Morgunblaðið - 31.03.2010, Qupperneq 23
Minningar 23
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 31. MARS 2010
Minning þín mun alltaf lifa í hjarta
mínu.
Þitt barnabarn,
Fjóla Anna Jónsdóttir.
Elsku amma.
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífs þíns nótt,
þig umvefji blessun og bænir
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Minning þín lifir í hjörtum okkar
um ókomna tíð.
Saknaðarkveðjur,
Stefán Örn og Helga Björg.
Svarið er einfalt, amma er best.
Ég hef verið svo heppin að eiga
ömmur. Tvær bestu sem sögur fara
af, en nú hefur sá dagur runnið upp
sem ég hef alltaf óttast en það er
kveðjustundin. Fjóla amma hefur nú
kvatt mig eftir að hafa passað mig í
tæp 32 ár og eru minningar mínar
frá þessum árum efni í margar bæk-
ur. Amma á Skeiðó fékk mig í fangið
2 vikna gamla þegar móðir mín byrj-
aði í námi. Foreldrar mínir voru svo
heppnir að búa í kjallaranum hjá
ömmu og afa og þar sem þau voru
bæði í krefjandi námi má eiginlega
segja að amma og afi hafi gengið mér
í foreldrastað. Þó ég flytti upp í
Breiðholt var ég í leikskóla rétt hjá
ömmu og afa, þannig að auðvelt var
fyrir þau að sækja mig ef þörf var á.
Skólagangan hófst og ég var keyrð
til ömmu og afa þar sem ég gekk í
skóla við hliðina á heimili þeirra.
Amma var heimavinnandi hús-
móðir og stóð svo sannarlega undir
þeim titli, ég minnist þess aldrei að
hafa séð ryk, óreiðu eða óumbúið
rúm hjá henni. Óstraujað þekktist
ekki í hennar orðaforða og maður
skyldi ekki voga sér að fikta í hjóna-
rúminu þegar búið var að búa um.
Við barnabörnin stríddum henni
stundum á því að fikta svolítið í því
og skildum aldrei hvernig hún færi
að því að hafa rúmteppið svona slétt,
það var engu líkara en það væri alltaf
von á kóngafólki í heimsókn, svo
glæsilegt var hjónarúmið.
Á okkar tímum á fólk það til að
segja um þær mæður sem ákveða að
vera heima með börnum sínum, hún
er „bara“ heimavinnandi en ég get
ekki séð að amma mín hafi „bara“
verið heimavinnandi, ég hef aldrei
heyrt hana kvart. Hún vann dag og
nótt ef þess þurfti og hafði alltaf tíma
fyrir okkur fjölskylduna, hún var
alltaf til staðar og hlustaði á mann
stafa sig í gegnum bókina, gaf manni
kræsingar úr eldhúsinu og leyfði
manni meira að segja að stunda til-
raunastafsemi þar og þegar maður
gisti breiddi hún yfir mann silki-
mjúkri sænginni og smellti kossi á
kinn.
„Passaðu þig á bílunum“ eða „ertu
svona illa klædd og svona ber í háls-
inn“ eru setningar sem maður heyrði
iðulega, og fannst stundum kannski
of oft sagðar, en maður á sko eftir að
sakna þess, sakna ömmu sem pass-
aði mann fram á síðustu stundu.
Fyrirmynd mín í heimilis- og hann-
yrðastörfum og bjargvættur blóma
minna. Lífið verður svo sannarlega
tómlegt án þín, amma mín, enda svo
sannarlega erfitt að finna svona góða
konu eins og þig.
Ég bið góðan Guð að styrkja okk-
ur öll og vernda á þessum erfiða
tíma. Og ég veit að þú ert að passa
upp á afa eins og við öll. Þegar minn
tími kemur þá veit ég að þú bíður eft-
ir mér með silkimjúkt og uppábúið
rúmið og tilbúin að smella kossi á
kinn.
Friður sé með þér.
Þín
Hrafnhildur Telma.
