Monitor - 28.11.2013, Blaðsíða 21
21fimmtudagur 28. nóvember 2013 Monitor
reyðingar skaða sjaldan möguleika kvenna á barneignum
Notaðir þú getnaðarvarnir að staðaldri áður
en þú varðst ólétt?
Já, ég hef alltaf verið á pillunni og var til-
tölulega nýhætt á henni af því að ég var hætt
með kærastanum mínum. Ég var satt best að
segja bara búin að gleyma því að ég væri ekki
á henni. Ég hafði ekki verið með neinum í
langan tíma en fór heim með fyrrverandi eitt
kvöldið. Ég hafði verið með þessum strák svo
lengi og alltaf verið á pillunni, ég hugsaði ekki
einu sinni út í það næstu daga.
Hvernig komstu að því að þú værir ólétt?
Ég var svolítið lengi að viðurkenna það fyrir
mér að þetta gæti verið að gerast. Ég vissi
þetta samt alveg, ég hafði lagt saman tvo og
tvo. Ég gat ekkert borðað nema græn epli í
næstum því viku. Svo fann ég að brjóstin voru
þrútin og aum. Þegar ég hugsaði til þess að
ég hefði sofið hjá og ekki verið á pillunni þá
passaði þetta líka við tíðahringinn. Svo óléttu-
prófið var aðallega til að gera sig ekki að kjána
þegar ég færi til læknis. Ég fór svo í sturtu eftir
að ég tók prófið og hágrét í sturtunni. Þó svo
að ég hefði vitað þetta allan tímann þá var
þetta samt sjokk.
Hvers vegna ákvaðst þú að fara í fóstureyð-
ingu?
Við vorum lengi frekar hlynnt því að eiga
það heldur en að eyða því. Við vorum í alveg
tvær, þrjár vikur að ákveða þetta.Við ákváð-
um loks í sameiningu að þetta væri ekki snið-
ugt á þessum tímapunkti í lífi okkar. Mér leið
eins og ef að sambandið myndi halda áfram
þá væri það bara af því að ég hefði orðið ólétt
og við værum að fara að eignast barn. Það var
ein af helstu ástæðunum fyrir því að ég vildi
ekki eiga barnið. Sambandið var ekki gott, þar
var ekkert traust og ég vildi ekki setja þannig
pressu á lítið barn. Svo vissi ég að það væru
líkur á því að ég þyrfti að standa í þessu ein.
Kannski er það eigingjarnt en ég bara treysti
mér ekki í það. Mér fannst þetta ekki vera
kjöraðstæður til að bjóða litlu barni. Hann var
líka að fara til útlanda í nám og þetta hefði
líklega stoppað hann í því. Hann þrýsti aldrei
á mig að gera þetta, en það spilaði samt inn
í að ég vildi ekki stoppa hann frá því að gera
það sem hann vildi gera.
Getur þú sagt okkur frá þinni reynslu af
fóstureyðingarferlinu?
Maður hringir og fær tíma hjá félagsráðgafa
sem metur hvernig maður er staddur. Eftir
það er maður sendur í sónar þar sem athugað
hvað maður er kominn langt á leið.
Hjúkrunarfræðingurinn í sónarnum tók
eftir því að að ég væri með samviskubit enda
er þetta er ekki skemmtileg ákvörðun. Hún
hélt í hendina á mér og talaði um hvað þetta
væri nú bara pínupons, þetta væri nú bara
lítil baun og eiginlega ekki neitt til að hafa
áhyggjur af. Ég bað um að fá að sjá myndirnar
eftir á. Hjúkrunarfræðingurinn ætlaði ekki
að leyfa mér það fyrst en svo náði ég að
sannfæra hana um að það væri allt í lagi.
Það var ógeðslega erfitt en ég þurfti að sjá
staðfestingu á því að þetta væri alvöru.
Næst tók ég pillu hjá hjúkrunarfræðingnum.
Hún lét mig hafa svona stíla sem maður setur
upp í leggöngin. Hún sagði mér hvað myndi
gerast og að ég mætti búast við því að þetta
yrði sárt. Ég fékk val um að vera heima eða á
spítalanum og ákvað að fara heim. Þar setti
ég þessa stíla inn og þá var það bara að bíða.
Maður á að vera liggjandi svo ég fór að sofa í
svona tvo tíma. Ég var alltof stressuð og vildi
ekki hugsa of mikið um þetta á meðan að
þetta væri að gerast. Þegar ég vaknaði þurfti
ég að drífa mig á klósettið. Þetta byrjaði að
hreinsast út og mér varð rosalega óglatt á
meðan. Ég var bókstaflega bara á klósettinu
með fötu að gubba. Þetta stóð yfir í svona
tvo tíma þar sem ég var bara á klósettinu, ég
komst ekkert annað. Svo þarf maður að kíkja
og sjá hvað er að koma af því að maður þarf
að vera viss um að allt hafi hreinsast út. Að
þurfa að sjá þetta er held ég það ömurlegasta.
Verkirnir og svoleiðis eru bara eitthvað sem
maður þarf að komast í gegnum en að sjá
þetta og vita að næsta skref er að sturta því
niður er ömurlegasta tilfinningin.
Eftir það fylgdu blæðingar í tvær, kannski
þrjár vikur. Svo fór ég í eftir á skoðun og þá
var allt bara búið að hreinsast. Mér leið betur
eftir það og ég er mjög sátt við mína ákvörðun
í dag.
Varstu hrædd?
Já, ég var aðallega hrædd af því að ég var
búin að lesa hryllingssögur um að maður
þyrfti að horfa á það sem væri að koma út.
