Morgunblaðið - 03.01.2011, Side 24
A
ð kalla HaPP veitingastað er
sjálfsagt fullmikil einföldun
því starfsemin er talsvert
fjölþættari en svo. Blaða-
maður Heilsublaðsins tók hús á
framkvæmdastjóranum, Lukku
Pálsdóttur, og fékk hana til að segja
aðeins frá því hvað felst í starfsem-
inni. Fyrst var hún þó innt eftir
ástæðum þess að hún ákvað að hella
sér út í veitingarekstur.
„Ég er menntaður sjúkraþjálfari
og vann um árabil sem einkaþjálfari,
meðfram því að starfa sem flug-
freyja. Í einkaþjálfuninni tók ég eftir
því að það voru þar kúnnar sem ekki
náðu væntum árangri þótt þeir
sinntu æfingunum af fullum krafti.
Þetta truflaði mig eðlilega og mér
lék forvitni á að vita hverju þetta
sætti. Ég ákvað því að taka tvo
þeirra aðeins út fyrir svigann til að
gera smátilraun: ég samdi við þá um
að ég myndi búa til mat fyrir þá til að
sjá hvort og þá hverju það myndi
breyta. Ég hreinlega eldaði allan
dagskammtinn ofan í þá til að sjá
muninn,“ segir Lukka.
„Maturinn sem ég gaf þeim var
bráðhollur en ég gætti þess líka að
hann væri að sama skapi girnilegur á
að líta og ljúffengur að borða. Þetta
virkaði prýðilega, eins og ég hafði
vonað, en það sem ég sá kannski ekki
fyrir var að maturinn fór að spyrjast
út, og fleiri og fleiri fóru að biðja mig
um að útbúa matarskammta fyrir
sig. Ég áttaði mig þá á því að eft-
irspurnin var klárlega fyrir hendi og
í framhaldinu nýtti ég mér alla frum-
kvöðla- og sprotafyrirtækjakúrsa í
MBA-náminu, sem ég stundaði þá,
til að láta viðskiptahugmyndina
verða að veruleika. Hér erum við svo
í dag.“
Einfalt markmið –
margþætt þjónusta
Lukka útskýrir að markmiðið með
HaPP sé í raun sáraeinfalt.
„Við viljum auka heilbrigði Íslend-
inga,“ segir hún og leggur áherslu á
orð sín. Einfalt og um leið í meira
lagi metnaðarfullt markmið.
„Til að ná þessu markmiði er
starfsemi HaPP nokkuð fjölbreytt.
Fyrir utan veitingastaðinn sem við
rekum hér í Borgartúninu höldum
við fyrirlestra og námskeið um mat-
aræði og fleira í þeim dúr. Þá bjóð-
um við upp á margvíslega mat-
arpakka fyrir þá sem vilja hollan og
góðan mat í dagsins önn, hvort held-
ur er hádegisverður, allur dagurinn,
safakúr eða annað. Þessa þjónustu
bjóðum við bæði fyrir einstaklinga
og fyrirtæki. Ennfremur erum við
með veisluþjónustu sem sér um allt
frá hádegismatnum og fingramat
fyrir fundi og annað tilfallandi, upp í
brúðkaup og útskriftarveislur.“
Aðspurð hvort fyrirtæki séu í
auknum mæli farin að horfa í nær-
ingargildi matarins á vinnustað segir
Lukka svo vera.
„Stjórnendur gera sér grein fyrir
því í dag að það margborgar sig að
fjárfesta í hollum hversdagsmat fyr-
ir starfsfólkið. Það skilar sér í meiri
vellíðan, auknum afköstum og færri
veikindadögum. Starfsumhverfið
getur verið talsvert streituvaldandi
hin seinni misseri og þá getur gert
gæfumuninn að fá hollan mat til að
takast á við verkefni dagsins.“
Loks bendir Lukka á nýjan þátt í
starfseminni, svokallaða HaPP-
daga. „HaPP-dagar eru 4-5 dagar,
eftir samkomulagi, þar sem þátttak-
endur dveljast í húsnæði sem við
höfum í Stykkishólmi til að njóta
þess að breyta um umhverfi og mat-
aræði og upplifa svo muninn. Í bland
við eingöngu hollan mat er boðið upp
á hreyfingu, jóga, fyrirlestra, bíó-
sýningar og bækur. Þá er komið inn
á grunnatriði bæði í matreiðslu og
hugleiðslu. Þetta er því endurnýjun
á líkama og sál, ef svo má segja.“
Of mikið, of sykrað
Þegar Lukka er spurð að því hvað
hún telji algengasta feilspor Íslend-
inga þegar kemur að matarvenjum
er hún fljót til svars.
„Það er í rauninni tvíþætt, að mínu
mati. Til að byrja með fær fólk sér of
stóra skammta. Þessu tengd er sú
ranghugmynd að maður sé saddur
þegar maður er orðinn afvelta af áti.
Það er vitaskuld ekki svo. Líkaminn
er saddur þegar manni líður vel, með
mettan maga án þess að standa á
blístri. Fólk hefur upplifað þennan
jafnvægispunkt eftir máltíðir hjá
okkur og tilfinningin kemur á óvart;
að finna vellíðan í kjölfar máltíðar án
þess að vera pakksaddur. Hitt feil-
sporið er tvímælalaust það að mat-
urinn er alltof sykraður. Bragðflokk-
arnir eru fjórir, sætt, salt, súrt og
beiskt, og hvers vegna erum við ekki
duglegri að borða mat úr þeim öllum
til jafns? Jú, það er vegna þess að
sykurinn er ávanabindandi og þess
vegna skekkist þankagangur okkar
þegar kemur að mat. Í stað þess að
hafa í huga hvaða mat við þurfum
sækjum við eingöngu í það sem okk-
ur langar í. Það er svolítið eins og
bensínbíll sem sífellt er að svolgra í
sig díselolíu. Og við vitum hvernig
það fer með bensínbíla,“ segir Lukka
og hlær við.
