Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.02.1988, Blaðsíða 47

Læknablaðið - 15.02.1988, Blaðsíða 47
LÆKNABLAÐIÐ 69 ljósmóðirin því er hún fylgdi henni heim »með þökk og gleði«: »Hún gat gengið með mér af spítalanum niður á Mýrargötu 1, með því að hvíla sig tvisvar (á stól, sem ég hélt á með mér).« Þetta var þá sú lýsing sem til er af þeim keisaraskurði sem annar er í röðinni, þeirra sem vitað er um með vissu. Eins og áður sagði hafa ekki fundist neinar frekari lýsingar á þessari aðgerð í gögnum Landakotsspítala. Víkjum nú sögunni norður til Akureyrar. Á árunum 1918-22 skrifaði Steingrímur Matthíasson greinaröð í Læknablaðið, sem hann kallaði »Memoranda et memorabilia úr fæðingapraxis«, sem allar eru stórmerkar heimildir um framkvæmd fæðingarhjálpar á íslandi á þeim árum. í sjöundu greininni, sem birtist í Læknablaðinu 1920, lýsir Steingrímur keisaraskurði, sem hann gerði á Akureyri árið 1911 og er sá með nokkurri vissu þriðji keisaraskurðurinn hérlendis. Athyglisvert er, að 9 ár eru þá liðin frá aðgerðinni. Fer Steingrímur í greininni nokkrum orðum um grindarþrengsli, sem hann telur fremur sjaldgæf hér á landi, kveðst aðeins hafa greint grindarþrengsl í sjö skipti og að af börnunum hafi hann náð tveimur andvana, eitt hafi komið líflítið og dáið nokkrum klukkustundum eftir fæðingu en hin fjögur lifðu og öllum konunum heilsaðist vel á eftir. í sex skipti kveðst hann hafa notað töng. Af þeirri reynslu fenginni segir Steingrímur: »Hét ég því að ef ég aftur rækist á önnur eins þrengsli, þá skyldi ég láta töngina liggja og leita annarra ráða. Tækifæri til þess gafst mér sumarið 1911.« Fer nú hér á eftir lýsing Steingríms á þessu tilfelli, tekin úr fyrrnefndu Læknablaði: »Það var tvítug kona hér á Akureyri, I. para., dvergvaxin, á stærð við 13-14 ára stúlku. Fann ég það strax við rannsókn, að mikil ósamræmi var með stærð barnshöfuðsins og grindarholsins. Það var erfitt að komast að raun um grindarvíddina, konan var svo viðkvæm, eins og gengur. Mér mældist að conjugata vera hlyti að liggja milli 8 og 9 ctm. Ég hefi seinna farið þess á leit við konuna, að fá að mæla grind hennar með nákvæmni en var synjað þess. Fyrstu 16 stundirnar frá byrjun fæðingar (sem bar að á réttum tíma) gekk alt þolanlega. Móðurmunninn smávíkkaði og var orðinn 2 fingurbreiddir að þvermáli, en þá sprungu himnur og vatnið fór að miklu leyti. Nú beið ég í 20 klukkustundir. Hríðir voru reglulegar og miklar, en mjög sárar, en engin útvíkkun framar. Hvirfill lá fyrir og á honum töluverður fæðingarsveppur, ekki verulega orðinn fastur í efra grindaropi. Hríðirnar virtust aðgjörðalausar þó sterkar væru. Konan var svefnlaus og kraftar hennar á þrotum. Vending fanst mér ekki koma til greina, þar sem vatn var farið, og í öllu falli næðist barnið þá ekki lifandi. Hebosteotomia (þ.e. symphyseotomia) gat komið til mála, en hana hafði ég heldur aldrei séð, enda misjafn dómur á hana lagður, og ef hún ekki kæmi að gagni þá yrði kephalotripsia slæm viðbót. Þá væri eins gott að bíða rólega um stund og gera síðan perforatio etc. En leiðinlegt var að fórna frumburði. Ég gerði bæði manninum og konunni grein fyrir, hvernig málið horfði frá mínu sjónarmiði. Þau gáfu mér auðvitað öll ráð í hendur, en konan gerði fremur að hvetja mig en letja, hvað sem í húfi væri fyrir hana sjálfa. Eftir mikla hugarkvöl, lestur í bókum mínum (einkum Bumm: Ingerslev ætlaði þá sem fyr að gera mig ærðan með sínum absolut og relativ centimetra-hnitmiðandi indikationum o.s.frv.; Eulenburgs Encyclopedie var staglsöm í spursmálunum og stórleiðinleg), vóg ég í huganum pro og contra. Embarras de choix. Það sem gerði vandann í valinu var eiginlega mest, að vatnið var farið og ég hafði explorerað þrisvar eða svo. Jæja: jacta esto alea! Ég lét flytja skurðarborð og áhöld frá spítalanum inn í borðstofu hjónanna og gerði skurðinn með aðstoð þáverandi stud. med. Jónasar Rafnar, hjúkrunarkonu og yfirsetukonu. Skurður í miðlínu um 25 ctm. langur, nærri jafn langt ofan við sem neðan við nafla. Uterus látinn reisa sig úr sárinu og aðstoðarmaður greypa um collum með tveim höndum. Þverskurður um fundus ca. 12 ctm. Það blæddi mikið í bili, en stöðvaðist fljótt um leið og barnið var dregið fram, en það skifti engum togum. Og fylgjan þrýstist fram viðstöðulaust eftir að skilið var á milli. Barnið var með góðu lífi. Legsárið saumaði ég með silki, nokkrum djúpum saumsporum niður að mucosa, og mörgum grynnri sporum gegnum serosa og vöðva. Peritoneum með katgut, en magálinn annars með Heppnert saumsporum (fiskgut). Barnið var fullburða og vóg 16 merkur. Konunni heilsaðist ágætlega. Sárið greri pr. primam og saumar teknir á 12. degi. Og ég var mjög glaður.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.