Bændablaðið - 12.07.2012, Síða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 12. júlí 20126
LOKAORÐIN
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 6.600 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.300.
Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Tjörvi Bjarnason (ábm.) tjorvi@bondi.is – Sími: 563 0339 Blaðamenn: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is
Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Freyr Rögnvaldsson fr@bondi.is – Sigurður M. Harðarson smh@bondi.is
Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason eh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Blaðamenn Bændablaðsins fara víða
um sveitir í sínum störfum. Eitt af
því ánægjulega við blaðamennskuna
er að kynnast ólíku fólki sem fæst
við fjölbreytt verkefni sem eru
jafn misjöfn og þau eru mörg.
Sjálfbjargarviðleitni og dugnaður
eru orð sem koma upp í hugann þegar
maður heimsækir bændur sem eru
að reyna nýja hluti, breyta og bæta
eða skapa nýja atvinnu. Raunar er
þrjóskan ekki langt undan í mörgum
tilvikum. Hún er bráðnauðsynleg
til þess að sjá til lands í krefjandi
verkefnum sem við fyrstu sýn
virðast óframkvæmanleg. Fréttir af
nýjum ferðaþjónustufyrirtækjum
eða repjurækt eru gott dæmi um
þau verðmæti sem bújarðir á Íslandi
búa yfir. Landið er svo fjölbreytt
og gjöfult að tækifærin virðast
óendanleg – bara ef hugmyndaflugið
er í lagi og ekki er verra að eiga
einhverja aura í sparibauknum.
En það er ekki allsstaðar jafn
auðvelt að hefja rekstur eða
þróa þá starfsemi sem fyrir er til
sveita. Fyrir örfáum árum birtist
frétt í Bændablaðinu um stúlku
í Meðallandi í Skaftárhreppi
sem var í fjarnámi við skóla á
höfuðborgarsvæðinu. Hún þurfti
að ferðast á Kirkjubæjarklaustur
til þess að senda tölvupóst og
ná í kennslugögn vegna þess
að nettengingin var ekki nógu
góð heima hjá henni. Því var
blessunarlega kippt í liðinn í kjölfar
eldgosanna á Suðurlandi. Hér hefur
margoft verið fjallað um mikilvægi
góðra fjarskipta og samgangna
enda eru þau ein af undirstöðum í
rekstri nútímafyrirtækja og ekki síst
heimila.
Annar nauðsynlegur rekstrar-
þáttur er rafmagn. Þar er ekki
fullkomið jafnræði á milli byggðanna
frekar en í nettengingunum því
þriggja fasa rafmagn er víða ekki
í boði. Þetta háir til dæmis nýrri
kornþurrkunarstöð bændanna í
Skaftárhreppi sem fjallað er um hér í
blaðinu. Þeir verða að nota díselolíu
til þess að keyra kornþurrkarann
sem er margfalt dýrara en að nota
rafmagn. Talið er að það myndi
kosta Rarik um 200 milljónir króna
að leggja þriggja fasa rafmagn á alla
bæi í Meðallandi. Það er verið að
tala um jarðstrengi og háspennulínur
fyrir marga milljarða til að þjóna
álverum og annarri stóriðju. Af
hverju er ekki lögð meiri áhersla á að
treysta grunnþætti byggðanna? Víða
er hægt að byggja upp blómlega
og fjölbreytta atvinnustarfsemi ef
viljinn er fyrir hendi. Er virkilega
ofrausn að leggja þriggja fasa
rafmagn í Meðallandið? /TB
Tækifærin og jafnræðið
Sókn er besta vörnin
Dyggir lesendur Bændablaðsins hafa um
langa hríð fengið innsýn í frumkvöðlastarf
bænda með fjölmörgum viðtölum og greinum.
Nýsköpun í landbúnaði er mikil og vaxandi.
Bændur leitast við að treysta búskap sinn og
skjóta undir hann styrkari stoðum með því
að vera leitandi og óragir við tilraunastarf-
semi. Í þessu blaði er sagt frá ræktun á repju
í Skaftárhreppi. Framtakssemi og samvinna
bænda í þessum efnum er virðingarverð og til
eftirbreytni. Skaftárhreppur er dæmigerð sveit
þar sem búseta og tilvera samfélagsins byggist á
landbúnaði. Þar er mikið ræktunarland ónotað
og mikil tækifæri í verðmætaframleiðslu byggð
á því. Byggðarlag sem gæti tekið stakkaskipt-
um þegar tækifærin opnast, þegar matur og
annar jarðargróður verður á ný metinn að
verðleikum. Þetta er sagt vegna þess hugar-
fars sem undirrituðum finnst hafa heltekið
umræðu undanfarinna áratuga, að matur megi
ekki kosta og að þeir sem hann framleiða bera
stöðugt minna úr býtum.
