Aðventfréttir - 01.05.1988, Side 10
Guð er þess megnugur að láta alla náð hlotnast
yður ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt
hafið allt sem þér þarfnist, og hafið gnægð til
sérhvers góðs verks." 2. Kor. 9,8.
Þegar við lítum til baka yfir síðustu þrjú ár sést
vel að þrátt fyrir mjög erfiða tíma hjá starfinu
á íslandi höfum við vissulega fengið að reyna
þessi loforð. Þær tölur og upplýsingar sem hér
fara á eftir eru uppörvandi og bera vott um
framfarir, en verða svo innihaldslausar ef við
komum ekki auga á það sem að baki býr. Fyrir
mig er þetta opinberun á þeim fyrirheitum sem
Guð hefur lofað okkur. En þær bera einnig vott
um trúmennsku, fórnarlund og kærleika ykkar
og allra safnaðarsystkinanna.
TÍMAR ERFIÐLEIKA
Síðastliðin þrjú ár hafa verið erfið fyrir rekstur
starfsins á íslandi í heild. Hér hafa ýmsir
þættir spilað inn í. Mikil mannaskipti hafa orðið
hjá starfinu á tímabilinu og mannaskipti á
ýmsum stöðum. Hjá Samtökunum létu Eygló
Guðsteinsdóttir, skrifstofustúlka, Guðni
Kristjánsson, gjaldkeri og Henrik Jörgensen,
prestur og kennari af störfum og fluttu ásamt
fjölskyldum sínum af landi brott. Við starfi
Eyglóar tók Jónheiður Theódórsdóttir og síðar
Sigríður Kristjánsdóttir. í þessari skýrslu er
einungis minnst á áföll í starfsmannahaldi
Samtakanna en ekki Hlíðardalsskóla. Enginn var
ráðinn í stað Henriks Jörgensen og við það að
missa hann þyngdist mjög starf annarra starfs-
manna við prédikanir og önnur störf. Við það að
missa Guðna hófst tímabil mikilla erfiðleika við
rekstur starfsins þar eð ekki tókst, þrátt fyrir
mikla leit, að finna annan í hans stað. Ýmsir
aðilar komu þó inn í myndina til aðstoðar á
tímabilinu og tókst að halda starfinu meira eða
minna gangandi. Er í raun ótrúlegt hve mikið
vannst á þessum tíma þrátt fyrir mikið álag og
erfiði fyrir starfsmennina og ekki síst fyrir
Erling B. Snorrason sem þurfti að ganga inn í
mörg störf og vera undir miklu álagi. Kann ég
öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við aðstoð
í bókhalds- og gjaldkerastörfum bestu þakkir
fyrir framlag þeirra.
Enginn gjaldkeri var því starfandi í rúmt ár,
frá 1. febrúar 1986, þar til ég tók við störfum
gjaldkera, eftir rúmlega þriggja ára námsleyfi, 1.
apríl, 1987. Var þá mikið ófært af bókhaldi
Samtakanna, Hlíðardalsskóla og Bókaforlagsins.
Eftir mjög annasamt ár hefur nú tekist að færa
allt bókhald og hefur það allt verið endurskoðað
af endurskoðendum Stór-Evrópudeildarinnar, en
þeir voru hér í þrjár vikur í lok árs 1987 og
aftur þrjár vikur í mars 1988.
Miklir erfiðleikar í rekstri Hlíðardalsskóla hafa
einnig sett svip sinn á þetta tímabil. Örar
breytingar í starfsmannahaldi, sveiflur I nem-
endafjölda, viðhaldsframkvæmdir umfram efni
og ytri aðstæður hafa ráðið því að skólinn hefur
farið í gegnum sitt erfiðasta skeið og verður
vikið að því nánar síðar.
Bókaforlagið hefur einnig átt misgóð ár þótt
rekstur þess hafi yfirleitt gengið vel.
Það má nú segja að eftir erfið ár séum við
loksins að komast á beinu brautina og að fyrir
framan okkur séu bjartir tímar.
TÍUND
"Tigna Drottin með eigum þínum og með
frumgróða allrar uppskeru þinnar, þá munu
hlöður þínar verða nægtafullar og vínberja-
lögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum." Ok
3,9,10.
"Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að
fæðsla sé til í húsi mínu og reynið mig einu
sinni á þennan hátt - segir Drottinn allherjar-
hvort ég lýk ekki upp fyrir yður flóðgáttum
himinsins og úthelli yfir yður yfirgnæfandi
blessun." Mk. 3.10.
Þegar við lítum um öxl yfir síðastliðin 3 ár erum
við þakklát fyrir hvernig Drottinn hefur leitt og
blessað okkur þrátt fyrir þá erfiðleika sem
þrengdu að starfinu á þessum 3 árum. Guð hefur
enn einu sinni sannað okkur hve hátt hann er
hafinn yfir þann stakk mannlegra takmarkana
sem við í vanvisku okkar og trúarskorti erum
svo gjörn á að sníða honum.
Tíundin síðastliðin þrjú ár var alls kr.
20,188,410.24. Hækkun milli tímabilanna 1982-
1984 og 1985-1987 var 129.66%. Verðbólgu-
hækkun á sama tíma var 113.61%. Samkvæmt
þessu hefur hefur hækkun á tíund verið heldur
meiri en verðbólga í landinu. Hækkun sú á tíund
sem orðið hefur umfram eðlilegt verðlag er vegna
aukinnar atvinnu, aukins kaupmáttar, fjölgunar
safnaðarmeðlima og/eða aukinnar hollustu okkar
við Guð.
Það er ánægjulegt að sjá þá hækkun sem hefur
orðið í tíund sérstaklega á árinu 1987 (sjá
skýringarmynd nr. 1). Það er uppörvandi að sjá
hvernig trúmennska ykkar og safnaðarmeðlima í
heild birtist í reynd þegar tíundinni er skilað í
forðabúrið. Það er ánægjulegt að sjá trúmennsku
barnanna og unga fólksins, þeirra sem eru á
miðjum aldri og síðast en ekki síst þeirra sem
Aðventfréttir 5. 1988