Bændablaðið - 11.03.2008, Blaðsíða 18
Bændablaðið | Þriðjudagur 11. mars 200818
Matarhátíðin mikla, Food and
Fun, var haldin dagana 20.-24.
febrúar og tókst að vanda vel.
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu
kýldu sig út á góðum mat og
fylgdust með erlendum lista-
kokkum að verki. Alls mættu
15 erlendir kokkar til keppni í
matargerðarlist þar sem íslenskt
hráefni var í forgrunni og sá sem
sigraði er norskur og heitir Geir
Skeie. Að þessu sinni fékk hátíðin
reyndar stuðning frá sýningunni
Kræsingar og kæti þar sem nor-
rænn matur var í sviðsljósinu.
En hreyfiaflið að baki Food
and Fun hefur frá upphafi verið
krafturinn í tveimur mönnum,
matreiðslumanninum Sigga Hall
og markaðsmanninum Baldvin
Jónssyni. Sá síðarnefndi hefur
starfað að því í allnokkur ár að
markaðssetja íslenskan mat í
Bandaríkjunum og haft þar töluvert
erindi sem erfiði. Hann er óþreyt-
andi að mæra íslenskan mat, hvort
sem það er lambakjöt eða smjör,
fiskur eða súkkulaði, og setur oft
á ræður um að Íslendingar verði að
nýta sér þá sérstöðu sem þeir búa
við.
Bændablaðið tók Baldvin tali og
innti hann eftir þessari margumtöl-
uðu sérstöðu, hver er hún og hvern-
ig getur hún nýst Íslendingum og
íslensku atvinnulífi?
Sjálfbær fjölskyldubúskapur
„Helsta sérstaðan er fólgin í legu
landsins. Við erum hér uppi við
heimskautsbaug, fámenn þjóð sem
býr yfir öflugri menningu og stór-
brotinni náttúru. Hér eru eldfjöll og
jöklar og hafið umhverfis okkur er
enn að mestu laust við mengun. Við
þetta bætist sjálfbær landbúnaður
sem byggir að mestu leyti á sömu
lögmálum og í upphafi byggðar.
Á því mikla framfaraskeiði sem
landbúnaður heimsins hefur upp-
lifað undanfarin hundrað ár eða
svo höfum við ekki fundið þörf hjá
okkur til að breyta búskaparhátt-
unum úr skynsamlegum, sjálfbær-
um og blönduðum fjölskyldubú-
skap í verksmiðjubúskap.
Sjávarútvegurinn verður svo til
upp úr landbúnaði og þessar grein-
ar voru lengst af stundaðar hlið við
hlið. Keppikefli þjóðarinnar hefur
löngum verið að græða landið og
vernda það. Við þetta bætist tungu-
málið sem við búum ein að og
berum skyldu til að varðveita. Það
gerir mannlífið miklu skemmtilegra
fyrir alla ef til eru lifandi heimild-
ir fyrir því að til séu og hafi verið
mismunandi menningarheimar.
Sérstaða búskaparins er einn-
ig fólgin í því að veðurfar og aðrar
aðstæður gera það að verkum að það
er hvergi búið með sama hætti og
hér á landi. Það þarf góða búmenn
til að nýta þann stutta tíma sem
gróðurinn vex. Á móti kemur að
þessi stutti vaxtartími gerir plöntu-
rnar sterkari og kraftmeiri. Það
hefur áhrif á afurðirnar því efna-
samsetning mjólkurinnar er önnur
en í öðrum löndum. Kúastofninn er
svo fáliðaður að hann fellur senni-
lega undir skilgreiningar um stofna
í útrýmingarhættu. Okkur ber því
skýlaus skylda til að varðveita
hann, hann er hvergi annars staðar
til. Auk þess eru kýrnar litríkar og
fallegar og það gerir tilveru þeirra
mikilvæga fyrir hina sex millj-
arðana sem búa á jörðinni.
Það sama gildir um sauðféð.
