Morgunblaðið - 15.03.2011, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 15.03.2011, Blaðsíða 20
20 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 15. MARS 2011 ✝ Matthildur Sig-urjónsdóttir fæddist í Vest- mannaeyjum 21. janúar 1957. Hún lést á Landspít- alanum 7. mars 2011. Foreldrar henn- ar eru Sigurjón Jónsson, f. 6. apríl 1925, d. 8. desem- ber 2000, og Ragn- heiður Sigurðardóttir, f. 20. mars 1929. Systkini Matthildar eru Jón Ari, f. 1952, Íris Ólöf, f. 1958, Frosti, f. 1962, og Sigurjón Ragnar, f. 1967. Matthildur var gift Berki Braga Baldvinssyni, f. 8. júni 1963, og börn þeirra eru: 1) Breki Mar, f. 10. janúar 1985, dætur hans eru Hrafnhildur Eva, f. 2009, og Dagmar Rut, f. 2010, 2) Íris Katrín, f. 5. júlí 1986, dóttir hennar er Matt- hildur Embla, f. 2008, 3) Sig- urjón Mar, f. 23. júní 1992. Matthildur fæddist í Vest- mannaeyjum og ólst þar upp til fimm ára aldurs. Þá flutti hún til Reykjavíkur og bjó lengst af í Laug- arneshverfi þar sem hún var bæði í barna- og gagn- fræðaskóla. Matt- hildur gegndi ýms- um störfum um ævina en kærust voru henni árin í Kramhúsinu þar sem ólgandi frumkraftur og heilbrigt fjölmenningarlegt um- hverfi átti vel við hana. Árið 2005 lauk Matthildur prófi í læknaritun frá Fjölbrautaskól- anum í Ármúla. Síðustu árin stundaði hún nám í náttúrufræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og átti rétt ólokið BS-ritgerð sinni sem fjallaði um þúfur í íslenskri náttúru. Matthildur verður jarðsungin frá Laugarneskirkju í dag, 15. mars 2011, og hefst athöfnin kl. 13. Hjartkæra dóttir, Viku af viku, nótt og dapran dag dauðans engill söng þitt vöggulag; söng og skenkti sárra kvala vín, söng og spann þitt hvíta dáins lín. Loks kom heilög hönd, sem um þig bjó himnesk rödd, er sagði: Það er nóg. (Matthías Jochumsson) Þín minning mun ávallt lifa í hjarta mínu. Mamma. Til systur minnar. Matthildur systir mín var mín hvunndagshetja. Hún var klettur. Hún var manneskjan sem ég leit upp til vegna þess að hún var æðrulaus, kærulaus, fyndin og góð og hún var alltaf til í allt. Hún var seigari en allir. Það var dásamlega gaman að skemmta sér með Matthildi, því henni fannst gaman að syngja og dansa og hún var rokkari. Við sáum jök- ulinn loga og sáum sólina slá silfri á voga. Hún var næturdrottning og var alltaf glæsilegust. En um fram allt var hún ynd- isleg manneskja. Við ætluðum að verða gamlar kerlingar saman og eiga saman góðar stundir eins og við áttum svo auðvelt með að eiga. Nú mun- um við verða saman í alheiminum þar sem andarnir og minningarn- ar mætast. Ég og fjölskylda mín elskuðum hana og munum alltaf sakna henn- ar. Minning hennar mun lifa. Eft- irfarandi ljóð vil ég senda systur minni því það minnir mig á hana. Megi allir góðir vættir styrkja ástvini Matthildar í þessari miklu sorg. Bláir eru dalir þínir byggð mín í norðrinu heiður er þinn vorhiminn hljóðar eru nætur þínar létt falla öldurnar að innskerjum – hvít eru tröf þeirra. Þöglar eru heiðar þínar byggð mín í norðrinu. Huldur býr í fossgljúfri saumar sólargull í silfurfestar vatnsdropanna. Sæl verður gleymskan undir grasi þínu byggð mín í norðrinu því sælt er að gleyma í fangi þess maður elskar. Ó bláir eru dalir þínir byggð mín í norðrinu. (Hannes Pétursson) Íris Ólöf. Matthildur mágkona mín var slíkur harðjaxl í baráttunni við krabbann að aðeins hennar allra nánustu vissu um allar þær þraut- ir sem hún gekk í gegnum síðustu árin. Veikindin voru leiðinlegt og óþarft umræðuefni og margt betra hægt við tímann að gera en að eyða honum í svo