Akranes - 01.01.1949, Blaðsíða 10

Akranes - 01.01.1949, Blaðsíða 10
„ÞEGAR MAMMA KOM HEIM„ Móðir mín, Jóhanna Matthíasdóttir, bónda á Kjörseyri, Sigurðssonar bónda á Fjarðarhorni, var fædd á Kjörseyri í Hrútafirði 13. des. 1845. Á Kjörseyri ólst hún upp, og þegar hún giftist föður mín- um, Finni Jónssyni, árið 1869, þá fóru þau að búa á Kjörseyri og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Á yngri árum hafði mamma mjög skarpa sjón. Á þessum árum dreymdi hana oft sama drauminn, svo iðulega, að hún var farin að segja á morgnana: ,,Nú dreymdi mig bæinn minn í nótt.“ Þá sáust ekki timburhús til sveita, jafn- vel kirkjan var úr torfi, en draumurinn var á þá leið, að hana dreymdi, að hún kæmi að húshlið og það var allt úr timbri. Flún fór þar inn í anddyrið og upp stiga, sem lá þaðan upp á loftið, en hún veitti því eftirtekt, að liún sneri sér öðruvísi, þegar hún kom upp en þegar hún steig fyrst upp í stigann. Stiginn var snúinn, en þannig lagaðan stiga hafði hún aldrei séð. Svo gekk hún inn eftir loftinu inn í herbergi, sem þar var. Gluggi var þar beint á móti dyrunum, borð undir glugganum, rúm annars vegar, en stóll hins vegar við borðið. Hún settist á stól- inn og leit út um gluggann, og þar blasti við augum stór, græn flöt. Lengri var draumurinn ekki, en þetta dreymdi hana iðulega, en þegar hún varð fullorðin, þá hætti hana að dreyma þennan draum. Þegar mamma var um þrítugl fór hún að missa sjón, og það svo hröðum fetum, að þegar hún var liðlega þrítug, gat hún hvorki lesið eða saumað eða gert nokkurt verk, sem reyndi á sjónina. Þá var ráðizt 1 það, að hún færi til Kaupmannahafnar að leita sér lækninga. Faðir minn flutti hana landveg til Reykjavíkur; urðu þau samferða Pétri Eggerz, sem þá var kaup- stjóri á Borðeyri. Var hann að fara til Bretlands. Með sömu ferð fór Gunnlaugur Briem og kona hans, og þar sem þau fóru alla leið til Kaupmannahafnar, þá tóku þau að sér að leiðbeina mömmu þegar þangað kæmi. Þau fóru með póstskipinu „Valdimar“. Þetta var sumarið 1877. Mamma var mjög sjóveik á allrí þessari iferð. 1 Færeyjum fór hún í land með sam- ferðafólkinu; ekki man ég hverjir voru húsráðendur á þvi heimili, sem hún kom á, en þar sá hún sessu, sem bóndadóttir úr Hrútafirði hafði saumað. Það var Ing- mnn Jónsdóttir frá Melum, síðar húsfreyja á Kornsá. Þegar til Kaupmannahafnar kom og liún hitti augnlækninn, Hansen að nafni, þá sagði hann henni, að hún kæmi allt of fljótt. Þegar hún gæti ekki lengur talið fingurna, ef hún bæri höndina upp á móti *—♦—♦—0—♦ ♦ *—♦ ♦ -f—♦ ♦ ♦ ♦ # ♦— -♦ ♦ Margir kannast við hinn merka bónda og fraði- mann Finn frá Kjörseyri í Hrútafirði. M. a. af endurminningum sínum. Hér fer á eftir einkar snotur og hugðna'm frásögn eftir Ragnhildi dóttur Finns, er hún kallar: „Þegar mamma kom heim.“ Saga þessi er hin merkilegasta. bæði vegna draums- ins, sem móðir hennar dreymir svo oft og rætist svo nákvæmlega eftir tugi ári. Einnig vegna ýmis- legs fleira, sem hér kemur við þessa sögu, svo og vegna þess, hve vel er hér frá sagt, og sýnir ljóslega frásagnarhæfileika þessarar dóttur þeirra Kjörsej'rarhjóna. Höfundurinn hefur góðfúslega leyft Akranesi að birta þennan ágæta þátt, sem í fyrra mun hafa verið fluttur i útvarpinu með leyfi höfundar. Fyrir þetta færi ég hinni ágætu konu beztu jrakkir. Ritstj. birtunni, þá væri mátulet að koma; gaf hann henni þá von um góðan bata. Ein- liverju meðali dreypti hann í augun, og stundu siðar veitti hún því eftirtekt, að hún sá allt miklu skýrara. Hún fór þá til hans aftur og bað hann um þetta meðal, en hann sagði, að það væri alveg gagns- laust, það gæti ekki stöðvað blinduna. Hann var aðeins að prófa sjónina. Meðan mamma dvaldi í Höfn var hún hjá Guðrúnu Halberg. Hún var íslenzk, ættuð úr ísafjarðarsýslu, ekkja etfir dansk- an skipstjóra. Maddama Halberg reyndisí mömmu