Akranes - 01.01.1949, Blaðsíða 2

Akranes - 01.01.1949, Blaðsíða 2
Til fróðleiks og skemmtunar í Ijóðum og lausu máli Eyjölfur ljóstollur Þessa vísu gerði Eyjólfur um Gunnar Guð- mundsson á Steinstöðum, er hann eitt sinn kom að Kjalardal, en þá var Gunnar bam í vöggu: Ungra hjóna einkason yndisstunda njóttu. Gunnar blíði Guðmundsson gæfu og blessun hljóttu. Fyrstu póstkorta-forleggjarar á íslandi Fyrstu menn, sem að staðaldri gáfu út póstkort á íslandi, voru þeir Ölafur Johnson, nú stór- kaupmaður, og Carl Finsen, nú vátryggingafor- stjóri í Reykjavík. Aðeins áður, eða um líkt leyti, hafði þó Jón Vestdal, (uppeldissonur Sig- fúsar Eymundssonar), látið gera eitt póstkort, (eina tegund). Upplag Jóns var 500, en upplag þeirra félaga var upphaflega og áfram 1000 af hverri tegund. Myndirnar voru allar Islenzkar. Af Þingvöllum, Geysi, Gullfossi. Einnig ýmsar myndir frá Reykja- vík og fleiri stöðum. Flestar munu myndir þessar hafa verið teknar af Sigfúsi Eymundssyni. Kortin vom gerð í Þýzkalandi og kostuðu aðeins 15 mörk þúsundið, eða sem svarar i'/i úr eyri stykkið. Fyrst voru þau prentuð, en síðar lit- prentuð. Þeir félagar seldu kortin eingöngu í um- boðssölu. Þau urðu fljótt ákaflega vinsæl. Hand- hæg til ýmis konar orðsendinga. Þurfti á þau minna burðargjald í pósti, enda voru þau lengi fram eftir mikið notuð. Þá þótti og mikill fengur að hinu fjölbreytta myndavali frá mörgum stöð- um. Svo sem kunnugt er gerði Ben. S. Þórarinsson kaupmaður mikið að þvi að safna bókum og sér- hverju því, sem prentað var og gefið út í einhverju formi. Hygg ég að í safni þvi, sem hann gaf Há- skóla Islands, eftir sinn dag, sé að finna flest eða öll þessara fyrstu póstkorta, sem gefin voru út hér á landi. Eru þar til mörg „albúm“ af póst- kortum og ýmsum myndum. Ut af þessari smágrein, fór ég að skoða þetta mikla kortasafn Benedikts. Þótti mér einna ein- kennilegast að sjá þarna mesta fjölda korta með eiginhendi Ólafs Johnsons, er hann á þessu frum- skeiði islenzkrar póstkortagerðar hefur sent Carli félaga sínum, (sem þá var verzlunarmaður i Hafnarfirði). Meðal annars sá ég þessar áritanir: „Ertu til að cykla austur að Þingvöllum á laugar- daginn kemur? Þinn Ó. Johnson. Eg fer suður í Keflavik á morgun og finn þig í búðinni kl. ca. 10. Þinn Johnson Þessi mynd af Þingvöllum ætti að seljast vel. Ó. J. Korta business gengur vel, töluverður avance. Ó. Johnson." Á einu korti er mynd af hinum nýju lelenzku peningaseðlum, með mynd af Cristjáni konungi IX. Á kortinu eru myndir af samtals 115 kr. i seðlum. Á þetta kort skrifar Ólafur svo: „Hér með kr. 115 upp í reikning minn. Ó. Johnson." Þetta var um síðustu aldamót. Þá höfðu verzl- unarmenn ekki mikið kaup, fyrir mikla vinnu. Þrátt fyrir langan vinnutíma fannst þessum ungu mönnum, að þeir þyrftu að nota frístund- irnar til þarflegra hluta. Einnig til að bæta upp hið lága kaup, ef þeir ættu nokkurn tíma að „komast eitthvað áfram.“ Hér gat náttúrlega ekki verið um „gullnám“ að ræða. Þó segist Ólafur Johnson, hafa fengið í ágóða af kortasölunni, meira en hann hafði í laun hjá Edinborg fyrir aðal starf sitt. Carl Finsen segir svipaða sögu. Fyrir ágóða af kortasölunni var hann t.d. til lærdómsiðkana um þriggja mánaða skeið í útlöndum. Þó að hann væri embættismanns sonur, átti hann á þessum tima óhægt um að veita sér slíkan „luxus.“ En með þessu uppátæki, gátu fyrstu póstkortafor- leggjarar á Islandi veitt sér ýmsan „luxus,“ sem þeim hefði í þá daga verið ómögulegt að veita sér án þess. Þegar það sást, hve þessi einhæfa litla verzlun þeirra félaga gekk vel, fóru ýmsir að sigla í sama kjölfarið. Til dæmis þessir: Einar Gunnarsson, Thomsens Magasin, Magnús Ólafsson, Egill Jacobsen o.fl.. Nokkru eftir, að þeir voru farnir að gefa kortin út, og séð varð að þetta gekk sæmilega vel, kemur Thomsen að máli við þá félaga. Vill hann kaupa af þeim allar birgðir þeirra og einkarétt að útgáfunni. Það er að þeir hætti þessari starfsemi. Vildi hann borga fyrir upplögin sem svaraði 2/2 eða 3 aura stykkið. Þeir voru ófáanlegir til að selja af hendi, það sem gekk svo vel. Fór þá Thomsen sjálfur að gefa út kort, eins og áður segir. Eftir að Ó. Johnson & Kaaber, settu á fót um- boðs- og heildverzlun sína, seldi Carl því fyiir- tæki sinn hluta í kortagerðinni fyrir 1500 kr.. Þótti það þá mikið fé, til viðbótar því litla, sem það hafði árlega gefið þeim. Ó. Johnson & Kaaber, gaf síðan kort út áfram um nokkur ár. Enda þótt þessi fyrstu póstkort væru ekki eins falleg og vel gerð sem síðar varð, gerði þetta nokkurt gagn sem venjulegt brautryðjenda starf. 