Framtak bænda og annarra sem þar koma að
málum er sönnun þess að með markvissum vinnu-
brögðum má gjörbreyta búsetuskilyrðum og efla
byggð, atvinnu, menningu og velferð íbúa. Við
höfum tapað miklum tíma á undanförnum árum
með því tómlæti sem hefur ríkt um möguleika
sveitanna til að eflast innan frá. Við sitjum föst
í yfir 30 ára gömlum hugsunarhætti um að besta
ráðið fyrir sveitirnar sé að fækka bændum og
stækka búin. Í raun höfum við nú alið í um aldar-
þriðjung feimni við að takast á við að styrkja
landbúnað. Mantra undanfarinna ára er að spara
útgjöld til landbúnaðar, hagræða og fækka. Við
þurfum nýja viðspyrnu, nýja hugsun. Íslenska leið,
ekki eftirapaða landbúnaðarstefnu annarra landa.
Samningsafstaða í landbúnaðarmálum
er skýr og klár
Stefán H. Jóhannesson, svokallaður
aðalsamningamaður Íslands í aðlögunarferli að
ESB, hefur svarað bréfi Bændasamtakanna sem
reyndar var sent utanríkisráðherra. Tilefni bréfsins
var viðtal í blaði sem dreift var um sveitir í vor.
Það blað átti að vera svokölluð upplýst umræða
um ESB-aðild og landbúnað. Aðildarsinnum hefur
lengi gramist að heildarsamtök bænda hafi unnið að
því að gæta að hagsmunum íslensks landbúnaðar.
Þeir hafa ýmist sagt að Bændasamtökin geri
ekkert til að „upplýsa“ félagsmenn sína um kosti
aðildar eða kennt samtökunum um að stunda
hræðsluáróður. Hvorug þessara ásakana á við rök
að styðjast. Bændasamtökin hafa einvörðungu
ástundað faglega vinnu og öfluga fræðslu. Má
m.a. rifja það upp hér að nú er ár liðið síðan bók
um landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og
Evrópska efnahagsvæðisins kom út á vegum
samtakanna. Sú bók inniheldur langumfangsmestu
samantekt á íslensku um lagaumhverfi ESB og
landbúnaðar sem komið hefur út. Samantekt
Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors er
grundvallarrit þeirra sem vilja láta taka sig
alvarlega í umræðu um hvað ESB-aðild myndi
þýða. Má þar til að mynda nefna skorinorða
ályktun hans um margtuggna klisju varðandi
svokallaða undanþágu sem finnskur landbúnaður
á að hafa fengið. Þeir sem vilja kynna sér það mál
nánar geta lesið blaðsíður 66 til 68 í umræddu riti.
Meginatriðið er að samkvæmt aðildarákvæðum
Finnlands er heimilt að veita tímabundnar
undanþágur, í raun aðeins sérstaka útfærslu ESB-
réttar. Þar getur ESB ákvarðað öll skilyrði og eftir
atvikum fellt á brott með breyttri stefnu. Bókinni
hefur þegar verið dreift í hundruðum eintaka.
Það er skemmtilegt að bera efni þeirrar bókar
saman við upplýstu umræðuna í fjölritinu sem
sent var um sveitir landsins í vor. Þar fer aðal-
samningamaðurinn mikinn í viðtali um góðan
skilning á sérstökum hagsmunum íslensks land-
búnaðar. Bændasamtökin spurðu því beint hvar
þessi skilningur hefði komið fram og hvar mætti
finna um hann gögn. Ekki verður á móti mælt að
slíkt væru allnokkur tíðindi. Því var svarbréfið
mikil vonbrigði. Þar fer aðalsamningamaður
Íslands mikinn í stílæfingum og í ljós kemur að
ekkert var á bakvið fullyrðingar hans í fjölritinu.
Aðalsamningamaðurinn gat ekki bent á neinar
áþreifanlegar upplýsingar sem fram hefðu komið
af hálfu ESB, aðeins vitnað til einhverra óljósra
viðbragða manna þar innanborðs. Einkum var
það utan fundarsala, í tveggja manna tali þar sem
menn tala án þess að nokkuð sé skráð eða hægt
sé að vitna til þess síðar.
Aðalsamningarmaðurinn klykkir svo út með
því í svarbréfi sínu að hann vænti samvinnu við BÍ
um mótun samningsafstöðu í landbúnaðarmálum.
Að því máli hafa Bændasamtökin stöðugt viljað
vinna. Rétt er að geta þess að samtökin hafa unnið
að athugasemdum við greinargerð íslenskra stjórn-
valda í fleiri köflum. Vinna við samningsafstöðu
landbúnaðarkaflans ætti hins vegar ekki að þurfa
að vefjast fyrir aðalsamningamanni eða samn-
inganefnd í ljósi þess að varnarlínur BÍ, grunnur
að samningsafstöðu, hafa verið kynntar á fundi
ríkisstjórnar Íslands. Þar fór fyrrverandi land-
búnaðarráðherra, Jón Bjarnason, yfir þær, kynnti
og lýsti afdráttarlaust yfir að þetta væri stefna hans
í málaflokknum. Þannig er stefna ríkisstjórnar í
málinu skýr. Hana má finna í fundargerðum ríkis-
stjórnarinnar, án athugasemda.
