Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.10.1987, Page 14

Læknablaðið - 15.10.1987, Page 14
320 LÆKNABLAÐIÐ Eins hefur verið bent á samsvörun á áfengisneyslu og tíðni skorpulifrar á mismunandi tímabilum í sama landinu, svo sem greinileg lækkun á tiðni sjúkdómsins á stríðsárunum í Frakklandi, þegar áfengi var þar skammtað og hraða aukningu eftir 1947. Þessi regla er þó engan veginn algild og kemur þar margt til. Áfengisneysla miðað við höfðatölu sýnir okkur ekki, hvort mikil neysla sé vegna mikillar drykkju fárra einstaklinga eða hóflegrar drykkju margra. Reglan skýrir heldur ekki, hvers vegna skorpulifur á íslandi verður sjaldgæfari, enda þótt heildarneysla áfengis fari vaxandi. Þetta virðist þó ekki vera einsdæmi. Nýlega birtar tölur frá Bandaríkjunum sýna, að áfengisneysla fór stöðugt vaxandi fram til 1982, en dánartala skorpulifrar af völdum áfengisdrykkju hefur farið lækkandi síðan 1973. Við faraldsfræðilegar athuganir á sambandi áfengisneyslu og skorpulifrar veldur það einnig erfiðleikum, að skilgreining á áfengissýki er háð félagslegum kringumstæðum og menningarástandi hvers lands. Höfundar vitna í þá íslensku lækna, sem mest hafa kynnt sér áfengismál hér á landi og benda á þá skoðun Tómasar Helgasonar, að þrátt fyrir lága heildarneyslu íslendinga sé áfengissýki ekki mikið sjaldgæfari hér en á Norðurlöndunum. Ennfremur benda þeir á það álit, að drykkjuvenjur margra þeirra íslendinga, sem nota mikið áfengi, eru að því leyti öðru vísi en annars staðar, að áfengissjúklingar hætti drykkju i lengri eða skemmri tíma og telja höfundar að þetta sé sennilega meginskýringin á hinni lágu tíðni. Undirritaður hefur í 'allmörg ár búist við fjölgun sjúklinga með skorpulifur í þeirri órökstuddu trú að fleiri íslendingar neyti áfengis daglega en áður var. Sem betur fer reynist þetta rangt. Önnur skýring höfunda er, að á íslandi búi drykkjumenn við betra næringarástand og félagslegar kringumstæður en í öðrum löndum. Vissulega hafa menn bæði fyrr og síðar velt mikið fyrir sér þýðingu góðs næringarástands til þess að fyrirbyggja lifrarskemmdir af völdum áfengisneyslu og varla eru öll kurl komin þar til grafar ennþá. Til dæmis hefur undirritaður nýlega rekist á niðurstöður mataræðisrannsókna í nokkrum löndum, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu, að fæði sem er ríkt af kólesteróli og mettaðri fitu veiti frekar vernd gegn skorpulifur en það fæði sem kemur sér best fyrir hjarta- og æðakerfið. Þótt ennþá sé margt á huldu um það hvers vegna sumir drykkjumenn fá skorpulifur og aðrir ekki skal undir það tekið, að hvort tveggja, gott næringarástand og tímabundið bindindi drykkjumanna hafa þýðingu til að aftra alvarlegum lifrarskemmdum þeirra. Æskilegt væri að halda áfram könnun á nýgengi og sjúkdómsferli skorpulifrar með framsýnni rannsókn og taka þá helst fyrir allt landið. Skilyrði til slíkrar könnunar eru betri hér en víða annars staðar, eins og höfundar benda á. Ætti að vera mögulegt að kanna með nákvæmari hætti matarvenjur og áfengisneyslu þeirra, sem fá skorpulifur og jafnframt kanna mögulegar orsakir aðrar en áfengisneyslu. Með auknu framboði á meðferðarstofnunum og aukinni þátttöku áfengissjúklinga í meðferð ætti að vera mögulegt að safna nákvæmum upplýsingum um áðurgreind atriði þeirra, sem sýna byrjunareinkenni lifrarsjúkdóms og gæti hér orðið um verðmæta upplýsingasöfnun að ræða. Tómas Árni Jónasson

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.