Morgunblaðið - 07.10.2011, Síða 38

Morgunblaðið - 07.10.2011, Síða 38
38 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. OKTÓBER 2011 KVIKMYNDIR Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Kvikmyndin Killer Elite verður frumsýnd hér á landi í dag en einn af framleiðendum henn- ar er Sigurjón Sighvatsson. Handrit mynd- arinnar er byggt á bók Ranulph Fiennes, The Feather Men og segir af breskum fyrrver- andi sérsveitarmanni, Danny, sem heldur til Óman í því skyni að bjarga félaga sínum og læriföður, Hunter sem þar er haldið föngnum af ættbálkahöfðingja, sjeik Amr. Amr setur honum afarkosti, hann verði að drepa þrjá fyrrum meðlimi bresku leyniþjónustunnar sem bera ábyrgð á dauða þriggja sona hans og taka játningar þeirra upp á myndband, ell- egar verði Hunter tekinn af lífi. Danny leitar aðstoðar tveggja fyrrum félaga sinna úr sér- sveitunum og leggja þeir saman á ráðin. Babb kemur í bátinn þegar Fjaðurmenn, leyniráð sem vernda á fyrrum leyniþjón- ustumenn, kemst á snoðir um ráðabruggið og fer að rannsaka málið. Hefst þá mikill elt- ingaleikur og barátta upp á líf og dauða. Í að- alhlutverkum í Killer Elite eru Robert De Niro, Jason Statham og Clive Owen. Miklar kvikmyndastjörnur þar á ferð. Leikstjóri myndarinnar er Norður-Írinn Gary McKendry og er þetta fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd en hann á að baki fjölda sjónvarpsauglýsinga sem hlotið hafa verð- laun, m.a. auglýsingar fyrir IKEA og Porsche og stuttmyndina Everything in this Country Must sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna árið 2005. Blaðamaður ræddi við leikstjórann í fyrradag og spurði hann fyrst hvernig sam- starf þeirra Sigurjóns hefði hafist. Nef fyrir hæfileikum „Fyrir nokkrum árum hringdi hann óvænt í mig. Hann hafði séð eitthvað af verkum mínum og vildi hitta mig. Ég sagði honum að eiginkona mín ætti von á barni og hann svar- aði: „Já, en hún er ekki búin að eiga það,““ segir McKendry og hlær. Þeir hafi hist og rætt málin, komist að því að þeir hefðu svip- aðan smekk fyrir kvikmyndum og hann hefði sagt Sigurjóni að hann hefði áhuga á að leik- stýra kvikmynd í fullri lengd. „Hann er lunk- inn í því að koma auga á hæfileikafólk, hann er eiginlega Malcolm McLaren kvikmynda- geirans,“ segir McKendry kíminn. Úr hafi orðið fyrrnefnd stuttmynd sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna og þaðan hafi leiðin legið yfir í kvikmynd í fullri lengd. „Ég hef verið spurður að því af hverju ég hafi gert svona umfangsmikla, fyrstu kvik- mynd og ég hef svarað því til að nær væri að spyrja þá sem vildu ekki fjármagna minni myndirnar. Við vorum með tvær minni í sigt- inu en það gekk ekki upp. Þessi gerði það hins vegar.“ McKendry segir heiminn vissu- lega alltaf að breytast en eitt breytist þó ekki, stríð verði alltaf háð og þá m.a. barist um olíulindir. „Myndin gerist árið 1980 og sjáðu bara ástandið í dag,“ segir McKendry. Bresku SAS-sveitirnar gerðu árás á Óman árið 1972 og gerist myndin átta árum síðar. „Hver væri ekki taugaveiklaður?“ Fyrr í vikunni ræddi blaðamaður við Sig- urjón og sagði hann að það hefði tekið veru- lega á taugar McKendry að hringja í De Niro í fyrsta sinn, hann hefði nánast þurft að halda í höndina á honum á meðan á símtalinu stóð. Blaðamaður ber þetta undir McKendry sem skellihlær. „Hver væri ekki taugaveiklaður?“ segir hann um símtalið og segir Sigurjón nánast hafa skriðið inn í símtólið. Sigurjóni hafi verið mjög í mun að hann klúðraði ekki símtalinu. „Ég var að tala við einn af mínum guðum. Ég ólst upp í Belfast og við sáum ekki kvikmyndir frá 9. áratugnum því öll kvikmyndahúsin höfðu verið sprengd í loft upp. Við sáum myndir frá 8. áratugnum og ég ólst upp við að horfa á De Niro og tók hann í guðatölu. Síðan er mér réttur síminn og sagt að þessi guð vilji tala við mig og hugsanlega leika í myndinni minni. Og ég hafði um tíu mínútur til að ná honum á mitt band,“ segir McKendry. – Kom hann með setninguna frægu úr Taxi Driver: „Ertu að tala við mig?!