Bæjarins besta


Bæjarins besta - 10.01.2008, Qupperneq 12

Bæjarins besta - 10.01.2008, Qupperneq 12
FIMMTUDAGUR 10. JANÚAR 200812 STAKKUR SKRIFAR Hvað bíður Vestfjarða? Stakkur hefur ritað vikulega pistla í Bæjarins besta í mörg ár. Skoðanir hans á mönnum og málefn- um hafa oft verið umdeildar og vakið umræður. Þær þurfa alls ekki að fara saman við skoðanir útgefenda blaðsins. Þrátt fyrir það bera ábyrgðarmenn blaðsins ábyrgð á skrifum Stakks á meðan hann notar dulnefni sitt. Nú árið er horfið í haf hinna liðnu og við veltum fyrir okkur hvað nýtt ár færir okkur. Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri spáir ekki byrlega fyrir Vestfirðingum. Við munum deyja út. En eitt gleymist. Við lifum enn, sem betur fer fyrir land og þjóð. Brottflutningur af Vestfjörðum hefur að auki haft þau góðu áhrif til heilla fyrir Ísland og Íslendinga að héðan hafa komið margir af þeim mönnum sem staðið hafa í stafni þjóðlífs á Íslandi. Auðvitað ber að taka alvarlega fækkun sem svarar til nærri 200 manns á ári. Vestfirðingar voru samkvæmt bráðabrigðatölum Hagstofu 7.309 fyrir rúmum mánuði. Verði þessari þróun ekki snúið við munu Vestfirðir leggjast í auðn á næstu hálfu öld. En við skulum ekki láta það gerast. Til þess að andæfa þarf sameiginlegt átak Alþingis, ríkisstjórnar og Vestfirðinga sjálfra. Margt er okkur mótdrægt. Skerðing kvóta hefur áhrif, en á móti hefur vegur menntunar vaxið og þá þróun þarf að efla með hverjum hætti sem unnt er. Háskólasetur og frumgreinanám á háskólastigi er afar mikilvægt og þarf að styrkja það á alla lund. Ef til vill hefur neyðin kennt mörgum það nú að bókvitið verður í askana látið. Á sama tíma þarf að berjast fyrir endurreisn grundvallaratvinnuvega, landbúnaðar og fiskveiða, auk fiskvinnslu. Við eigum þann kost einan að sækja fram á öllum vígstöðvum í senn. Að einu leyti miðar okkur fram á veg. Samgöngur munu batna mjög á næstu árum með Óshlíðargöngum, brú yfir Mjóafjörð og vegi um Arnkötludal. Margt er þó ógert til að bæta samgöngur. Dýrafjarðargöng bíða, en samgöngur íbúa í Vesturbyggð og á Tálknafirði þarfnast verulegra úrbóta, þótt vel miði í átt til höfuðborgarinnar. Sé það ætlan ríkisstjórnar og Alþingis að Ísafjörður verði höfuðstaður Vestfjarða er brýnt að laga samgöngur til og frá Vesturbyggð. Án þeirra mun enn fjara undan byggð þar. Fari svo að umdeild olíuhreinsistöð rísi við Arnarfjörð er knýjandi þörf á bættum samgöngum, en skólar á Ísafirði nýtast ekki sem skyldi komi þær ekki til. Markaðssetja þarf sérstöðu framhaldsmenntunar á Ísafirði. Leita þarf allra tækifæri til að styrkja byggð á Vestfjörðum. Það er lífsnauðsynlegt vegna þess að ella má búast við því að sagan frá Sléttuhreppi og Grunna- víkurhreppi endurtaki sig. Því má heldur ekki gleyma að í raun er hinn gamli Snæfjallahreppur, þar sem bjuggu hundruð manna fyrir einni og hálfri öld, orðin auðn að bráð. Verkin sem bíða stjórnmálamanna, hvort heldur á vettvangi landsmála eða í sveitarstjórnum, eru ærin þegar kemur að Vestfjörðum. Eftir því verður tekið nú og til allrar framtíðar hvort þeir beri til þess gæfu að ráða við vandasamt verkefni. Allt of margir íbúar Íslands eru skeytingarlausir um það hvernig til tekst. Því þarf að breyta strax. Skipstjórinn Gullbjargar ÍS var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða til 250 þúsund króna sektargreiðslu en kröf- um ákæruvaldsins um upp- töku veiðarfæra sem og upp- töku andvirðis afla, alls 430 þúsund, var hafnað. Skipstjór- inn var ákærður fyrir veiðar innan skyndilokunarsvæðis norðvestur af Deild dagana 16. og 19. júní. Ákærði krafð- ist þess hann yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds um refsingu vegna veiða þann 16. júní. Engin vitni voru að veið- unum en ákæruvaldið notaði til sönnunar siglingaferil Gull- bjargar, fenginn frá Vaktstöð siglinga. Dómurinn taldi það ekki vera nægjanleg gögn. „Svo sem málið liggur fyrir verður ekkert haldbært ráðið af því korti annað en siglinga- leið bátsins. Er því ljóst að ákæruvaldinu hefur ekki tekist að færa á það sönnur gegn neitun ákærða, svo ekki verði véfengt með skynsamlegum rökum.