Morgunblaðið - 22.05.2014, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 22.05.2014, Blaðsíða 32
32 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. MAÍ 2014 ✝ Jónas GunnarIngimundarson var fæddur á Hólmavík í Strandasýslu 4. ágúst 1948, hann lést á Landspít- alanum í Fossvogi 11. maí 2014. Foreldrar hans voru Ingimundur Magnússon, sjó- maður og bóndi, f. 20. febrúar 1902, d. 15. desem- ber 1978, frá Kleifum í Kaldrananeshreppi og Njóla Dagsdóttir, húsmóðir og bóndi, f. 11.desember 1911, d. 24. mars 2000, frá Ósi í Hrólfsbergs- hreppi. Jónas var næstyngstur 7 systkina en þau eru Aðalheiður, f. 27.5. 1933, Magnús f. 2.3. 1936, d. 2.11. 1990, Guðmundur Jónas, f. 10.11. 1938, Ásdís f. 6.2. 1942, Dagur, f. 21.4. 1944 og Guð- björg, f. 5.11. 1950. Árið 1968 andi sambýliskonu sinni, Berg- lindi Bjarnadóttur, á hann tvö börn, Ástu Maríu Jónasdóttur, og Jónas Dag Jónasson. 2) Bryn- dís Björg Jónasdóttir, f. 27.6. 1979, í sambúð með Bjarna Sig- urðssyni, börn þeirra eru Berg- ur Daði Bjarnason, Birgitta Fanney Bjarnadóttir og Björg- vin Ingi Bjarnason. 3) Önundur Jónasson, f. 18.11. 1980, kvænt- ur Díönu Hilmarsdóttur, börn þeirra eru Emelía Nótt Önund- ardóttir og Kristófer Máni Ön- undarson, fyrir átti Díana son- inn Kormák Andra Þórsson. Jónas ólst upp að Ásmund- arnesi í Bjarnarfirði til 15 ára aldurs er foreldrar hans brugðu búi og fluttu til Keflavíkur. Í Keflavík vann hann við salt- fiskverkun og varð síðar fisk- matsmaður hjá SÍF þar sem hann sá um fiskmat á saltfiski og skreið. Síðustu 25 árum starfs- ævinnar varði hann bæði við ný- byggingar og, ekki síður, við viðhald eldri húsa og þótti með eindæmum vandvirkur og var eftirsóttur fyrir verk sín. Útför Jónasar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 22. maí 2014, kl. 13. kynntist Jónas eft- irlifandi konu sinni, Fanneyju Elísdótt- ur, f. 23. apríl 1947, frá Sælingsdal í Dölum, dóttur hjónanna Jens El- ísar Jóhannssonar, bónda, f. 10. febr- úar 1904, d. 2. apríl 1989, frá Smyrla- hóli í Haukadals- hreppi, og Guð- rúnar Valfríðar Oddsdóttur, f. 31. desember 1916, d. 22. mars 2000, frá Efri-Brunná í Saurbæj- arhreppi. Leiðir Jónasar og Fanneyjar lágu saman er þau störfuðu saman við fiskvinnslu í Röstinni í Keflavík. Jónas og Fanney eignuðust 3 börn, en þau eru: 1) Jónas Dagur Jónasson, f. 11.12. 1974, kvæntur Katrínu Guðmundsdóttur, börn þeirra eru Ólafur Gunnar Jónasson og Jón Páll Jónasson, með fyrrver- Nú kveðjumst við í hinsta sinn í þessu lífi en leiðir okkar liggja vonandi saman síðar, þó þykir mér sá tími sem við fengum á þessum stað hafa verið allt of stuttur. Það var sannur heiður og mikill lærdómur að fá að eiga þig sem föður. Þú varst langt frá því að vera steyptur í fyrirfram ákveðið mót, þess í stað hafðir þú þínar sjálfstæðu hugsanir, fórst þínar eigin leiðir og lést ekki stjórnast af straumnum, eða eins og þú orð- aðir það svo skemmtilega sjálfur, í janúar síðastliðnum, að þú hefðir alltaf verið sérstakur og vildir fá að vera það áfram. Það er ná- kvæmlega sá hluti sem stendur upp úr þegar ég horfi til baka núna hvernig þú hugsaðir hlutina ávallt til enda, hvernig þú fylgdir eftir eigin sannfæringu, stóðst með þeim ákvörðunum sem þú tókst. Ég var eflaust ekki auðveld- asta barnið til að ala upp, líkt og þegar ég sprengdi upp bílskúrinn þinn með efnafræðisettinu sem þú hafðir gefið mér, málaði veggina á húsinu okkar, skilaði þér stýrinu af bílnum eftir að hafa fengið hann lánaðan og svona mætti lengi telja. Aldrei fékk ég svívirðingar eða skammir, það nægði mér ein- faldlega að sjá hversu mikið rauk úr pípunni þinni hvað þér þætti um