Fréttablaðið - 05.06.2014, Qupperneq 72
5. júní 2014 FIMMTUDAGUR| SPORT | 56
BOSNÍUHÓPURINN
MARKVERÐIR
Björgvin Páll Gústavsson, Bergischer
Sveinbjörn Pétursson, Aue
AÐRIR LEIKMENN:
Alexander Petersson, RN Löwen
Arnór Atlason, St. Raphael
Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer
Ásgeir Örn Hallgrímsson, PSG
Bjarki Már Elísson, Eisenach
Bjarki Már Gunnarsson, Aue
Guðjón Valur Sigurðsson, THW Kiel
Gunnar Steinn Jónsson, Nantes
Ólafur Guðmundsson, Kristianstadt
Róbert Gunnarsson, PSG
Snorri Steinn Guðjónsson, GOG
Sverre Jakobsson, Grosswallstadt
Vignir Svavarsson, TWD Minden
Þórir Ólafsson, KS Vive Targi Kielce
HANDBOLTI Aron Pálmarsson
verður ekki með íslenska lands-
liðinu í fyrri leik liðsins gegn
Bosníu á laugardaginn. Leikurinn
er fyrri leikur liðanna í umspili
um sæti á Heimsmeistaramótinu
í Katar sem fer fram næstkom-
andi janúar.
Aron sat hjá gegn Portúgal í
síðasta æfingarleik liðsins en
liðsfélagi hans, Guðjón Valur
Sigurðsson, spilaði í 45. mínútur.
Bjarki Már Elísson kemur inn
í hópinn í stað Stefáns Rafns
Sigurmannssonar en Stefán,
Aron, Heimir Óli Heimisson og
Daníel Freyr Andrésson koma til
móts við liðið fyrir seinni leik lið-
anna í næstu viku. - kpt
Þessir fara til
Bosníu
FYRIRLIÐINN Guðjón Valur verður í
lykilhlutverki sem fyrr. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
HANDBOLTI Aron Pálmarsson, leik-
maður Kiel og íslenska landsliðsins
í handbolta, er búinn að ganga frá
samningi við ungverska stórliðið
MKB Veszprém.
Hann gengur í raðir þess næsta
sumar að öllu óbreyttu en vonast til
að Kiel og Veszprém komist að sam-
komulagi um kaupverð svo hann geti
farið strax í sumar.
„Ákvörðunin var í sjálfu sér ekki
erfið. Ég var hálfpartinn búinn að
ákveða að ég ætlaði að klára þennan
samning hjá Kiel og fara svo. Þegar
ég var farinn að íhuga það alvarlega
fór ég að athuga hvað væri í boði og
Veszprém hljómaði vel,“ sagði Aron.
„Þetta er allt öðruvísi þarna í
Ungverjalandi en í Þýskalandi. Hvað
handboltann varðar tel ég þetta
ekkert endilega vera skref niður á
við. Þetta er toppfélag sem ætlar
sér stóra hluti á næstu þremur til
fimm árum. Þeir ætla sér að vinna
Meistaradeildina sem seldi mér þetta
svolítið.“
Vitað var að Barcelona hafði áhuga
á Aroni og þá greindi Vísir frá því í
síðustu viku að Paris Saint-Germain
væri einnig í kapphlaupinu um Aron.
„Það var áhugi og tilboð frá París.
Þeir sýndu mér næstmestan áhuga
og ég var spenntur fyrir því. Það er
skemmtilegt verkefni í gangi þar.
Á endanum hafði Veszprém bara
betur,“ sagði Aron. - tom
Ég var líka spenntur fyrir PSG
NÝTT ÆVINTÝRI Spurning hvort Aron
fari í sumar eða að ári. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY
SPORT
HM Í FÓTBOLTA Í BRASILÍU
7 DAGAR Í FYRSTA LEIK
OLEG SALENKO er eini leikmaðurinn sem hefur
náð að skora fimm mörk í einum leik í úrslita-
keppni HM en hann skoraði fimm af sex mörkum
Rússa í 6-1 sigri á Kamerún í riðlakeppninni á HM
1994. Salenko varð markakóngur keppninnar (með
sex mörk) og er sá eini í sögunni sem hefur náð því
án þess að lið hans hafi komist upp úr sínum riðli.
Það vita kannski færri að þetta var síðasti lands-
leikur Salenko fyrir Rússland. Salenko varð líka markakóngur
HM 20 ára liða árið 1989 en enginn annar hefur náð að fylgja
eftir markakóngstitili á HM undir 20 ára með því að krækja í
gullskóinn á HM.