“? McKendry hlær. „Nei, það var frekar: „Af hverju ertu að tala við mig?“,“ segir hann og skellihlær. Þetta hafi verið frábært símtal. Samskiptin við De Niro hafi verið ákveðin jafnvægislist, aðdáun hans á honum hafi ekki mátt vera of augljós, hann hafi þurft að bæla hana niður. Það sé vissulega erfitt að leik- stýra slíkum manni og mikilvægt að minna sig á að þekktir leikstjórar í dag, Martin Scorsese og fleiri, hafi verið í sömu stöðu snemma á ferli sínum, þegar þeir voru ungir og lítt þekktir. Kvikmyndastjörnur á borð við De Niro vilji heldur ekki finna fyrir aðdáun samstarfsmanna sinna, þær séu umkringdar aðdáendum alla daga og komnar með nóg af því. „Það erfiðasta var að þurfa að hringja í Bob, viku áður en hann átti að fara til Cannes og fara fyrir dómnefndinni þar, og segja hon- um að við þyrftum að taka aukatökur og að hann þyrfti að safna aftur skeggi,“ segir McKendry. De Niro hafi því verið skeggjaður í Cannes. Illa við heiti myndarinnar – Þetta er hasarmynd, ekki satt? „Þetta er hasartryllir. Ég valdi ekki titil myndarinnar og þoli hann ekki. Ég held að titillinn og stiklan gefi þá mynd að hún sé einföld hasarmynd en hún er það ekki. Hún er byggð á raunverulegum atburðum, það er alvörusaga í henni og mjög áhugaverðar flétt- ur og flækjur sem tengjast yfirvöldum og leynifélögum. Þetta er ekki bara skothríð og sprengingar, þó að slíkt sé vissulega stór hluti af sögunni. Í mörgum hasarmyndum er mikill sársauki en engar tilfinningar í spilinu. Þetta er ekki þannig mynd, það eru tilfinn- ingar í þessari. Þetta er hasarmynd fyrir full- orðið fólk. Einhver sagði að þetta væri ekki hasarmynd hins hugsandi manns heldur has- armynd sem fær mann til að hugsa,“ segir McKendry. – Það hlýtur að vera býsna flókið að leik- stýra hasarmynd með öllum sínum áhættu- atriðum og skipulagningu? „Satt best að segja er það mjög skemmti- legt. Aðalatriðið er að vera virkilega vel und- irbúinn og tryggja að maður hafi nægan tíma. Þetta getur verið afar hættulegt. Við vildum ná sérstökum stíl í hasarnum. Myndin er um ofbeldishneigða menn, beiting ofbeldis er þeim eðlileg og því var mikilvægt að láta De Niro, Statham og Owen leika í áhættuatrið- unum. Þetta er mun auðveldara fyrir Stat- ham því hann hefur haft lifibrauð sitt af áhættuleik en fyrir Bob og Clive var þetta mun erfiðara. Þeir þurftu að leika í virkilega erfiðum slagsmála- og skotbardagaatriðum. Það krafðist mikillar skipulagningar og und- irbúnings og ég er virkilega ánægður með út- komuna, maður fær tilfinningu fyrir því að þeir hafi gert þetta í raun og veru og það tel ég mikilvægt í hasarmyndum,“ segir McKendry. Miklu máli skipti að vera með frábæran hóp áhættuleikara og sérfræðinga í áhættuatriðum, líkt og verið hafi í Killer Elite. „Við vorum með gaur sem kallaður er Dr. Boom, hann sá um sprengingarnar í Mar- okkó. Ef sprengjumaðurinn í tökum er kall- aður Dr. Boom veit maður að hann er sá besti í faginu,“ segir McKendry og hlær inni- lega. Sögusviðið Írland Hvað næstu verkefni varðar segir McKendry að þeir Sigurjón ætli að vinna áfram saman. Hann hafi skrifað handrit ásamt rithöfundinum Colum McCann upp úr bók David Martin, The Road to Ballys- hannon. Sögusviðið er Írland á tímum borg- arastyrjaldarinnar, árið 1922. „Við höfum rætt við fjölda frábærra leikara,“ segir McKendry um það verkefni. Það sé þó skammt á veg komið. Heitt Leikstjórinn Gary McKendry á tökustað Killer Elite í Marokkó með sólarvörn á höfði. Harðir Statham og De Niro snúa bökum saman í hasartryllinum Killer Elite. Hasarmynd fyrir fullorðið fólk  Killer Elite er fyrsta kvikmynd leikstjórans Gary McKendry í fullri lengd  Ósáttur við titil mynd- arinnar  Erfitt að biðja De Niro um að safna skeggi  Starfar áfram með Sigurjóni Sighvatssyni Geturðu lýst þér í fimm orðum? Í höfuðborgarsoranum þar á sína ætt og óðul þessi ónytjungur. Hvað mun standa upp úr á Airwaves? 