Morgunblaðið - 14.08.2010, Side 25
25
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. ÁGÚST 2010
Öryggi Hjólreiðar eru holl hreyfing en geta verið hættulegar ef menn eru ekki með hjálm á höfði. Þessir einbeittu hjólreiðamenn voru til fyrirmyndar þegar þeir nutu náttúrunnar í Elliðavogi.
Kristinn
Ef hægt er að tala um að
stéttir séu mishógværar
hljóta bændur að teljast með
allra hógværustu stéttum.
Það eru innan við tvö ár frá
því að íslenskt efnahagslíf var
við það að falla saman og
sökkva með bönkunum.
Hársbreidd munaði að inn-
flutningur á lyfjum og elds-
neyti stöðvaðist af ótta við að
ekki yrði til gjaldeyrir til að
fjármagna innflutninginn. Vel
má halda því fram að öflug íslensk mat-
vælaframleiðsla hafi bjargað þjóðinni frá
gjaldþroti. Ljóst er að íslenskur landbúnaður
sparar okkur gjaldeyri sem nemur tugum
milljarða króna á hverju ári og er mikilvægur
liður í því að tryggja öryggi þjóðarinnar.
Það er því í senn dapurlegt og ósvífið þegar
menn leyfa sér nú að ráðast á bændur og tala
um þá með þeim hætti að þeir séu baggi á al-
menningi (bændur eru þá ekki flokkaðir með
almenningi) og viðhaldi óhagstæðu kerfi sem
aðrir beri uppi. Þetta er gert með umræðu
sem oft hefur lítið með staðreyndir og rök að
gera. Þess í stað eru jákvæð orð á borð við
samkeppni notuð til að fela raunveruleikann á
sama hátt og hið góða orð frelsi var notað áð-
ur. Aftur er farið að tala um þá sem efast um
að „ósýnilega höndin“ sé einfær um að stýra
samfélaginu sem afturhaldsmenn og andstæð-
inga frelsis.
Það má breyta kerfinu
Umræða um mjólkurfrumvarp ríkisstjórn-
arinnar virðist byggjast á þeim misskilningi
að til standi að banna samkeppni. Í raun er
verið að auka frjálsræði frekar en hitt nema
hvað lagt er til að sett verði viðurlög við því að
brjóta gildandi reglur. Það kann svo vel að
vera ráðlegt að koma á nýju og betra kerfi en
það að viðhalda kerfinu en leyfa mönnum á
sama tíma að fara framhjá því felur í sér meiri
kostnað fyrir neytendur, aukin útgjöld fyrir
ríkið, minna úrval og minni gæði mjólkuraf-
urða, lægri tekjur fyrir bændur og aukið þjóð-
hagslegt óhagræði. Áður en farið er
út í það skulum við velta aðeins fyrir
okkur í hverju yfirstandandi deila
felst. Skýra má það með samlíkingu:
Sagan um virkjunina
Ímyndum okkur að fimm bændur
fallist á að reisa virkjun til að sjá
nærliggjandi þorpi fyrir rafmagni.
Allir legðu hluta af landi sínu undir
uppistöðulón í dalnum og fjárfestu í
virkjun og raflínum með þorps-
búum. Nú kaupir umsvifamikill at-
hafnamaður eina jörðina. Sá selur
hinum bændunum sinn hlut í virkj-
uninni. Þeir taka lán til að geta
borgað nágranna sinn út. Það á að vera óhætt
enda bændur með samning við þorpsbúa um
að þeir kaupi allt rafmagn af virkjuninni (sem
þeir reka með bændunum). Maðurinn sem
seldi sinn hlut ákveður svo að reisa eigin
virkjun og tappa af lóninu á nýjum stað. Með
því dregur hann úr framleiðslugetu upp-
runalegu virkjunarinnar og skerðir hlut
þeirra sem fjárfestu í henni.
Dettur einhverjum í hug að halda því fram
að þetta sé sanngjarnt og bara spurning um
að leyfa samkeppni? Mundi hvarfla að þorps-
búum að það væri hagkvæmara að leggja tvö
sett af raflínum í hvert hús til að koma á sam-
keppni við eigin virkjun (þar sem allt sem
keypt er af nýja aðilanum er tekið af hlut
þeirra sjálfra). Áður rann allur ávinningur til
bænda og þorpsbúa. Með „samkeppninni“ fer
stór hluti greiðslna til þriðja aðila, þ.e. þess
sem lét kaupa sig út úr sameigninni og gekk
að því búnu á hlut þeirra sem borguðu hann
út.
Bændur og launþegar
Samningur um að takmarka landbún-
aðarframleiðslu og greiða bændum fyrir vöru
sína er sama eðlis og kjarasamningar. Mjólkin
er vinna bænda. Með samningum fá bændur
réttindi en taka líka á sig skyldur. Launþegar
mynda verkalýðsfélög til að verja kjör sín og
koma í veg fyrir undirboð. Þegar um er að
ræða bændur leyfa menn sér hins vegar að
kalla það samráðshringi sem hjá öðru vinn-
andi fólki kallast verkalýðsfélög.
