Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.06.1959, Blaðsíða 8
36
TÍMARIT VFl 1959
ar. Þessi breidd þykir nú ófullnægjandi og hefur verið
aukin í 7,0 m á hinum nýrri köflum þessara gatna, er
þeir voru fullgerðir. Er jafnframt stefnt að því að
breikka í 7,0 m elztu akbrautir þeirra, t. d. á Hring-
braut milli Ljósvallagötu og Bræðraborgarstígs.
Eins og kunnugt er, voru á sínum tíma reist íbúðar-
hús við Miklubraut, bæði í Norðurmýri og Hlíðahverfi.
Húsin voru staðsett þannig að þau hefðu aðgang beint
frá umferðargötunni. Ennfremur voru litlir möguleikar
skapaðir til þess að bifreiðir geti staðið á lóðum hús-
anna,
Þessi tilhögun samrýmist alls ekki þeim kröfum, sem
við gerum nú til Miklubrautar sem aðal-umferðargötu
og enn síður þeim, sem vænta má í framtíðinni. Um-
ferö fólks kringum íbúðarhús er annars eðlis en umferð
um mikla umferðargötu. Ef slíkri tvenns konar umferð
er blandað saman, skapast tafir, óþægindi og hættur fyr-
ir alla aðila í umferðinni.
Hefur verið gripið til þess eina ráðs, sem tiltækilegt
virðist vera, en það er að gera sérstaka hliðargötu með-
fram ibúðarhúsunum á svæðinu frá Rauðarárstíg að
Stakkahlið og skilja þannig umferð íbúðarhúsanna frá
umferð aðal-umferðargötunnar (3. mynd). Bifreiðastæði
eru gerð við hliðargötuna. Sú hugmynd að gera þessi
bifreiðastæði á Klambratúni, var athuguð, en reyndist
ekki duga og komu þar margar ástæður til.
Með tilkomu hliðargötunnar breikkar götustæði
Miklubrautar á umræddum kafla og aðal-akbrautirnar
sveigjast norður fyrir hinar beinu linur, sem fyrirhug-
aðar voru fyrst framan af. Það var frá upphafi ljóst,
að þessi tilhögun mundi verða til lýta á svip götunnar
og að það væri nokkur ókostur fyrir aðal-akbrautirnar,
að þær yrðu ekki beinar. Þau atriði voru athuguð af
okkur verkfræðingunum, en ennfremur svo sem hér segir:
Sumarið 1956 kom hingað á vegum bæjaryfirvaldanna
Dr. Ing. Max-Erich Feuchtinger frá Þýzkalandi, einn af
kunnustu umferðarsérfræðingum í Evrópu, nú prófessor
í umferðartækni við Tækniháskólann í Stuttgart. Dr.
Feuchtinger kom hingað til þess að veita Ieiðbeiningar
um meðferð ýmsra umferðarmála.
Meðal annars kynnti hann sér áætlanir okkar um
Miklubraut. Var sérstaklega borin undir hann áætlun
um hliðargötuna meðfram íbúðarhúsunum ásamt þeirri
sveigju á aðalgötunni, sem af henni leiðir. Dr. Feuch-
tinger hvatti eindregið til þess að nota þá tilhögun, sem
síðar var ákveðin og hefur nú komið til framkvæmda.
Ekki ætti að þurfa að óttast að fleiri hús verði byggð
við Miklubraut en orðið er. Kominn er nokkur skilningur
á því, að við meiriháttar umferðargötur á ekki að reisa
hús, sem hafa aðgang beint frá umferðargötunni.
Þegar austur fyrir Stakkahlíð kemur, er gert ráð
fyrir því, að bilið milli akbrautanna tveggja verði stækk-
að úr 2,0 metrum í 13,0 metra. Það er einkum gert til
þess að draga úr truflandi áhrifum bifreiðaljósa og til
þess að hafa meira svigrúm við myndun gatnamóta (4,
mynd).
Gatnamót.
Umferðargildi Miklubrautar ákvarðast ekki aðeins af
breidd hennar, heldur einnig og jafnvel enn frekar af
gatnamótum hennar. Reynt er að draga úr truflandi á-
hrifum minniháttar þvergatna, eins og Engihlíðar,
Reykjahliðar og Stakkahlíðar, með því að sjá svo um,
að þeir, sem koma á þessum götum að Miklubraut, geti
ekki ekið þversum yfir báðar akbrautir hennar I senn.