FÓTBOLTI Leikmaður Dalvíkur/
Reynis hefur viðurkennt að hafa
veðjað á úrslit eigin liðs í janú-
ar síðastliðnum. Þetta staðfesti
Stefán Garðar Níelsson, formað-
ur knattspyrnudeildar félagsins, í
samtali við Fréttablaðið í gær.
Þann 13. janúar vann Þór 7-0
sigur á Dalvík/Reyni í Kjarna-
fæðismótinu í Boganum á Akur-
eyri. Síðar þann mánuð greindi
Akureyri vikublað frá því að grun-
semdir hefðu vaknað um óeðlilega
veðmálastarfsemi í kringum leik-
inn og að leikmenn Þórs hefðu
stórgrætt á að liðið vann meira en
þriggja marka sigur.
Rannsókn KSÍ leiddi ekkert í
ljós en hún strandaði á því að for-
ráðamenn Dalvíkur/Reynis höfn-
uðu beiðni Þóris Hákonarson-
ar, framkvæmdarstjóra KSÍ, um
aðstoð vegna rannsóknarinnar.
Erfitt mál fyrir félagið
Stefán Garðar segir að þetta
mál hafi reynst félaginu erfitt. Í
umfjöllun Akureyrar vikublaðs
hafi leikmenn Þórs legið undir
ásökunum en hann segir að leik-
menn Dalvíkur/Reynis hafi líka
verið ásakaðir um að taka þátt í
braskinu – til að mynda í leiknum
sjálfum.
„Meðan á leiknum stóð heyrðust
ásakanir frá leikmönnum Þórs um
að okkar leikmenn væru að hag-
ræða úrslitum. Það þótti okkur
verst,“ sagði Stefán Garðar en
staðfesti þó að leikmaður Dalvík-
ur/Reynis hafi veðjað á leikinn.
„Hann var reyndar ekki í leik-
mannahópi okkar í þessum leik
en viðurkenndi þetta. Hann hefur
þess utan lítið æft og ekkert spil-
að með okkur í vor. Þeir leikmenn
sem tóku þátt í leiknum sóru þetta
hins vegar allir af sér,“ bætir
hann við en vildi ekki nafngreina
umræddan leikmann.
Þórir staðfesti við Fréttablaðið í
gær að hann hafi ekki fengið þær
upplýsingar til sín að umræddur
leikmaður hafi veðjað á leikinn en
fram kemur í fundargerð stjórnar
KSÍ að ekki yrði aðhafst frekar í
málinu fyrr en nýjar upplýsingar
kæmu fram.
Þórir gat ekki svarað því hvort
þetta nægði til þess að málið yrði
tekið upp að nýju en upphaflega
hafi ekki verið hægt að aðhafast
meira í því.
„Ásakanirnar komu fram í fjöl-
miðlum og ég hafði ekkert hald-
bært um að nokkuð óeðlilegt hafi
átt sér stað,“ sagði Þórir. „Ég lít
svo á að félögin hafi fengið tæki-
færi til að hreinsa sig af ásökun-
um en af einhverjum ástæðum
voru þau ekki tilbúin í það. Það var
þeirra ákvörðun.“
Erum ekki í feluleik
Stefán Garðar viðurkennir að það
kunni að líta út fyrir að félagið
hafi eitthvað að fela en svo sé ekki.
„Þetta var orðið mjög erfitt mál
og leiddi til þess að hálfgert hatur
ríkti á milli félaganna. Við höfðum
ávallt átt mjög góð samskipti við
Þór en þetta mál gerði þau mjög
erfið. Við vorum bara búin að fá
nóg,“ segir Stefán Garðar.
Hann telur að leikmenn geri sér
grein fyrir alvöru málsins. „Það
er búið að ræða þetta ítarlega og
okkar leikmenn vita að þeir verða
látnir fara frá félaginu verði þeir
uppvísir að svona löguðu.“
Fáránleg starfssemi
Stefán Garðar telur að vandamálið
sé mun algengara en talið er. „Það
var gott að fá þessa umræðu og
að þetta hafi verið fín áminning
fyrir knattspyrnuhreyfinguna
alla á Íslandi. Enda finnst mér
með öllu fáránlegt að það skuli
vera hægt að veðja á leik í æfinga-
móti á Íslandi á erlendum vef-
síðum, hvað þá að græða mikinn
pening á úrslitum leikja sem geta
aðeins talist eðlileg,“ segir hann og
ítrekar að niðurstaðan í umrædd-
um leik, 7-0 Þórs, hafi ekki vakið
spurningar hjá honum.
