Morgunblaðið - 09.01.2014, Side 16
16 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 9. JANÚAR 2014
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Þegar á heildina er litið er ekki
hægt að segja að útlitið sé bjart
fyrir lunda og sandsíli við Vest-
mannaeyjar. Ef ekki kemur eitt-
hvað algjörlega óvænt upp á, má
leiða líkur að því að varpárangur
lunda í Vestmannaeyjum fari ekki
að lagast fyrr en stofn sandsílis við
eyjarnar hefur braggast. Líkur á
því að það gerist hratt virðast því
miður ekki miklar.“
Þannig eru lokaorð ritrýndrar
greinar í nýjasta hefti Náttúru-
fræðingsins. Heiti hennar er Við-
komubrestur lunda og sandsílis við
Vestmannaeyjar. Höfundar eru
Kristján Lilliendahl, Erpur S.
Hansen, Valur Bogason, Marinó
Sigursteinsson, Margrét L. Magn-
úsdóttir, Páll M. Jónsson, Hálfdán
H. Helgason, Gísli J. Óskarsson,
Pálmi F. Óskarsson og Óskar J.
Sigurðsson.
Í greininni er fjallað um rann-
sóknir á þróun mála varðandi lund-
ann og sandsílið í Vestmannaeyj-
um allt frá sumrinu 2005. Þá
bárust fregnir af því að varp sjó-
fugla víða um land hefði misfarist.
Einkum virtist varp kríu á sunn-
anverðu landinu og varp lunda í
Vestmannaeyjum hafa orðið illa
úti. Jafnframt virtist sandsílastofn-
inn hafa beðið hnekki þetta sumar.
Árið eftir byrjuðu sandsílarann-
sóknir og árið 2007 hófust rann-
sóknir á afkomu lunda við Eyjar.
Orsökin er ekki ljós
Fram kemur að varp lundans
hafi gengið misjafnlega illa síðan
og varpárangur verið slakur þegar
horft er til fjölda þeirra lundapysja
sem komust á legg. „Afar lítið hef-
ur verið af ungfugli við eyjarnar,
sem venjulega er uppistaðan í veiði
á lunda. Niðurstöður þessarar
rannsóknar benda til þess að lund-
ar við Vestmannaeyjar séu háðir
aðgengi að sandsíli til að varp tak-
ist,“ segir í inngangi.
Þar kemur einnig fram að und-
anfarin ár hafi ýmist verið of lítið
af sandsíli við Vestmannaeyjar eða
það hafi verið of langt frá lunda-
varpinu. Þá er stofn sandsílisins
þar í mikilli lægð miðað við nokkur
önnur svæði við landið. Aukning í
sandsílastofninum við Eyjar hefur
verið nánast engin og nýliðun verið
lítil. Árið 2007 er undantekning en
þá komst upp stór árgangur sand-
sílis.
Ekki er ljóst hvað olli hruni
sandsílastofnsins við Vestmanna-
eyjar. Talið er að orsakirnar geti
verið aukin samkeppni um fæðu,
aukið afrán og breytingar í um-
hverfinu.
Þá segir í greininni að við Vest-
mannaeyjar virðist vanta aðrar
fæðutegundir fyrir lunda sem geti
komið í stað sandsílisins. Gera má
ráð fyrir að varp lunda í Eyjum
gangi illa á meðan stofn sandsílis
er lítill. Engin teikn eru um að
ástandið lagist í bráð.
Dökkt útlit fyrir lunda og sandsíli
Sandsílarannsókn hófst árið 2006 og rannsókn á afkomu lundans við Vestmannaeyjar árið 2007
Greint er frá rannsóknunum í nýrri grein í Náttúrufræðingnum Engin teikn um betra ástand
Morgunblaðið/Eggert
Lundar Fuglarnir hafa undanfarin ár átt erfitt með að afla fæðu fyrir sig og lundapysjurnar. Sandsílið hefur brugð-
ist og lundarnir ekki haft neitt æti. Það veldur því að þeir afrækja varpið og lundapysjurnar drepast.
Lundi og sandsíli
» Uppistaðan í sumarfæðu
sex stærstu sjófuglastofnanna
er sandsíli sunnanlands en fyr-
ir norðan er það loðna.
