Monitor - 28.11.2013, Blaðsíða 8
8 Monitor fimmtudagur 28. nóvember 2013
Engar geldingat
Á sunnudaginn hóf skemmtiþátturinn orðbragð göngu sína í Ríkissjónvarp-
inu. Monitor tyllti sér með þáttastjórnendunum Braga Valdimar Skúlasyni og
Brynju Þorgeirsdóttur og rabbaði um þáttagerðina og ástina á íslenskri tungu.
Hvernig þáttur er Orðbragð?
Bragi Í sem stystu máli þá fjallar Orðbragð um
íslensku og þar fjöllum við um tungumálið og
allar hliðar þess.
Brynja Hann á sér sænska fyrirmynd. Þar var
verið að fíflast svolítið með tungumálið og
það er það sem við erum að gera.Við erum
að leika okkur með tungumálið og snúa því
á haus. Ég hitti hann Kjartan Rögnvaldsson
leikara um daginn og hann sagði að þeir
tungumálaþættir sem hefðu verið gerðir
hingað til væru menningarlegar geldingatang-
ir. Þeir væru svo leiðinlegir að fólk yrði afhuga
tungumálinu.
Bragi Við erum ekki með geldingartangir.
Aðalatriðið er að þetta sé skemmtilegt og fyrir
alla. Þetta eru hraðir þættir með viðtölum,
innslögum og leiknum sketsum, vonandi
einhverju fyrir alla.
Brynja Eiður Guðna mun segja „Þetta er alltof
mikill fíflagangur.“
En þið eruð líka að miða þáttinn inn á ungt
fólk ekki satt?
Bragi Jú.
Brynja Það er mjög kröfuharður hópur og við
erum að reyna að uppfylla þeirra kröfur.
Bragi Eða í það minnsta koma í veg fyrir að þau
slökkvi á sjónvarpinu eftir eina mínútu heldur
haldi út í 25 slíkar.
Finnst ykkur mikil þörf á vakningu meðal
ungs fólks um íslenska tungu?
Bragi Ég held að það sé alltaf þörf á að minna
á að fara vel með tungumálið og að það sé
þarna. Það er ekki sjálfsagt að við eigum þetta
tungumál. Það er allt í lagi að minna fólk
reglulega á það og við eigum að leyfa okkur að
toga það og teygja í allar áttir.
Brynja Það er algjör óþarfi að
nota erlend mál til að tjá sig,
eins og allskonar slangur og
slettur.
En er allt slangur slæmt?
Bragi Nei, á einhverjum tíma-
punkti eru öll orð ný. Sum orð
sem við notum dagsdaglega
voru einhvern tíma slettur
sem voru kannski litin horn-
auga. Núna er síðan öllum
sama og orðin hafa öðlast
íslenskan ríkisborgararétt.
Brynja Í slangurorðabókinni frá
1982 eru orð eins og „elskuleg-
ur“ og „flottur“.
Bragi Það er bara tíminn sem
segir til um hvort orðin lifa
eða ekki. Sum orð deyja af því
að hluturinn sem það er notað
yfir dettur úr notkun.Ætli fólk
eigi eftir að nota „segulbands-
tæki“ mikið í framtíðinni?
Við hefðum líka varla viljað
sitja uppi með „sjálfrennireið“ eða hvað?
Bragi Nei, einmitt. „Bíll“ vann. Það var einfald-
ara að nota það.
Brynja „Þyrla“ vann „þyrilvængju“ og „þota“
vann „þrýstiloftsflugvél“.
Bragi „Dekk“ vann „togleðurshring“.
Brynja „Banani“ vann „bjúgaldin“.
Bragi „Rauðaldin“ varð „tómatur“, „tröllaldin“
er „melóna“. Á einhverjum tímapunkti var
reynt að þýða þetta allt saman.
Brynja Ég held samt að við séum sammála um
það að við deilum ekki áhyggjum fólks sem
heldur því fram að ungt fólk tali svo lélega ís-
lensku. Þar er akkúrat mesta gerjunin í gangi.
Ungt fólk leikur sér mest með tungumálið og
er uppfinningasamast og sniðugast.
Bragi Ég heyrði einhvern útvarpsmann tala um
að eitthvað lag í spilun væri „ruglheitt“. Mér
finnst það mjög gott orð.
Í þáttunum takið þið líka fyrir SMS-tungu-
mál og skammstafanirnar sem því fylgja
sem mörgu eldra fólki hryllir við.
Bragi Já, það má benda því fólki á að fara upp á
ÚRELT SLANGUR
Slangur er síbreytilegt og
verður hratt úrelt.
Hér er hæstmóðins slangur
frá 1982 sem flestum eða
öllum er gleymt.
Ástarslanga
getnaðarlimur
Bísi
1 róni, smákrimmi.
2 í orðasambandinu vera á
bísanum, lifa á sníkjum og
smáhnupli.
Díka
stúlka sem heldur sig vel í
klæðnaði, glæsipía
Handsprengja
1 kjötbolla.
2 hálf flaska af brennivíni.
Kæsa
Fara illa með, spæla
Kyssitau
Varir, munnur
Lensa
Kasta af sér vatni, pissa
Nöddur
Heimskingi, bjáni, nött (sbr.
nut)
Pensla
Í orðasambandinu að pensla
nýrun, hafa samfarir (við
konu)
Putterí
Vasaþjófnaður
Þulli
Heimskur maður, bjáni
Æritónlist
Hávær dægurtónlist
(Heimild: Orðabók um slangur, slettur,
bannorð og annað utangarðsmál (1982)
e. Mörð Árnason, Svavar Sigmundsson
og Örnólf Thorsson.)
AF HVERJU
BLÓTUM VIÐ?
Sálfræðingar segja að
þetta sé lærð hegðun,
við lærum í uppeldinu að
grípa til blótsyrða til að
lýsa miklum tilfinningum.
Rannsóknir sýna þó að
við fáum einhverskonar
tilfinningalega útrás þegar
við blótum, og það trufli
heilastarfsemina örlítið
og fái okkur þannig til
að gleyma hugsanlegum
óþægindum um stund. Það
hafa verið gerðar tilraunir
á hvort fólk þolir sársauka
betur ef það blótar á
sama tíma og það er verið
að pína það svolítið. Svo
virðist sem sársaukinn sé
þolanlegri, ef fólk fær að
blóta um leið.