1 þessu var fólginn verulegur visir til landkynn- ingar, bæði inná við og útá við. Kortin örvuðu menn til að skoða með eigin augum, ýmsa merka og fagra staði, sem kortin voru af. Þau ýttu og vitanlega undir samkeppni í því að gera betri myndir og gefa þær út. Með þessu var smátt og smátt sýnt og sannað að landið var enn „fagurt og fritt“, og að Islendingar vildu ekki lengi verða eftirbátar annarra um það, sem til gagns og gleði horfði, eða menningarauki var i á einhvern veg. Bretakonungar ættaðir af íslandi Þeir eru taldir ættaðir frá Auðunnarstöðum í Víðidal í Húnavatnssýslu. Eiríkur próf. Briem hefur rakið ætt þeirra þannig, og birt hana í tlmaritinu „Óðinn:“ (1.) Auðunn bóndi á Auðunnarstöðum i Viði- dal. Dóttir hans (2.) Þóra mosháls. Dóttir hennar (3.) Olfhildur, gift Guðbrandi kúlu. Þeirra dóttir (4.) Ásta, gift Haraldi og Sigurði Sýr. Sonur hennar (5.) Ólafur konungur helgi. Hans dóttir (6.) Olfhildur, gift Otto hertoga í Brúnsvík. Þeirra sonur (7.) Magnús hertogi í Brúnsvík. Hans dóttir (8.) Wulfhild, gift Hinriki hertoga svarta. Þeirra sonur (9.) Hinrik hertogi drambláti. Hans sonur (10.) Hinrik ljón. Hans sonur (11.) Ottó keisari IV., forfaðir Welfaættarinnar, sem Eng- landskonungur og margir þjóðhöfðingjar Evrópu eru komnir af. —- Auðunn bóndi, forfaðir þessarar ættar, var einn af landnámsmönnum Islands, og er hann í fornritum nefndur Auðunn skökull. Eftir lestur borgfirzkra ljóða Enn er að finna eld og stál, Enn á tungan gróður. Ekkert gleður anda og sál eins og háttur góður. Braga lyftist brúnin þá borgfirzku við ljóðin; hlustuðu Æsir hrifnir á, hló þé sjálfur Óðinn. Þingeysk kona. Á nýársdag 1949 Að sjá þig heilsa, unga ár, ekki fáa gleður, en margur þeirra þá er nár þegar þú aftur kveður. „Gaktu hægt um gleðinnar dyr,“ gættu að hrasir eigi; að honum liðnum — ekki fyr — áttu að hrósa degi. X+Y Vestfirzkur framburður Sums staðar á Vestfjörðum er framburður nokkurra hljóða frábrugðinn því, er tiðkast annars staðar á landinu, t.d. a é undan ng borið fram með því hljóði er það hefir sérstakt, en ekki sem á. Þegar menn úr öðrum landshlutum skop- ast að þessum framburði, nota þeir einatt þessa þulu, til þess að sem mest beri á afbrigðinu: „Það er strangur gangur fyrir hann svanga Manga að bera þang í fangi fram af langa tanga.“ Ánnað vestfirzkt afbrigði er það, að bera ð fram sem d þegar r fer á eftir. Til þess að sýna þann framburð sem bezt, er altítt að nota þessa vísu: Nordan-hardan gerdi gard, geysi-hardur vard ’ann; borda jardar-erdis-ard upp í skardid bard ’ann. (Hann gerði harðan norðangarð, hann varð geysi-harður; hann barði erðis-arð jarðarborða upp í skarðið). ErSi er iðulega notað sem áherzlu- forskeyti, t.d. „Það hefir rekið erðistré á Langa- sandi“ (geysi-mikið, geysi-stórt tré). BorSi (belti) Jarðar er kenning, sem táknar sjóinn; arður sjávar í þessu sambandi (þ.e. í sambandi við hvassviðrið) er vitaskuld særokið: sjórinn skefur ákaft upp i skarðið. Ef einhver skyldi halda að þessi vestfirzki fram- burður væri rangur, þá er það fullkominn mis- skilningur. Hann er alveg eins réttur eins og framburður okkar sunnlendinga, og vestfirðingar þurfa ckkert að blygðast sin fyrir hann. Það gerir engan framburð rangan að hann á heima 1 tilteknum hluta landsins aðeins. Sumir segja að visa þessi sé ekki staka, heldur séu þær fleiri saman. Ef einhvor af lesendum Akraness skyldi kunria hinar, væri það vel gert af honum að senda blaðinu þær. X + Y. Forsíðumyndin af Reykholtsskóla er eftir Bjama Árnason, frá Brennistöðum, en um hina er ókunnugt hver tekið hefur. 2 AKRANES

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.