þarflaust hjal. Og þar var ekki setið við orðin tóm. Hún lifði lífinu lifandi og til fulls þar til yfir lauk. Það bjó í Matthildi einhver drottning. Hún hafði til að bera glæsileika og þessa einstöku reisn sem aldrei bliknaði sama hvernig veikindin herjuðu á. En fyrst og fremst var þessi drottningareigin- leiki félagslegur. Hún var alls staðar þungamiðjan þar sem hún fór, aflvélin sem fékk hlutina til að hreyfast. Ég hef ekki yfirsýn yfir alla þá vina- og vinkvennahópa sem Matthildur var höfuðpaurinn í, en þeir eru margir og margvís- legir. Heimili hennar og Barkar var félagsmiðstöð, alltaf öllum op- ið. Ég hef ekki oft komið á Laug- arnesveginn svo ekki væru þar gestir, vinir eða vinkonur. Vinir og kunningjar krakkanna hafa marg- ir nánast búið þar í gegnum tíðina ekki síður en heima hjá sér. Svo bættust tengdabörn og barnabörn í hópinn og hversdagslífið á Laug- arnesveginum var eins og eitt alls- herjar ítalskt fjölskylduboð. Þannig vildu þau hafa það. Í allri þessari makalausu hringiðu mannlífs sat Matthildur eins og sól í miðju sólkerfi. Eins og drottning. Það er svo margt hægt að segja um Matthildi. Hún elskaði lífið og það var alltaf einhver stemning sem fylgdi henni. Hún var sú sem enn dansaði þegar allir aðrir voru sprungnir á limminu. Þegar aðrir voru dottnir í röfl eða tilfinninga- semi var Matthildur, leiftrandi skýr, eins og nývöknuð að njóta augnabliksins í botn. „Rokk og ról“ fékk nýja merkingu þegar maður hafði kynnst Matthildi. Ég gleymi ekki þessari mynd: Hring- borðið (matarklúbburinn) heima hjá Matthildi og Berki. Langt liðið á nótt og flestir á förum eða farnir. Þá er Led Zeppelin sett í græj- urnar og tónlistin hríslast um Matthildi eins og raflost. Hún andvarpar af upphafinni hrifn- ingu. Svo dansar hún og syngur eins og enginn sé morgundagur- inn, og kann alla texta. Þær systur, Matthildur og Íris kona mín, voru tengdar óvenju sterkum böndum, í stöðugu sam- bandi og virtust vita hvor af ann- arri þess á milli á einhvern óút- skýrðan hátt, sín í hvorum landshlutanum. Þegar kallið kom í síðustu viku og sýnt var að hverju stefndi beið Matthildur í dásvefni sínum þar til Íris var komin með flugi að norðan svo hún gæti líka kvatt. Fyrir það og svo margt annað erum við ævarandi þakklát. Hjörleifur Hjartarson. Í dag kveðjum við stórkostlega konu. Mattý var ein þeirra sem er einfaldlega svo auðvelt að elska. Þegar maður kemst í kynni við eins geislandi og hlýja persónu er ekki annað hægt en að líta upp til hennar og skipa henni sérstakan sess í hjarta sínu. Við, vinir Breka og Írisar, urð- um þess heiðurs aðnjótandi að fá að kalla Mattý „þjóðhátíðar- mömmuna“ okkar en fyrir okkur, eins og mörgum öðrum, er Þjóðhátíð svo miklu stærra og meira en hver önnur útihátíð, og þar átti Mattý stóran hlut að máli. Fjarri okkar eigin foreldrum þessa árlegu og ávallt ógleyman- legu helgi í byrjun ágúst tók Mattý að sér þetta mikilvæga hlutverk. Hún sá til þess að við borðuðum nóg, klæddum okkur vel og færum okkur ekki að voða. Hún hvatti okkur til að skemmta okkur, en gera það skynsamlega; hughreysti okkur og bjó um sárin þegar óhöppin áttu sér stað; hún tók okkur meira að segja stundum á teppið ef við hættum okkur yfir strikið. Sjaldgæfum ávítunum Mattýjar var alltaf tekið af mikilli alvöru því henni vildum við síst allra valda vonbrigðum. Þeir voru líka fleiri en einn eða tveir biðl- arnir sem þurftu að fara í gegnum Mattý áður en þeir fengu „leyfi“ til að ganga á eftir einhverju okk- ar! Ótal stundir í hvíta tjaldinu, brekkunni og í