Morgunblaðið - 20.06.2011, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 20.06.2011, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. JÚNÍ 2011 Á árlegri menningarhátíð á Borg í Grímsnesi 25.-26. júní næstkomandi verður haldið málþing um skáldsögur Einars Más Guðmundssonar Fótspor á himnum, Drauma á jörðu og Nafnlausa vegi. Í bókunum seg- ir Einar Már frá uppvaxtarárum föðurfólks síns sem komið var fyrir á bæjum í Grímsnesi, alls sjö systkinum, og tveim í Laug- ardal. Þátttakendur í mál- þinginu eru Friðrik Þór Frið- riksson, Vésteinn Ólason, Gunnar Karlsson og Þórður Helgason. Bergdís Linda Karls- dóttir les valda kafla úr bók- unum og Tómas R. Einarsson flytur tónlistaratriði. Einar Már mun síðan flytja ávarp og lesa upp nokkur ljóða sinna við undirleik Tómasar R. Ein- arssonar og félaga. Ýmisleg fleira er í boði á menning- arhátíðinni sem hefst á hádegi á laugardag og stend- ur fram á sunnudag, en málþingið hefst kl. 13.30 á sunnu- dag. Einar Már og Grímsnesið MENNINGARHÁTÍÐVIÐTAL Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Nýjasta bók Einars Más Guð- mundssonar er Bankastræti núll, safn greina um hin fjölbreytileg- ustu mál sem varða íslenskan samtíma. Þarna er meðal annars skrifað um bankahrun og pólitík, skáldskap og rithöfunda, réttlæti og óréttlæti. Bókin er skrifuð af miklu fjöri og alkunn stílsnilld höfundar nýtur sín vel. Hvíta bókin, sem var sömuleiðis safn þjóðfélagsgreina, vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2009, og fékk mikið lof erlendra gagnrýnenda. „Hlusta skal þegar fremsti núlifandi rithöfundur Ís- lands kveður sér hljóðs,“ sagði gagnrýnandi Berlingske Tidende. Einar Már er fyrst spurður hvort honum hafi fundist hann hafa átt margt ósagt eftir að hafa skrifað Hvítu bókina. „Ég held að ég hugsi alltaf þannig að ég sé að koma skila- boðum á framfæri, skilaboðum sem ég álít mikilvæg,“ svarar hann. „Þaðan kemur innlifunin í efnið. Þessi skilaboð geta síðan verið af ólíkum toga. En þau geta leitað sér útrásar í öllum formum, sögum, ljóðum, greinum. Bara því sem ég er að fást við þá stundina. Í þessari bók – Bankastræti núll – fann ég skáldskapinn í veru- leikanum, það er ekkert bók- menntaform sem slær veru- leikanum við. Við þurfum ekki skáldskap í dag, við bara lýsum veruleikanum. Þetta var leið- arstefið við Bankastræti núll og svo sem Hvítu bókina líka. Í þeim skilningi á ég líka alltaf eitthvað ósagt og þess vegna er frásagn- arlistin alveg ótæmandi brunnur.“ Stend við hliðina á barninu Það var ansi harkalega gagn- rýni að finna í Hvítu bókinni. Er mildari tónn í þessari bók? „Ég býst við því. Yfirvegun færist í aukana. Formin eru skýr- ari og meira unnin. Ég kann að meta þegar saga verður eins og grein og líka öfugt. Þegar grein verður eins og saga. Þarna getur maður lært sitthvað af höfundum eins og Borges og jafnvel eld- gömlum sagnariturum sem töldu sig bara vera að segja sannleik- ann, en sannleikurinn er aldrei eins og alltaf að skipta um skoð- un. Ég er samt í grundvall- aratriðum að gera það sama í þessum bókum, að beita bók- menntunum á veruleikann og nota það sem ég kann í því að beita tungumálinu á heiminn. Ég lít svo á að enginn hópur eigi einkarétt á tungumálinu. Ekki stjórn- málamennirnir, ekki hagfræðing- arnir, ekki lögfræðingarnir en þessir hópar reyna oft að stjórna okkur í krafti þess að við skiljum þá ekki. Þarna stendur almenn- ingur eins og barnið í sögunni um nakta keisarann. Sem skáld vil ég standa við hliðina á barninu og fylgja ábendingum þess.