Gatnamótin við Lönguhlíð eru nokkurt áhyggjuefni.
Húsin, sem þar hafa verið byggð, valda því að lítið
svigrúm er til þess að gera þar sérstök umferðarmann-
virki. Væntanlega þarf að láta umferðarljós stjóma um-
ferðinni þar siðar. Á þvi horni gatnamótanna, sem snýr
að Klambratúni, er ráðgerð sérstök braut fyrir þá, sem
fara austur Miklubraut og síðan norður Lönguhlíð og
eiga þeir þá ekki að þurfa að bíða vegna annarrar um-
ferðar, sem tefst við gatnamótin. (5. mynd).
Við þessi gatnamót (við Lönguhlíð) verða undirgöng
þversum undir Miklubraut, fyrir gangandi fólk. 1 sam-
bandi við undirgöngin verður almenningsnáðhús, neð-
anjarðar í horni Klambratúns.
1 Kringliunýri verða gatnamót Miklubrautar og hinn-
ar fyrirhuguðu Kringlumýrarbrautar. Sú gata á að liggja
þversum yfir bæjarlandið, um það bil hornrétt á Miklu-
braut. Hún mun tengja saman Suðurlandsbrautina hjá
Laugameshverfi og Hafnarfjarðarveginn hjá Fossvogi.
Á Kringlumýrarbraut mun verða mjög mikil umferð í
framtíðinni og verður hún gerð með tvískiptri akbraut.
Gatnamót hennar og Miklubrautar verða því afar mik-
ilvæg.
Þessi gatnamót verða fyrst gerð sem krossgatnamót
(sjá 6. mynd) og má sjá hvar þau em að myndast um
þessar mundir í Kringlumýri. Umferðinni verður vænt-
anlega stjórnað með umferðarljósum. Til þess að um-
ferðin verði greiðari, er akreinum beggja brautanna
fjölgað við gatnamótin, svo að a. m. k. ein akrein verði
fyrir hverja þá stefnu, sem bifreiðar vilja taka, er þær
fara um gatnamótin.
Mér þykir líklegt, að þessi lausn eigi eftir að verða
ófullnægjandi í framtíðinni og að þá verði það ráð
tekið, að leggja hluta af akbrautum Miklubrautar neð-
anjarðar undir þessi gatnamót. Þá verður hægt að aka
Miklubraut rakleitt án tafa af völdum þessara gatna-
móta, Ekki þykir þó tímabært að gera ráð fyrir þessari
lausn nú þegar, sakir kostnaðar, en það þarf að halda
opnum möguleikum fyrir hana.
Nokkru austar koma svo gatnamót við Háaleitisbraut.
Þau verða skammt vestan við núverandi Háaleitisveg.
Háaleitisbraut verður einnig mikil umferðargata með
tvískiptri akbraut. Áætlanir um þau gatnamót hafa ekki
enn verið gerðar, en búast má við að margt verði líkt
með þeim og gatnamótunum við Kringlumýrarbraut.
Gatnamótin við Grensásveg hafa heldur ekki enn ver-
ið ákveðin, en um þau gegnir nokkuð öðru máli en þau
tvenn gatnamót, sem ég hef nú minnst á. Svo virðist
nú sem bæjarskipulagið á þeim slóðum muni gera það
fært í framtíðinni, að fara með Miklubraut yfir Grensás-
veg, án þess að þar þurfi að vera tengsl á milli í sjálf-
um skurðpunkti gatnanna.
Loks er svo eystri endi Miklubrautar. Þar munu mynd-
ast mikil gatnamót, ein hin mestu í Reykjavik. Fimm
umferðargötur eiga að koma þar saman. Þær eru: Mikla-
braut, Suðurlandsbraut að vestan, Elliðavogur, Suður-
landsbraut að austan og loks umferðargata til suðurs
frá gatnamótunum, samsíða Elliðaánum, væntanlega til
Fossvogs og Kópavogskaupstaðar. Hugmyndir hafa áður
verið um að gera þama stórt hringtorg. Ekki er þó
ákveðið hvernig þessi gatnamót verða úr garði gerð,
en víst er um það, að þarna hlýtur að koma meiriháttar
umferðarmannvirki. Fyrir þá sem koma austan yfir
Elliðaár verður þarna einskonar fordyri að bæjarsvæð-
inu vestan Elliðaánna.
Hitt er svo annað mál, að það verður i vaxandi mæli