Heilsufæði og kjöt – fer það
saman?
Algengast er að matsölustaðir
sem gera út í nafni heilsufæðis úti-
loki kjöt af sínum matseðli. Því er þó
ekki þannig farið hjá Lukku og sam-
starfsfólki hennar hjá HaPP. Fer
þetta tvennt semsé saman? Lukka
svarar því játandi.
„Fanatík er alveg óþörf þegar
heilsa og matur er annars vegar. Við
bjóðum, frá degi til dags, upp á tvo
ólíka rétti sem henta þá kjötætum
jafnt sem grænmetisætum. Kjötið er
alls ekki slæmt í sjálfu sér, en það er
tvennt sem þarf að hafa í huga og
það pössum við upp á í hvívetna: við
bjóðum ekki upp á neinar unnar
kjötvörur heldur aðeins úrvalsfrum-
afurðir, og svo er kjötið meðlæti með
grænmetisréttunum en aldrei fram-
reitt sem aðalréttur. Kjötið verður í
raun ekki varasamt fyrr en farið er
að vinna það og drýgja á einhvern
hátt, og svo þegar það er á disknum
á kostnað grænmetisins.“
Fjárfesting fyrir lífið
Talið berst að þeirri tilhneigingu
Íslendinga að taka allt í törnum,
hvort heldur er vinnutengd verkefni,
áhugamál eða heilsurækt svo fátt
eitt sé nefnt.
„Fólk virðist stundum veigra sér
við því að fjárfesta í heilsunni, meðal
annars með því að borða hollan mat,
á meðan það eyðir í annað án um-
hugsunar. Svo er farið í átak með
reglulegum hætti til að ná sér í gott
form. Sá vítahringur skilar hins veg-
ar aldrei varanlegum árangri eða
vellíðan, eins og gefur að skilja. Það
vill líka gleymast að það er dýrt að
verða veikur. Kvilla á borð við syk-
ursýki 2 og háþrýsting er svo gott
sem alltaf hægt að lækna með því að
skipta yfir í hollan mat. Fólk tekur
töflur við háþrýstingi í stað þess að
breyta lífsstílnum og laga mataræðið
hjá sér. En þá erum við ekki að ráð-
ast að orsök vandans heldur að ham-
ast í afleiðingunum út í það óend-
anlega. Það gefur augaleið að það
gerir lítið gagn að sprauta alltaf
vatni á brunabjölluna í stað þess að
slökkva eldinn,“ segir Lukka Páls-
dóttir kankvís. Að endingu deilir hún
merkilegri frásögn með blaðamanni,
sem sýnir svart á hvítu hvernig betri
heilsa getur borgað sig.
„Frönsk hjón sem voru hérlendis í
fríi ákváðu að koma í mataráskrift
hjá HaPP. Þau voru afskaplega
ánægð með matinn og það gladdi
mig hve mjög þau kunnu að meta
hann. Dálitlu síðar, þegar þau voru
aftur komin heim til Frakklands,
sendi konan mér bréf og þá fyrst var
hrósið og þakklætið frá henni orðið
hjartanlegt. Maðurinn hennar hafði
þá verið að semja við bankann þeirra
um lán og fengið umtalsvert betri
kjör á lántökunni af því hann var
laus við háþrýstinginn sem hrjáði
hann áður. Betra heilsufar þýddi að
bankinn treysti sér til að lána honum
á betri kjörum. Svona hvatakerfi
mætti taka upp hér á landi – hugsa
svolítið út fyrir rammann þegar
kemur að því að bæta lífsstíl landans
og fjárfesta í góðri heilsu.“
jon.olason@gmail.com
Hollur matur „Stjórnendur gera sér grein fyrir því í dag að það margborgar sig að fjárfesta í hollum hversdagsmat fyrir starfsfólkið. Það skilar sér meðal annars í auknum afköstum.“
Viljum auka heil-
brigði Íslendinga
HaPP er veitingastaður sem nýverið var opnaður á jarð-
hæð glerturnsins við Borgartún og hafa aðstandendur
einfalt en óneitanlega stórhuga markmið í huga.
Morgunblaðið/Ernir
Framkvæmdastjórinn Lukka Pálsdóttir hjá HaPP.
’Maðurinn hennarhafði þá verið aðsemja við bankann þeirraum lán og fengið umtals-vert betri kjör á lántök-
unni af því hann var laus
við háþrýstinginn sem
hrjáði hann áður. Betra
heilsufar þýddi að bank-
inn treysti sér til að lána
honum á betri kjörum.
24 | MORGUNBLAÐIÐ
Yogafitness í heimilinu
Yoga - Pilates – Slökun
Vorönn: Þri. kl. 21 og fim. kl. 19:30
Hefst 18. janúar. Verð 16.000 kr.
Skráning og upplýsingar á asdis@bardusa.is
eða í síma 777-2383
Fimleikafjólurnar í Fossvoginum
Kvennaleikfimi í Fossvogsskóla
Vorönn: Þri. kl. 17 og fim. kl. 17
Hefst 10. janúar. Verð 14.000 kr.
Skráning og upplýsingar á asdis@bardusa.is
eða í síma 777-2383