Veðurskilyrði og búskaparhættir
hafa gert sauðféð að heilsuhraust-
um dýrum sem alast upp við mjög
sérstök skilyrði. Þessi sumartími á
hálendinu þekkist hvergi nema hér.
Í þessu eru verðmæti þessarar þjóð-
ar fólgin.“
Vörslumenn landsins og hafsins
Baldvin segist vera mjög stolt-
ur af því að geta sagt þessa sögu
erlendis. „Við erum jafníslensk í
markaðssetningu okkar og bónd-
inn sem í gegnum mjólkuriðnaðinn
hefur slegið skjaldborg um íslenska
tungu. Hann fjárfestir í því að við-
halda henni og við leggjum okkur
fram um að ávaxta fjárfestinguna
með því að kalla vörurnar íslensk-
um nöfnum, skyr heitir skyr í
Ameríku, smjörið heitir smjör með
ö-i og Nói-Síríus súkkulaði heitir
það fullum fetum. Íslenskan er eitt
þeirra verkfæra sem við notum í
markaðssetningunni vestanhafs.
Í þessu starfi treystum við á orð-
spor og trúverðugleika íslenskrar
framleiðslu. Ímynd ávinna menn
sér og ímynd íslenska bóndans og
sjómannsins er sterk vegna þess að
hún er trúverðug. Sjálfbært fisk-
veiðistjórnunarkerfi er grundvall-
aratriði í því að tryggja þessa
ímynd. Íslenskir bændur hafa við-
haldið sínum búskaparháttum og
uppskera nú í krafti þess að skyn-
samlegur og sjálfbær fjölskyldubú-
skapur er aftur kominn á dagskrá í
heiminum. Menn hafa séð að slíkur
búskapur tryggir miklu betur fæðu-
öryggi heimsins en verksmiðjubú-
skapur.
Bændur og sjómenn eru vörslu-
menn landsins og hafsins. Við
höfum hins vegar misst sjónar á því
hversu verðmætar þessar takmörk-
uðu auðlindir eru. Það endurspegl-
ast meðal annars í launakjörum
bænda og fiskvinnslufólks.
Því hefur löngum verið haldið
fram að landbúnaðarvörur séu svo
dýrar og niðurgreiðslur háar. Þetta
finnst mér ósanngjarnt vegna þess
að ef við framleiddum ekki land-
búnaðarafurðir hér heima þyrftum
við að kaupa þær fyrir hagnaðinn
af sjávarútveginum. Þar með væri
velmegunarstig þjóðarinnar lægra.
Þegar menn bera saman verðið
hér við það sem gengur og gerist í
Evrópu eða Ameríku eru þeir ekki
að bera saman rétta hluti. Nú getum
við borið saman verð á lambakjöti
og skyri hér og í Bandaríkjunum
og þá kemur í ljós að lambakjötið
er helmingi ódýrara hér á landi og
skyrdósin kostar þriðjung af því
sem hún kostar ytra. Fólk er reiðu-
búið að greiða sanngjarnt verð fyrir
afurð sem framleidd er með skyn-
samlegum hætti.“
Fyrsta sjálfbæra landið
„Bændur hafa, rétt eins og sjó-
menn, sett sér reglur um sértæka
gæðastýringu þar sem þeir tryggja
að þeir ofbeiti ekki landið. Bændur
vinna við það í samstarfi við
Landgræðsluna að endurheimta
ræktar- og gróðurlendi. Fyrir það
fá þeir laun sem eru ekki styrkir
heldur þóknun fyrir þjónustu sem
bændur veita samfélaginu öllu.
Nú erum við að upplifa það að
verðbréfakynslóðin er að draga
saman seglin. Þá opnast augu
manna fyrir landinu og sérstöðu
þess. Hér á landi búum við svo vel
að á grundvelli þess að við höfum
nýtt landið og miðin með skynsam-
legum hætti höfum við reist eitt
besta samfélag veraldar samkvæmt
alþjóðlegum stöðlum um lífsgæði.