“ Því var ákærður sýknaður af ákæru um veiðar innan hólfs. Flugvél Landhelgisgæsl- unnar stóð Gullbjörg að verki við veiðar innan lokaðs hólfs 19. júní og bar ákærði við að hann hafi ekki vitað að hólfið væri lokað. Fyrir dómi sagði hann að venja væri hjá honum að fylgjast með tilkynningum frá Hafrannsóknastofnun um skyndilokanir í lok 10 frétta. Mun lestur venjubundinnar heildartilkynningar um skyndi- lokanir Hafrannsóknastofn- unar hafa fallið niður morg- uninn áður vegna veikinda þular. Vegna þessa þykir ósannað að ákærði hafi látið sér í léttu rúmi liggja að hann væri við veiðar innan um- rædds bannsvæðis 19. júní 2007. Ennfremur kemur fram að á ákærða hvíli sú skylda að fylgjast með skyndilokunum og ákærði því sakfelldur en sagt að brotið hafi verið framið í gáleysi. Dómurinn taldi brot ákærða hvorki ítrekað né framið af ásetningi og ekki heldur stór- fellt og ber honum að greiða 250 þúsund krónur í sekt sem rennur í Landhelgissjóð. Dóm- urinn hafnaði kröfum ákæru- valdsins um upptöku veiðar- færa og andvirðis afla þar sem hann taldi kröfuna ekki upp- fulla skilyrði laga. Áhöfn Gullbjargar. Mynd: Strandir.is. Bæði sýknaður og sakfelldur Dýrafjarðargöng nauðsynleg ef olíuhreinsistöð verður byggð Ef olíuhreinsistöð rís í Hvestu eða á Söndum í Dýrafirði er nauðsynlegt að byggja Dýra- fjarðargöng og gera veg eða jarðgöng um Dynjandisheiði. Ástæðan er ekki að slík sam- göngubót breyti vinnumark- aði verulega fyrir staðina tvo, heldur vegna tengingar við aðra landshluta í tilfelli Sanda, og vegna þjónustusóknar til Ísafjarðar í tilfelli Hvestu. „Draumalausnin í tengingu Vestfjarða í eitt svæði í stað tveggja (Ísafjarðarsvæðis og sunnanverðra Vestfjarða) er að grafa göng undir Arnar- fjörð og göng upp úr Kirkju- bólsdal yfir í Arnarfjörð“, seg- ir í skýrslu RHA um samfé- lagsþætti er varða fyrirhugaða byggingu olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum. Ef olíuhreinsistöð rís í Hvestu er æskilegt að gera jarðgöng undir Dufansdalsheiði fram- hjá Hálfdán til að tryggja at- vinnusókn frá Tálknafirði og Patreksfirði. Ef olíuhreinsi- stöð rís á Söndum er æskilegt og nánast nauðsynlegt að breikka Vestfjarðargöngin í tvær akreinar milli Önundar- fjarðar og Ísafjarðar. Frekari þverun Dýrafjarðar væri einn- ig æskileg. Að því er fram kemur í skýrslunni er þetta mikil fram- kvæmd. Göng úr Kirkjubóls- dal yrðu um 5,8 km, göng undir Arnarfjörð um 8,2 km og auk þess er teiknaður 0,8 km gangastubbur undir Sanda- fell til að geta farið beint af augum en þarna yfir er auð- veldlega hægt að fara með veg í hlykkjum. Þessi framkvæmd myndi gjörbreyta Vestfjörð- um. Búið yrði að þræða alla þéttbýlisstaði innan Vest- fjarða upp á línu. Bíldudalur yrði einungis í 62 km fjarlægð frá Ísafirði og Patreksfjörður yrði í 92 km fjarlægð. Með þess- ari framkvæmd yrði olíuhrein- sistöð á nánast sama vinnu- markaði hvort sem hún yrði á Söndum eða Hvestu. Vinnu- markaðurinn yrði í báðum til- fellum bæði Ísafjarðarsvæðið og sunnanverðir Vestfirðir. Gallinn við þessa framkvæmd er hins vegar sá að hún bætir samgöngur lítið til annarra landshluta. – thelma@bb.is Þingeyri við Dýrafjörð. Bókanir ganga vel hjá Borea Bókanir ferðaþjónustu- fyrirtækisins Borea ad- ventures hafa gengið mjög vel. Rúnar Óli Karlsson, einn eigenda Borea, segir að nánast sé uppselt í skíðaferðirnar sem hefjast í lok mars. „Þessar skíða- ferðir eru í raun sérstaða okkar á þessum markaði. Ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar heiminum. Ég veit bara um einn stað þar sem blandað er saman skútusiglingum og skíða- ferðum, en það er í Lyngen ölpunum í Noregi,“ segir Rúnar. Hann segir að skíða- mennirnir sem fyrirtækið hafi farið með í Jökulfirði finnist þessi blanda mjög sérstök og einnig finnist útlendingum mjög mikil upplifun að hægt sé að renna sér á skíðum alveg niður í fjöruborð. Skíða- ferðir Borea standa yfir til loka maí. Eins eru tveir leiðangar til Jan Mayen til að skíða eldfjallið Beeren- berg sem er rúmlega 2200 metra hátt og eru þeir báðir fullbókaðir og biðlisti. ,,Þessa ferðir erum við að selja í samstarfi við norska ferðaskrifstofu og það virðist ætla að ganga vel,” sagði Rúnar. – smari@bb.is Rúnar Óli Karlsson.

x

Bæjarins besta

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.