afrek mín. Áhugi þinn á útiveru og veiðum var mikill og þann áhuga hef ég klárlega erft frá þér. Þeir eru ófá- ir veiðitúrarnir sem ég get hugsað til með gleði í hjarta. Eljan við veiðarnar var líka oft þvílík, þó svo ekki hefði sést fiskur á svæðinu svo vikum skipti þá varstu sann- færður um að hann væri þar og oftar en ekki skilaði hann sér á land. Þegar kom að veiðiferðum var enginn afsláttur gefinn, þó svo upp kæmu ýmsar hindranir þá skyldi í veiði þar sem búið væri að ákveða það. Eru mér sérstaklega minnisstæðir tveir veiðitúrar af mörgum sem við fórum í Veiði- vötnin, í öðrum þeirra var ég lík- lega ekki nema 10-12 ára gamall en þá sökk bíllinn á kaf með okkur og farangur innanborðs, sem bet- ur fer tókst að koma okkur á land og bílnum í gang en þá var allt á floti, sæti, farangur og annað laus- legt en samt skyldi veiða og veidd- um við þarna í tvo daga í renn- blautum fötum og skemmtum okkur konunglega. Hitt skiptið var sambærilegt en þá féllst þú fram af klettum og á kaf í vatnið en fljótlega skaut þér upp renn- blautum og löskuðum en áfram hélt veiðiferðin þó svo þú værir bæði holdvotur og illa lemstraður. Það verður seint hægt að lýsa þér með öðrum hætti en dugnað- arforki og samviskusömum enda man ég ekki eftir þér nema í vinnu frá mánudegi til laugardags og svo var sunnudagurinn haldinn heilagur. Þegar veikindin þín byrjuðu síðasta haust var eins og þú vissir upp á hár hvert stefndi enda oft á tíðum allt að því að vera yfirnáttúrulegur þegar kom að því að lesa hið ófyrirséða, að horfa upp á þig var virkilega erfiður tími þó svo þú hafir átt þína frábæru daga inn á milli. Hvernig líðan þín hefur verið á þessum tíma, líkt og þú orðaðir sjálfur að þér liði eins og hausinn væri ekki í sambandi við líkamann, get ég ekki ímyndað mér, en alltaf harkaðirðu þó af þér til að knúsa barnabörnin. Elsku pabbi, þín verður sárt saknað. Jónas Dagur Jónasson. Hér sit ég og margar minning- ar fara í gegnum kollinn, en virð- ist ekki ganga eins vel að skrifa þær niður. Ekki óraði mig fyrir því þegar ég kom og heimsótti þig á föstudegi að það yrði síðasta heimsókn mín til þín. Ég var nefnilega full vonar um að nú kæmi svarið við því hvað væri að hrjá þig en sú varð víst ekki raun- in. Það er skrítið til þess að hugsa að þú sért ekki lengur með okkur. Það á eftir að verða tómlegt án þín. Þú varst alltaf rólegur með lúmskan húmor og hæglátur mað- ur sem lést ekki mikið fyrir þér hafa. Okkur þótti vænt um þig eins og þú varst. Það varð mikill umsnúningur í þínu lífi í desember þegar þú veiktist skyndilega, hafðir alltaf verið mjög heilsu- hraustur. Þessi veikindi settu stórt strik í þitt líf, vinnan hentaði ekki og ég man ekki eftir þér öðruvísi en á fullu í smíðunum. Og nú í lokin áhugamálið líka, stang- veiðin. Þegar þú afboðaðir þig í fasta veiðitúrinn vegna heilsuleys- is þá áttaði maður sig á hvernig staðan var orðin. Mig langar bara að þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, ef ég hringdi og leitaði eftir leiðbeiningu eða að- stoð fékk ég svarið: „Ég kem og kíki á þetta í kvöld.“ Varst alltaf til í að rétta hjálparhönd. Afabörnin voru öll hrifin af þér, Björgvin Ingi spyr mikið um afa sinn. Hann fékk að gista hjá ömmu sinni og sofa í afaholu og var mjög glaður því þar var afalykt. Þau voru líka öll hrifin af því að fá að blása á eld- spýtuna hjá þér eftir að þú „trekktir“ upp í pípunni, stundum var röð. Á ég líka til upptöku af því þegar Bergur Daði er tveggja ára og kemur fram með gamla pípu frá þér og vill ekki láta hana af hendi þar sem hann er að gera „ljósið eins og afi“ eins og þú sagð- ir svo oft við