Þessa sérstöðu þurfum við að skil-
greina og lýsa því yfir, helst í dag,
að við séum fyrsta sjálfbæra land
veraldar.
Við getum meðal annars bent á
að ekkert land í veröldinni byggir
orkuöflun sína að jafnmiklu leyti
á endurnýjanlegri orku, eða allt að
90%. Vissulega hefur það kosta að
við höfum þurft að sjá á eftir hluta
af landinu undir orkumannvirki, en
það gerum við til þess að veita fyr-
irtækjum græna orku sem þau eiga
ekki kost á að fá annars staðar. Auk
þess eykur starfsemi þeirra jafn-
vægi í byggð landsins, þótt orku-
fyrirtækin séu vissulega umdeild.
Okkur ber skylda til að halda öllu
landinu í byggð að því marki sem
við teljum skynsamlegt og mögu-
legt.
Sérstaðan er fólgin í fleiru.
Íslenski torfbærinn er hluti af
henni. Ég fór á sýningu vestur í
Bandaríkjunum þar sem 22 háskól-
ar sýndu ýmsar lausnir á orkuvanda
heimsins. Þar voru fjórar tillögur
sem byggðust á sömu lögmálum
og torfbærinn, þ.e. að byggja húsin
þannig að ekki þurfi að eyða mikilli
orku í að hita þau á vetrum og kæla
þau á sumrin.“
Tökum forystu
„Orðsporið og ímyndin er mesta
verðmæti okkar en því er hægt að
klúðra á ótrúlega stuttum tíma ef
við misstígum okkur. Við erum vel
menntuð þjóð sem sækjum menntun
okkar til margra landa, bara það er
mikill styrkur og skapar okkur sér-
stöðu. Við verðum hins vegar aldrei
sú þjóð sem brauðfæðir alheiminn.
Metnaður okkar á að liggja í því að
framleiða eingöngu gæðavöru. Við
erum búin að sýna fram á að fólk er
reiðubúið að borga sanngjarnt verð
fyrir slíka vöru.
Eftir gæðastýringuna hlýtur
næsta verkefni íslenskra bænda
að gera sem mest af íslenskum
landbúnaði lífrænan. Hann verð-
ur hins vegar aldrei allur lífrænn.
Aðalmálið er að við tökum forystu
í þessari þróun. Áform átti frum-
kvæði að því og studdi heima-
menn til þess að gera Sólheima í
Grímsnesi, Hrísey og Snæfellsbæ
að sjálfbærum byggðakjörnun.
Þetta er hægt á fleiri stöðum og er
raunar víðar í gangi. Til þess þarf
hvorki mikla peninga né hugvit,
aðeins skynsemi og mannafla.
Ég er búinn að skrásetja í nafni
Bændasamtaka Íslands vörumerkið
Sjálfbært Ísland. Til þess að geta
framleitt undir því vörumerki þurfa
bændur að uppfylla strangar kröf-
ur sem bandaríska verslanakeðjan
Whole Foods setur um sjálfbæra
ræktun. Hún getur selt allt sem
við framleiðum. Þetta gengur upp
vegna þess að viðskiptavinir fyr-
irtækisins þekkja söguna á bak við
íslensku afurðirnar, vita að hún er
sönn og treysta okkur. Í því felst
sérstaðan og hún er okkar mesta
verðmæti,“ segir Baldvin Jónsson
rétt áður en hann sest upp í flugvél
á leið vestur til Washington. –ÞH
Sérstaðan
markaðssett
á íslensku
Baldvin Jónsson útskýrir hver sérstaða Íslands er
og hvernig má nýta hana
Verðlaunakokkar á Food and Fun.
Að ofan Maro José frá Spáni (t.h.)
ásamt aðstoðarkonu sinni íslenskri.
Til vinstri Geir Skeie hinn norski
sem varð efstur í kokkakeppninni.
Baldvin Jónsson (dökkklæddur) umkringdur íslenskum og erlendum
meist arakokkum í Hafnarhúsinu. Myndir: Jón Svavarsson