Akureyri - 20.11.2014, Side 8
8 43. tölublað 4. árgangur 20. nóvember 2014
VILTU SEGJA SKOÐUN ÞÍNA?
Akureyri vikublað óskar eftir að komast í samband við bæjabúa sem
sjaldan eða aldrei hafa veitt viðtöl en væru til í að segja skoðun sína í
blaðinu eða veita stutt viðtöl. Vinsamlegast sendið okkur tölvu-
póst á bjorn@akureyrivikublad.is eða hringið í síma 862 0856.
LOF OG LAST VIKUNNAR
LAST fær stjórnmálafræðingurinn sem
orðaði það þannig í fréttum í síðustu viku
að að yngri kynslóðirnar væru „dóm-
harðari“ en hinar eftir könnun sem mældi
að 60% landsmanna sem taka afstöðu
krefjast afsagnar Hönnu Birnu. Stuðning-
ur við afsögn er meiri meðal ungs fólks
en eldra og lýsti fræðingurinn stöðunni í
fréttum Stöðvar 2 sem meiri dómhörku
meðal þeirra yngri en eldri. „Hið rétta er
að ungt fólk er með prinsipp meðan sumir
af hinum eldri eiga hagsmuna að gæta og
kjósa því samtryggingu valdaflokkanna.
Afstaða unga fólksins er ekki dæmi um
dómhörku heldur von fyrir Ísland, enda
nýtur innanríkisráðherra ekki trausts,“
segir háskólanemi sem hafði samband við
blaðið...
LOF fær gleraugnabúðin Geisli á Glerár-
torgi fyrir frábæra þjónustu. Svo segir karl
sem hafði samband við blaðið. Hann hafði
farið með gleraugu sem hann hafði keypt
í búðinni til viðgerðar og fengið frábæra
þjónustu og alúðlegt viðmót.
LAST fá matvörubúðir sem ekki leggja
upp úr að selja gott grænmeti eða
óskemmda ávexti. Svo segir Akureyringur
sem hringdi í blaðið. Hann segir brögð
að því að ávextir í búðum séu „loðnir“
af elli og grænmeti ónýtt. Ef kúnnarnir
kvarti fái þeir hvorki skýringu né afsök-
unarbeiðni. „Það þarf að auka metnað
og neytendavernd, það þarf líka að bæta
siðferði gagnvart kúnnum. Búðir þurfa að
sýna meiri virðingu og auðmýkt,“ segir
Akureyringurinn...
Þú gætir verið fljótari að taka flug til
Dublin en keyra til Akureyrar – og það
er ódýrara! Svo segir á heimasíðu Wow
flugfélagsins í kynningu á Dublinarferðum
félagsins. Þetta LASTAR íbúi í Þorpinu
á Akureyri og telur um „ósmekklegan“
samanburð að ræða. „Mér finnst að það
séu ekki góð vinnubrögð að reyna að
fá borgarbúa til að fljúga út fremur en
heimsækja Akureyri. Fyrir utan að það er
eins og félagið gefi sér að allir íbúar þessa
lands búi fyrir sunnan,“ segir „þorparinn“
sem hringdi inn lastið.
AKUREYRI VIKUBLAÐ 43. TÖLUBLAÐ, 4. ÁRGANGUR 2014
ÚTGEFANDI Fótspor ehf. ÁBYRGÐARMAÐUR Ámundi Ámundason 824 2466, amundi @ fotspor.is.
FRAMKVÆMDASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is.
AUGLÝSINGASTJÓRI Ámundi Steinar Ámundason, as @ fotspor.is. 578-1193.
RITSTJÓRI Björn Þorláksson, bjorn @ akureyrivikublad.is, 862 0856 MYNDIR Björn Þorláksson, Völundur Jónsson og fleiri.
UMBROT Völundur Jónsson PRENTUN Ísafoldarprentsmiðja - Svansmerkt prentun. DREIFING
14.500 EINTÖK ÓKEYPIS – UM ALLT NORÐURLAND
Dularfulla hljóðið heyrist á ný
Enn virðist sem torkennilegt hljóð
geri íbúum á Akureyri lífið leitt. Ak-
ureyri Vikublað sagði frá því í vor að
lágtíðnihljóð ylli sumum íbúum á Ak-
ureyri andvöku. Skömmu eftir að blað-
ið birti fréttina hafði fólk samband
og taldi hljóðið úr sögunni. Kona, bú-
sett á Eyrinni, hafði svo samband við
blaðið í fyrradag og sagði að dimmt og
furðulegt hljóð, eins konar lágtíðnisuð,
hefði truflað nætursvefn hennar upp
á síðkastið. Samkvæmt lýsingu kon-
unnar lýsir hljóðið sér með svipuðum
hætti og þegar blaðið greindi frá því í
maí sl. að Heilbrigðiseftirlit Norður-
lands eystra hefði fengið ábendingar
og kvartanir vegna næturhljóða.
