Húsfreyjan - 01.01.1963, Page 16
una og togaði í neðrivörina, eins og
spilamaður, sem er að velta fyrir sér
sögn. Venjulega komst hann að réttri
niðurstöðu. — Stundum skemmtum við
gestum — og Solo sjálfum — þvi að ég
faldi banana, til dæmis í skrifstofuskápn-
um, læsti lykilinn að skápnum niðri í
skjalaskúffu og lykilinn að henni í borð-
skúffu og síðasta lykilinn í öðrum skáp.
Solo brást aldrei að finna lyklana í
réttri röð, hvernig svo sem ég brengl-
aði röðinni á hirzlunum og svo þegar
bananinn var fundinn, dansaði hann eins
og Háskoti og skellihló.
Ég átti kött, sem var geðspektardýr
og þoldi Solo margt, en hann vissi ekki
alltaf afl sitt og fór oft illa með kisa.
Þegar kisa þótti úr hófi keyra, þá hætti
hann að leika við apann og skrefaði burt
með þessum einstaka reigingi, sem kett-
ir geta sýnt. Dag einn sá ég apann finna
upp nýjan leik. Hann klifraði upp á
borðið mitt með pappírskörfuna í fang-
inu, tók hvern snepil upp úr henni og
rýndi í þá, eins og nærsýnn maður, sem
er að læra eitthvað utanbókar.
Þegar Solo hafði stundað þessa iðju
í tíu mínútur kom kisi inn í skrifstof-
una. Solo hvolfdi körfunni, stökk ofan
á gólf og skellti henni eldsnöggt yfir kisa.
Svo lagðist hann ofan á körfuna og gægð-
ist milli táganna á hvæsandi fangann og
hló svo tárin runnu niður vanga hans.
Solo fór með mér í allar veiðiferðir
og hljóp þá ýmist með okkur, reið á
áburðardýrunum eða sveiflaði sér milli
greinanna. Ef ég blístraði, kom hann í
hendings kasti ofan úr trjánum, stökk
ofan á lendina á hestinum mínum og
þreif utan um hálsinn á mér, svo að
hatturinn steyptist fyrir augun á mér.
Þegar ég tjaldaði á kvöldin, fylgdist
Solo með því, er ég fékk mér bað, náði
svo í pípuna mína og bók og kom mér
notalega fyrir. Þá rauk hann í dótakass-
ann sinn, sótti tannbursta, sápu, þvotta-
klút og stundum handklæði og stökk með
allt upp í baðkerið. Honum var alltaf
jafn skemmt af ölduganginum, sem varð
í baðkerinu.
Apakrílið var aldrei til óþæginda. Hann
var alltaf tilbúinn, ef maður vildi skrafa
við hann, en væri ég að lesa eða skrifa,
þá gægðist hann við og við inn til mín
og sýndi mér eitthvað af dótinu, sem
hann var alltaf að safna og þegar ég var
búinn að skoða það, fór hann aftur út,
eða hnipraði sig saman við hlið mína
og virtist í þungum þönkum. Stundum
sátum við sinn með hvora bók langtím-
um saman.
Þau þrjú ár, sem hann var hjá mér,
skildum við naumast oftar en þremur
sinnum. I síðasta sinnið vildi það svo til,
að mér var fyrirskipað að mæta við rétt-
arrannsókn alllangt í burtu og ferðalagið
var of erfitt til, að ég vildi hafa apann
með.
Ég man enn, að hann stóð i dyrunum
og hélt í höndina á svörtum aðstoðar-
manni minum, veifaði hinni hendinni og
grét. Sex dögum síðar kom ég aftur heim
og kallaði á Solo, eins og ég var vanur,
en enginn svaraði.
Þegar ég kom, sá ég, að allir voru með
áhyggjusvip. „Solo er veikur, herra“,
sögðu blökkumennirnir.
Flóð hafði hlaupið í á rétt hjá. Solo
hafði verið úti með þjóni mínum, en
áin hafði grafið undan bakka, sem hann
stóð á. Hann komst upp á trjábol úti í
straumiðunni og þar varð hann að halda
sig alla nóttina, því ómögulegt var að ná
til hans. Hann ofkældist og fékk lungna-
bólgu. Ég fór inn til mín, þar sem hann
kúrði undir ábreiðu sinni og andaði ótt
og títt. Ég kraup hjá honum. Það birti
yfir dapurlegum augúnum og hann rétti
mér lúkuna. Ég tók utan um hann. Hann
lagði hausinn að vanga mínum, titraði
og dó. Ég held að viljastyrkur hans hafi
treint lífslogann. þangað til ég kom.
Ég vona, að við lögreglustöð, langt frá
allri mannabyggð í Rhodesíu, standi enn
trjábútur, sem á er skrifað:
„Solo — api, en góður vinur“.
S. Th. þýddi.
16
HÚSFREYJAN