sunnudagsmorg- uns-kjúklingaveislu í matartjald- inu eru okkur ofarlega í huga þessa stundina en kærastar eru okkur minningar um innihaldsrík- ar sem ómerkilegar samræður um allt og ekkert, ófá bros og innileg faðmlög sem Mattý deildi út óspart, um Þjóðhátíð jafnt og aðra daga. Í faðmi hennar fundum við alltaf svo mikla hlýju og um- hyggju og í okkar augum var hún ein sterkasta, lífsglaðasta og ör- látasta kona sem fyrirfannst. Við verðum systkinunum ævinlega þakklát fyrir að deila henni með okkur. Elsku Börkur, Breki, Íris og Sigurjón. Ykkar missir er stærri en festa má í orð. Við vitum þó að það er líka heilmargt sem þið haldið eftir. Fjölmargar minning- ar úr lífi með þessari litríku og yndislegu konu sem kenndi ykkur svo ótalmargt sem þið munuð kenna Matthildi Emblu, Hrafn- hildi Evu og Dagmar Rut í fram- tíðinni. Með sorg í hjarta yfir þessum ótímabæra missi viljum við lýsa yfir okkar dýpstu samúð til fjöl- skyldunnar. Fyrir hönd þjóðhátíðarhópsins, Lena. Hún Mattý, þessi glæsilega, frábæra og sterka kona er dáin, gat ekki lengur ráðið við sjúkdóm- inn voveiflega sem bjó með henni um árabil. Kjarkur hennar óbil- andi. Það sýndi sig best í því hvernig hún lifði lífinu. Henni hafði verið sagt að engin von væri um bata og gerði það upp við sig að allar hugsanir í þá átt væru tál- vonir einar sem myndu einungis skapa óbærileg vonbrigði. Þessa varð ég var þegar ég í vanmátt- ugri viðleitni reyndi að vekja at- hygli hennar á að prófa hitt og þetta sem hún hafði ekki trú á. Hefði hún ekki gert mér grein fyr- ir þessu viðhorfi, hefði ég oftar en ekki getað haldið að hún tryði því andstæða, að hún væri ódauðleg, því hennar plön miðuðust við lífið en ekki dauðann. Þannig hélt hún ótrauð áfram í framhaldsnámi þó hún vissi að hún myndi ekki hafa tækifæri til að vinna við sitt fag að námi loknu. Í samtölum síðustu mánaða við hana var það ekki einu sinni spurning að við myndum hittast í vor þegar ég kæmi heim til Íslands. Ég var ekki eins viss, en hélt í vonina þar til hún var úti. Við erum tvítugar í Reykjavík. Um hverja helgi hittumst við og förum út að skemmta okkur og stundum þess á milli. Í hópnum eru ég, Mattý, Íris og Tóta ásamt fleirum. Við berjumst fyrir ýms- um réttlætismálum í þjóðfélaginu, fullar af trú á lífið, á mátt okkar og megin. Það kemur að því að við stofnum fjölskyldu, lífið tekur aðra stefnu. Vináttan traust leiðir okkur Mattý saman aftur og aftur. Vikuferðir Barkar og Mattýjar ásamt börnum til okkar í Seldal voru ógleymanlegar stundir og við til þeirra þegar við komum í bæ- inn. Þannig er það með vináttuna. Hún er. Í ferðum mínum heim frá Ástralíu hafa Mattý og Börkur verið fastur punktur. Þau hafa tekið á móti allri fjölskyldu minni eins og hún væri þeirra. Minn- ingasjóðurinn er djúpur og dýr- mætur. Þegar ég hugsa um Mattý sé ég fyrir mér abstrakt myndir; fjall, klettur, brúnhærð eins og jarð- vegurinn sem nærir og gefur. Kona sem býr yfir glæsi og gjörvi- leik drottningar. Hún ver sína fyr- ir áföllum, er sterk fyrir alla, get- ur ekki hugsað sér að skapa öðrum óþægindi, leyfir þeim ekki að bera sínar byrðar. Það var hennar leið og hún gekk hana til enda. Berki, börnum hennar, tengda- börnum og barnabörnum, ásamt Ragnheiði móður hennar, systkin- um, og fjölskyldunni allri, votta ég mína dýpstu samúð. Lýs þeim þú milda ljós. Ég kveð vinkonu sem mun búa í hjarta mér lífið á enda. Stefanía Gísladóttir Vestur-Ástralíu. Nú kveðjum við okkar yndis- legu vinkonu allt of fljótt. Við eig- um þér svo mikið að þakka og söknum þín afar sárt. Blessuð sé minning