Allar mínar helstu minningar frá
barnæsku tengjast ömmu og afa og
heimili þeirra að Norðurbraut 17 í
Hafnarfirði. Í huga mínum var húsið
þeirra risastór ævintýrahöll þar sem
stórfjölskyldan hittist við hin ýmsu
tækifæri. Garðurinn bjó líka yfir
miklum gersemum eins og hæsna-
kofa og klettum þar sem við frænd-
systkinin gátum leikið okkur. Fjóla
frænka átti stóran þátt í að skapa
það yndislega andrúmsloft sem
þarna ríkti. Hún var einstaklega blíð
og hlý kona og framkoma hennar við
okkur börnin bar vott um þá virð-
ingu sem hún sýndi öllum með sinni
fallegu framkomu. Það er ekki ofsög-
um sagt að hún Fjóla var sérstaklega
góðhjörtuð og nærvera hennar slík
að maður sóttist eftir að vera nálægt
henni. Þegar hún gekk inn í herbergi
var eins og allt lýsti upp því ásamt
því að vera með eindæmum hlý og
blíð, var hún svo falleg að af bar.
Ung að árum hitti hún eiginmann
sinn, Gunnlaug Lárusson, og þóttu
þau einstaklega glæsilegt par, en í
manni sínum hafði Fjóla fundið þá
eiginleika sem helst prýddu hana
sjálfa, hlýju og umhyggju gagnvart
samferðamönnum sínum og frænd-
garði.
Undanfarin ár höfum við afkom-
endur Stefaníu ömmu og Karls afa á
Norðurbrautinni hist árlega á Hellu.
Þar höfum við eytt saman helgi og
notið þess að treysta böndin sem
sterk voru ofin á æskuárum okkar.
Þessar samverustundir eru okkur
öllum mjög mikilvægar og hafa svo
sannarlega fært okkur ættingjana
hvert nær öðru. Fjóla var dugleg að
koma á Hellu þrátt fyrir að hafa oft
verið lasin og var það okkur hinum
mikil gleði að hitta hana. Hápunktur
helgarinnar er svo þegar Muggur
frændi hringir til Bandaríkjanna og
systkinin Fjóla og pabbi tala við El-
ínu systur sína sem þar býr.
Næsta sumar verður skarð fyrir
skildi, engin Fjóla, þá vantar mikið,
svo mikið að enginn getur fyllt það
skarð. En svona gengur þetta víst
fyrir sig, fólkið sem skóp heim
bernskunnar kveður og skilur eftir
sig óafmáanleg spor í lífi okkar og
persónuleika, kannski svo miklu
meira en þau höfðu sjálf hugmynd
um.
Ég get ekki kvatt hana Fjólu föð-
ursystur mína, sem mér þótti svo
óendanlega vænt um, án þess að
þakka henni góðmennskuna, hlý-
leikann og blíðuna sem hún umvafði
okkur öll alla tíð.
Þannig var hún Fjóla og víst er að
Gunnlaugur, börnin og fjölskyldur
þeirra hafa misst mikið og hugur
minn er hjá þeim á þessari stundu.
Ég bið Guð að gefa þeim styrk og
leiða þau í gegnum sorgina og miss-
inn.
Vertu sæl kæra frænka og gangi
þér vel á nýjum slóðum. Hafðu þökk
fyrir allt og allt.
Samúðarkveðjur eru frá Magga
bróður og Bíbí og einnig Katrínu
dóttur minni sem er erlendis.
Guðný Þórunn Magnúsdóttir.
Fjóla hefur fengið hvíldina. Þetta
sagði mamma þegar hún tilkynnti
mér andlát Fjólu. Ég bjóst við þess-
um fréttum þá og þegar, því Fjóla
hafði barist við erfiðan sjúkdóm
lengi og hrakað undanfarið. En þeg-
ar að kveðjustund kom var svo und-
arlegt og tómlegt að Fjóla væri far-
in. Gunnlaugur móðurbróðir og
Fjóla hafa verið stór hluti af lífi
mínu. Það var mikill samgangur
milli heimilanna í æsku minni og
mamma og Gunnlaugur hafa verið
náin og kærleiksrík systkini alla tíð.
Fjóla og mamma urðu strax nánar
vinkonur og mamma segir aldrei
hafa borið skugga á þann vinskap.