“ Trúi enn á spurningarmerkið Í Hvítu bókinni og Bankastræti núll ertu meðal annars að skrifa um pólitík og pólitísk deilumál. Líturðu á þig sem pólitískan höf- und? „Mín pólitík er skáldskapurinn. Ég skrifa ekki bækur til að menn séu sammála þeim. Ég reyni frek- ar að miðla óreiðunni. Ég trúi enn á spurningarmerkið. Ég held að hver bók leggi ákveðið verkefni fyrir höfund hennar. Og það eina sem skiptir máli er að vera trúr verkinu. Þetta getur auðvitað ver- ið heilmikil pólitík. Stundum krefj- ast tímarnir þess að menn blandi sér í málin og taki afstöðu. Og það getur líka verið afstaða að taka ekki afstöðu. Á tímum eins og núna er hlutleysi afstaða. Það eru allir að taka afstöðu, sérstaklega þeir sem ekki taka afstöðu. Ég skrifa ekki bækur til að sannfæra fólk en banna engum að fylgja góðum fordæmum. Skáld- skapur og stjórnmál eru bara eins og árfarvegir sem stundum renna saman og stundum greinast í sundur. Marquez sagði að þegar skáldið tekur myndir af veruleikanum framkallar filman drauma. Stjórnleys- ingjar segja: Vertu raunsær og framkvæmdu hið ómögu- lega. Það er mikil áskorun í þessum viðhorfum og það er mikil áskorun að vera til og standa uppréttur. Ef menn kalla þetta pólitík þá er ég mjög pólitískur. Ég tel mig svona nokkurn veg- inn vita hvar ég stend og passa ekki í margar flokksflíkur. Ég hika ekki við að styðja ákveðna flokka þegar svo ber undir. Nú á tímum eru öll viðhorf svo þvers og kruss að ég gæti jafnvel skrifað heila bók um það.“ Í barnaskóla að syngja Þetta er afar vel skrifuð bók. Lástu lengi yfir stílnum? „Stíll og form eru í stöðugri þróun. Því áreynslulausari sem stíllinn er því betri er hann, sé hægt að segja það þannig. Lær- dómarnir af okkar miklu sagnalist er ákveðin auðmýkt. Menn eiga ekki að flíka kunnáttu sinni og þekkingu. Hún býr undir niðri. Skáldskapur og bókmenntir eiga ekki að vera sýndarmennska. Sem höfundur er maður í stöðugu námi, maður er alltaf í barnaskóla að syngja. Það er leikur að læra. Stíllinn á Bankastræti núll er bara stíll sem hefur verið að þróast. Og hann heldur vonandi áfram að þróast.“ Og þú heldur áfram að skrifa. Hvað kemur næst frá þér? „Ég vinn bara áfram að alls konar verkefnum. Sumt er hugsað til langs tíma og mörg verk eru í sífelldri endurskoðun. Svo kemur eitthvað sem þarf að bregðast við og þá breytist sýnin á það sem til er. Málið er að hitta á rétta and- artakið. Ég býst við að næst segi ég sögu af mjög skemmtilegu fólki. Af nógu er að taka.“ Morgunblaðið/Eggert Einar Már Guðmundsson „Í þessari bók – Bankastræti núll – fann ég skáldskapinn í veruleikanum, það er ekkert bókmenntaform sem slær veruleikanum við.“ Sannleikurinn skiptir alltaf um skoðun  Í Bankastræti núll skrifar Einar Már Guðmundsson um helstu mál samtímans  Mín pólitík er skáldskapurinn  Ég skrifa ekki bækur til að menn séu sammála þeim, segir rithöfundurinn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.