Bændablaðið - 19.09.2013, Qupperneq 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 19. september 2013
Kanadískir garðyrkjubændur,
rétt eins og þeir íslensku,
þurfa á hverju ári að setja
til hliðar umtalsvert magn af
grænmeti og ávöxtum sem ekki
standast ströngustu kröfur
markaðarins, m.a. um útlit.
Lengi vel þótti nærtækast að
henda þessu umframmagni eða
nýta það að einhverju leyti í
dýrafóður. Förgun er hins vegar
kostnaðarsöm. Því hafa bændur í
Fraser-dalnum og víðar í nágrenni
við Vancouver í bresku Kólumbíu
í Kanada gripið fengins hendi
neyðarhjálparstarfsemi Fraser
Valley Gleaners Society á svæðinu.
Sá félagsskapur hóf starfsemi árið
1999 og þurrkar nú grænmeti og
ávexti af ýmsum toga og býr til úr
því kjarngott súpumix sem sent er
til þurfandi fólks víða um heim.
Fulltrúa Bændablaðsins bauðst
ásamt föruneyti að heimsækja
þessa starfsemi á ferð sinni um
Bresku Kólumbíu síðari hluta
júlímánaðar. Var vel tekið á móti
gestunum frá Íslandi og leiddi Carl
Goosen framleiðslustjóri gesti um
vinnslusalinn og sýndi hvernig
starfsemin færi fram. Hann hefur
umsjón með daglegri starfsemi ásamt
eiginkonunni Elaine sem heldur utan
um bókhaldið, en bæði starfa þau á
gólfinu við framleiðsluna eins og
þörf er á.
Nota aðeins úrvalshráefni og
líftíminn er þrjú ár
Goosen sagði að allt hráefnið sem
kæmi í verksmiðjuna væri hreinsað
og allt skorið burt sem mögulega
væri skemmt. Þannig færi ekkert í
þurrkun nema úrvalshráefni. Eftir
hreinsun er grænmetið og ávextirnir
skornir niður í smátt og sett í grunnar
pönnur. Pönnunum er síðan raðað í
rekka sem taka 64 pönnur. Rekkarnir
eru á hjólum og er þeim ekið inn í
þurrkara sem kyntur er með gasi upp
í 170 gráður á Fahrenheit, eða um
76,7 gráður á Celsius. Í þurrkaranum
er heitu lofti blásið um hráefnið þar
til það er orðið 90% þurrt eftir átta til
tíu klukkustundir. Goosen segir að
dýrasti hlutinn við þetta sé gasið, en
einnig þurfi talsvert rafmagn.
„Þegar þetta er orðið 90% þurrt
er hráefnið samt enn sem nýtt og
er líftími þess þegar það er komið
í plastpoka um þrjú ár. Þegar þetta
er komið á áfangastað er einfalt að
blanda vatni saman við innihaldið og
sjóða úr þessu mjög næringarríkar
súpur,“ sagði Goosen.
Framleiða tólf milljónir
matarskammta á ári
„Við blöndum grænmetinu saman
á mismunandi hátt, en það sem
þið sáuð blandað saman var að
uppistöðu til baunir. Svo eru hér
súpujurtir með lauk, chili með lauk
og fleiru. Við þurrkum þetta og
setjum í tunnur yfir sumarið en búum
síðan til súpumix sem við pökkum í
poka í minni einingum yfir veturinn.
Við pökkum síðan tólf pokum af
súpujurtum í kassa og 24 kassar
fara á hverja pallettu. Þetta súpumix
inniheldur tíu grænmetistegundir.
Á síðasta ári sendum við frá okkur
tólf milljónir matarskammta, eða
um 830 tonn af grænmeti, sem er
nýtt met.“
Súpumix úr tíu
grænmetistegundum
„Í þessu súpumixi eru tíu
grænmetistegundir. Það eru tómatar,
kartöflur, pipar, laukur, brokkólí,
gulrætur og ýmislegt fleira. Við
erum ekki enn byrjuð að þurkka
gulrætur þetta sumarið, þar sem
gulrótauppskeran er rétt að byrja.
Þá gætum við heldur ekki tekið við
gulrótum strax þar sem fyrir er svo
mikið af öðrum tegundum til að
vinna. Það sem sett er til hliðar hjá
bændunum af gulrótauppskerunni í
millitíðinni fer því ýmist í niðursuðu
eða í fóður fyrir hross.“
Umfram framboð af
sjálfboðaliðum
Nú krefst þessi framleiðsla mikillar
handavinnu, ertu ekki í neinum
vandræðum með að fá sjálfboðaliða
í þessi störf?