Matthildar. Ég veit að vorið kemur og veturinn líður senn. Kvæðið er um konu, en hvorki um guð né menn. Hún minnti á kvæði og kossa og kvöldin björt og löng og hvíta, fleyga fugla og fjaðraþyt og söng. Og svipur hennar sýndi, hvað sál hennar var góð. Það hló af ást og æsku, hið unga villiblóð. Ég bý að brosum hennar og blessa hennar spor, því hún var mild og máttug og minnti á – jarðneskt vor. (Davíð Stefánsson) Hjartans þakkir fyrir allt og allt. Þínar vinkonur, Fjóla og Hrönn. Mattý varð ekki vinkona mín við fyrstu kynni. Hún þurfti svig- rúm áður en hún tók fólk inn til sín. En þegar ég hafði fengið þar pláss varð ekki aftur snúið. Hún var miklu róttækari en ég, rauð- sokka fram í fingurgóma. Alger- lega laus við hroka, æðrulaus já- kvæð og skemmtileg. Hún var besta vinkona mín. Vinkona sem alla dreymir um að eignast, vin- kona í blíðu og stríðu, án skuld- bindinga. Það var ekkert auðvelt að komast inn fyrir skelina á henni vinkonu minni. Hún bar ekki sorg- ir sínar og kvíða á torg. Hún tók öllu af æðruleysi og var alltaf já- kvæð. Hún hlustaði á mig og lán- aði mér dómgreind þegar upp á vantaði. Við áttum okkar stundir þar sem við gátum gefið hvor ann- arri þau ráð sem við oft þurftum á að halda. Ég er þakklát fyrir það. Hvað getur maður sagt þegar svo hjartfólgin vinkona er rifin frá okkur í blóma lífsins: Vinkona sem maður á hvert bein í. Við vorum samferða í barneignum og barna- uppeldi. Hjálpuðum hvor annarri og veittum stuðning. Fórum sam- an í útilegur og sungum saman fram undir morgun. Elskuðum náttúru Íslands, sumarnætur og sólaupprás. Íslenska sveit. Það voru búnir að vera erfiðir tímar, veikindi minnar elskulegu vin- konu ágerðust og dagarnir sem voru góðir voru að verða færri en þeir slæmu. Vinkona mín var samt ekkert á því að gefast upp. Því- líkur karakter sem hún var. „Auð- vitað fer ég á þorrablótið í Kram- húsinu. Svo förum við á tónleikana með Ný dönsk.“ Teinrétt og fögur mætti hún auðvitað á báða at- burðina fárveik, en lét ekki bilbug á sér finna. Dásamleg kona hún Mattý og okkur hinum til eftir- breytni. Hún grét af hlátri á tón- leikunum og spurði hvort hún væri nokkuð svört undir augunum því hún hafði getað maskarað á sér augun fyrir tónleikana. Æi hvað þetta var gaman og fallegt. Það voru margir atburðir sem við ætluðum okkur að taka þátt í á næstu vikum og mánuðum. Auð- vitað ætluðum við líka í útilegur í sumar og sleikja sólina á pallinum. Þetta bíður betri tíma. Ég er svo þakklát fyrir það að hafa fengið að vera vinkona Mattýar, það er svo dýrmætt að hitta svona góða manneskju og fá að deila með henni lífsbaráttunni og þeim vegspotta sem við geng- um saman. Ég er betri manneskja eftir þá göngu. Elsku hjartans Börkur, Breki, Íris, Sigurjón tengdabörn og barnabörn, missir ykkar er mikill. Ekkert getur læknað þau sár sem nú hafa sest á sálina. En minning um góða eiginkonu, móður og besta vin er dýrmæt, hana skulið þið geyma og gleðjast yfir á erf- iðum stundum. Megi allar góðar vættir halda utan um hópinn hennar Mattýar. Far þú í friði, elsku vinkona. Þú fylgir mér í hjarta mínu þar til við hittumst á ný. Guðfinna Guðmundsdóttir. Í ljósi aðstæðna þótti okkur ekki góð hugmynd að bíða með að halda saumó um viku þótt við kæmumst ekki allar þetta kvöld fyrir tveimur vikum. Það reyndist líka verða síðasta kvöldið sem Mattý komst í saumaklúbbinn okkar sem hefur verið haldinn samfellt í næstum 40 ár. Það lofaði okkur víst enginn þegar við vorum ungar að lífið yrði alltaf dans á rósum en að Mattý skuli vera dáin finnst okkur