ágætlega; héldu þær uppi bréfa- skriftum og vináttu meðan báðar lifðu. Þó að sjónin væri orðin döpur, gat mamma samt að nokkru notið þess, sem fram fór i kringum liana. Hún kom i kirkju og henni var boðið i Tívolí. Oft þurftum við að láta hana sega okkur frá þessu. Hún horfði þar á stuttan sjónleik o. fl., en mest dáðist hún að ljósadýrðinni í öllum litum, og þess naut hún bezt. Á leiðinni frá Höfn til Leith var hún eini Islendingurinn á skipinu og kvalin af sjónveiki sem áður. Hún minntist þess, hversu fegin hún hefði orðið í Leith, cr hún þekkti málróm Péturs Eggerz í saln- um fyrir framan svefnklefadyrnar. Þaðan varð hann aftur samferða hermi alla leið heim. Frá Reykjavík varð hún einnig samferða börnum séra Ólafs Pálssonar á Melstað og fleirum. Hún komst heilu og höldnu heim, en mikil voru vonbrigðin yfir þessari ferð; bót var það, að hún hafði von um lækningu síðar. Þegar ég man fyrst, sá móðir mín fyrir listunum í glugganum, en síðast sá hún aðeins bjarma fyrir ljósi og glugga. En svo hiklaus var hún i framgöngu, að enginn ókunnur sá, að hún var blind. Mamma var sívinnandi, hún spann og prjónaði og sinnti að mörgu leyti sínum húsmóðurstönfum. Einu sinni um sláttinn lá á að sauma vaðmálsbuxur á einn heim- ilismanna. Þær voru sniðnar og svo saum- aði móðir min þær að öllu leyti i höndum með þræði. Á jóladaginn prjónaði hún ekki, þá var hún að klippa rósir úr bréfi fyrir okkur börnin. Næmleikinn í hönd- unum var svo mikill. Þegar Jóna, yngsta barn hennar, var nýfætt, þá fór hún höndum um andlit hennar og sagði: „Mér finnst hún lík henni Helgu.“ Þetta var rétt; sem börn voru þær líkar. En hún var einkennilega næm á fleiri sviðum. Steingrímur Matthíasson læknir getur þess, þar sem hann minntist móður sinnar, að á barnsárum hafi kvalið sig hugarvíl. Eg var undir sömu sökina seld, seinni hluta vetrar, hefði þurft að fá „lýsi í magann og sól á hörundið“ eins og Stein- grímur kemst að orði. Ég var hrædd um að missa foreldra mína eins og hann, og þá var samvizkubitið ekki léttara. Hver smáyfirsjón varð að fjalli á löngum og köldum þorradægrum. Þetta tókst mér að dylja fyrir öllum, nema mömmu, þó að hún væri blind. Hún bað mig að segja sér, hváð að mér gengi, og trúði ég henni þá fyrir óróleik samvizkunnar. Hún tal- aði þá lengi við mig, en minnisstæðast var mér, að hún sagði: „Börnin vita oft ekkert livað þau eru að gera; þau vita ekki hvað er rétt eða rangt. T. d. ef litlu börnin gera eitthvað, sem þér finnst Ijótt, þá vilja þau ekki gera neitt ljótt, en þau eru svo lítil, að þau vita ekkert hvað er IjóttV Henni tókst að lækna mig svo, að ég var aldrei gripin slíkum heljartökum síðar. Sumarið 1890 fréttist, að Björn Ólafs- son frá Ási í Hegranesi hefði lært augn- lækningar og væri setztur að á Akranesi. Faðir minn skrifaði honum litlu síðar og um haustið kom aftur bréf frá lækninum, og taldi hann sennilegt, að hægt væri að lækna mömmu. Nú var ekki um annað talað en þessa fyrirhuguðu ferð. Föður minum datt i hug að fara seinni hluta vetrar, ef góð yrði tíð, en af þvi varð samt ekki. Þá var það einn morgunn um veturinn, að mamma sagði: „Nú dreymdi mig í nótt drauminn, sem mig dreymdi svo oft á yngri árum. Hann var að öllu leyti eins og áður, en þegar ég gekk inn ganginn, þá leit ég við og sá þá sporin mín í rykinu, og þá hugsaði ég: „Það er auðséð, að langt er síðan hingað hefur verið komið.“ Ég fór inn í herbergið og settist á stólinn við gluggann, eins og ég var vön.“ Þetta þótti einkennilegt, en öll- um var hulin ráðningin. Vorið eftir í júlibyrjun var lagt af stað suður á Akranes. Vel man ég eftir, þegar mamma var komin á bak og búin að kveðja alla. „Vonin og kviðinn víxlast á“ mátti segja um það. Ferðin suður gekk að óskum. Björn læknir var þá til heimilis í Krosshúsi á AKRANES 10

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.