf örugt, að geta leigt sér bíl til borgarinnar, en sleppti því, þar sem hann gat náð í lest, strax eftir að hann hafði tekið við farangri sínum í stöðv- arhúsinu. Litlu munaði að hann missti af herbergi, sem hann hafði verið búinn að panta sér símleiðis, fyrst hann hafði hvorki sýnt sig né látið neitt til sín heyra á þeim tíma, sem hann hafði ráðgert að koma. Nú en herbergi fékk hann, sem hann gerði sig ánægðan með. Þegar þangað kom lagði hann ferðatösku sína á þar til gerða grind og tók upp farangurinn, sem mjög nosturslega var um búið. Hann hengdi föt sín og frakka inn í skáp, raðaði skyrtum og nærfötum í skúffur, snyrtiáhöldum á glerhillu yfir handlaug og lagði bók á náttborðið. Að því búnu slökkti hann öll ljós nema á lestrarlampa með föl- grænni ljóshlíf, sem stafaði þægilegri birtu yfir höfða- lagið á rúminu. Ábreiðan hafði verið tekin af rúminu og brotið upp á annað efra hornið á yfirsænginni, rekkjulínið var bláhvítt, ofurlítið sterkjað, virtist svalandi. Allt bauð til hvíldar, en þó að Sören afklæddist og nyti þess að finna ferðalúann líða úr sér í notalegri rekkjunni, fann hann þó að svefn mundi honum víðsfjarri, hugur hans var um of bundinn viðburðum kvöldsins til þess að geta sam- samast kyrrðinni, er að fór, þegar stórborgarþysinn dvín- aði undir lágnættið. Sú spurning sótti fast á Sören, hvort Lísa hefði frá upphafi verið ástfangnari af seinni manni sínum en hún hafði nokkurn tíma verið af honum og þess vegna orðið „vífið hans væna“. Hann var því ekki vanur að hreykja sér á annarra kostnað, en nú gerði hann samanburð, er var honum sjálfum í vil, hann hlaut að hafa verið ólíkt ásjálegri en núverandi eiginmaður Lísu — var það og mundi ávallt verða. Og hann taldi líklegt, að hann væri kominn lengra á braut starfsframa og velmegunar, en hinn mjúkleiti og þægilegi ferðafélagi hans. Hann var meðeigandi í arð- bæru fyrirtæki, og ekki hafði hann með neinum að deila þeim arði, er í hans hlut kom. — Það þurfti ekki að vera neitt ríkidæmi þó að manninum hefði tekizt að púkka svo upp á gamla, rauða húsið, að það liti sæmilega út. Vel gat verið að frú Holmström hefði lagt eitthvað af mörkum til þess. Einu sinni hafði hún imprað á slíku við hann, en hann ekki þegið, kannski af því að hann var of gramur Lísu til þess að geta unnt henni þess að fá óskir sínar svo greiðlega uppfylltar. Já, því að það var engu líkara en að manneskjan hefði fengið húsið á heilann. Hún fékk sér meira að segja vinnu til þess að hafa eitthvað sjálf fram að leggja til lagfæringar hússins og til að prýða heimilið. Nú og svo hafði alltaf verið viðkvæðið, að hann legði henni of lítið til, rétt til brýnustu heimilisþarfa, en skildi ekki að hún hefði persónuleg útgjöld. Það hafði tekizt hálf báglega til með þá atvinnuviðleitni hennar, en það var í rauninni ekki fyrr en nú, sem honum hugkvæmdist, að þar mætti finna eina ástæðuna fyrir þeim taugaóstyrk og æsingi, sem hafði verið svo áberandi í fari hennar undir sambúðarslit þeirra. Aumingja Lísa, lík- lega hafði hún fengið alvarlegt taugaáfall, þegar á hana var ráðizt, þó að hún stæði sig þá eins og hetja. Vaknandi skilningur og hlýja í garð Lisu og nývakin hrifning á henni ól á einstæðingskennd Sörens og eftir- sjá. Hann hefði ekki þurft að vera einn nú, ef hann hefði gætt þess betur, er hann átti, kappkostað að reynast kon- unni sinni betur. Myndin af Lísu, utan dyra og innan dágstofugluggans, var enn svo fersk í huga hans, að hann gat séð hana greini- lega fyrir sér: Andlit hennar rótt og fagurt, ljóslokkað, lífmikið hárið, sem lyftist svo fallega frá enni og bylgj- aðist aftur með vöngum, hvelfd, kvenleg form hennar, stinn brjóstin undir hvítri, fleginni treyju, sem skar svo vel af við sumarbrúnan hörundslitirm, hún var í bekkjóttu pilsi með fellingum, sem opnuðust frá mitti í létta, brús- andi vídd, berfætt í hvítum sandölum, leggirnir sólbrún- ir. Lísa var sællegri nú en þegar þau höfðu skilið, mjúk að sjá, tælandi unaðsleg ... Það var sem eldur læsti sig um hverja taug Sörens. Heimskingi, hugsaði hann, snaraði sér fram úr rúminu að opnum glugganum, ósjálfrátt viðbragð til að kæla sig og kyrra. Hann fór fljótlega aftur upp í rúmið og deyfði ljósið yfir höfðagaflinum. Þá varð honum hugsað til þess, að á þeim árum, sem hann hafði haft Lísu við hlið sér í rúminu hafði hann ekki sofið við ljós, þá hafði honum einatt fundizt myrkrið unaðssælt og lífi þrungið. Hversu mjög sem hann reyndi að nálgast svefninn var sem hann flýði hann, þótt hann beindi huganum að þeim margvíslegu erindum, sem hann þurfti að sinna næsta dag, sóttu að honum hugsanir, sem hann óviljandi bauð heim. Skyldi hún fást til að koma til fundar við mig? Eða leyfa mér að heimsækja sig eina? Honum hitnaði svo við tilhugsunina, að hann hratt ofan af sér yfirsænginni. Ég meina ekkert illt með þessu, svaraði hann þeim dóm- ara innra með sér, sem óðara hafði sett yfir honum rétt. Það ætti ekki að þurfa að vera neinum til meins, þó að ég fengi að sjá hana og tala við hana einu sinni. Hvernig mundi hún taka þeirri beiðni hans? Hann var að velta því fyrir sér, er hann sofnaði. — 10 NÝTT KVENNABLAÐ

x

Nýtt kvennablað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýtt kvennablað
https://timarit.is/publication/767

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.