» Ábúðarhlutfall lunda í Vest-
mannaeyjum var lægst sum-
arið 2011, um 23% lundaholna
voru þá í ábúð.
» Sumarið 2011 afrækti lund-
inn öll eggin og sumarið 2010
drápust allar pysjur.
Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
Knattspyrnudeild Breiðabliks byrj-
aði í haust að setja inn ákvæði í
samninga við starfsmenn deildar-
innar sem bannar þeim að veðja á
leiki Breiðabliks eða Augnabliks
sem tengist félaginu. Stefnan er að
ákvæðinu verði smátt og smátt kom-
ið inn í samninga allra starfsmanna
deildarinnar.
„Við þurfum að bregðast við um-
heiminum eins og hann er að þróast
og reyna að setja varnagla áður en
barnið er dottið í brunninn. Við vit-
um og höfum heyrt og séð erlendis
að veðmál leikmanna og aðila sem
tengjast liðum og hagræðing úrslita
eru að verða meira og meira vanda-
mál þar. Það var kveikjan að þessu,“
segir Borghildur Sigurðardóttir,
formaður knattspyrnudeildarinnar.
Aðgengi að veðmálasíðum og fjár-
hættuspili á netinu hefur stóraukist
á undanförnum árum. Borghildur
segir að þetta hafi verið til umræðu
hjá félaginu í nokkur ár, meðal ann-
ars eftir að ungur maður sem þjálf-
aði fyrir Breiðablik svipti sig lífi.
Hann hafði staðið í fjárhættuspili, þó
ekki sem tengdist knattspyrnu.
„Þetta var drengur sem félagið
mat mikils og þetta var nokkuð sem
enginn gat trúað að gæti gerst.
Þetta var búið að vera til umræðu
um nokkurn tíma. Við gátum ekki
bannað fjárhættuspil en þetta er
okkar leið til að sýna fram á að þetta
sé varasamt og óæskilegt,“ segir
hún.
Hægt að veðja á nánast allt
Borghildur segist ekki hafa heyrt
af því að það sé vandamál á Íslandi
að leikmenn eða starfsmenn hag-
ræði úrslitum eða veðji á eða gegn
eigin liði. Það sé ekki kveikjan að því
að setja slíkt ákvæði inn í samninga
félagsins. Henni hafi þó virst að nú
til dags sé hægt að veðja á nánast
allt í leikjum.
„Maður hefur séð menn á kvenna-
leikjum og öðrum leikjum sem eru
að senda upplýsingar eitthvað út í
heim um hvernig gangur mála er í
leikjum. Þetta er til dæmis í Pepsí-
deild kvenna og ég held 1. deildinni
líka. Þetta er komið út um allt,“ seg-
ir Borghildur.
Hún segist þó ekki geta dæmt um
það hvort auðveldara sé að hagræða
úrslitum í minni deildum eins og hér
á landi.
Bannað að veðja á leiki Breiðabliks
Knattspyrnu-
deild beitir sér
gegn fjárhættu-
spili starfsmanna
Morgunblaðið/Kristinn
Efsta deild Borghildur hefur séð menn senda upplýsingar um gang leikja í
efstu deild kvenna út í heim. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Áskrift að Stöð 2 sport hefur hækk-
að um 14,5% eða úr 6.900 krónum í
7.900 krónur. Aðrir þættir verð-
skrár sjónvarpsstöðva hjá 365 miðl-
um hækkuðu ekki um áramótin. Ari
Edwald forstjóri 365 miðla leggur
áherslu á að aðeins sé um verð-
hækkun að ræða hjá þessari einu
stöð. Áfram verði sama verð á svo-
kölluðum „pökkum“ þar sem hægt
er að fá fleiri en eina stöð á lægra
heildarverði en ef um væri að ræða
áskrift á hverri stöð fyrir sig.
Sigrún L. Sigurjónsdóttir hjá
sölu og áskriftarsviði bendir jafn-
framt á að stöðin sé að bæta við sig
miklu af efni og nefnir í því sam-
hengi Wimbledon-mótið í tennis,
Vetrarólympíuleikana í Sochi,
Motorcross, NFL og Demants-
mótaröðina í frjálsum íþróttum.
Stöð 2 sport hækkar
í verði um 14,5%
365 Stöð 2 sport hækkar í verði um 14,5%
en verðskrá á pakkatilboðum er óbreytt.