Franskir dagar - 01.07.2005, Blaðsíða 3

Franskir dagar - 01.07.2005, Blaðsíða 3
Steinþór Pétursson, sveitarstjóri Ágætu íbúar og gestir. Við höldum nú Franska daga í tíunda skipti, en þeir voru fyrst haldnir síðustu helgi júlí mánaðar 1996 og eins og áður eru þeir haldnir til að minnast sögu fjarðarins og veru Frakka hér áratugina fyrir og eftir 1900. Merkileg saga lítils byggðarlags þar sem íbúatala margfaldaðist á vormánuðum ár hvert og fækkaði síðan að nýju þegar frönsku skúturnar héldu til sinna heima að hausti. Að þessu sinni eru þeir haldnir í nýju umhverfi, öðru andrúmslofti og á tíma ótrúlegra breytinga á samfélagi okkar hér á Austurlandi. Fáskrúðsfjarðargöng að opnast og styttast um leið allar samskiptaleiðir milli byggðarlaga og gjörbreyta samskiptamunstri á miðsvæði Austfjarða í atvinnu- og þjónustulegu tilliti. Einhver mesta atvinnuuppbygging sem átt hefur sér stað á svæðinu á jafn stuttum tíma er að eiga sér stað, auk þess sem verðmiði er nú komin á húseignir sem nær ógerningur var að selja fyrir nokkrum mánuðum síðan. íbúaþróun hefur tekið viðsnúning og Austfirðingum fjölgar nú jafnt og þétt og ánægjulegt að sjá að meðal þeirra sem eru að flytja til Austurlands eru brottfluttir sveitungar að snúa aftur heim. Við skulum vona að þessi þróun haldi áfram þó framkvæmdum Ijúki og okkur takist að halda snjóboltaáhrifunum sem fylgja þessum umsvifum gangandi áfram. Það á að vera hægt því Austurland hefur fengið og fær áfram mikla kynningu sem vænlegur búsetukostur með stórfenglegri náttúru, fjölbreyttu mannlífi og tómstundaúrvali eins og hver og einn hefur lyst til að stunda. Austurbyggð er í hringiðu þessa alls og hefur upp á þetta allt að bjóða eins og fólk sér í dag sem heimsækir okkur. Flér hefur verið jöfn og ákveðinn ásókn í íbúðarhúsnæði þó svo að töluverður kippur hafi komið i þessi mál nú seinustu mánuði. Til að mæta þessari auknu eftirspurn er hafin bygging íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu bæði af hálfu byggingaraðila og einstaklinga, en slíkar framkvæmdir hafa legið niðri um all langt skeið. Þessari þróun þarf sveitarfélagið einnig að bregðast við á sínum vettvangi og í stað þess að halda að sér höndum vegna neikvæðrar íbúaþróunar undafarinn áratug, er nú nauðsynlegt að mætafjölgun íbúa með gatna og fráveituframkvæmdum auk þess sem stækkun skólahúsnæðis er nauðsynleg. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að undirbúningi og hönnun skólamiðstöðvar sem byggja á við núverandi grunnskóla á Fáskrúðsfirði. Skólamiðstöðin á að hýsa auk grunnskólans, leikskóla, tónlistarskóla og bókasafn. Þá er einnig gert ráð fyrir aðstöðu fyrir fjarkennslu í húsnæðinu. Áætlað er að hafist verði handa við 1. áfanga þessarar byggingar í haust og honum verði lokið haustið 2006. En það er fleira á döfinni því í október næstkomandi fara fram kosningar um sameiningu sveitarfélaganna Austurbyggðar, Fáskrúðsfjarðarhrepps, Fjarðabyggðar og Mjóafjarðarhrepps, en þetta er liður í átaki um eflingu sveitarstjórnarstigsins á íslandi. Nú er nefnd að störfum við að fara yfir og undirbúa þessar kosningar og mun vinna hennar verða kynnt í haust áður en til kosninga kemur. Það er því mikið um að vera í Austurbyggð og margt spennandi og skemmtilegt framundan og aðeins tæpt á nokkrum atriðum í þeim efnum hér, en næst okkur í þeim efnum eru Franskir dagar 2005. Þar sem vinir og kunningjar hittast og gera sér glaðan dag saman, rifja upp liðna tíma og spjalla um það sem fram undan er. Það er einlæg ósk mín að allir eigi hér ánægulega helgi í faðmi fjölskyldu, vina og kunningja. En að lokum vil ég þakka þeim sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við undirbúning Franskra daga, eins og undanfarin ár hafið þið lagt á ykkur mikið og óeigingjarnt starf til að gera þetta kleift. Hafið þökk fyrir. Megi helgin vera ykkur ánægjuleg og óska ég ykkur góðrar skemmtunar. Steinþór Pétursson sveitarstjóri Austurbyggð Þakkir Bæjarhátíðin Franskir dagar er gott dæmi um það hversu miklu er hægt að áorka í samstiga og jákvæðu sveitarfélagi þar sem allir taka höndum saman og eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum. Líkt og áður hefur undirbúningur og skipulag hátíðarinnar að mestu verið unnið í óeigingjörnu sjálfboðastarfi. Fyrir hönd ferða- og menningarmálanefndar Austurbyggðar vil ég þakka öllum þeim sem komu að skipulagningu og undirbúningi Franskra daga i ár. Um leið vil ég óska heimamönnum og gestum gleðilegrar hátíðar og góðrar skemmtunar. Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir Upplýsinga- og kynningarfulltrúi Austurbyggðar 3

x

Franskir dagar

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Franskir dagar
https://timarit.is/publication/1108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.