170 íslenskar hljómsveitir. En auðvitað eru þarna frábærar erlendar líka. Ég er spenntastur fyrir Secret Chiefs 3, Random Recipe og tUnE-yArDs. En hvað er Airwaves? Gleði í Reykjavík sem snýst um tón- list. Enginn eldhúsdagur eða almenn leiðindi. Hver er besti bassaleikari sögunnar? Pálmi var nú alltaf sleipur – sló þó feilnótu á Fram og aftur blindgötuna. En ætli Jaco hafi ekki verið sá besti – en ég var alltaf skotnastur í Þorleifi Guð- jónssyni og Paul. Eftirminnileg tónlist- arhátíð sem þú hefur farið á í útlöndum? Jakajazz í Jakarta og auðvit- að G-Festival í Færeyjum. Reykjavík, Bolungarvík eða Búðardalur? Skatan í Bolungarvík og Traðarhyrna – Hvannalambið í Ytri-Fagradal og Kjaftæði á Erpsstöðum og síðan Valur og Vest- urvallagatan. Kanntu að spila á trommur? Ég kann tittislatta en var líklega aðeins betri í den þegar ég spilaði í Þokunni. Besta plata sem þú hefur heyrt? Þetta sveiflast til og frá. Ég breyttist daginn sem ég heyrði Please Please með Bítlunum. Ég var 4 ára og ég hélt að Bítlarnir væru flamenco-stúlkur í kjólum. Platan hafði farið í vit- laust hulstur í síðasta partíi. Komst að hinu sanna ca. ári síðar. Ætli uppáhalds- platan akkúrat núna sé ekki Before Hollywood með The Go- Betweens. En sú versta? Það eru margar vondar hljómplötur á markaðnum. Ég reyni að forð- ast þær en ég verð að játa að Dejlige Minder með Jodle Birge kemst ansi nálægt því að vera leiðinlegasta plata sem ég hef heyrt og síðan þykja mér reyndar allar plötur Oasis óendanlega leiðinlegar og ofmetnar með af- brigðum. Geturðu lýst dansstíl þínum á djamminu? Hann er nokkuð óhefðbundinn. Hliðarsaman sundur with a twist. Hvað færðu ekki staðist? New York og Raufarhöfn. Áttu þér leyndan hæfileika og ef svo er þá hvern? Ég hugsa að ég klappi hærra en flestir. Og síðan borða ég hraðast allra kókosbollur og kók. Ef þér hefði staðið til boða að syngja við brúð- kaup Vilhjálms og Katrínar, hvaða lög hefðir þú sungið og af hverju? „Ástfangi“ með Bless og „Is Jesus your Pal“ með Slowblow. Ég myndi reyndar fá Dr. Gunna til að söbba mig í „Ástfanganum“ og Orra Jónsson til að taka „Jesus“. Þetta eru lögin sem sungin voru í brúðkaupinu mínu og það var frábært. Maður á alltaf að óska öllum alls hins besta – líka þeim sem eiga það ekki skilið. Og það er skelfilegt að gifta sig undir Elton John eða Oasis. Hvað fær þig til að skella upp úr? Megas og Þórbergur Þórðarson. Reyndar þykja mér leiðarar Morgunblaðsins oft svo fjarstæðukenndir að ég skelli upp úr eins og einni roku. Hvað kanntu síst að meta í eigin fari? Dómhörkuna og skapið. En best að meta? Skapið og ómótstæðilegan líkama minn. Chaplin, Buster Keaton eða Harold Lloyd? Chaplin by far. Gullæðið og Einræðisherrann eru stórkostlegar bíómyndir. Hvað er það fyndnasta sem þú hefur upplifað? Ormurinn og Dr. Gunni. Það verður ekki op- inberað frekar fyrr en eftir svona 20 ár. Hvers viltu spyrja næsta aðalsmann? Hefurðu einhvern tímann vaknað á Rauf- arhöfn í miðjum júlí í blankalogni og horft út á hafið? Allar plötur Oasis óendanlega leiðinlegar Aðalsmaður vikunnar, Grímur Atlason, er framkvæmdastjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves sem haldin verður 12.-16. október.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.