ósanngjarnt. Við vor- um níu talsins til að byrja með, flestar skólasystur, og Mattý er önnur í hópnum sem hverfur úr þessari jarðvist. Þetta á fyrir okk- ur öllum að liggja en okkur finnst við bara svo ungar, rétt fimmtug- ar, og líður ekkert öðruvísi en þeg- ar við byrjuðum að hittast á unga aldri. Við hittumst sérstaklega þegar Mattý var dáin, mættum allar með sorg í hjarta en þetta snerist upp í mjög skemmtilega kvöldstund. Því þó að tilefni fund- arins væri andlát Mattýar urðu endurminningarnar um líf hennar til að græða sárin, þetta voru minningar um heilsteypta og skemmtilega manneskju sem allir urðu ríkari af að þekkja. Við skrif- uðum niður orð sem okkur finnst lýsa henni vel. Það voru orð eins og hreinskiptin, skapandi, fagur- keri, listfeng, skemmtileg, lestrar- hestur, skapmikil, kvenréttinda- kona með ríka réttlætiskennd og sjálfstæð í hugsun. Það má alveg raða þessum orðum saman í eina setningu en við vissum líka að ef við færum að skrifa væmna minn- ingargrein um hana myndum við fá það sem við kölluðum „svipinn“ frá henni en það var þessi mér- líkar-þetta-ekki-svipur sem allir í kringum Mattý þekktu. Mattý hagaði lífi sínu öðruvísi en við hinar. Þegar hún var 22 ára fór hún að vera með strák sem okkur fannst svolítið skrítin skrúfa. Þar var Börkur kominn inn í líf hennar aðeins 16 ára gam- all og Mattý hélt sínu striki þótt mörgum þætti sá ráðahagur ekki ráðlegur og sannarlega ekki hefð- bundinn. Þarna vissi hún eins og oft betur, þau voru miklir sálu- félagar alla tíð og í langri sjúkra- sögu Mattýar kom í ljós hvaða mann Börkur hafði að geyma. Börkur hafði brennandi áhuga á leiklist sem var eflaust ein af ástæðunum fyrir því af hverju Mattý heillaðist af stráknum. Ein sagan sem var rifjuð upp var þeg- ar Mattý og Börkur fóru til New York í leiklistarprufu. Það vildi svo til að ein úr saumaklúbbnum var á leiðinni heim eftir heimsókn til Bandaríkjanna og það þótti því alveg tilvalið að hittast yfir einum bjór á Kennedy-flugvelli. Þetta varð ein allsherjargleði og auðvit- að missti vinkonan af vélinni heim. Þessi stund hefur síðan verið stanslaus uppspretta hláturskasta og í dag er það talið tekjumegin að hafa misst af vélinni og fengið frekar að eiga stund með Mattý og Berki í essinu sínu. Mattý vissi alltaf hvað hún vildi og ljóst er að hún kvaddi þennan heim á eigin forsendum þótt hún fengi ekki að velja tímann. Við söknum hennar sárt og vottum Berki og öllum ættingjum hennar okkar dýpstu samúð. F.h. saumaklúbbsins, Sólveig. Matthildur Sigurjónsdóttir HINSTA KVEÐJA Kæra Matthildur. Þér var gefið svo margt. Gáfur. Göfuglyndi. Hlýja. Þolinmæði. Lífs- gleði. Lífsvilji. Kátína. Hlátur. Æðruleysi. Lífs- skilningur. Vammleysi. Persónutöfrar. Fegurð. Yndisþokki. Velvild. Vænt- umþykja. Ást. Söknuður. Sorg. Harmur. Allt þetta gafst þú okk- ur. Þinn Jón. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi, langafi og bróðir, INGVAR JÓNSSON húsa- og skipasmíðameistari, Grænlandsleið 44, Reykjavík, lést á líknardeild Landspítala Landakoti föstudaginn 11. mars. Útförin fer fram frá Langholtskirkju föstudaginn 18. mars kl. 15.00. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vildu minnast hans er bent á Styrktarsjóð langveikra barna. Kristín Magnúsdóttir, Magnús Ingvarsson, Anna Dóra Steingrímsdóttir, María Kristín Ingvarsdóttir,Páll Ragnar Sveinsson, Bjarni Þór Ingvarsson, Ruth Irene Thorkildsen, barnabörn, barnabarnabörn og systur. HJARTAVERND Minningarkort 535 1825 www.hjarta.is 5351800

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.