Missir mömmu er því mikill. Skeið-
arvogur 11 var mitt annað heimili og
við Jónína frænka vorum miklar vin-
konur. Þegar pabbi dó fyrir 45 árum
má segja að Gunnlaugur og Fjóla
hafi tekið okkur að sér, svo vel
reyndust þau okkur. Fjóla var ein-
staklega ljúf og prúð í allri um-
gengni. Aldrei heyrði ég hana
hækka róminn þó oft hafi verið mik-
ill galsi í öllum börnunum. Það kom
ekki annað til greina en að Gunn-
laugur og Fjóla yrðu guðforeldrar
eldri dóttur minnar. Fjóla bar alltaf
hag annarra fyrir brjósti, tók mót-
læti af æðruleysi og hún stóð sig eins
og sönn hetja í veikindunum. „Ég
skil þetta ekki með hana Fjólu, hún
kvartar aldrei, sama hvernig henni
líður. Hún er alveg einstök hún
Fjóla.“ Þetta hefur verið viðkvæðið
hjá mömmu þegar ég hef spurt um
líðan Fjólu. Fjóla var mikil húsmóðir
og hannyrðakona og eftir hana
liggja mörg handverkin. Við fjöl-
skylda mín vottum Gunnlaugi og
allri fjölskyldunni innilega samúð.
Björt minning um Fjólu lifir í
hjörtum okkar.
Björg Cortes.
Það fylgir því þessi skrýtna til-
finning þakklætis og tómleika þegar
ég nú kveð Fjólu sem ég fékk að
kalla tengdamóður mína í 13 ár með-
an ég bjó með Jónínu, næstyngsta
barni Fjólu og Gunnlaugs.
Í huga mér eru þau Fjóla og
Gunnlaugur sem eitt og því hlýtur
missir Gunnlaugs að vera mikill nú
þegar Fjóla hefur kvatt þennan
heim. Við huggum okkur við það að
nú er Fjóla komin á æðri stað þar
sem kvalir og pína þessa heims veik-
inda eru skildar eftir og friður og
blessun ríkja að eilífu.
Fjóla mín, þó svo að ég hafi ekki
verið hluti af fjölskyldu þinni síðustu
10 ár þá fylgdumst við hvort með
öðru þessi ár og ávallt þegar við hitt-
umst fann ég elsku þína. Fyrir það
og allar góðu minningarnar sem ég
ber að eilífu í brjósti mér þakka ég
þér.
Fjóla, þú ert í minningu minni í
senn þessi fíngerða fallega kona og
um leið sterk og ábyrgðarfull ætt-
móðir. Þú helgaðir allt þitt líf því að
þjóna þinni fjölskyldu og leitun var að
jafn glæsilegu og smekklegu heimili
og því sem þú bjóst fjölskyldunni í
Skeiðarvogi. Það var alveg sama hve-
nær maður kom í heimsókn; það var
allt „spik og span“ og ætíð átti nú að
koma einhverju ofan í gesti, kaffi og
með því.
Mér verður minnisstætt þegar við
Jónína vorum að flytja í Dalsbyggð-
ina að þá var eldavél þar sem hafði
ekki fengið þá umgengni sem hún átti
skilið og tókst þú að þér að koma
henni í form. Því kemur þetta mér í
hug að það tók þig bróðurpartinn úr
tveimur dögum að koma þessari elda-
vél í horf sem þú gast hugsað þér að
láta nafn þitt við að hafa þrifið, ég
dreg þetta fram því að í þessu felst
hin endalausa þolinmæði og vand-
virkni sem ég minnist sem eðliseig-
inleika þinna sem ég hef oft öfundað
þig af.
Minningarnar eru ótal margar og
allar á eina leið um hægláta glæsilega
konu sem vildi hverjum manni vel og
átti fullt af gleði til að miðla til með-
ferðarfólks síns. Sérstaklega minnist
ég allra gamlárskvölda okkar saman
þar sem þú yngdist um áratugi í góð-
um hópi fjölskyldunnar okkar.
Það er svo að eftir langa ævi, sem
hin síðustu ár var ansi oft markeruð
af veikindum þínum, þá má þakka
fyrir það að Guð almáttugur gefur
okkur öllum að lokum hvíld og þá
hvíld trúi ég að þú hafir verið fegin að
fá að lokum. Ég færi Gunnlaugi og
öllum börnum, barnabörnum og
barnabarnabörnum þínum mínar
innilegustu samúðarkveðjur.