„Nei, alls ekki, ég þarf stöðugt að
vísa fólki frá sem býður fram starfs-
krafta sína. Þennan morguninn er
til dæmis 20 manna hópur hér sem
þurfti að keyra hingað í um klukku-
stund frá Vancouver. Þetta er ungt
fólk frá kóresku kirkjunni sem er í
nágrenni Vancouver. Aðrir sem hér
eru að vinna eru fólk sem kemur
hingað reglulega víða að til að leggja
sitt af mörkum. Nú eru hér um 50
manns en í gær voru 85 í vinnu. Að
meðaltali starfa hér daglega um 55
manns.
Á hverju ári fáum við hingað
fólk sem leggur fram 48.000
klukkustundir í sjálfboðavinnu.
Hver og einn þeirra er að framleiða
sem nemur 150 matarskömmtum á
klukkutíma. Þetta er mjög duglegt
fólk og greinilegt að það leggur sig
sérstaklega mikið fram núna til að
sýna ykkur hvað það getur,“ segir
Goosen og hlær.
Hvert sem sannleiksgildið var í
þessum orðum Goosens um áhrif af
komu Íslendinganna í verksmiðjuna
komst maður ekki hjá því að sjá
gleðina sem skein úr hverju andliti.
Það var greinilegt að allt fólkið sem
þarna starfaði gerði það af einlægum
vilja til að leggja sitt af mörkum
fyrir fólk sem er hjálparþurfi í
öðrum löndum.
Senda neyðarmat til 23 landa
Framleiðslu Gleaners er m.a. miðlað
í gegnum önnur hjálparsamtök,
en hvert er verið að senda þessa
súpuskammta?
„Á síðasta ári sendum við héðan
súpumix sem fór til 23 landa og
einnig eplasnakk. Það eru lönd í
Suður-Ameríku, Afríku, Asíu og
Evrópu og í raun sendum við þar
sem þörfin er alls staðar nema í
Norður-Ameríku. Þetta eru lönd eins
og Taíland, Nepal, Hvíta-Rússland,
Úkraína, Moldóva, Rúmenía, Líbía,
Afganistan, Norður-Kórea, Búrúndí,
Súdan, Suður-Afríka, Sambía,
Haítí, Brasilía, Ekvador, Paragvæ,
Gvatemala, Mexíkó og fleiri lönd.
Fólk sem starfar á viðkomandi
svæðum metur það hvort þörf er á
framleiðslu eins og þessari og sendir
okkur beiðni.
Þó að við köllum þetta súpu sem
búið er til úr þessu þarf það ekki
endilega að vera svo. Um leið og
búið er að bleyta upp í þessu er ekki
þörf á að blanda neinu saman við.
Það má svo sem nota þetta beint eins
og grænmeti, t.d. með hrísgrjónum
eða korni. Þá borða menn þetta oft
sem mauk af bananablöðum eða í
taco-brauði. Það má líka nota þeta í
burrito eða hvaða rétti sem er. Það er
bara komið undir því fólki sem tekur
við þessu hvernig varan er matreidd.
Fyrir sumt af þessu fólki sem
fær þetta er bragðið framandi. Það
þekkir ekki alltaf það grænmeti sem
í þessu er. Það blandar þessu því
oft saman við eitthvað sem það er
vant af heimaslóðum og með eigin
kryddjurtum og eykur þar með
næringargildi máltíðarinnar. Þetta
inniheldur mikið af vítamínum og
próteini.“ /HKr.
Bændur og sjálfboðaliðar í Kanada stunda viðamikla neyðarhjálp við nauðstatt fólk víða um heim:
Afgangsgrænmeti og ávextir þurrkaðir
í kjarngóða súpuskammta
„Hér er verið að framleiða mistök,“ sagði Carl Goosen. Þarna væri verið að
búa til ávaxtablöndu í súpu.
Myndir / HKr.
Þurrkaða grænmetið er fyrst
sett í tunnur en síðan pakkað í
uppskerutíma.
í Kanada.
Gleðin skein úr hverju andliti sjálfboðaliðanna. Þessi voru að snyrta lauk