/HB
Mun fleiri vinnuslys í landbúnaði en skráningar Vinnueftirlits gefa til kynna
Bændur sýna af sér andvaraleysi og fara á mis við réttindi sín
Vinnuslys meðal bænda eru
mun fleiri en skráningar hjá
Vinnueftirliti segja til um, þannig
að takmarkaðar upplýsingar eru
til um vinnuslys meðal íslenskra
bænda. Það hefur í för með sér að
ekki er vitað um eðli og afleiðingar
slysa í bændastétt, sem leiðir svo
aftur til þess að ekki er með góðu
móti hægt að sinna forvörnum eða
fræða bændur um helstu hætturnar
sem störfum þeirra fylgja og grípa
til aðgerða gegn þeim. Þetta er mat
Kristins Tómassonar, yfirlæknis
hjá Vinnueftirlitinu.
Ársskýrsla Vinnueftirlitsins fyrir
árið 2011 er nýlega komin út en þar
kemur m.a. fram að í fyrra voru
skráð 16 vinnuslys í landbúnaði,
10 hjá körlum og 6 hjá konum.
Á síðastliðnum fimm árum, á
tímabilinu frá 2007 til 2011, voru
skráð vinnuslys í landbúnaði alls 72
talsins, nokkru fleiri að jafnaði hjá
körlum en konum. Til samanburðar
má nefna að alls voru skráð 256
vinnuslys í matvælaiðnaði, við
vinnslu landbúnaðarafurða.
Kristinn telur að mun fleiri
bændur verði fyrir vinnuslysum en
tölur Vinnueftirlits gefi til kynna og
veltir fyrir sér hvort algengt sé að
bændur leiti ekki aðstoðar, verði þeir
fyrir slysum við störf sín, og tilkynni
þau þar af leiðandi ekki. „Mér finnst
líklegt að það séu aðeins alvarlegustu
slysin sem eru tilkynnt til okkar,“
segir Kristinn.
Tilkynna yfirleitt ekki um slys
Fyrir fáum árum gerði Kristinn
rannsókn á vinnuslysum í bændastétt
ásamt Gunnari Guðmundssyni,
sérfræðingi á Landspítala, en
niðurstaða hennar var sú að vinnuslys
eru algeng meðal bænda, alls höfðu
um 44% bænda lent í vinnuslysi
og verið fjarverandi frá vinnu í
tvær vikur vegna þess. Kristinn
segir þær tölur sem fram koma í
ársskýrslu Vinnueftirlitsins vekja upp
spurningar um hvort bændur tilkynni
yfirleitt ekki um þau slys sem þeir
verði fyrir og leiti þá heldur ekki eftir
þeim rétti sem þeim stendur til boða.
Skráð vinnuslys meðal bænda
eru mun færri en hjá öðrum stéttum,
tilkynningar síðastliðinn áratug benda
til að árlega verði 5-10 vinnuslys að
jafnaði í landbúnaði. „Ég áætla að rétt
um það bil helmingur þeirra bænda
sem verða fyrir slysum við störf sín
tilkynni þau, líklega eru það einungis
alvarlegustu slysin sem ná inn á skrá.
Ég myndi áætla að vinnuslys meðal
bænda séu um 30 til 35 talsins á ári,
þannig að þetta er verulega vantalið,“
segir Kristinn.
Full ástæða til að hafa áhyggjur
Hann segir að bændur fari á mis við
réttindi sín með því að sýna af sér
andvaraleysi. „Bændur eiga, líkt
og aðrir þegnar þessa lands, rétt á
samfélagslegum stuðningi verði þeir
fyrir vinnuslysum og ætli þeir að
halda þessu rétti virkum þurfa þeir að
gera eitthvað í þessum málum, því á
endanum mun það koma niður á þeim
sjálfum og þeirra réttindum. Það er full
ástæða til að hafa áhyggjur af fálæti
bænda í þessum efnum, þeir eru alls
ekki nægilega vakandi,“ segir Kristinn.
„Því miður held ég að ansi mörg slys
verði í landbúnaði sem ekki eru tilkynnt
til okkar. Það þýðir að við höfum ekki
nægilega vitneskju um eðli slysanna og
afleiðingar, en hefðum við yfir þessum
upplýsingum að ráða væri hægt að grípa
til fyrirbyggjandi aðgerða, m.a. hrinda
af stað fræðslu- og forvarnarátaki.“
Slys við umhirðu búpenings
algengust
Algengustu vinnuslysin í landbúnaði
eru meðal bænda sem stunda blandaðan
búskap, þá hjá kúabændum og loks
sauðfjárbændum, en tíðnin er minni
í öðrum búskap. Slys við umhirðu
búpenings eru tíðust en einnig er
mikið um slys sem verða við notkun
fjölbreytts tækjabúnaðar.
Kristinn segir það sína skoðun
að Búnaðarþing ætti að taka málið
upp og fjalla af meiri krafti um
vinnuverndarmál bænda, þessum
málum hafi ekki verið nægur gaumur
gefinn. Meðal annars sé brýnt að gera
átak í skráningu vinnuslysa meðal
bænda. /MÞÞ
Kristinn Tómasson yfirlæknir hjá
Vinnueftirlitinu.