þau. Þú áttir alltaf til suðusúkkulaði handa barnabörn- unum og fórst gagngert út í búð til að kaupa meira ef það var farið að minnka í bunkanum. Þú varst mjög örlátur á súkkulaðið til þeirra, við mismikla hrifningu for- eldranna. En svona er það þegar maður er afi. Ég á margar minn- ingar um þig, rúntur um helgar, keyptur grænn ópal, farinn bryggjurúntur til að skoða bátana og læra nöfnin á fuglunum og loks komið við hjá ömmu Njólu að spila. Þar sem ég var eina stelpan fékk ég stundum að heyra það að ég væri í uppáhaldi og aldrei skömmuð af bræðrum mínum, þegar ég og Öddi vorum að fara á diskó eða opið hús í skólanum sagði Öddi: „Far þú og biddu um pening, pabbi segir ekki nei við þig.“ Höfum við hlegið að þessum minningum í dag. Ég vildi að við hefðum getað fengið lengri tíma með þér, þá hefðum við jafnvel getað farið í veiði eins og við gerð- um í fyrra á afmælinu þínu. Hver minning er dýrmæt perla. Hvíldu í friði, elsku pabbi, þín Bryndís. Jæja, er ekki kominn tími til að við setjumst niður og trekkjum upp í pípunni? Þetta er spurning sem þú spurðir mig nokkuð oft Jonni, þegar við vorum eitthvað að bardúsa saman. Já, það var margt sem við gerðum saman og ekki skipti máli hvort mig vantaði aðstoð eða þig. Alveg sama hvað bjátaði á hjá okkur Bryndísi eða börnunum okkar, ef við hringdum í þig og spurðum þig álits um eitt- hvað þá varst þú kominn að vörmu spori og farinn að kíkja á. Eins og um daginn, þegar Björgvin Ingi sagði við þig að hann hefði brotið rúmið sitt, þá varst þú kominn daginn eftir til að laga rúmið hans. Mig langar á hverjum degi til að sleppa mér og fara að hágráta, en þá hugsa ég til þín og herði upp hugann. Þú varst ekki mikið fyrir að missa þig í tilfinningamálunum og varst nokkuð dulur en maður vissi samt nákvæmlega hvar mað- ur hafði þig þrátt fyrir það. Dul- úðin varð gegnsæ þegar maður sá þig sitja með barnabörnunum og kenna þeim stafina, skoða teikn- ingar eða hvað sem var. Þau sóttu í þig og þótti þægilegt að vera hjá þér og í kringum þig, töluðu um þig og það hlakkaði í þeim þegar þú komst í heimsókn. Húmorinn þinn var einstakur, djúpur og beittur, eins og þú. Allt sem ég kann varðandi smíðar, flísalagnir og viðhaldsvinnu kenndir þú mér, því alltaf þegar ég var að fara að gera eitthvað varstu kominn til að segja mér til og sýna mér eða jafnvel byrjaður að hjálpa til. Þú teiknaðir upp fyrir mér hluti sem ég hafði ekki gert áður og út- skýrðir þannig að þegar ég gerði hlutina sjálfur var engu líkara en að ég hefði gert þá oft áður. Millimetramaðurinn, heyrði maður fólk segja um þig. Þú gerð- ir ekki hlutina nema gera þá vel, ekkert hálfkák í neinu. Þegar þú gerðir hlutina og framkvæmdir þá klikkaði það vanalega ekki. Jú jú, það var ekki allt hundrað prósent, líkt og þegar þú sagðir mér frá kerlingunni sem gaggaði út af því að fleytingin á svölunum hennar klikkaði. En hvað þá, auðvitað kláraðir þú málið svo kerlingin yrði sátt, því þú skildir ekki illa við hlutina sem þú tókst að þér. Og ég veit til þess að þú neitaðir að gera hlutina ef þú varst beðinn um að gera eitthvað á þann hátt sem þér hugnaðist ekki, með einhverju drullumixi. Það kom upp í huga mér um daginn, hugsandi um framtíðina í ljósi þess að þú varst kominn inn á spítala, að vonandi hefðir þú nú heilsu til að ganga inn kirkjugólfið með henni Bryndísi þinni þegar að því kæmi. Ég veit að þú munt örugglega gera það í anda, en ég vona að hún Bryndís bjóði honum Jónasi bróður þínum þann heiður að gera það. Jæja Jonni, er ekki kominn tími til að við setjumst niður og trekkjum upp í pípunni og hugs- um um allar góðu minningarnar sem við áttum saman, veiðiferðir, vinnustundir og fjölskyldusam- komur. Þín verður sárt saknað og þú verður ávallt í huga mér og barnanna minna, ég mun gera allt til þess að heiðra góðu minning- arnar sem við börnin eigum um þig. Takk fyrir allt saman, kæri tengdafaðir, kær kveðja, Bjarni Sigurðsson. Þungt er að þurfa að kveðja bróður sem er aðeins tveimur ár- um eldri og þar að auki búandi í næsta húsi um áratugabil. Lífið er samt svona, það skiptast á skin og skúrir. Jonni bróðir var maður fárra orða en hann lét verkin tala. Hann gat gert allt viðkomandi húsbyggingum, einstaklega verk- laginn og nákvæmur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og setti metnað sinn í vönduð vinnubrögð. Þau eru ófá húsin í Keflavík og víðar sem hann hefur endurbætt og séð um viðhald á og margir munu deila söknuði mínum þeirra hluta vegna og hans nákvæma smiðsauga. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar við systkinin unnum ein að flísalagningu á gólfi í eldhúsinu okkar Sigga þar sem hann bauðst til að aðstoða okkur við. Ég skar flísarnar sem hann hafði teiknað upp hvernig ætti að leggja og allt gekk vel þangað til allt í einu munaði millimetra á einni flísinni sem var þar að auki undir sökkli og enginn hefði nokk- urn tíma séð það. Jonni bróðir sagði ekkert heldur stóð upp og tók aðra flís og rauk með hana út og skar sjálfur. Þegar hann kom inn með hana og lagði á sinn stað þá gekk það ekki heldur. Þá hætti hann bara og sagði: „Vélin er skökk og þið skilið henni og fáið aðra, þá getum við haldið áfram á morgun.“ Jonni hugsaði alltaf vel um garðinn sinn, það var hans sérstaka áhugamál og þegar hann byrjaði að klippa trén í febrúar þá vissum við að kominn væri tími til að huga að vorverkunum og aldrei sást illgresi í hans lóð þótt okkar væri „villt lóð“ . Þegar hann svo rölti í nokkur skipti yfir til mín fyrir jólin og vildi ræða um heims- málin og sagði að ég þyrfti að hætta að vera svona neikvæð og reyna að sjá ljósið þá hvarflaði ekki að mér að kveðjustundin væri svona skammt undan enda hélt hann í höndina á mér og sagði hann að hann væri ekkert að fara. Ég bið algóðan Guð að taka hann í faðm sinn og minnist hans með söknuði og hlýju. Elsku Fanney, Jónas Dagur, Bryndís, Önundur, makar og börn. Guð styrki ykkur á þessum erfiðu tímum. Guðbjörg Ingimundardóttir og Sigurður G. Ólafsson. Elsku afi, nú ertu farinn frá okkur. Við eigum margar minn- ingar um þig. Birgitta Fanney minntist á það um daginn að afi hefði átt besta súkkulaðið. Það eru margar stundirnar sem við áttum uppi á Drangavöllum með þér og ömmu. Þú kenndir okkur líka stafina með því að skoða Fréttablaðið. Björgvin Ingi sagði oft við þig „Afi getum við farið að skoða stafina?“ Bergur Daði vildi líka alltaf hjálpa afa sínum að laga, sérstaklega þegar hann var yngri. Okkur þótti líka gaman að fara með þér í kartöflugarðinn á vorin og haustin. Og þá var oft komið við í hesthúsunum. Við eig- um góðar minngingar frá því í fyrra sumar þegar við fórum að veiða, Bergur Daði og Birgitta fengu að koma með afa og ömmu heim deginum seinna, þá gaf afi Berg veiðistöngina sem hann hafði verið með að láni í túrnum. Við söknum þín, elsku afi. Þín afa- börn Bergur Daði, Birgitta Fanney og Björgvin Ingi. Það er erfitt að átta sig á og trúa því að Jónas G. Ingimund- arson sé farinn frá okkur. Veik- indi setja oft strik í reikninginn hjá okkur mörgum sem erfitt er að ráða við. Þín verður sárt sakn- að, kæri vinur og skarð þitt verður erfitt að fylla. Ég kynntist Jónasi fyrir um fjörutíu árum. Upp frá því tókst með okkur mikill og góð- ur vinskapur sem hefur staðið óslitinn síðan. Sameiginlegt áhugamál okkar, stangveiðar, gerði það að verkum að við hitt- umst oft til að ræða um veiðiskap. Margar góðar minningar um sam- verustundir við veiðiskap fylla hugann. Vanalega voru það Veiði- vötn sem skipuðu stóran sess hjá Jonna og einnig voru veiðiferðir austur í Skaftafellssýslu honum mjög hjartfólgnar. Jonni var mik- ill og góður verkmaður, það fer ekki á milli mála að handverk hans fór víða og bar honum gott vitni um hversu laghentur hann var. Jonni var alltaf eftirsóttur í vinnu og féll aldrei verk úr hendi. Hér er bara stiklað á stóru, ótal- margt er ósagt og verður ekki tal- ið upp hér á þessari stundu. Jón- as, ég er þér afar þakklátur fyrir allar góðu stundirnar í gegnum árin, sama hvort heldur var við veiðar eða annars staðar, og geymdar eru til að ylja sér við um ókomna tíð. Fanney og fjölskylda, ykkur sendi ég mínar innilegustu sam- úðarkveðjur. Er komin eru leiðarlok og lífsins kerti brunnið og þín er liðin æviönn á enda skeiðið runnið. Í huga kemur minning mörg og myndir horfinna daga frá liðnum stundum læðist fram mörg ljúf og falleg saga. (Höf. ók.) Þinn vinur Hólmgeir. Jonni var hæglátur maður og notalegur í allri viðkynningu. Einn þessara traustu og fáorðu Strandamanna í Keflavík. Aðdá- unarvert var að fylgjast með hon- um vinna; að upplagi var Jonni verkfræðingur, og framúrskar- andi sem slíkur, enda allir hans útreikningar réttir. Svo var hann nákvæmur og ráðagóður hand- verksmaður. Hann var heimilisvinur, ætíð aufúsugestur, en fyrst kynntist ég honum barnungur, við að hand- langa til hans saltfisk, þar sem óskeikul nákvæmni hans naut sín við matið. Síðar hittumst við yfir hverskyns smíðum, þar sem hann mætti ásamt föður mínum að ráð- ast í verkin, hvort sem þurfti að slá upp veggjum, skipta um glugga eða leggja gólf. Þá var mælt, kveikt upp í pípu, kímt yfir góðum sögum, rætt af ástríðu um sjóbirtingsveiði, sagt hvað þyrfti af efni, kveikt upp í annarri pípu og rökrætt um pólitíkina, og svo var ráðist í verkið og allt var hárnákvæmt og allar áætlanir stóðust, alltaf. Jonni var sannkallað tryggðar- tröll. Traustur vinur föður míns og alltaf reiðubúinn að aðstoða foreldra mína og okkur systkinin við verk sem þurfti að ráðast í. Við ferðalok þökkum við móðir mín og systkini tryggðina og færum að- standendum Jonna samúðar- kveðjur. Einar Falur Ingólfsson Jónas Gunnar Ingimundarson  Fleiri minningargreinar um Jónas Gunnar Ingimund- arson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. ✝ Ástkær eiginmaður, faðir, tengdafaðir og afi, HÖRÐUR HELGASON, Strandgötu 27, Eskifirði, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað sunnudaginn 18. maí. Jarðsungið verður frá Eskifjarðarkirkju föstudaginn 23. maí kl. 14.00. Kristín Jóhannsdóttir, Jóhann Halldór Harðarson, Unnur Inga Dagsdóttir, Helga Kristjana Harðardóttir, Magni Þór Harðarson, Þórdís Gunnarsdóttir og barnabörn. ✝ Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir og afi, JOHN ÞÓR TOFFOLO, lést fimmtudaginn 8. maí á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Útförin hefur farið fram í kyrrþey frá Kefla- víkurkirkju. Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð og vinarhug. Danival Toffolo, Solveig Toffolo, Luca Marchioni og börn. ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir og afi, HALLDÓR ÓMAR EYLAND PÁLSSON, Þórustíg 24, Njarðvík, lést mánudaginn 19. maí. Útför hans fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju þriðjudaginn 27. maí kl. 14.00. Halldór Páll Halldórsson, Brynhildur Ólafsdóttir, Dagbjört Rós Halldórsdóttir og barnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.