Um tíma bárust böndin að loft-
blásara í Vaðlaheiðargöngum. Ósannað
þykir þó að sökudólginn sé þar að finna
en furður eru þó ýmsar í Vaðlaheiðar-
göngum síðan framkvæmdir hófust. Í
samtali við Akureyri Vikublað fyrr á
árinu sagði Alfreð Schiöth heilbrigð-
isfulltrúi: „Þetta er fyrirbæri sem er
ekki óþekkt í fræðunum en vissulega
dálítið ráðgáta. Gæti verið lágtíðni-
hljóð sem berst um langan veg. Í erli
dagsins tekur enginn eftir þeim en svo
þegar kvöldar og kyrrist magnast hlut-
fallegur styrkur.“
Í athugasemdum við frétt blaðsins
þegar hún birtist á vefnum í maí síð-
astliðnum steig fjöldi fólks fram á rit-
völlinn og kannaðist við hljóðið. „Mér
finnst gott að lesa þessa frétt, því ég var
farin að halda að ég væri geðveik eða
a.m.k. illa ímyndunarveik,“ sagði einn
íbúinn. Sumir telja iðnaði um að kenna,
telja að um vélarhljóð sé að ræða. Aðr-
ir viðmælendur blaðsins hafa hætt
sér nálægt hinu yfirskilvitlega í leit
að skýringum. Embætti heilbrigðis á
Norðurlandi eystra er þó jarðbundnara
en svo að telja að verur framandi vídda
skapi hljóðin þótt sumir íbúar hafi
kallað lágtíðnihljóðið draugahljóð.
„Þetta er afar hvimleitt, mér finnst
hljóðið koma að norðan, en ég vona
að einhver botn fáist í þetta, því það
er ekki hægt að sofa með opna glugga
þegar verst lætur,“ segir konan á Eyr-
inni sem hafði samband við blaðið.
-BÞ
Þegar þjóðarlík-
aminn brotnar
Það er svo sem ekki í frásögur færandi að maður renni til í hálku og brjóti bein. Það er alltaf að
gerast. Jæja, að brjóta herðblað er reyndar fremur
sjaldgæft beinbrot. Eitt af hverjum 100 brotum las
ég á einhverjum vísindaþræði. En eigi að síður: Við
rennum stundum til og tognum, beinbrjótum okkur eða
fáum skeinu við fall. Þannig er það nú bara. Nær væri
kannski að skrifa um hvunndagshetjur, daufdumba,
krabbameinssjúka eða þá sem eiga mest undir góðu
heilbrigðiskerfi. En ég ætla að segja litla sögu af minni
viðburðum og tengja við ástand samtímans því e.t.v.
vísar reynslan út fyrir sig.
Það var sunnudagur þegar ég herðablaðsbrotnaði
og ekki um annað að ræða en fara upp á slysadeild
Sjúkrahússins á Akureyri. Reyndar óraði mig ekki fyrir
því þá að ég væri beinbrotinn. Tippaði fremur á slæma
axlartognun. Sömu sögu mátti segja um unglækninn
sem leit örstutt á mig eftir að ég hafði beðið lengi, lengi,
lengi. Löng bið einkennir alla heilbrigðisþjónustu hér á
landi núna nema ef fólk lendir í lífshættu. Klukkutíma
eftir að fyrsti leit á mig kom einhver annar starfsmaður
og baðst afsökunar á biðinni. Þannig gekk þetta fram
eftir degi uns greining lá fyrir. Þá fór maður bara heim
í fatla með ávísun á ofurskammt af verkjalyfjum.
Fimm dögum síðar var endurkoma á slysó. Ég hélt
kannski eftir tíuþúsundkallinn sem ég hafði verið
rukkaður fyrir að endurkoman væri frí, bara tveggja
mínútna skoðun. En ónei. 5.500 krónur í viðbót. Nú
fékk ég ávísun á sjúkraþjálfara. Þar eru fyrstu tímarnir
ekki niðurgreiddir, a.m.k. 25.000 krónur í viðbót fyrir
fyrstu fimm skiptin. Kominn upp í 40.000 kall og ferlið
rétt að byrja.
Það var þá sem ég hugsaði hvers vegna ég hefði
alltaf greitt skatta. Hvert fór féð? Fólkið sem með-
höndlaði mig var voða kurteist og fínt en ofhlaðið
störfum og biðin var nánast endalaus. Og var ég fimm-
tugur maðurinn ekki búinn að greiða skattana mína
alla ævi, einmitt til að þurfa ekki að taka upp veskið
ef ég lenti í slysi?
Vinur minn sem býr í París tognaði nýverið í körfu-
bolta. Hann fær (án þess að ganga eftir því að fyrra
bragði) 40 fría tíma hjá sjúkraþjálfara þar úti. Franska
ríkið greiðir. Í Bretlandi varð mér einu sinni misdægurt
og leitaði lækninga. Þurfti ekki einu sinni að greiða
fyrir leigubílinn sem ók mér frá heilsugæslustöð á
spítala, allt hitt var frítt líka, samt hafði ég aldrei greitt
breska ríkinu skatt.
Hvað varð um heilbrigðiskerfi Íslands? Hvert
fara skattarnir? Á sama tíma og innviðir kerfisins
brotna eins og herðablöð í hálku er helsta vanda-
mál forsætisráðherra hvort hann ætlar að velja sér
20 milljóna króna Benz eða 20 milljóna króna Benz,
veruleikafirrtur gjörsamlega. Allir vita að þjóðarlík-
aminn er brotinn en það er ekki einu sinni hægt að
eiga samtal um það, því merkingu orða og hlutverki
samfélagsins er viðsnúið með newspeak orðræðu að
hætti Orwell.
Með ritstjórakveðju
Björn Þorláksson
Gulrauður draumur. Ellert Hauksson, íbúi í Mývatnssveit, fangaði litfagra birtu þegar hann beindi myndavélinni sinni yfir Mývatnið úr
norðri um síðustu helgi. Ellert segir líklegt að mengun frá eldgosinu í Holuhrauni hafi átt þátt í að skapa birtuna. Gulrauður draumur í
boði eldjötna.