Tryggvi Magnússon.
Í dag kveðjum við Fjólu Gísladótt-
ur vinkonu okkar. Þessi duglega og
hljóðláta kona var okkur mjög kær.
Við vorum tíu sem fórum að hittast
með handavinnu fyrir 60 árum síðan.
Nú erum við búnar að sjá á eftir fjór-
um yfir móðuna miklu. Við sem eftir
erum reynum að hittast öðru hvoru,
áður vorum við heima hver hjá ann-
arri, en nú hittumst við á kaffihúsi og
rifjum upp gömlu góðu dagana. Nú er
Fjóla búin að kveðja eftir langvar-
andi veikindi, hún var svo sannarlega
dugleg og gafst ekki upp fyrr en í
fulla hnefana. Við biðjum elskuðum
eiginmanni, börnum, barnabörnum
og barnabarnabörnum guðs blessun-
ar og vonum að Fjólu líði vel núna.
Bestu kveðjur, fyrir hönd sauma-
klúbbsins,
Björg Randversdóttir.
✝ Unnur RagnaArngrímsdóttir
Baar fæddist í
Reykjavík hinn 31.
mars 1953. Hún lést í
heimaborg sinni,
London, Ontario,
Kanada, hinn 10.
febrúar sl. Hún var
dóttir hjónanna Arn-
gríms Ragnars Guð-
jónssonar, d. 1990,
og Unnar Ólafar
Þórðardóttur. Systk-
ini Rögnu eru Guð-
ríður Ása Matthías-
dóttir, látin, Guðjón Emil
Arngrímsson, Regína G. Arn-
grímsdóttir, Ragnheiður Kristín
Arngrímsdóttir, Arngrímur Arn-
grímsson og Kolbeinn Arn-
grímsson.
Ragna giftist eftirlifandi eig-
inmanni sínum Frans Baar í Kan-
ada 1970. Synir þeirra eru Cliff
Baar, eiginkona Jennefer Baar,
dóttir þeirra er Nad-
ine. Bryan Baar, eig-
inkona Ladelle Baar,
dætur þeirra Sidney
Baar og Kasy Anne.
Dóttir Rögnu Unnur
Arna Sigurðardóttir,
eiginmaður Karl Vík-
ingur Stefánsson,
börn þeirra Kristín
Isabella, Charl Mika-
el, Katrín Daniela og
Sigrún Emelia.
Ragna bjó í Lond-
on, Ontario, Kanada
frá árinu 1970 til
dauðadags. Starfaði þar við ýmis
störf en lengst af sem bílstjóri
skólabíla og síðustu árin við akst-
ur skólabíls fyrir fötluð börn.
Ragna hefði orðið 57 ára í dag
hefði hún lifað.
Útför Rögnu hefur farið fram í
Kanada. Minningarathöfn um
Rögnu fór fram í Hafnarfirði 18.
febrúar 2010.
Unnur Ragna Arngrímsdóttir og
ég undirritaður, Franz Baar, hitt-
umst fyrst stuttlega á hinum sögu-
fræga skemmtistað Glaumbæ í des-
ember 1968. Ég var á leið til
Norður-Afríku með Loftleiðum frá
Kanada með stuttri viðdvöl á Ís-
landi. Síðan í apríl 1969 á leið minni
til baka var aftur höfð stutt viðdvöl í
Reykjavík og heilsaði ég þá upp á
Rögnu en hún vildi láta kalla sig
Rögnu. Í nóvember 1969 heimsótti
ég Rögnu og stórfjölskyldu hennar.
Þá féllu hugir okkar saman og við
urðum ástfangin um ókomna tíð. Við
giftum okkur í ágúst 1970 í London,
Ontario, Kanada. Síðan þá höfum
við oft heimsótt Ísland og nutum
ætíð hinnar rómuðu íslensku gest-
risni. Ein heimsókn okkar er mér
sérstaklega minnisstæð, en það var
þegar við ferðuðumst norður í land
yfir Kjöl. Staðir eins og Gullfoss,
Hveravellir, Akureyri, Hjalteyri, en
þar gistum við, Dettifoss og Mývatn
eru stórkostlegir og ógleymanlegir.