Ætli forsprökkum verslunar og þjónustu
dytti í hug að hjóla í verkalýðsfélögin og saka
þau um einokun og samráð og krefjast þess að
starfsfólk (sbr. bændur) fengju frelsi til að
vinna (framleiða mjólk) utan kjarasamninga
og undir lágmarkslaunum (utan greiðslu-
marks) til að auka samkeppni um störf og
lækka launakostnað?
Riddarar frelsis
Samtök verslunar og þjónustu hafa árum
saman umborið þróun í átt til einokunar á öll-
um íslenska matvælamarkaðnum, enda eru
samtökin ekki hvað síst talsmenn þess fyr-
irtækis sem ræður markaðnum. Á meðan
mesta veldi útrásarinnar lagði undir sig mat-
vælamarkaðinn var ekki hreyft andmælum.
En nú þegar umræðan snýst um bændur og
einn vöruflokk í matvöruverslun ríður sama
fólk fram á vígvöllinn með blaktandi gunnfána
og sverð á lofti eins og riddarar frjálsrar sam-
keppni. Riddararnir fóðruðu drekann en sýna
svo hetjulund sína og þor þegar þeir sjá tæki-
færi til að höggva bændur.
Taldi einhver að árás SVÞ snerist um að
verja hagsmuni neytenda? Hvernig hafa stór-
markaðirnir komið fram við matvælaframleið-
endur og aðra birgja? Hafa menn gleymt öll-
um sögunum af því hvernig innlendir
matvælaframleiðendur hafa verið píndir til að
sæta afarkostum ef þeir vilja á annað borð fá
að selja vörurnar sínar. Og hversu mikið af af-
slættinum sem næðist með því að kreista
mjólkurframleiðendur ætli mundi skila sér til
neytenda, eða hvernig skilaði lækkun virð-
isaukaskatts á matvæli sér?
Eða telja menn að úrvalið mundi aukast ef
tækifæri gæfist til að etja saman litlum fram-
leiðendum mjólkurafurða og kaupa svo bara
af þeim billegasta. Hversu margir framleiða
kartöflur fyrir Bónus? Jafnvel helstu tals-
menn áfengissölu í matvöruverslunum við-
urkenna að ef stórmarkaðir færu að selja
áfengi mundi það draga stórlega úr úrvalinu.
Ódýrasta mjólk V-Evrópu
En hvað um verðið, er ekki hagkvæmara
fyrir neytendur að leyfa undirboð? Svarið er
einfalt. Samkvæmt nýjustu mælingu töl-
fræðistofnunar ESB er verð á mjólkuraf-
urðum á Íslandi (og í Svíþjóð) það lægsta í
Vestur-Evrópu. Mjólkurvörur og egg eru þær
vörutegundir þar sem Ísland er mest undir
meðalmatvælaverði á eftir fiski og olíum (sbr.
lýsi). Það er m.a. vegna þeirrar hagkvæmni
sem hefur náðst í greininni. Við erum í raun
öll að framleiða mjólkina saman og aukin hag-
kvæmni nýtist þannig okkur öllum. Líkt og í
öðrum löndum er mjólkurframleiðsla styrkt á
Íslandi og lágt verð hér er vissulega að hluta
til vegna þess. Beingreiðslur til bænda eru í
raun neytendastyrkir og kjarajöfnunartæki.
Eldri borgari með lágmarkslífeyri getur t.d.
keypt mjólk sem er niðurgreidd með sköttum
þeirra tekjuhærri en þyrfti að greiða hana
fullu verði annars.
Þetta er einfalt
Nú greiða menn með sköttum og mjólk-
urverði lákmarkskostnaðinn við að framleiða
allar þær mjólkurafurðir sem við þurfum.
Verslanir taka til sín álagningu en þar fyrir
utan rennur allur peningurinn í að framleiða
það magn sem við þurfum með sem hag-
kvæmustum hætti (bændurnir fá t.d. mjög lág
laun). Ef menn ætla að leyfa að umframmjólk
sé „dömpað“ á markaðinn eykur það aug-
ljóslega heildarkostnaðinn fyrir neytendur og
skapar óhagræði (við erum þá að borga fyrir
að framleiða meira en við þurfum). Hver get-
ur nýtt sér það? – Stórverslanirnar og sá sem
„dömpar“. Hver greiðir hagnað þeirra? –
Neytendur.
Það má svo finna leiðir til að breyta kerfinu.
Þær breytingar ættu þá að vera til þess gerð-
ar að bæta hag bæði bænda og neytenda. Það
vill svo vel til að þeir hagsmunir fara saman.
Eftir Sigmund Davíð
Gunnlaugsson » Aftur er farið að tala um þá
sem efast um að „ósýnilega
höndin“ sé einfær um að stýra
samfélaginu, sem afturhalds-
menn og andstæðinga frelsis.
Sigmundur Davíð
Gunnlaugsson
Höfundur er formaður
Framsóknarflokksins.
Má endalaust níðast á bændum og neytendum?