„Ég sá þennan leik. Við vorum
einfaldlega illa mannaðir og úrslit
leiksins eftir því.“
Aðalsteinn Ingi Pálsson, formað-
ur knattspyrnudeildar Þórs, sagði
af og frá að félagið hefði hafnað
beiðni KSÍ og að allir leikmenn
liðsins hafi skrifað undir skjal
þess efnis að þeir hafi ekki tekið
þátt í neinu ólöglegu eða ósiðlegu
athæfi í tengslum við umræddan
leik. „Við gerðum allt sem í okkar
valdi stóð til að vinna með KSÍ,“
ítrekar Aðalsteinn Ingi.
Þórir bætir einnig við að dóm-
arar leiksins hafi verið reiðubúnir
að aðstoða við rannsókn málsins á
sínum tíma.
eirikur@frettabladid.is
Veðjaði gegn eigin félagi
Leikmaður Dalvíkur/Reynis veðjaði á að hans lið myndi tapa með meira en þriggja marka mun í leik þess
gegn Þór frá Akureyri í vetur. Félagið neitaði að aðstoða KSÍ við rannsókn á ásökunum um veðmálabrask.
Hægt er að dæma leikmenn í bann sem gerast uppvísir að
veðmálabraski í kringum leiki eigin liðs, samkvæmt reglum
KSÍ. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, hefur þó
áhyggjur af því að slík starfsemi sé mun algengari en talið
er og hefur áhyggjur af þróun mála.
„Við verðum að þétta okkar regluverk verulega í þessum
málum og erum að vinna að því. Nú þegar er þetta
ólöglegt, bæði samkvæmt okkar reglum og samning-
um sem allir samningsbundnir leikmenn hér á landi
þurfa að undirrita,“ segir Þórir en viðurlög við brot
á þessum reglum geta verið sektir og leikbönn. - esá
Viljum þétta regluverkið
FÓTBOLTI Ísland lagði Eistland,
1- 0, í v ináttulandsleik á
Laugardalsvelli í gær. Kolbeinn
Sigþórsson skoraði eina mark
leiksins úr vítaspyrnu í síðari
hálfleik. Hans fimmtánda mark
í 23 A-landsleikjum sem er
magnaður árangur.
Þetta var síðasti leikur
íslenska liðsins áður en átökin
í undankeppni EM hefjast í
september. Því miður fær íslenska
liðið ekki leik í ágúst til þess að
hita almennilega upp.
Leikurinn í gær bar mörg merki
þess að leikmenn væri þreyttir
eftir langt tímabil og komnir
með hugann á sólarstrendur þar
sem sumarfrí þeirra byrjar í dag.
Hann var hreinlega leiðinlegur og
kraftlaus.
Íslenska liðið var mun meira
með boltann en sóknarleikurinn
var hægur og fyrirsjáanlegur.
Eistarnir þurftu oft ekki að hafa
mikið fyrir því að stöðva sóknir
íslenska liðsins. Það var helst í
föstum leikatriðum sem íslenska
liðið náði að ógna. Eistarnir aftur
á móti mun sprækari framan af og
sköpuðu sér bestu færin. Íslenska
liðið var í raun stálheppið að lenda
ekki undir.
Það var síðan ekki í kortunum
að okkar menn kæmust yfir þegar
Eistar gáfu vítaspyrnu. Brotið á
Rúrik Gíslasyni í teignum og víti
dæmt. Kolbeinn tók spyrnuna.
Markvörðurinn fór í rétt horn en
það dugði ekki til því spyrnan var
föst.
Eftir markið fór íslenska liðið
að ná betri tökum á leiknum og
Eistarnir virtust hreinlega klára
bensínið. Varamennirnir gáfu það
sem þeir áttu en aðrir virtust vera
að bíða eftir því að flautað yrði af.
Það er smá áhyggjuefni hversu
mörg færi íslenska vörnin gaf í
leiknum og menn voru ekki alveg
á tánum. Gunnleifur bjargaði
liðinu í fyrri hálfleik og slíkt hið
sama gerði Ögmundur Kristinsson
í upphafi síðari hálfleiks er hann
var nýkominn inn í sínum fyrsta
landsleik.
Enginn sérstakur stóð upp úr
í íslenska liðinu og hver og einn
einasti leikmaður í liðinu getur
mun betrur en hann sýndi í kvöld.
Alltaf gott að vinna fótboltaleiki en
þessi leikur fellur í gleymskunnar
dá strax í fyrramálið. - hbg
Rislítill leikur í Laugardalnum
Kolbeinn Sigþórsson skoraði eina mark leiksins í naumum sigri gegn Eistum
BEÐIÐ EFTIR FYRSTA MARKINU Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson fékk
gott færi í leiknum en tókst ekki að skora sitt fyrsta landsliðsmark. FRÉTTABLAÐIÐ/DANÍEL
KNATTSPYRNAN Í HÆTTU Veðmálastarfssemi vegur að knattspyrnu á Íslandi eins
og víðar. Myndin tengist ekki fréttinni beint. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI