Morgunblaðið - Sunnudagur - 28.09.2014, Side 22
F
yrir tveimur árum gerði Michael Mosley heimildar-
myndina Eat, Fast, Live Longer fyrir BBC og í kjöl-
farið kom bókin The Fast Diet. Það að fasta með
hléum komst í tísku um allan heim. Leiðin sem Mos-
ley styðst við kallast 5:2 en þá fastar hann tvo daga í viku,
það er borðar aðeins 500-600 kaloríur á dag, en borðar eins
og hann vill í fimm.
Núna er komin ný leið til að fasta sem kallast 16:8. Í þetta
skiptið er ekki átt við vikudaga heldur klukkustundir. Fyrir-
mælin eru skýr en af 24 tímum á sólarhring má borða í átta
tíma. Margir sofa í kringum átta tíma og með því að sleppa
að borða fyrir svefninn er þetta ekki eins óyfirstíganlegt og
mætti ætla í fyrstu. Auðveldasta leiðin og sú sem hentar
flestum er því að borða á milli klukkan 12 og 20 en fasta það
sem eftir er sólahringsins. Í þessa átta tíma borðar fólk það
sem það vill en best er að leggja áherslu á að borða gæða-
prótín og grænmeti ef tilgangurinn er að léttast.
Auðveldara en að útbúa margar
hollar máltíðir á dag
Þessi leið gengur gegn helsta heilsuboðskap síðustu ára, sem
er að þeir sem sleppi morgunmat séu feitari og það sé nauð-
synlegt að borða margar litlar máltíðir yfir daginn til að
halda brennslunni gangandi. Leiðin 16:8 er að mörgu leyti
auðveldari fyrir fólk því reyndin er að fæstir gefa sér tíma til
þess að útbúa sex til átta litlar og hollar máltíðir yfir daginn.
Þetta getur því hjálpað einhverjum að lifa heilbrigðara lífi.
Það er erfitt að útbúa margar litlar máltíðir og það þarf ekki
að vera stöðugt með hugann við næstu máltíð, hver hún eigi
að vera og hvernig eigi að útbúa hana.
Fleiri sérfræðingar eru farnir að mæla með því að fækka
máltíðum og fasta með hléum.
Grein frá því fyrr á þessu ári í vísindaritinu Cell Metabol-
ism (Fasting: Molecular Mechanisms and Clinical App-
lications) greindi frá því að stuttar föstur kæmu í veg fyrir
margt af því sem ýtir undir öldrun og til viðbótar ýttu þær
undir hæfni líkamans til að vernda og gera við sjálfan sig.
Greinin komst að því að föstur „hjálpi til við að minnka of-
fitu, of háan blóðþrýsting, astma og gigt. Þannig getur fasta
hjálpað til við að fresta öldrun og hjálpað til við að koma í
veg fyrir og meðhöndla sjúkdóma.“
Kemur í veg fyrir kvöldsnarlið
Með því að fasta með hléum eykst yfirleitt meðvitund um
hvað er verið að láta upp í sig. Margir falla í þá gryfju að
borða hugsunarlaust, köku eða nammi í vinnunni án þess að
njóta þess sérstaklega.
Til viðbótar ef fólk kýs að borða milli 12 og 20 er komið í
veg fyrir kvöldnartið. Snarlið á kvöldin getur hindrað fólk í
að léttast því það safnast saman þegar fólk laumast í hrökk-
brauð með osti, smá súkkulaði hér og þar og einn bjór.
Best er að hugsa um 16:8 sem lífsstílsbreytingu en ekki
kúr. Alltaf þegar hugsunin snýst um kúr er meiri hætta á að
ef fólk brýtur föstumynstrið hætti það alfarið.
Að lokum skal ítreka að þó að 16:8 hjálpi til við að léttast
þarf að beita skynsemi. Ef borðaðar eru fleiri kaloríur en
brennt er þá er auðvitað hægt að þyngjast í staðinn.
NÝ LEIÐ TIL AÐ FASTA NÝTUR VAXANDI VINSÆLDA
Allir dagar
eru föstu-
dagar
ÞAÐ AÐ FASTA MEÐ HLÉUM KOMST Í TÍSKU Í
KJÖLFAR HEIMILDARMYNDAR OG BÓKAR
MICHAEL MOSLEY OG FÖSTUNNAR 5:2. NÚNA
ER KOMIN NÝ LEIÐ TIL AÐ FASTA SEM KALLAST
16:8, SEM Á BÆÐI AÐ HJÁLPA FÓLKI AÐ
GRENNAST OG BÆTA HEILSUNA.
Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is
Getty Images
* Auðveldastaleiðin og sú semhentar flestum er því
að borða á milli
klukkan 12 og 20 en
fasta það sem eftir er
sólarhringsins.
Heilsa og
hreyfing
Kjúklingur sjávarins
AFP
*Eldislax nýtur vaxandi vinsælda á meðal matreiðslumanna ogalmennings um allan heim, samkvæmt frétt Wall Street Journ-al. „Þetta er kjúklingur sjávarins,“ segir Eric Ripert, einn eig-enda og yfirmatreiðslumaður hjá Le Bernadin í New York. Þarer boðið upp á eldislax í hádeginu en villtan lax á kvöldin.Whole Foods gerir strangar kröfur til laxeldisframleiðenda ogskar niður fjöldann sem keðjan skiptir við úr átta í þrjá árið
2007. Laxeldi hefur haft slæmt orð á sér en verslanakeðjan
segir á vefsíðu sinni að það sé mýta að allt laxeldi sé slæmt.
Gott ráð til að gera það léttara að fasta er að fá nægan
vökva. Mikilvægt er að drekka nóg eins og til dæmis af
vatni, svörtu tei, piparmyntutei og kaffi. Fólk ruglar stund-
um þorsta saman við svengd og fær sér að borða þegar
það er í raun og veru þyrst.
Á 16:8 þegar fólk fær sér ekki að borða fyrr en á hádegi
er gott að fá heitt te í magann. Þeir sem nota mjólk út í
kaffið geta alveg fengið sér smáskvettu ef kaffið er það sem
heldur þeim gangandi og hjálpar þeim að halda föstuna.
Ennfremur má benda á að súpa er bæði góð við þorsta
og fyllir magann. Ef aðeins er verið að drekka vatn fer það
beint en góð grænmetissúpa staldrar lengur við og er
ágætis kvöldmatur.
Það er auðveldara að halda föstuna þegar búið að
hreinsa heimilið af ruslmat. Þegar búið er að losa sig við
snakkið, kexið, nammið og ísinn eru færri freistingar til
staðar. Kvöldin eru flestum erfiðust og búið er að sanna
að tilhneigingin til að borða án þess að hugsa er ríkust fyr-
ir framan sjónvarpið þegar verið að að slappa af við skjá-
inn.
Mikilvægt er að borða nóg af prótíni og grænmeti. Prót-
ín er seðjandi og hægt er að borða mikið af grænmeti án
þess að það telji margar kaloríur.
Í öllu mataræði sem á að vera hluti af lífsstíl en ekki bara
enn einn kúrinn er mikilvægt að hætta ekki að borða allt
það sem manni þykir gott. Það endar yfirleitt illa ef búið er
að dæma allt gott á „bannlista“. Það þarf hinsvegar ekki að
borða allt súkkulaðistykkið þó að það sé keypt. Ef þú ert
ein/n af þeim sem gera það er kannski betra að kaupa
minna súkkulaðistykki.
LEIÐIR TIL AÐ GERA FÖSTUNA LÉTTARI
Kaffi, te og súpur