Húsfreyjan - 01.01.1963, Qupperneq 14
hefst á því, að rakin er saga safnsins frá
upphafi þess. Síðan taka við hundrað
minjaþættir, sem fjalla um einstaka muni
í safninu, fornminjagröft og byggingar,
sem í vörzlu safnsins eru.
Svo sem við var að búast af jafn fjöl-
hæfum gáfumanni og Kristjáni Eldjárn,
er hver einasti þáttur þannig úr garði
gerður, að hann er í senn skemmtilestur
og fróðleikur. Gripirnir, sem lýst er, eru
af hinum ólíkustu gerðum og lýsingum
þeirra fylgja mikill sögufróðleikur og
persónusaga, sem á einhvern hátt er þeim
tengd. Ekki skemma myndirnar, sem
textanum fylgja og það, að allur frágang-
ur bókarinnar er hinn vandaðisti.
Þessi bók er ekki eingöngu fyrir fræði-
menn, þó eflaust sé svo til hennar vand-
að, að þeim komi margt að gagni, sem
þar er fram dregið. En mesta gildi henn-
ar fyrir okkur leikmenn virðist mér vera
það, að við lesturinn skerpist sýn okkar
á marga muni, sem Þjóðminjasafnið
geymir, marga fleiri en þá, sem bókin
fjallar um. Þetta er ein eigulegasta bók,
sem ég hef fengið í hendur.
Sonur minn og ég
eftir Söru Lidman
Skáldsaga þessi er þýdd úr sænsku og
er fyrsta verk Söru Lidman, sem þýtt
hefur verið á íslenzku, en hún hefur skrif-
að allmargar skáldsögur undanfarin ár.
Þýðinguna gerði Einar Bragi.
Þessi saga gerist í Suður-Afríku og er
sögumaður sænskur misendismaður, sem
í gegnum alla söguna er smám saman að
opinbera fortíð sína, heldur blakka, jafn-
framt því sem lýst er sambandi hans við
einkason hans og í þriðja lagi ástandi um-
hverfisins, einkum sambúð hvítra manna
og svartra.
Við Islendingar eigum bágt með að
skilja að nokkur rök geti réttlætt kyn-
þáttamisrétti eins og það, sem Suður-
Afríkustjórn hefur í frammi og er það
ekki sízt vegna þess þáttar, sem bókin
hefur vakið athygli. En mér finnst sjálfri
ekki síður athyglisverð mannlýsing aðal-
persónunnar og það hvernig sagan öll er
upp byggð. Sögumaðurinn hefur ætlað
sér að auðgast á auðveldan hátt í Afríku,
en þrátt fyrir það, að heiðarleiki og aðrir
viðlíka mannkostir eru honum enginn
fjötur um fót í þeirri viðleitni, þá er lífs-
lygi hans svo rótgróin, að hann fellur
alltaf á eigin tvöfeldni, hrekst neðar og
neðar, því manndómurinn er enginn.
Þetta er ekki skemmtisaga, en bók, sem
vekur til íhugunar um marga mannlega
eiginleika og þjóðfélagshætti.
Sigríður Thorlacius.
ÞORRABLÓT
KVENFÉLAGSINS ÆSKAN, ÓLAFSFIRÐI
Þótt þorri sig hvessi og þeysi sín spor
og þyrmi yfir Iandsins gæði.
Við sitjum hér inni við allsnægt og þor
og ölum hér friðinn í næði.
Hve kært er að sitja í kunningjahóp
á kvcnfélagsþorrablóti.
Það honum við þökkum, er örlög oss skóp,
þvi ekkert þar jafnast á móti.
Oss varðar ei um. þótt nú vermi' ekki sól
og visni’ úti blómin að sinni.
Og gleymum úr huga þeim gæðum er kól,
því gleði’ á að ríkja hér inni.
Ég hvet ykkur öll til að kætast í kvöld
og kalla fram sönglist með orðum.
Við viljum, að hamingjan hafi hér völd
og hér verði kátt undir borðum.
Og kvöldstund nú þessa á hendur ég fel
hjálpara allra heims gæða.
Og býð ykkur öllum að gjöra svo vel
með gleði af borðum að snæða.
Aðalheiður Karlsdóttir.
14
HÚSrREYJAN