Ég var hrædd um það að ég myndi allt í einu
sjá eftir þessu. Það er ekki eins og maður
geti bara stungið því aftur upp. Ég fékk alveg
þessa tilfinningu og spurði mig hvernig ég
hefði getað gert þetta og hvernig ég gæti
verið svona vond en maður er lík andlegu og
líkamlegu uppnámi í þessum aðstæðum. Um
leið og það var farið og ég náði að róa mig þá
var mér eiginlega bara létt.
Umræða samfélagsins um fóstureyðingar
og barneignir er fyrirferðarsmikil. Hefur hún
einhvern tímann farið fyrir brjóstið á þér?
Ég man eftir því þegar Sölvi Tryggvason
fjallaði um hvað það væru margar fóstureyð-
ingar framkvæmdar á Íslandi miðað við önnur
lönd. Ég er með Sölva á Facebook og hann
setti eitthvað inn um þennan þátt og það kom
komment frá manni sem sneri að því hvað
þetta myndi kosta heilbrigðiskerfið og hvort
að peningunum væri ekki betur varið annars
staðar. Mér fannst það mjög sárt því hann
talaði eins og fólk væri bara að gera þetta að
gamni sínu. Mér fannst bara ekki meika sens
að tala um eitthvað svona í tengslum við
kostnað. Hver er kostnaðurinn ef fólk eignast
barn sem það getur síðan ekki hugsað um? Ég
var í skólanum þegar ég las þetta, ég fékk tár
í augun og fór öll í kerfi. Ég tók alla umræðu
um svona mjög nærri mér í nokkra mánuði
eða jafnvel ár eftir fóstureyðinguna. Mér
fannst erfitt að sjá lítil börn og heyra af því að
einhver væri óléttur. Vinkona mín eignaðist
barn ekki löngu síðar og mér fannst líka erfitt
að heimsækja hana fyrst. Svo jafnar maður
sig bara á því og áttar sig á því að einhvern
tíman muni maður eignast börn og að það
verði þá bara frábært og æðislegt.
Fóstureyðingar eru jafnan mikið feimnismál,
segir þú fólki frá þinni reynslu?
Ég er ekkert að segja fólki frá þessu
dagsdaglega enda kemur þetta engum við.
En ég hef orðið vitni að umræðum sem mér
finnst ekki vera málefnalegar, þegar fólk er
að tjá fordóma á einhverjum staðalímyndum
og segja að þær sem fari í fóstureyðingar
séu bara stelpur í einhverri vitleysu sem fari
jafnvel oft og finnist þetta ekkert mál. Þá hef
ég stundum blandað mér í umræðuna og sagt
„Hey, ég hef gert þetta einu sinni,“ og sagt
stuttlega frá mínum ástæðum og afhverju ég
gerði þetta. Ég vona að allir hugsi sig um áður
en þeir segja eitthvað svona því maður veit
aldrei hvað manneskjan sem maður er að
tala við hefur gengið í gegnum. Það sjokkerar
fólk svolítið þegar ég segi frá en það virðist
líka skilja að það séu engar staðalímyndir. Og
það er gott.
Viðmælandi Monitor hafði lesið ýmsar hryll-
ingssögur á netinu sem gerðu ákvörðunina um
fóstureyðingu erfiðari. Hún segist hafa verið
hrædd en er sátt við sitt í dag.
fjöldi fóstur-
eyðinga eftir
aldri árið 2012
aldur fjöldi
0-15 ára 2
15-19 ára 153
20-24 ára 306
25-29 ára 216
30-34 ára 163
35-39 ára 97
40-44 ára 39
45 ára og eldri 4
samtals 980
fjöldi fyrri fóstur-
eyðinga hjá konum
sem fóru í fóstur-
eyðingu árið 2012
Engin eða ótilgr. 631
1 241
2 82
3 26
Hvenær má fara
í fóstureyðingu?
Í lögum nr. 25 frá 1975 segir:
fóstureyðing er Heimil:
1. Félagslegar ástæður: Þegar ætla má, að
þungun og tilkoma barns verði konunni og
hennar nánustu of erfið vegna óviðráðanlegra
félagslegra ástæðna. Við slíkar aðstæður skal
tekið tillit til eftirfarandi:
a. Hafi konan alið mörg börn með stuttu milli-
bili og skammt er liðið frá síðasta barnsburði.
b. Eigi konan við að búa bágar heimilisástæð-
ur vegna ómegðar eða alvarlegs heilsuleysis
annarra á heimilinu.
c. Þegar konan getur ekki vegna æsku og
þroskaleysis annast barnið á fullnægjandi hátt.
d. Annarra ástæðna, séu þær fyllilega
sambærilegar við ofangreindar aðstæður.
2. Læknisfræðilegar ástæður:
a. Þegar ætla má, að heilsu konu, líkamlegri
eða andlegri, sé hætta búin af áframhaldandi
meðgöngu og fæðingu.
b. Þegar ætla má, að barn, sem kona gengur
með, eigi á hættu að fæðast vanskapað eða
haldið alvarlegum sjúkdómi vegna erfða eða
sköddunar í fósturlífi.
c. Þegar sjúkdómur, líkamlegur eða geðrænn,
dregur alvarlega úr getu konu eða manns til að
annast og ala upp barn.
3. Ef konu hefur verið nauðgað eða hún orðið
þunguð sem afleiðing af öðru refsiverðu atferli.
fóstureyðing skal framkvæmd eins
fljótt og auðið er og Helst fyrir lok
12. viku meðgöngutímans.
Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16.
viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu
ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og
heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með
lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal
fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar
líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun
fósturs.
Mér fannst erfitt
að sjá lítil börn
og heyra af því að ein-
hver væri óléttur.
Óttaðist
mest að
þurfa að
horfa