Faðir Rögnu var Arngrímur
Ragnar Guðjónsson, skipstjóri hjá
Eimskipafélagi Íslands. Hann lést
1990. Móðir Rögnu, Ólöf Unnur
Þórðardóttir, dvelur nú á Sólvangi í
Hafnarfirði. Dóttir Rögnu, Unnur
Arna Sigurðardóttir, býr með fjöl-
skyldu sinni í Hafnarfirði og rekur
þar veitingastaðinn Gamla Vínhúsið
A. Hansen.
Mér til mikils harms lést Ragna
hinn 10. febrúar sl. eftir stutta, erf-
iða og hetjulega baráttu við krabba-
mein. Rögnu er sárt saknað af öllum
þeim er þekktu hana. Ég sakna hlát-
urs hennar þegar hún talaði við
systur sínar í síma frá Íslandi.
Ragna var frábær og elskuleg eig-
inkona, móðir, amma og systir. Hún
talaði íslensku, ensku og þýsku óað-
finnanlega. Góður kokkur og ein-
stakur vinur.
Ég elska þig Ragna.
Í dag hefðum við fagnað 57 ára af-
mælinu þínu en þess í stað get ég
einungis fellt tár.
Franz Baar, Kanada.
Elsku Ragna mín, mig langar að
minnast þín með fáum orðum. Það
er sárara en tárum taki að þú skulir
vera búin að yfirgefa okkur langt
um aldur fram. Mér var þó nokkuð
ljóst að staðan var ekki góð í maí í
fyrra þegar ég heimsótti þig og
dvaldi hjá þér í þrjár vikur. Þá varst
þú nýkomin úr afar erfiðri aðgerð
vegna sjúkdóms þíns og þrátt fyrir
einstakan baráttuvilja þinn í erfið-
um veikindum þá gat brugðið til
beggja vona. Það var yndislegt að fá
að vera með þér þessa daga og við
gátum skemmt okkur við óborgan-
legar upprifjanir frá fyrri árum.
Húmor þinn og góða skapið var eins
og ætíð áður. Við rifjuðum upp
ógleymanlega heimsókn þína til Ís-
lands árið sem þú varst fimmtug. Þá
ferðuðumst við yfir Kjöl norður í
land og dvöldum á Hjalteyri þar
sem við áttum dýrðlega daga. Þar
réð gleðin ríkjum hjá okkur systr-
unum því Gurrý systir okkar var
þar líka. En skjótt skipast veður í
lofti því þremur mánuðum síðar var
hún horfin okkur eftir stutt en erfið
veikindi. Nú hafið þið báðar eldri
systur mínar yfirgefið okkur, báðar
56 ára að aldri. Ég verð ævarandi
þakklát fyrir að hafa fengið að vera
með þér þennan tíma í Kanada í
fyrra. Það sem er mér efst í huga
eftir þessa döpru reynslu er þó
minningin um ykkur báðar, ætíð eit-
ilhressar og hláturmildar í meira
lagi, og þá minningu getur enginn
frá mér tekið. Það má víst sann-
arlega segja að eftir hlátur komi
grátur. Til hamingju með daginn í
dag elsku systir.
Ég sendi Frans Baar og fjöl-
skyldu í Kanada og Unni Örnu og
fjölskyldu í Hafnarfirði mínar
dýpstu samúðarkveðjur, guð veri
með ykkur í sorg ykkar.
Regína G. Arngrímsdóttir.
Ragna Arngríms-
dóttir Baar
✝
Hjartkær bróðir okkar og mágur,
ARNGRÍMUR INDRIÐI ERLENDSSON,
Klettahrauni 17,
Hafnarfirði,
lést á heimili sínu sunnudaginn 28. mars.
Útförin verður auglýst síðar.
Sigurfljóð Erlendsdóttir,
Anna G. Erlendsdóttir, Kristján J. Ásgeirsson,
Davíð V. Erlendsson,
Vignir Erlendsson, Inga A. Guðjónsdóttir,
Steinar R. Erlendsson, Dagrún E. Ólafsdóttir,
Erla M. Erlendsdóttir, Ólafur Ö. Gunnarsson.